Elísabet Sigríður Magnúsdóttir

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 24. apríl 2022 kl. 17:35 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 24. apríl 2022 kl. 17:35 eftir Viglundur (spjall | framlög) (Ný síða: '''Elísabet Sigríður Magnúsdóttir''' næringarfræðingur, kennari og næringarráðgjafi fæddist 30. ágúst 1940 í Reykjavík.<br> Foreldrar hennar voru Magnús Guðmundur Guðbjartsson forstjóri, f. 17. mars 1899 að Gemlufelli í Dýrafirði, d. 14. júní 1976, og þriðja kona hans Sigríður Guðrún Benónýsdóttir frá Dýrafirði, húsfrreyja, f. 12. nóvember 1915 á Sveinseyri, d. 17. okt...)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit

Elísabet Sigríður Magnúsdóttir næringarfræðingur, kennari og næringarráðgjafi fæddist 30. ágúst 1940 í Reykjavík.
Foreldrar hennar voru Magnús Guðmundur Guðbjartsson forstjóri, f. 17. mars 1899 að Gemlufelli í Dýrafirði, d. 14. júní 1976, og þriðja kona hans Sigríður Guðrún Benónýsdóttir frá Dýrafirði, húsfrreyja, f. 12. nóvember 1915 á Sveinseyri, d. 17. október 2005.

I. Barn Magnúsar og fyrstu konu hans Kristínar Sveinbjörnsdóttur:
1. Kristberg Maris Magnússon vélstjóri, f. 20. mars 1927, d. 13. janúar 2003. Kona hans Ragna Guðrún Ágústsdóttir.

II. Barn Magnúsar og annarrar konu hans Sveinsínu Þuríðar Jónsdóttur:
2. Magnea Sveinsína Magnúsdóttir, vann við umönnun, f. 21. september 1932, d. 9. mars 2015. Maður hennar Guðni Ólafsson.

III. Börn Magnúsar og þriðju konu hans Sigríðar Guðrúnar Benónýsdóttur
3. Elísabet Sigríður Magnúsdóttir næringarfræðingur, kennari, næringarráðgjafi, f. 30. ágúst 1940. Fyrrum maður hennar Eysteinn Sigurðsson.
4. Gylfi Þór Magnússon viðskiptafræðingur, framkvæmdastjóri, f. 20. desember 1942 í Eyjum, d. 6. nóvember 1998. Kona hans Sigríður Dóra Jóhannsdóttir.

Elísabet var með foreldrum sínum í æsku, flutti með þeim til Eyja 1941 og bjó á Kirkjuvegi 26 1941-1946, er þau fluttu til Reykjavíkur.
Hún varð stúdent í Menntaskólanum í Reykjavík 1960, lauk námi í Húsmæðraskóla Reykjavíkur 1961, lauk hússtjórnarkennaraprófi 1966, stundaði nám í næringarráðgjöf (dietetics) í The Politecnic of North London, Department of Food Science, 1970-1972, tók lokapróf í næringarráðgjöf (Post Graduate Diploma in Dietetics), 1972. Lokaverkefni í næringarfræði og lífefnafræði: C-vítamín.
Nám í uppeldis- og kennslufræðum í Kennaraháskólanum með starfi janúar 1981-júní 1982. Lokaverkefni: Skipulag kennslu í sérfræðiáfanga, - ætlað nemendum í matartækninámi.
Hún lauk mastersprófi í næringarfræði í University of London, King´s College, Department of Nutrition, 1986. Meistaraverkefni: Könnun á mataræðisráðleggingum til sjúklinga með of háa blóðfitu. Könnunin var gerð á 150 sjúkrahúsum í Bretlandi.
Elísabet var gestanemandi í næringarfræðideild, Ökotrophologie, við Fachhochschule í Þýskalandi 1997-1998.
Auk þessa hefur Elísabet sótt fjölda námskeiða, fyrirlestra og ráðstefnur hér á landi, á Norðurlöndum og í Bretlandi í næringar- og kennslufræðum, auk námskeiða í tölvufræðslu.

Elísabet var bókavörður á bókasafni Upplýsingaþjónustu Bandaríkjanna í Reykjavík 1961-1964.
Hún var húsmæðraráðunautur hjá Mjólkursamsölunni í Reykjavík 1966-1967, vann þar við vöruþróun, vörukynningar og bæklingagerð, við sýnikennslu í matreiðslu og fræðslu fyrir húsmæður í Reykjavík. Hún kenndi starfsmönnum mjólkurbúða um hreinlæti og meðhöndlun mjólkurvara.
Hún var aðstoðarmaður næringarráðgjafa í Borgarspítala 1969-1970, næringarráðgjafi þar 1972-1978.
Þá kenndi hún næringarfræði og matreiðslu sérfæðis í Fjölbrautarskólanum í Breiðholti 1978-1997 og kenndi í Hótel- og matvælaskólanum í Menntaskólanum í Kópavogi 1998 til 2007.
Elísabet var stundakennari við Hússtjórnarkennaraskóla Íslands, Hússtjórnardeild Kennaraháskólans, Læknadeild Háskóla Íslands og Nýja Hjúkrunarskólann á árunum 1972-1992.
Hún hafnaði veittri lektorsstöðu í Kennaraháskólanum 2001, en kenndi þar tvö sumur í BA-námi fyrir hússtjórnarkennara, næringarfræði og sérfæði 2001-2002.
Hún var næringarráðgjafi í Borgarspítala sumrin 1984-1985.
Hún annaðist næringarráðgjöf í Landakotsspítala í 40% starfi 1990-1991, var næringarráðgjafi við Landspítalann á sumrum 1994-1995, stundað einstaklingsráðgjöf í næringarfræði frá janúar 2008. Auk þess hélt hún stutt námskeið í næringarfræði og skyldum greinum fyrir ýmsar fagstéttir í matreiðslustörfum mötuneyta og flutti fyrirlestra í næringarfræðum fyrir ýmsa hópa fólks.
Elísabet var ritari Nemendasambands Húsmæðrakennaraskóla Íslands 1968-1970, Hússtjórnarkennarafélags Íslands 1982-1983.
Elísabet átti sæti í Manneldisráði 1986-1990.
Eftir starfslok vann hún við prófgæslu í Háskólanum í Reykjavík og Háskóla Íslands 2008-2019.
Rit:
1. Kennslubókin Næring og hollusta fyrir framhaldsskóla gefin út þrisvar frá 1992-2007.
2. Sjúkrafæðihandbók fyrir St. Jóefsspítala, Landakoti, 1991, ljósritað hefti.
3. Auk þessa hefur Elísabet tekið saman mörg kennsluhefti í næringarfræði fyrir ýmsa áfanga, sem hún hefur kennt í Fjölbrautarskólanum í Breiðholti, Hótel- og matvælaskólanum í Menntaskólanum í Kópavogi á árunum 1978-2007. Heftin hafa verið fjölrituð í skólunum. Þau hafa einnig verið notuð í Verkmenntaskólanum á Akureyri og Hússtjórnarskólanum á Hallormsstað og í Reykjavík.
4. Ásamt Sædísi Karlsdóttur framhaldsskólakennara samdi Elísabet kennsluhefti í hreinlætisfræði fyrir nemendur á matvælasviði framhaldsskóla, árið 2000.
5. Fræðslugreinar um næringartengd málefni í Tímariti Landssambands eldri borgara ,,Listin að lifa“.

I. Maður Elísabetar, (7. júlí 1962, skildu 1994), var Eysteinn Sigurðsson dr. phil. í íslenskum bókmenntum, blaðamaður, kennari, f. 11. nóvember 1939, d. 21. mars 2020. Foreldrar hans voru Sigurður Sveinsson verslunarmaður, aðalbókari, smiður, f. 17. október 1904 á Kolsstöðum í Dölum, d. 13. júní 2006, og kona hans Þóra Eyjólfsdóttir húsfreyja, f. 18. september 1907 í Reykjavík, d. 9. desember 1995.
Börn þeirra:
1. Sigríður Erla Eysteinsdóttir rekstrarhagfræðingur, f. 14. apríl 1967. Maður hennar Jóhannes Hermannsson.
2. Þóra Björk Eysteinsdóttir alþjóðamarkaðsfræðingur, mannauðsstjóri, f. 17. janúar 1975. Maður hennar Gunnar Wedholm Helgason.


Heimildir

  • Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
  • Elísabet.
  • Íslendingabók.
  • Kennaratal á Íslandi. Ólafur Þ. Kristjánsson og fleiri. Prentsmiðjan Oddi 1958-1988.
  • Morgunblaðið 1. nóvember 2005. Minning Sigríðar Benónýsdóttur.
  • Prestþjónustubækur.


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.