Jósef Valdason

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search

Jósef Valdason skipstjóri, bókavörður fæddist 6. maí 1848 og fórst 12. janúar 1887.
Foreldrar hans voru Þorgerður Guðmundsdóttir frá Efstadal í Grímsnesi, vinnukona í Holti u. Eyjafjöllum, f. 1822, d. 14. maí 1872, og Valdi Ketilsson bóndi í Gerðakoti, f. 1807, d. 19. október 1867. Talið hefur verið, að faðir Jósefs hafi verið Jón Þorvarðarson prestur, síðar prófastur í Reykholti í Borgarfirði, f. 26. ágúst 1826, d. 6. nóvember 1866, en hann var sonur Þorvarðar Jónssonar prests, m.a. í Miðdal í Grímsnesi og Holti u. Eyjafjöllum.

Jósef var þilskipaskipstjóri. Hann stundaði meðal annars hákarlaveiðar á þilskipi. Hann drukknaði 12. janúar 1887 þegar bátur sem hann var formaður á fórst með 4 mönnum út undir Bjarnarey. Þá var Jóhann, yngsti sonur hans, á öðru ári.
Jósef var talinn með siglingafróðustu mönnum í Eyjum á sínum tíma, greindur maður og í ýmsu á undan sinni samtíð.
Jósef gekk í Lestrarfélag Vestmannaeyja í júní 1869 og var virkur í starfsemi félagsins. Þá var hann vinnumaður á Gjábakka. Hann var bókavörður Lestrarfélagsins frá 1885 til 1887. Starf sitt leysti hann af hendi með alúð og nákvæmni. Líklegt má telja, að hann hafi hvatt menn til þess að notfæra sér þau tækifæri, er safnið veitti mönnum til þess að auka þekkingu sína, því að félögum fjölgar verulega í tíð hans. Árin 1886 og 1887 voru félagar um 40 bæði árin og útlán jukust að sama skapi, urðu stundum 40 á dag. Síðara árið, sem Jósef var bókavörður, urðu útlán 500 bindi, sem var hið langmesta frá stofnun félagsins.

I. Kona Jósefs var Guðrún Þorkelsdóttir húsfreyja í Fagurlyst, f. 10. janúar 1844, d. 14. október 1919.
Börn þeirra:
1. Guðjón Jósefsson útgerðarmaður og fiskimatsmaður, f. 1. ágúst 1875, d. 21. júní 1923.
2. Gísli Jósefsson, f. 30. október 1878. Hann fór til Vesturheims 1902.
3. Jóhann Þorkell Jósefsson þingmaður og ráðherra, f. 7. júní 1886, d. 15. maí 1961.


Heimildir

  • Blik.
  • Morgunblaðið 10. október 2001. Aldarminning Magneu Dagmarar Þórðardóttur. Ólafur Ísleifsson.
  • Saga Vestmannaeyja.
  • Íslendingabók.


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.