Hellisey

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 4. nóvember 2005 kl. 16:58 eftir Frosti (spjall | framlög) Útgáfa frá 4. nóvember 2005 kl. 16:58 eftir Frosti (spjall | framlög) (flokkur eyjur)
Fara í flakk Fara í leit
Hellisey í Vestmannaeyjum

Hellisey liggur 3 km sunnan við Brand og eru eyjarnar tvær líkar að lögun og stærð. Eyjan snýr þverhníptum hömrum sínum í vestur, norður og austur og er mesta hæð um 105 metrar. Veiðikofi Helliseyinga var endurgerður 1968 og er staðsettur norðan megin á eyjunni. Vegna mikils halla í brekkum er lundabyggð mjög þétt í eyjunni og sums staðar kemur það niður á gróðurlendi. Gróður hefur einnig orðið fyrir tjóni vegna stækkandi varplands súlu. Hellisey er á lista yfir svæði á náttúruverndaráætlun. Súluveiði, lundaveiði og eggjataka er stunduð í Hellisey og sauðfé haft á beit.

Súlur í Hellisey

Mikil súlnabreiða sem heitir Flagtir er norðvestan í eyjunni. Austan í Hellisey eru Stórhellar og þar var ein mesta súlubyggð í bergi í Vestmanneyjum.

Austan í eyjunni niður af Hánefi er Sámur sem er mikið og skemmtilegt fýlapláss. Þar eru 400 - 600 fýlar. Fýll sat þar svo fast að gamalt orðtak var, að jafnöruggt væri að eiga fýlinn í Sám eins og saltaðan í kagga. Hægt er að komast í Sám af sjó eftir tæpum vegi og til halds og trausts voru þrír bergboltar. Mynd:Hellisey-kort.PNG

Helliseyjarvísan

Sumir segja að Þórð Geirmundsson hafi dreymt vísu eftir að hann hafi verið beðinn um að síga Stóruhellana í Hellisey. Aðrir segja að Jón dynkur hafi ort hana.

Hörð eru sig í Háubæli og hættuleg,
Hábrandinn ei hræðist ég,
en Hellisey er ógurleg.

Úr örnefnaskrá Gísla Lárussonar

IV. Hellirsey liggur suður af Suðurey ca ½ mílu. Er hún einkennileg í lögun, myndar hálfhring. Svo að austan megin við hana myndast stór hvilft, Pollur . Sunnan við miðju er hún nefnd Lágey , er hún þar mjög lág, svo að sjór gengur þar yfir í miklu brimi. Er syðst á eynni nefndur Höfði , grasivaxin hæð að ofan og þar á mikil fýlatekja. Er í Höfðanum að vestanverðu uppganga í bergið af sjó nefnd Göngur . Hér upp af og norður af er töluverð súlnatekja. Þar fyrir norðan við brún uppi er fýlabekkur, Vesturflaktir , en þar niður af litlu sunnar er annar súlnabekkur, Langibekkur.

Þar norður af í miðju bergi er hellir stór, Sóttarhellir . Þegar kemur austur fyrir Vesturflaktir er eyjan grasivaxin, dálítið sléttlendi, nefnd Flöt . En upp af henni er eyjan hæst og er þar nefnt Hánef . Fyrir neðan það og norður úr eynni er allhár hryggur, Sámur , og fremsta nefið á hrygg þessum Sámsnef ; er þar allmikil fuglatekja, svartfugl, súla og fýll. En upp af Sám, en niður af Hánefi er allstórt súlnabæli , Sámsbæli og má komast upp í Sám og upp úr honum í bæli þetta frá sjó, bandlaus; liggur þó bælið ca 50-60 faðma uppi.

Hér fyrir sunnan eru hinir nafnkunnu Stórhellrar , erfiðustu bjargsig í Vestmannaeyjum, og er í þeim eingöngu súlnatekja. Er Hellirsey enn í dag skipt að súlnatekju, eins og áður var; á vestursókn (Ofanleitissókn) eyjuna að vestan, en austursókn (Kirkjubæjarsókn) að austan Stórhellra. Fyrir sunnan Stórhellra eru Austurflaktir.


Heimildir

Örnefnastofnun Íslands]