Blik 1973/„Aldrei líður mér úr minni ...“

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 5. október 2010 kl. 20:49 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 5. október 2010 kl. 20:49 eftir Viglundur (spjall | framlög) (Verndaði „Blik 1973/„Aldrei líður mér úr minni ...““ [edit=sysop:move=sysop])
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1973



ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON:


„Aldrei líður mér úr minni ...“


Við skiluðum bókum og öðrum rekstrargögnum Sparisjóðs Vestmannaeyja til varðveizlu í Seðlabanka Íslands milli kl. 5 og 6 miðvikudaginn 24. janúar, eins og greint er frá á öðrum stað í riti þessu. Morguninn eftir tók starfsfólk Sparisjóðsins þar til starfa.
Aðfaranótt 25. janúar gistum við hjónin að Háaleitisbraut 111, þar sem hjónin Kristín S. Þorsteinsdóttir, dóttir okkar, og Sigfús J. Johnsen búa. Ég gat lítið notið hvíldar þessa nótt sökum áhyggna. Íbúðarhúsið okkar í Eyjum, Goðasteinn, var í mikilli hættu, og í því voru mikil verðmæti. M.a. átti Vestmannaeyjakaupstaður geymd þar 34 listaverk eftir Jóhannes Kjarval, listmálara. Þau voru metin á þrjár milljónir kr. Þarna voru líka geymd ýmis önnur söfn, svo sem bóka- og skjalasafn Byggðarsafnsins, ómetanlegar sögulegar heimildir, og svo allt bókasafnið mitt, þúsundir binda, fyrir utan allt innbúið okkar. Þá var þarna geymt allt ljósmyndaplötusafn Vestmannaeyjakaupstaðar, á annan tug þúsunda af ljósmyndum og mjög margar sögulegs efnis.
Klukkan 10 um morguninn 25. janúar, hringdi Víglundur Þór, sonur okkar, heim að Háaleitisbraut 111 og tjáði mér, að forstöðumenn Kjarvalsstaða á Miklatúni hefðu átt tal við sig. Báðu þeir hann að koma þeim boðum til mín, að mér væri heimilt geymslurými fyrir listaverkasafn kaupstaðarins að Kjarvalsstöðum, ef ég hefði einhver ráð með að bjarga því, flytja það suður. Listfræðingurinn þýzki, mr. Ponsi, sem þarna starfaði þá, fullyrti, að setuliðið á Keflavíkurflugvelli vildi flytja safn þetta með þyrlu frá Eyjum til Reykjavíkur án endurgjalds, ef ég fengi nauðsynleg leyfi til þess.
Við boð þessara ágætu manna og frétt þessa hvarf mér hugarvílið. Mér vöknuðu vonir og reyndar vissa með. Nú var að duga eða drepast, því að hættan heima var yfirvofandi, þar sem húsið okkar var aðeins steinsnar frá eldstöðvunum. Allt skyldi lagt í sölurnar til þess að bjarga þessum menningarverðmætum a.m.k.
Við Vestmannaeyingar höfðum þá verið sviptir athafnafrelsi að vissu leyti. Það var þá þegar á valdi Almannavarna. Þá var að ná tali af formanni þess eða forstjóra, Pétri Sigurðssyni, forstjóra Landhelgisgæzlunnar. Mér tókst það von bráðar. Ekki hafði ég fyrr reifað mál mitt og erindi, en hann svaraði með þjósti, að hann hefði öðrum hnöppum að hneppa en að svara slíkri beiðni.
Nokkrum mínútum síðar bar Víglundur Þór sonur okkar upp sama erindi við mektarmann þennan, ef hann kynni að hafa hugsað sig um og komizt að skynsamlegri niðurstöðu. En Víglundur fékk svipað svar og í sama dúr.
Hvað var nú til ráða?
Einn fannst Pétri æðri innan íslenzkrar landhelgi ályktaði ég í áhyggjum mínum og vandræðum. Það var sjálfur dómsmálaráðherrann. — Ég náði fljótlega tali af honum. Hann tók erindi mínu ljúfmannlega og hét mér stuðningi, — hét því að tala við formann Almannavarna og reyna að ...„liðka“ málið, eins og hann orðaði það.
Nokkrum mínútum síðar hringdi dómsmálaráðherra og tjáði mér, að þeir Pétur hefðu orðið á það sáttir, að ég mætti flytja listaverkasafnið í lest varðskipsins Árvakurs, sem lægi við bryggju í Eyjum og mundi liggja næstu vikurnar a.m.k. Þar gæti svo safnið geymzt, þar til skipið kæmi með það til Reykjavíkur.
Þetta svar ráðherrans vakti mér mikla gleði og ég efldist að orku og áræði.
Þá var að komast til Eyja. Um sinn virtust mér öll sund lokuð í þeim efnum. Loks fréttum við, að flugvél færi til Vestmannaeyja eftir hádegið með erlenda blaðamenn. Skyldi ég fá að svífa með?
Sveinn Sæmundsson, blaðafulltrúi Loftleiða, var talinn hafa þarna öll völd. Við náðum brátt tali af honum, og farið var mér heimilt. Stundum eru frændur frændum beztir. Þannig var það um Stefán G. og svo reyndist Sveinn mér.
Klukkan tvö um daginn var ég kominn til Eyja. Í flugvélinni voru um 60 erlendir blaðamenn, að mig minnir, og svo Helgi blaðamaður Sæmundsson, sá gamli og góði nemandi minn, sem mér var til trausts og halds þarna með í förinni. Erlendu blaðamennirnir höfðu fengið leyfi til að dveljast 45 mínútur í Vestmannaeyjum að þessu sinni undir ströngu eftirliti löggæzlumanna, sem ég heyrði bölva þessum „flækingum“.
Í Eyjum skildu leiðir. Ég rölti heim að Goðasteini og brýndi hug og hönd til mikillar vinnu og áhættusamrar, því að gjóskunni og glóandi gjallinu rigndi yfir bæinn.
Ég tók undir eins til starfa, þegar heim kom. Fyrst byrjaði ég á því að búa listaverkasafnið undir flutning. Það var allt geymt í skrifstofunni minni og vátryggt þar fyrir þrjár milljónir króna, og þó ekki fyrir bruna af völdum eldgoss. Þarna voru allar myndirnar geymdar í stórum kössum nema þær stærstu, og voru plastplötur lagðar á milli þeirra. Þarna var gengið frá þeim eftir flutninginn til Eyja frá fyrrverandi eiganda Sigfúsi M. Johnsen, fyrrverandi bæjarfógeta, í nóvember 1972.
Kössunum kom ég ekki út um dyrnar sökum stærðar, svo að ég varð að taka myndirnar úr þeim, leggja plastplöturnar að þeim beggja vegna og binda vel að. Þetta gerði ég svo vandlega sem mér var unnt, og tók þetta verk mig langan tíma. Ég bar málverkin inn í „betri stofuna“ okkar hjóna og gekk þar frá þeim. Ekki kom til mála að opna útidyrnar í hinu glóandi gjósku- og vikurregni. Þar af leiðandi gat ég ekki látið málverkin aftur í kassana úti, þó að ég hefði slegið þá aftur saman utan dyra. Grípa varð til annarra ráða til þess að ná settu marki.
Til þess að tryggja betur meðferð eða flutning málverkanna, hringdi ég í góðkunningja minn og gamlan viðskiptavin í Sparisjóði Vestmannaeyja, Heiðmund stórkaupmann Sigurmundsson, og bað hann að færa mér heim bæði svarta og gráa plastpoka, sem ég vissi, að hann hafði verzlað með. Það gerði hann í skyndi. Í þá smeygði ég málverkunum, þegar ég hafði lagt að þeim froðuplastplöturnar og bundið vel að. Allt þetta starf tók mig lengri tíma en ég hafði ætlað eða gert ráð fyrir.
Ég vann að þessu og öðrum undirbúningi flutningsins sleitulaust fram á kvöld. Þá flaug mér í hug, hvort ekki væru gámar standandi við afgreiðslu v/s Herjólfs eða Ríkisskips efst á Básaskersbryggjunni. Ef svo reyndist, væri til valið að stela svo sem tveim gámum, — taka þá traustataki, — og setja í þá málverkasafnið, og svo bóka- og skjalasafn Byggðarsafnsins og pota svo gámunum niður í lest Árvakurs.
Ég arkaði vestur að afgreiðsluhúsi og var fljótur í förum. — Jú, mikið rétt: þarna stóðu fjórir eða fimm gámar. Tveir þeirra reyndust tómir. Í hinum voru geymdar tómar ölflöskur. Ég reikaði um bæinn til þess að leita mér að flutningabifreið með lyftitækjum. Á göngu minni hitti ég löggæzlumann í bænum. Ég tjáði honum þjófnaðaráform mín varðandi gámana. „Hér eiga nú allir allt,“ svaraði hann. Ég lét mér þetta svar vel lynda, af því að það náði ekki til mín eða eigna minna, og ekki heldur þeirra verðmæta, sem voru geymd undir mínum verndarvæng. Þá hefði líklega komið annað hljóð í strokkinn minn.
Á Strandveginum rakst ég á þá Ársælssyni á „kranabíl“. Ekkert sjálfsagðara en að hjálpa mér, sögðu þeir. Svo lyftu þeir tveim af gámunum upp á bifreiðina sína og óku þeim heim að Goðasteini. Þar slöngvuðu þeir þeim yfir steypta garðinn inn á lóðina sunnan við húsið. Þarna stóðu þeir svo og þarna skyldi allt listaverkasafnið látið í þá og fleira, eftir því sem tök yrðu á, þegar liði á nóttina.
Svo hélt ég sleitulaust áfram starfinu og tók með eigin málverk og myndir úr íbúð okkar hjóna.
Þegar ég svo tók að setja niður í kassa allar bækur Byggðarsafnsins og skjalasafn þess og mínar eigin bækur, skorti mig pappakassa. Þá kvartaði ég við vissa menn og bað þá að vísa mér á kassabirgðir. Það gerðu þeir, svo að ég gat birgt mig upp af pappakössum úr birgðageymslu frystihúsanna í Eyjum. Ég bið og vona, að forsjónin sjálf eigi eftir að bæta þeim upp það eignatap. Þannig leystist sá vandi með því að „allir áttu allt“ í Eyjum þá stundina.
Um kvöldið og nóttina sá ég ibúðarhús vina minna og kunningja standa í björtu báli austan við Goðastein og suðaustur af honum. Glóandi gjall- eða vikursteinarnir runnu viðstöðulaust gegnum þök húsanna og kveiktu í þeim. Þakið á Goðasteini er lagt báruðum asbestplötum. Á styrkleika þeirra og eiginleika gegn glóandi steinregninu trúði ég og treysti þeim til að verja líf mitt og limi.
Útvarpið dreifði fréttum um þessa geigvænlegu viðburði í Eyjum, svo að skelkur greip um sig hjá þeim, sem áttu sína í nándinni. Öðru hvoru hringdu konan mín og börnin til mín til þess að ganga úr skugga um, að allt væri með felldu hjá mér. Þau voru ekki óttalaus, sem vonlegt var. Þá hringdi einnig Helgi tengdasonur okkar heim að Goðasteini öðru hvoru, en hann var í slökkviliði kaupstaðarins þar vestur í Slökkvistöðinni.
Klukkan eitt um nóttina var ég orðinn máttvana af þreytu. Þá lagði ég mig í hvílustólinn minn og treysti því, að ég vaknaði við hringingu símans, en tækið var hjá mér.
Eftir tveggja tíma svefn eða klukkan þrjú um nóttina vaknaði ég af værum blundi. Þá var hrollur í mér og svarta myrkur í húsinu. Rafmagnið var farið og hafði víst farið fyrir nokkurri stundu, því að tekið var að kólna í húsinu. Hafði rafmagnið verið tekið af um stundarsakir eða var það farið að fullu og öllu? Ekki gat ég hringt, því að ég sá ekki á símahjólið. Ég mundi eftir kertum frá blessuðum jólunum og fann þau brátt. En þá voru það eldspýturnar. Engar hafði ég þær. Ekki var fyrirhyggjan meiri en guð gaf! Hvar voru þær að finna? Ég leitaði í bollaskápnum okkar, þar sem konan mín var vön að geyma þær. — Nei, engar eldspýtur. Og ég leitaði og ég leitaði. Án þeirra gat ég ekki kveikt á kertunum. Í myrkrinu gat ég ekki unnið. Og ég sá ekki á tölur símahjólsins í myrkrinu, svo að ég gat ekki hringt mér til hjálpar. Og ekki þorði ég að fara vestur á slökkvistöð eða lögreglustöð eftir eldspýtum sökum hins glóandi gjóskuregns. Nær mér vissi ég ekki dvöl manna í kaupstaðnum.
Ég tók aftur til að leita eftir eldspýtum. Og þá var eins og hendin væri lögð ofan á eldspýtnastokk innst í skápnum, þar sem ég hafði áður leitað hvað mest og bezt. Nú var mér borgið svo lengi að ekki kviknaði í húsinu. Og þá varð mér enn litið út um glugga til þess að skyggnast eftir, hvað uppi stæði enn af hinum brennandi húsum.
Nú lifnaði heldur betur yfir mér, þegar ég gat kveikt á þrem kertum, sem ég fann. Tvö þeirra voru býsna gild ok báru furðu góða birtu. Mér óx nú ásmegin. Ég hringdi á Rafveituna og spurðist fyrir um rafstrauminn. Allt í bezta lagi hér var svar þeirra rafmagnsmannanna. „Glóandi steinn hefur fallið á heimleiðsluna hjá þér og slitið strenginn,“ ályktuðu þeir. Því varð ég að trúa og taka því, sem að höndum bar með þolgæði.
Í þessum svifum stóðu þrír lögregluþjónar í íbúðinni hjá mér. Mér brá. Helgi tengdasonur minn var fjórði maðurinn. Hann hafði hringt og ég ekki svarað. Svo fast svaf ég. Þá kom þeim til hugar, að eitthvað væri að hjá mér. Þeir höfðu komið inn um kjallaradyrnar sökum steinkastsins úti eða gjallregnsins.
Gestirnir sögðu tvær rúður brotnar í húsinu. Í gegnum rúðu á norðurglugga hafði stór vikur- eða gjallsteinn fallið. Hann lá enn mjög heitur á sólbekknum, en gerði engan skaða á honum, því að hann er steyptur. Sennilega hafði þessi steinn hitt raftaugina heim að húsinu, slitið hana og breytt þá um stefnu og fallið á norðurgluggann. Einnig hafði brotnað rúða í glugga á austurstafni hússins. En þar var tvöfalt gler og aðeins ytri rúðan brotin. Allt var því ennn öruggt, fannst mér.
Lögregluþjónarnir hétu mér hjálp, þegar liði fram undir morguninn. Með það heit á vörum hurfu gestirnir úr Goðasteini. Ég hélt svo ótrauður áfram að fylla kassa af skjölum, bókum og öðrum slíkum verðmætum, binda vandlega um og smeygja kössunum í plastpokana.
Klukkan sex um morguninn komu svo þrír lögregluþjónar mér til hjálpar. Þeir báru út málverkin með mér og bóka- og skjalakassana, og við létum allan þennan flutning í gámana, sem þarna stóðu að einum þriðja á kafi í gjósku, sem fallið hafði um nóttina. Síðan fylltu þessir góðu gestir marga kassa af bókum með mér. Margt fleira flaut þar með. Allt lék í lyndi fyrir mér, því að þessir „verðir laganna“ veittu mér ómetanlega hjálp, svo sljór, þreyttur og máttvana, sem ég var orðinn.
En nú vönduðust málin enn á ný. Ekkert viðlit var að aka bifreið heim að Goðasteini sökum gjóskudyngju á götunum. Ég hringdi nú í Áhaldahús bæjarins og bað um hjálp. Það var auðsótt beiðni. Þeir sendu þegar ýtu af stað til þess að ryðja veg austur að Goðasteini. Þegar því starfi var lokið, voru gjall- og gjóskuhaugarnir eins og háir snjóskaflar beggja vegna veganna, þó að liturinn væri annar og skuggalegri. Síðan sendu þessir hjálpsömu menn mér kranabifreið, sem flutti gámana norður á Nausthamarsbryggju. Þar var þeim sveiflað um borð í Árvakur og niður í lest hans. Og þeim var borgið. — Ég skýt því hér inn í frásögn mína, að nokkrum dögum síðar komu gámarnir til Reykjavíkur með varðskipinu Ægi. Þaðan voru þeir fluttir að Kjarvalsstöðum, þar sem við tæmdum þá í geymslu þar. Síðan var gámunum skilað á afgreiðslu Ríkisskips í Reykjavík með einlægum þakkarhug og góðum óskum.
Þegar við höfðum lokið við að flytja gámana niður á Nausthamarsbryggju og potað þeim niður í lest Árvakurs, átti ég eftir óflutta um þrjátíu kassa með bókum o.fl. burt úr Goðasteini á öruggan stað vestur í bæ. Þeim var skilað vestur í Vinnslustöð til Sighvats forstjóra Bjarnasonar. — Hvað var svo til ráða um framtíð þeirra? Ekki gátu þeir legið þarna svo að segja á glámbekk.
Meðan ég var að bollaleggja þetta og leita úrræða, kom v/s Hekla til Vestmannaeyja og lagðist að Friðarhafnarbryggjunni í námunda við kassana mína. Þarna opnaðist mér leið til flutnings á farangrinum til Þorlákshafnar. Enn fékk ég lögregluþjóna mér til hjálpar. Þeir fluttu farangurinn að skipshlið fyrir mig. Síðan var öllum kössunum komið um borð í Heklu, sem lagði af stað til Þorlákshafnar, þegar leið á daginn.
Skipið kom til Þorlákshafnar um það bil kl. 9 um kvöldið föstudaginn 26. jan. Þangað komu þá til hjálpar mér Stefán sonur okkar og Benedikt Ragnarsson. Brátt fengum við lánaðan sendiferðabíl, sem ók öllum kössunum til Hafnarfjarðar, þar sem Stefán og Erla tengdadóttir skutu skjólshúsi yfir þá með öðrum farangri, sem ég hafði með í pokahorninu. — Þarna dvaldist þá einnig konan mín í góðu yfirlæti hjá sonum okkar og tengdadætrum búsettum við Arnarhraunið.
Feginn varð ég hvíldinni um kvöldið og nóttina eftir 40 klukkustunda strit.



ctr


Í 29. árgangi Bliks, bls. 86, birtum við þessa mynd. Þá skorti okkur skýringar við hana. Nú eru þœr fengnar.
Frá vinstri: 1. Jón Jónsson frá Ólafshúsum í Eyjum, 2. Kristján Finnbogason frá Norðurgarði (fór til Ameríku), 3. Þorsteinn Arnarson frá Kálfatjörn, 4. Ágúst Jónsson, Varmahlíð í Eyjum.