Friðrik Jesson

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search

Gísli Friðrik Jesson var fæddur í Norður-Hvammi í Mýrdal 14. maí 1906 og lést 3. september 1992. Þar var þá prestssetur. Faðir Friðriks, sr. Jes Anders Gíslason (f. 1872, d. 1961), var þá prestur í Mýrdalsþingum. Faðir Jes var Gísli útvegsbóndi og kaupmaður að Hlíðarhúsum í Vestmannaeyjum, Stefánssonar stúdents í Selkoti, Austur-Eyjafjallahreppi, Ólafsonar gullsmiðs og bónda á sama stað. Kona hans Guðlaug Stefánsdóttir frá Laufási við Eyjafjörð, var dótturdóttir Steins Hólabiskups Jónssonar. Móðir Gísla föður sr. Jes var Anna Jónsdóttir prests í Miðmörk, Vestur-Eyjafjallahreppi, og konu hans Ingveldar Sveinsdóttur, föðursystur Einars skálds og sýslumanns Benediktssonar. Önnunafnið er komið frá Önnu Eiríksdóttur systur Jóns Konferensráðs en hún er ein formæðra Friðriks.

Friðrik Jesson

Móðir Friðriks var Kristjana Ágústa Eymundsdóttir.

Kona Friðriks var Magnea Sjöberg. Eignuðust þau fjórar dætur.

Friðrik var forstöðumaður Náttúrugripasafnsins í fjöldamörg ár, íþróttakennari, kennari og ljósmyndari. Er hann lést tók tengdasonur hans, Kristján Egilsson, við forstöðu safnsins. Hann tók fjölda mynda í Eyjum af bæjarlífinu, náttúrunni, þjóðhátíð, bátum og fleiru.

Á yngri árum tók hann þátt í hinum ýmsu íþróttagreinum og var þar margfaldur Íslandsmeistari. Hann var einn af stofnendum Knattspyrnufélagsins Týs 1921 og lengi í stjórn þess og varð síðar heiðursfélagi þess. Hann starfaði einnig með sameiningarfélaginu KV og íþróttaráði því sem stjórn ÍSÍ setti á laggirnar 1928. Fyrir þessi störf hlaut Friðrik þjónustumerki og síðar heiðursorðu ÍSÍ. Stjórn FRÍ sæmdi hann garpsmerki fyrir afrek í frjálsum íþróttum.

Friðrik var leikfimikennari við Barnaskóla Vestmannaeyja frá 1929 og hélt því starfi til 1963. Hann kenndi einnig við Gagnfræðaskóla Vestmannaeyja 1930-32 og 1937-1943. Á árunum 1921­-34 kenndi hann sund við sundskálann undir Löngu í sex sumur. Eftir að sjólaugin upphitaða tók til starfa í nóvember 1934 kenndi Friðrik þar sund að sumrinu til ársins 1963. Að tilhlutan Vestmanneyinga fengust 1925 samþykkt á Alþingi heimildarlög um sundskyldu. Fjögur sveitarfélög notfærðu sér heimildina. Eitt þeirra Vestmannaeyjar. Þegar 1935 tóku um 70% sundskyldra unglinga sundpróf. Í sjó höfðu aldrei fengist fleiri en 30%. Friðriki tókst að framkvæma sundkennsluna sem skyldunám af alúð, svo að nemendur tækju henni ekki sem þvingun. Í Reykjavík var efnt til mikils skólamóts í leikfimi 1937. Friðrik hélt þangað með stóra flokka stúlkna og drengja frá Barnaskólanum. Fyrir frammistöðuna hlaut skólinn viðurkenningu. Friðrik var fágætur kennari. Hafði ekkert fyrir aga, hvetjandi og alúðlegur í framkomu. Það var eftirsjá að honum, er hann eftir 30 ára störf hvarf til annarra starfa, enda eru stöðurnar við íþróttakennsluna þreytandi.

Myndir


Heimildir