Fiskimjölsverksmiðjan í Vestmannaeyjum

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search

FIVE, Fiskimjölsverksmiðjan í Vestmannaeyjum, hefur verið einn af mörgum hlekkjum í sögu útgerðar í Vestmannaeyjum. FES, Fiskimjölsverksmiðja Ísfélagsins, er yngri en árlega framleiða þessar tvær verksmiðjur þúsundir tonna af mjöli og lýsi.

Upphaf

Enski ræðismaðurinn Gísli J. Johnsen komst í kynni við enskt félag í Grimsby sem framleiddi fiskimjöl í stórum stíl og sá hann að tilvalið væri að setja þannig félag á stofn hér í Vestmannaeyjum. Samkvæmt landslögum varð hann að hafa verksmiðjuna á sínu nafni, en félagið sá um byggingu og að borga þær vélar sem til þurfti.

Loðnu dreift á tún fyrir gos

Þegar skipið með vélarnar kom hingað, lagðist það á Víkina, því skip hefðu þá ekki komist inn á höfnina. Allar vélar á þessum tíma voru mjög þungbyggðar þannig að erfiðlega gekk að koma vélum félagsins í land. Sívalningarnir og þurrkararnir voru þyngstir af vélarhlutunum. Þeir voru þéttaðir til beggja enda og þeim fleytt í land. Öðrum hlutum var komið í uppskipunarbáta sem sigldu með þá í land. Eftir að allt var komið í land þurfti að koma öllum þessum hlutum vestur í verksmiðjuhúsið. Að lokum komust allir vélarhlutirnir á sinn stað og tók verksmiðjan til starfa í aprílmánuði 1913.

Starfsemin

Með aukinni sjávarútgerð jókst að fiskbeina- og slóghrúgur lægju rotnandi um bæinn, en með tilkomu fiskimjölsverksmiðjunnar fór að draga minna og minna úr því. Þannig er hægt að segja að þetta hafi verið mikil tekjulind fyrir bæinn og þrifnaðarfyrirtæki.

Loðnu dreift á tún fyrir gos

Verksmiðjan mun vera fyrsta verksmiðja sinnar tegundar sem byggð hefur verið hér við land. Rétt er þó að geta að franskt félag hóf byggingu fiskimjölsverksmiðju á Eiðinu áður en Gísli J. Johnsen hóf byggingu sína, en hún var aldrei nema hálfbyggð.

Hráefnið var keypt af útgerðarmönnum, nema það sem barst verksmiðjunni frá útgerð Gísla sjálfs. Var hráefninu ekið inn að verksmiðjunni á tveim hestvögnum. Voru þessir vagnar taldir miklir kostagripir þar sem ökumaðurinn, Páll Erlendsson, hafði komið fyrir sæti klætt gæruskinni, en fólk lét sér nægja fjöl þvert yfir vagninn til að sitja á.

Framleiðslumagn verksmiðjunnar var hálf smálest af fiskimjöli á sólarhring en hún nær tvöfaldaðist árið 1923, þegar byrjað var að keyra allar vélar verksmiðjunnar almennilega.

Vertíðina 1914 var unnið stanslaust í verksmiðjunni, alveg þangað til að hráefnið varð að þrotum.

Yfirmaður verksmiðjunnar var breskur en hvarf hann ásamt öðrum Bretum til síns heima sumarið 1914 og komu aldrei aftur, vegna heimstyrjaldarinnar fyrri sem skall á sama sumarið. Heimsstyrjöldin hafði veruleg áhrif á rekstur verksmiðjunnar þar sem hún stóð ónotuð í 6 ár fram að árinu 1921 þegar hún var opnuð aftur. Var það mikið verk að reyna að endurvekja verksmiðjuna, en aðalmaðurinn var Matthías Finnbogason. Þannig var hún rekin fram að haustinu 1923 þegar enskur maður kom til Eyja, sagður vera sendur af eigendum verksmiðjunnar. Hann sinnti sínum störfum til ársins 1924.

Rafmagn

Fyrst var hugmyndin að lýsa verksmiðjunni upp með karbítljósum en þau reyndust óþægileg. Þannig var fenginn ½ kW rafall til ljósaframleiðslunnar. Vakti þetta mikla athygli heimamanna, þetta var algjör nýjung í Eyjum, þar sem alls staðar var notast við olíuljós.

Fyrstu starfsmenn verksmiðjunnar

Breytingar

Sumarið 1924 tók Gísli J. Johnsen algjörlega við rekstri verksmiðjunnar.

Haustið 1924 komu hingað norskir menn og breyttu verksmiðjunni. Þeir settu nýja pressu til að pressa soðin bein og ýmis tæki varðandi það verk. Allt reyndist víst ónýtt og kom það sér ekki vel fyrir fyrirtækið.

Sumarið 1925 var reistur reykháfur, sem stendur enn í dag, vegna þess að reykpípurnar, við gufukatlana, voru orðnar ónýtar. Var fengið Norðmann til að hlaða reykháfinn og hlóð hann u.þ.b. einn meter á dag. Einnig var ris byggt ofan á mitt verksmiðjuhúsið. Með því fékkst mikið gólfrými, sem þarfnast hafði mikið.

Í byrjun ársins 1926 voru nýjustu vélum þess tíma komið upp. Með vélunum kom þýskur maður sem sá um alla uppsetningu. Kláraðist það í marslok 1926. Með þessum vélum átti að framleiða tólf smálestir af mjöli á sólarhring. En þessar vélar reyndust gallaðar þannig að afköstin urðu aðeins helmingur af því sem búist var við.

Árið 1930 hætti Gísli J. Johnsen rekstri verksmiðjunnar og tók tengdasonur hans, Ástþór Matthíasson, við rektrinum.

Fiskimjölsverksmiðjan fram að gosi

Eftir að Ástþór tók við rekstrinum af Gísla urðu umsvifalaust miklar breytingar til hins góða. Árið eftir var mótorvél sett í verksmiðjuna þar sem sú gamla reyndist of lítil og mjög slitin og nokkru síðar var mokstursvél fengin til að létta við verkið við beinin í portinu. Komið var upp nýjum kyndingartækjum og var notast við gasolíu, en seinna kom enn betri kyndingartæki sem gengu fyrir svartolíu sem var mun ódýrari en gasolían.

Eftir að síldin byrjaði koma til Eyja í stórum stíl var hugað að því að uppfæra tækjabúnað. Var einnig mikið um karfa. Til að vinna úr þessu hráefni þurfti nýjasta tækjabúnað sem völ var á. Árið 1946 var keypt 110 hestafla vél og 60 kW jafnstraumsrafall, sem framleiddi rafmagn til síldarvinnslu.

Árið 1957 verða eigendaskipti að fiskimjölsverksmiðjunni. Þá var henni breytt í hlutafélag og eigendurnir urðu Fiskiðjan hf. og Vinnslustöðin hf. Þá gerðist Þorsteinn Sigurðsson, á Blátindi við Heimagötu, forstöðumaður verksmiðjunnar.


Heimildir

  • Halldór Magnússon. Fiskimjölsverksmiðjan í Vestmannaeyjum. Blik 1972. 29. árg.