Blik 1969/Heimahagarnir, III. hluti

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search

Efnisyfirlit 1969



ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON:


Heimahagarnir

(3. hluti)


X.
Þrjár kirkjur í Vestmannaeyjum


Máldagi er til um kirkjur í Eyjum. Jón forseti og sagnfræðingur ársetti hann 1269. „Árni biskup Þorláksson setti,“ stendur þar skráð.
Þar segir svo, að helmingur fisktíundarinnar skuli ganga til Nikulásarkirkju í Kirkjubæ, hinn helmingurinn „til Péturskirkju þeirrar, er fyrir ofan leiti er“ ... „Þaðan (frá Péturskirkju fyrir ofan leiti) skal syngja að helmingi til Clemenskirkju“... „Kirkjudag skal skylt hvorrar tveggja grafarkirkju öllum mönnum í Vestmannaeyjum að halda, og svo Clemenskirkjudag eftir því sem þar er máldagi til.“ Hér þarf að lesa milli línanna. Um tvær aðalkirkjur er að ræða í Eyjum: Nikulásarkirkju á Kirkjubæ og Péturskirkju á Ofanleiti. Orðalagið gefur til kynna, að Nikulásarkirkjan er eldri og meiri. Presturinn þar þarf ekki að syngja messu í Clemenskirkjunni, sem enn stendur að nafninu til austur eða suðaustur af Kleifnaberginu við Hamar niðri. Hins vegar er prestur Péturskirkjunnar fyrir ofan Leiti enn bundinn skyldum sínum við lélegu torf- og grjótkirkjuna handan við voginn, kirkjuna á gömlu Ormsstaðalendunum, sökum fólksins, sem býr sunnan við hann, þó að það sé fátt á 13. öldinni. Grafarkirkjurnar eru tvær í Eyjum 1269. Klemenskirkja er það ekki lengur. Þeirrar virðingar nýtur hún ekki 1269, hrörleg eins og hún er, komin að falli.
Árið 1269 voru Ormsstaðir allir fyrir æðilöngu. Meginhluti heimalands þeirra var blásið upp, örfoka, horfinn í veður og vind, eða lendur þeirra étnar upp af sjó og særoki. Vilborgarstaðajarðirnar höfðu erft ínytjar Ormsstaðanna í Heimakletti og Úteyjum. Þeim arfi halda þær enn. Þannig sannast tengslin milli þessara bæja í Eyjum frá fornu fari.
Vitaskuld hafa kirkjurnar að Kirkjubæ og Ofanleiti verið léleg guðshús og í fyllsta samræmi við það byggingarefni, sem tiltækilegast var hér á Heimaey: lélegt torf, rótlítil hnausstunga, og svo hraungrýti nibbótt og illa lagað og illt til að höggva sökum hörku og verkfæraleysis. Móberg hefur heldur ekki verið tiltækilegt sökum skorts á flutningatækjum yfir vegleysur og margar aðrar torfærur. Efnahagur fólksins var einnig þröngur í Eyjum fram á 15. öldina og þess vegna engin tök að leggja eða ætla mikið fé eða marga fiska til kirkjubygginga. En á 15. öldinni fór skreiðarverð mjög hækkandi á erlendum markaði, er enskir sæfarendur og kaupmenn byrjuðu að verzla við Eyjafólk, kaupa af þeim skreið háu verði og selja þeim ódýra matvöru og aðrar nauðsynjar. Þá gjörbreyttist hagur fólksins til hins betra. Þess nutu einnig kirkjur þeirra, þegar fram leið.
Allar sögulegar heimildir skortir um það, að ég bezt veit, hvenær fyrstu byggðarhverfakirkjurnar í Eyjum voru byggðar, kirkjan á Kirkjubæ og Ofanleiti. Sumir telja líkur fyrir því, að kirkjan á Ofanleiti hafi verið byggð fyrst og um 1200. Þá hefur hin stutta framtíð, sem Klemenskirkjan á gömlu lendum Ormsstaðanna átti fyrir sér, verið orðin augljós. Mér finnst hins vegar, að orðalag máldagans 1269 veki þá hugsun, að kirkjan á Kirkjubæ, Nikulásarkirkjan, sé eldri en Ofanleitiskirkjan. Um þetta má sjálfsagt deila. En víst er um það, að báðar þessar kirkjur hafa verið byggðar á 13. öldinni og fyrir hana miðja að öllum líkindum.
Hér verður aðeins það eitt vitað með vissu, sem máldagi Árna biskups Þorlákssonar greinir frá. Allt annað um þetta og mýmargt fleira í sögu Vestmannaeyja er hulið mistri og myrkri sökum skorts á sögulegum gögnum eða heimildum.


XI.
Örlögin og ein allsherjar kirkja í Eyjum


Allt á sínar orsakir. Og á eftir orsökunum drattast stundum býsna sérkennilegar afleiðingar, sumar til heilla, aðrar til hnekkis eða skaða. Illa gengur oft og tíðum að sjá afleiðingarnar fyrir. Örlögin eru oftast hin óráðna gáta.
Á 15. og 16. öld fór búseta vaxandi í Vestmannaeyjum. Ýmsar orsakir lágu til þess. Ein hin helzta var sú, að skreiðarverð á erlendum markaði fór mjög hækkandi.
Sá hagstæði og góði markaður fyrir þær fiskafurðir og svo verzlun Englendinga í Eyjum á 15. öldinni olli því, að afkoma búsetts fólks í Eyjum var góð á þessu tímaskeiði. Fiskisagan um hina góðu afkomu fólksins í Eyjum og hin hagstæðu verzlunarkjör flaug um byggðir Suðurlandsins með vertíðarfólki þaðan, og fólk flykktist til Eyja úr Suðurlandsbyggðum og settist þar að. Þeir, sem ekki áttu kost á jarðnæði, byggðu sér kofaræksni í námunda við voginn og þeir heimilisfeður hlutu titilinn tómthúsmenn til aðgreiningar frá þeim, sem grasnytjar höfðu, bændunum.
Á vissu skeiði miðaldanna voru Englendingar áhrifaríkir viðskiptaaðiljar í Vestmannaeyjum eða um 140 ára bil (1413—1557), þar til danski konungurinn tók alla verzlun við Eyjafólk í sínar hendur, svo og útveg Eyjamanna, útgerð alla. Alla bjargræðisvegi þeirra hafði konungur í hendi sér nema fuglaveiðarnar og kotungslandbúnaðinn þeirra.
Getið er þess í gildum heimildum, að 5 ensk skip komu til Vestmannaeyja sumarið 1413. Forráðamenn skipanna höfðu meðferðis meðmælabréf frá sjálfum Englandskonungi um heiðarleik þeirra og kostgæfni. Þess vegna skyldi Eyjafólki vera í alla staði óhætt að skipta við þá, þessa ensku sjóara og siglingamenn.
Meginhluta 15. aldarinnar verður svo þróunin sú, að Englendingar reka verzlun og útgerð á Vestmannaeyjum og eiga þar hús, báta og skip. Á stundum hafa þeir vetursetu þar að einhverju leyti. Á vorin koma skipin þeirra hlaðin vörum, sem Eyjafólk kaupir við hagstæðu verði. Svo sigla ensku skipin frá Eyjum hlaðin skreið undan vetrarvertíð og söltuðum vorafla Eyjasjómanna og bænda og búaliða úr næstu byggðum sunnan lands. Öll afkoma fólksins leikur í lyndi, og „landmenn“ og landbændalið ber hróður ensku kaupmannanna og sægarpanna með sér upp í sveitir Suðurlandsins, þegar þetta sveitafólk hverfur frá Eyjum til vorannanna heima eftir vetrarvertíðardvölina í verstöðinni.
Já, það er vitað, að skreiðarverð var hátt á erlendum markaði a.m.k. síðari hluta miðaldanna, fram á 16. öldina. Eyjabændur notuðu óspart fiskigarðana sína við herzlu skreiðarinnar.
Í Vestmannaeyjum töldu Englendingarnir sig einna öruggasta gagnvart danska konungsvaldinu sökum einangrunarinnar og hins vinsamlega sambands og samneytis við bændafólkið í Eyjum yfirleitt. Engan umboðsmann eða fógeta hafði danski konungurinn í Vestmannaeyjum það tímabil, sem Eyjabúar höfðu mestan og beztan arð af viðskiptum öllum við Englendingana eða fram að miðbiki 16. aldarinnar. Englendingarnir létu sig hafa það að hlunnfæra danska konungsvaldið um alla tolla og svo skatta og skyldur að öðru leyti.
Á þessu tímaskeiði sögunnar sóttu bændur og búalið í Eyjum kirkjur á hverjum sunnudegi og miklu oftar á föstum og öðrum tyllitímum ársins, sóttu gömlu og hrörlegu kirkjurnar sínar. Skyldu þeirra til kirkjusóknar er getið í máldaga Árna biskups 1269. Tómthúsfólkið niður við Voginn sótti síður guðsþjónusturnar sökum fjarlægðar frá kirkjunum, enda fannst því það síður tengt þeim einskonar „ættarböndum“ eins og bændafólkið, sem þarna hafði búið og baslað mann fram af manni og kynslóð fram af kynslóð margt hvert. Tómthúsafólkið var líka að ýmsu leyti fremur dægurflugur, rótlaust farandfólk, einnig í trúmálunum, heldur en bændafólkið rótgróna við átthaga og ættarbönd.
Og tíminn leið. Tugir ára liðu.
Englendingarnir bjuggu í „kastalanum“ sínum (Castel) á hæðinni sunnan við Bratta, t.d. þar sem íbúðarhúsin Lundur (Vesturvegur 12) og Sunnuhvoll (Vesturvegur 14) standa nú eða þar um bil. Þarna veittu Englendingarnir danska konungsvaldinu harðsnúna mótstöðu, sem ýmist bannaði því alla verzlun við Eyjafólk og alla útgerð þar eða samdi við þá um greiðslur, — skatta, tolla og afurðagjöld í konungssjóðinn, — líklega nokkuð eftir því frá tímabili til tímabils, hversu hinn danski konungur átti marga Jóakimsdali í buddunni sinni hverju sinni og fjárþörfin var aðkallandi.
Fengju Englendingarnir ekki að verzla á löglegan hátt í Eyjum, verzluðu þeir þar á laun, smygluðu vörum í land eða seldu þær á miðum úti. Eyjasjómenn voru ákafir að verzla við þá vegna mikillar og góðrar reynslu af viðskiptunum. Þarna seldu þeir fiðrið sitt og prjónlesið við góðu verði. Og ekki þá síður skreiðina, eins og áður er sagt. Og hver gat fylgzt með þessum viðskiptum og haft þar hönd í hári, þegar báðir aðilar vildu? Var það ekki eitthvað líkt því sem að gæta hundrað flóa á hörðu skinni, eins og þar stendur? Mér kemur í hug pokandadrápið á Austfjörðum á fyrstu tugum aldarinnar. Viss fuglategund var ávallt borin úr bátum og milli bæja í pokum. Sízt máttu valdsmenn sjá, hvað í pokunum var, því að það var bannvara, saknæmt að skjóta þennan fugl, hirða hann og eta. Þó saddi hann marga svanga maga, eins og smygluðu matvörur Englendinganna við Eyjar eftir miðja 16. öldina, eða eftir að Danir höfðu einokað Eyjarnar (1552). Eftir það létu Danir vakta og varðveita rétt sinn, tilskipanir og lög þar í byggðinni og á hafinu í kring um Eyjar.
Þá var ensku vörunum smyglað í land að næturlagi. Þær voru líka keyptar fyrir innlenda framleiðslu á miðum úti, og ef til vill geymdar úti í Stafsnesi eða Eysteinsvík eða suður í Klauf eða Vík og síðan sóttar þangað í skjóli næturinnar.
Íslenzkir annálar eru fáorðir um hin leynilegu verzlunarviðskipti Eyjamanna og Englendinganna, eftir að danska konungsvaldið setti öfl til hindrunar þessum viðskiptum til þess að njóta sjálft arðsins af þeim.
Þó áttu þeir atburðir sér stað, svo að launverzlun þessi varð lýðum ljós og frásagnir um þá komust í annála. Til dæmis má því til sönnunar geta atburðar, sem átti sér stað vorið 1642.
Eyjamenn mönnuðu út teinæring aðfaranótt annars páskadags 1642 og réru til viðskipta við enskar skútur, sem lágu undir færum vestan við Eyjar. Það hét svo, að teinæringur þessi hefði róið til fiskjar um nóttina, því að blíðskaparveður ríkti um hauður og haf.
Íslenzkum afurðum var skipað upp í skúturnar til skipta fyrir enskar vörur, matvörur, vefnaðarvörur og ýmiskonar smávarning.
Annar páskadagurinn leið þarna úti í skútunum og þeir biðu næturinnar. Í skjóli hennar skyldi pukrast með vörurnar heim. En margt fer öðruvísi en ætlað er.
Þegar á daginn leið, tók að hvessa af austri og undir kvöldið gerði austan stórviðri, svo að Eyjamenn fengu ekkert við ráðið. Teinæringinn sleit frá einni skútunni og tók að reka vestur hafið fyrir stórsjó og stórviðri. Hann rak vestur hafið um nóttina og fram á morgun. Þá tókst skipshöfninni að ná lendingu í Þorlákshöfn „með stórum harðindum,“ eins og annállinn greinir frá, „ ... mjög máttdregnir var hjálpað skipi og mönnum ...“ Vegna þessa óhapps varð launverzlunarferð þessi skráð á spjöld sögunnar. Aðeins hún ein af hundruðum. Hjálpin sá um það, fyrst hennar þurfti við.
Öll löggæzla hér norður á hjara veraldar var næstum ógerningur, ekki sízt er lögbrjótarnir útlendu voru harðskeyttir herrar á hafinu, sem vissu öflugt ríkisvald standa að baki sér.
Um eitt skeið höfðu Englendingarnir vígbúnað til varnar í kastalanum sínum í Eyjum, ef konungsvaldið danska skyldi gerast of nærgöngult eða áleitið. Þá horfði stundum uggvænlega um frið í verstöðinni.
Undir miðja 16. öldina var Kristjáni III. Danakonungi nóg boðið í öllum þessum átökum og allri þessari togstreytu í viðskipta- og verzlunarmálum Eyjafólks. Ofsjónir danska konungsvaldsins yfir hagnaði Englendinga af verzluninni við Eyjafólk fór vaxandi áratug frá áratug. En hvað skyldi til bragðs taka?
Leiðin yfir Atlantsála frá Danmörku til Íslands var torsótt á hersnekkjum þess tíma og kostnaðarsöm. Áhættuminnst mundi það vera að fela öðrum aðila löggæzluna, tollheimtuna og viðskiptastríðið við ensku sjógarpana og kaupmennina.
Árið 1552 fékk konungur sjálfa bæjarstjórn Kaupmannahafnar til þess að taka Vestmannaeyjar á leigu af sér með tollum, sköttum og skyldum og reka þar allan „gróðaveginn“ á eigin ábyrgð. Leigan af Eyjunum í konungssjóðinn skyldi vera 200 Jóakimsdalir á ári. Þannig atvikaðist það, að algjör einokunarverzlun hófst í Vestmannaeyjum réttum 50 árum, áður en hún var lögleidd annars staðar í landinu.
Eftir 5 ár gafst bæjarstjórn Kaupmannahafnar upp við verzlunarreksturinn og afhenti konungi aftur réttinn.
Þá var það (1557) sem hinn danski konungur, Kristján III., afréð sjálfur að reka verzlunina við Eyjamenn og alla útgerð í Eyjum. Enginn mátti nú hér eftir gera út vertíðarskip í Vestmannaeyjum nema konungsverzlunin. Eyjasjómenn urðu þrælar hennar með því að þeir voru þvingaðir til þess að róa á konungsskipunum, konungsbátunum, og jafnframt var þeim skipað niður í skipsrúmin af sjálfum umboðsmanni konungsins. Þar með urðu allir heimilisfeður í Eyjum að lúta og hlíta „kvöðum og köllum“.
Sú harka var einsdæmi í landinu.
Þessu tiltæki konungs ollu m.a. hin góðu aflaár í Eyjum undanfarna áratugi og hagstætt skreiðarverð á erlendum markaði.
Kristján konungur III. deyði 1559, og Friðrik II. varð konungur Danaveldis. Hann hélt einokunarverzluninni í Vestmannaeyjum við lýði öll sín konungsár. Hann lézt árið 1588. Gerðist þá Kristján IV. konungur Danaveldis.
Það sem fyrst og fremst einkenndi stjórnarár feðganna Kristjáns III., Friðriks II. og Kristjáns IV. var hið látlausa peningaleysi þeirra, skortur á fé til allra hluta. Ekki sjaldnar en 17 sinnum á árunum 1550—1600 lögðu þessir konungar aukaskatt á þegna sína sökum peningaskorts. Stríð, sem þeir háðu, ollu stundum þessum aukaskattsálagningum, en eigi nærri alltaf. Oft lögðu þeir aukaskatta þessa á þegnana til þess eins að rísa undir kostnaði af brúðkaupi einhverrar „heimasætunnar“ í konungsgarði, standa straum af þeim kostnaði.
Tómahljóðið í fjárhirzlum danska konungsins um miðja 16. öldina olli því m.a að hann stofnaði til einokunarverzlunarinnar í Vestmannaeyjum og algjörrar undirokunar þess fólks, sem þar var þá búsett, til þess að afla fjár í konungssjóðinn galtóma. Tilraun þessi skilaði góðum arði, ekki sízt sökum hins háa skreiðarverðs á erlendum markaði þá. Árangurinn leiddi svo til þess, að Kristján konungur IV. afréð að einoka allt landið. Það gerði hann árið 1602, svo sem kunugt er.


XII.
Kirkjan á Fornu-Löndum 1573—1627


Fátt er svo með öllu illt, að ekki boði nokkuð gott.
Árið 1563 gerðist séra Bergur Magnússon prests Jónssonar á Öndverðarnesi sóknarprestur að Ofanleiti í Vestmannaeyjum. Prestur þessi var bróðursonur Marteins biskups Einarssonar, gáfaður klerkur og áhugasamur um velferð kirkju og kristni í sóknum Eyja. Hann vann að vexti kirkjusóknar og viðgangi kristinnar trúar í hvívetna, enda var hann áhrifaríkur persónuleiki af nafnkunnu fólki kominn og átti landskunna gáfumenn í œtt sinni, svo sem Martein biskup.
Árið 1557, eða 6 árum áður en Bergur Magnússon fékk Ofanleiti, afréð konungur að taka alla Vestmannaeyjaverzlunina og útgerð þar í sínar eigin hendur og reka hvorttveggja á eigin spýtur, eins og áður getur. Umboðsmaður konungs í Eyjum skyldi einvaldur um allan þennan rekstur og einræðisherra þar í öllu tilliti. Hann varð fógeti konungs þar, innheimtumaður tolla, skatta og skyldna og „verndari“ kirkju og kristni.
Fyrsti umboðsmaður konungs í Eyjum, eftir að einokunarverzlunin var lögleidd þar, varð Simon Surbech, kunnur Kaupmannahafnarbúi og vel metinn borgari þar af þýzkum ættum. Hann varð sem sé umboðsmaður konungs í Eyjum, verzlunarstjóri, útgerðarstjóri og harðstjóri. Enginn mátti nú gera út til fiskjar í Eyjum nema konungurinn sjálfur. Eyjasjómönnum bar skylda til að róa á bátum hans. Þeir réðu heldur ekki, hvar þeir réðust í skiprúm á bátum konungs. Umboðsmaðurinn réði því eins og öðru og skipaði niður í skiprúmin.
Jón Aðils sagnfræðingur segir, að konungur og Surbech hafi gert með sér „félagsgerð“. Kjarni hennar var sá, að Surbech umboðsmaður rak verzlunina og útgerðina að einum fjórða og hirti arð af rekstrinum í sama hlutfalli.
Ekki hafði Simon Surbech lengi farið með einræðisvald sitt í Eyjum, er hann svifti Kirkjubæjabændur öllum nytjum af Yztakletti, — beit og fuglatekju, — tók þær í eigin hendur sjálfum sér til hagnaðar og arðs. Síðan var Yztiklettur talinn 49. býlið í Vestmannaeyjum, húslaust og túnlaust.
Þá tók Simon Surbech allan rekarétt af Eyjabændum og afhenti hann sjálfum sér til eignar og arðs, en síðan kóngi.
Flest árin sat umboðsmaðurinn sjálfur í Kaupmannahöfn, en hafði staðgengil sinn búsettan allt árið í Eyjum, fulltrúa sinn eða „skrifara“, eins og hann var stundum titlaður. (Sbr. „Kristján skrifari“). Þó kom Surbech stundum með verzlunarskipi sínu til Eyja og dvaldist þar ungan úr sumrinu til eftirlits og ráðabruggs við verzlunarstjóra sinn.
Eitt af verkefnum umboðsmannsins var að hamla gegn verzlun Englendinga við Eyjabúa og tortíma útgerð enskra sjómanna frá Eyjum og gera þeim helzt ókleift að stunda fiskveiðar í námunda við þær. Þannig mundi konungsverzlunin og útgerðin bezt efld og verða arðvænlegust. Þessi mótstaða umboðsmannsins gegn vinsamlegum samskiptum enskra sjómanna og kaupmanna annars vegar og Eyjamanna hinsvegar, magnaði ófrið og illdeilur, sem bitnuðu stundum allóþyrmilega á Eyjabúum sjálfum.
Vorið 1571 kom umboðsmaður konungsins, Simon Surbech, sjálfur til Vestmannaeyja. Það vor hóf hann deilu mikla við Englendinga, sem höfðu boðið konungsvaldinu birginn og verzlað allmikið við Eyjafólk. Fyrir þetta athæfi tók Simon Surbech háa tolla af Englendingunum og hrakti þá síðan frá Eyjum. Umboðsmaðurinn dvaldist síðan við verzlun sína og útgerð fram eftir sumrinu, beið þess að skreiðin verkaðist og voraflinn tæki nægu salti. Ekki er ólíklegt, að þetta sumar hafi prestarnir í Vestmannaeyjum borið upp við umboðsmanninn mesta áhugamál sitt, að byggð yrði í Eyjum myndarleg kirkja, sem væri staðsett þannig miðsvæðis, að allir Eyjabúar mættu vel við una. Mörg tómthús höfðu risið upp við voginn í Eyjum og í námunda við verzlunarstaðinn undanfarna áratugi, meðan atvinnulífið var sem blómlegast og verzlunarhættirnir hagkvæmir.
Einnig fundu prestarnir það greinilega, að trúrækni og bænaþörf almennings í Eyjum fór nú vaxandi eftir því sem kúgun konungsvaldsins færðist í aukana. Í eymd sinni og volæði leitar mannskepnan jafnan meira og innilegra samfélags, andlegra tengsla, við guðdóm sinn, en þá allt leikur í lyndi fyrir henni. Svo fór Eyjabúum einnig, eftir að þeir voru sviftir athafnafrelsinu og sveltir og kúgaðir til auðgunar konungsvaldinu.
Einnig þetta fyrirbrigði hvatti klerkana í Eyjum til þess að vinna að bættri aðstöðu til guðsþjónustugjörðar í byggðarlaginu.


ctr


Vogurinn að sunnanverðu, hraunjaðarinn. Til vinstri á myndinni sést bryggja Austurbúðarinnar, klapparhalinn, sem einokunarkaupmaðurinn lét slétta með sementi og notaði í bryggjustað. Verzlunarhúsin til vinstri við bryggjuna. Beint suður af þeim stóð Landakirkja (1573-1627). Enn sáust þar garðbrot, þegar myndin var tekin. Þar var kirkjugarðurinn á tímum Landakirkju hinnar fyrstu.


Ólíklegt er það, að Eyjaprestar hafi ekki tryggt sér, meðan kostur var, fylgi umboðsmannsins við þá hugsjón þeirra að byggja í Eyjum eina allsherjarkirkju, er staðsett væri þar, sem einvaldsherrann gat sætt sig við með tilliti til dönsku fjölskyldnanna, sem búsettar voru nú í Eyjum árið um kring og gættu þar eigna og reksturs konungsvaldsins eða umboðsmanns hans. Tillögum umboðsmannsins varð að hlíta og lúta. Þannig mun það hafa atvikazt, að hin fyrirhugaða allsherjarkirkja var staðsett í námunda við verzlunarstaðinn, suður af honum nokkurn spöl, á Fornu-Löndum. Þangað var einnig aðeins spölkorn að ganga frá allri Austurbyggðinni á Heimaey, en kirkjan hennar á Kirkjubæ hefur sennilega verið orðin mjög léleg og komin að falli. En hvað sem því líður, þá ber staðsetning kirkjunnar á Fornu-Löndum þess vissulega vott, að verzlunarfólkið danska var efst í huga þess, sem endanlega réði staðnum. Tómthúsahyskið var aldrei svo mikils metið, að tekið væri tillit til þess um eitt eða neitt. Þó mun það hafa verið um einn þriðji af íbúafjölda Vestmannaeyja, þegar prestarnir þar beittu sér fyrir nýju kirkjubyggingunni.
Séra Gísli Jónsson, prestur í Selárdal, var kjörinn biskup á alþingi sumarið 1556. Hann hlaut síðan skipunarbréf fyrir embættinu 28. febr. 1558.
Biskup þessi gerðist brátt framtakssamur og frumkvöðull að ýmsu því, sem efldi og glæddi lútherskan sið með þjóðinni. Þegar hann tók við biskupsembætti, var Skálholtskirkja í niðurníðslu. Biskup lét byggja nokkurn hluta hennar frá grunni og endurbætti hana að öðru leyti. Því verki hafði hann lokið árið 1567.
Engar veit ég heimildir fyrir því, hvort séra Bergur Magnússon á Ofanleiti hefur notið hvatningar biskups eða áhrifa hans til þess að beita sér fyrir nýrri kirkjubyggingu í Vestmannaeyjum, en ef álykta má af framtaki biskups sjálfs um byggingarframkvæmdirnar í Skálholti og allan áhuga hans á eflingu kirkjulegra áhrifa og lútherskrar kristni í Skálholtsbiskupsdæmi, eru miklar líkur til þess, að málaleitan séra Bergs Magnússonar á Ofanleiti um nýja kirkju í Eyjum hafi mætt velvilja og skilningi hins áhugasama og framtakssama biskups og prestunum í Eyjum borizt frá honum þakklætis- og hvatningarorð fyrir dug og framtakshug til eflingar kirkju og kristni.
Annars mun Kirkjubæjarpresturinn í Eyjum, séra Gissur Fúsason (Vigfússon), hafa verið áhrifalítill aðili um byggingarframkvæmdir þessar og undirbúning. Séra Gissur naut ekki einu sinni þeirrar virðingar með Eyjafólki, að föðurnafn hans væri skráð eða sagt öðruvísi en með gælunafni föður hans, en séra Gissur var Vigfússon, talinn launsonur Vigfúsar lögmanns Erlendssonar. Hann mun hafa verið áhrifalítill klerkur og lítils metinn af öllum almenningi.
Prestarnir í Eyjasóknum efndu til almennra samskota í Vestmannaeyjabyggð til þess að afla fjár til byggingarframkvæmdanna, og getið mun þess í heimildum, að erlendir menn hafi gefið peninga eða peningavirði til hinnar nýju kirkjubyggingar. Mætti ætla, að umboðsmaðurinn danski væri þar í hópi og svo danskir verzlunarþjónar. Tæplega mundi það syndsamlegt að ætla enskum sjómönnum og kaupmönnum þá rausn að gefa Eyjafólki fé í byggingarsjóðinn, því að kunningsskapur góður og ef til vill vinátta hefur ríkt með hinum ensku og sumum Eyjabændum eða afkomendum þeirra frá næstliðinni tíð, áður en afskipti hins danska fógeta og umboðsmanns kom til og spillti sambúð og samhug.
Síðla sumars 1571 lagði verzlunarskipið danska úr höfn í Vestmannaeyjum hlaðið skreið og saltfiski og með fleiri afurðir innan borðs, svo sem prjónles og fiður. Umboðsmaðurinn sjálfur, Simon Surbech, sigldi með skipinu. Það vissu Englendingar, sem hötuðu hann. Í hafi lágu þeir fyrir skipinu og tóku það herskildi og færðu til enskrar hafnar. Þá varð umboðsmaðurinn að kaupa sig lausan við ærnu gjaldi. Þessi atburður varð milliríkjamál, eins og gefur að skilja, en það er önnur saga, og við höldum okkur að kirkjubyggingunni.
Sumarið eftir (1572) sat umboðsmaðurinn heima í Kaupmannahöfn og lét þannig hjá líða að vitja valds síns og veraldarstúss á „Vestpanöe paa Island“. „Skrifarann“ sinn lét hann um það að áreitast við Englendingana og stugga við þeim það sumar, og svo að kúga Eyjafólk og arðsjúga það, enda lítið öryggi á hafinu fyrir ofbeldismönnum, — veður öll válynd þar.
Þegar danska skipið lagði úr Vestmannaeyjahöfn það sumar (1572), hafði það meðferðis bréf til umboðsmanns konungs, Simon Surbech, frá séra Bergi Magnússyni á Ofanleiti. Efni bréfsins var það, að prestarnir í Eyjum sendu þá með skipinu eina smálest af fiski, innstæðufiski, sem sóknarkirkjunum í Eyjum hafði safnazt á undanförnum góðærum undir verndarvæng sálusorgaranna þar. Þessi smálest var þá talin vera 25 ríkisdala virði. Beiðni prestanna til umboðsmannsins var sú, að hann vildi svo vel gera að festa kaup á viði til kirkjubyggingarinnar, sem rísa skyldi á Fornu-Löndum.
Þetta erindi prestanna kom umboðsmanninum vissulega ekki á óvart, samkv. framansögðu, og honum var ljúft að gera viðarkaupin. Öðrum þræði gat hann þannig goldið guði sitt að einhverju leyti og mýkt þannig örlagavöldin gagnvart sér sjálfum, kúgun og fjárplógsiðju sinni, hófleysi, valdbeitingu og rangsleitni gagnvart varnarlausu og vanmáttugu íslenzku fólki á afskekktri eyju nyrzt í Atlantshafinu. Neistinn segir til sín á vissum stundum. Það mun hann einnig hafa gert hjá Nazistunum, og það hefur hann gert hjá Simon Surbech. Í ljósi þeirra hugleiðinga mætti ætla, að umboðsmaðurinn sjálfur hefði látið eitthvað af hendi rakna úr eigin vasa til kirkjubyggingarinnar, ekki sízt þegar fullt tillit var tekið til búsettra landa hans í Eyjum um staðsetningu kirkjunnar. Við skulum a.m.k. ætla hinum kristna einvalda svo kristilegar hugsanir og gjörðir.
Sigfús M. Johnsen, fyrrverandi bæjarfógeti, sem mun allra manna mest og bezt hafa rannsakað söguleg skjöl um athafnir í Eyjum á fyrri öldum, segir í Sögu Vestmannaeyja um fjáröflunina til kirkjubyggingarinnar á Fornu-Löndum: „... Til kirkjubyggingarinnar hefur verið aflað fjár með samskotum, — fiskgjöfum, — eins og átti sér stað síðar. Prestarnir máttu leggja til ríflegt tillag í eitt skipti fyrir öll, sem endurgjald fyrir kirkjutíundina, er þeir nú gátu haldið óskertri. Tillagið frá þeim var þrjár lestir af fiski, og þótti hart að gengið, er þeir sátu í tekjurýrum brauðum.“
Danska verzlunarskipið kom með kirkjuviðinn til Vestmannaeyja vorið 1573. Nokkrum vikum síðar hófst svo kirkjubyggingin á lendum Fornu-Landa, skammt suður af verzlunarhúsunum dönsku og tómthúsahverfinu þar austur með voginum, vestan við verzlunarhúsin. Ekki mun fjarri getið eftir manntalinu 1703 og tómthúsa- og jarðatölu í Eyjum á seinustu árum 16. aldarinnar, að um 400 manns hafi búið þar þá, er fyrsta Landakirkja reis þar af grunni.
Þessi timburkirkja var við lýði í 54 ár eða þar til sjóræningjarnir frá Algier brenndu hana til kaldra kola 17. júlí 1627. Áður en þeir kveiktu í kirkjunni, brutu þeir hana upp og rændu hana öllum dýrmætum munum. Lesa má milli línanna í Tyrkjaránssögu, að ræningjarnir trylltust svo að segja, er þeir uppgötvuðu guðshús byggðarinnar og áttu þess kost að brenna það til ösku. Ekki snertu þeir við kirkjunum hinum. Auðvitað hafa þeir ekki getað látið sér til hugar koma, að þau hús, þau kofaræksni, væru kirkjur fólksins. Svo lélegar voru þær. Það hefur villt ræningjunum sýn og bjargað bvggðahverfakirkjunum frá glötun.
Í ofstopa sínum og æsingi gættu ræningjarnir þess ekki, að klukkur kirkjunnar héngu í gálga undir lítilli þekju utan við sjálfan kirkjustafninn þar í klukknaporti. Þannig björguðust klukkurnar. Brennandi kirkjustafninn hefur fallið ofan á klukknaportið, svo að þekja þess brann en eikarramböldin sviðnuðu aðeins. Þau voru gerð úr völdum eikarviði, líklega krikkju úr skipsstafni. — Hvað hef ég svo fyrir mér, er ég álykta þannig?
Ég veit ekki annað sannara eða réttara, en að ramböldin eða klukkuás hinnar fyrstu Landakirkju séu varðveittar í Byggðarsafni Vestmannaeyja. Þessi klukkuás fylgdi Landakirkju til ársins 1960. Þá var hann tekinn úr turni kirkjunnar og fleygt út fyrir veggi hennar. Þar hirti ég hann.
Fyrst mun turn hafa verið settur á kirkju í Vestmannaeyjum 1857 fyrir atbeina Kaptein Kohl sýslumanns. Til þess tíma eða í 857 ár hengu klukkur Vestmannaeyjakirkna í klukknaporti, sem ýmist stóð vestan við eða austan við kirkjustafninn. (Sjá hina frægu mynd Sæmundar Hólms af Heimaey 1776. Þar er klukknaportið teiknað austan við kirkjustafninn).
Þessi ramböld bera það með sér, að eldur hefur farið um þau og skert annan enda þeirra. Hvenær hefur Landakirkja komizt í námunda við Rauð í annan tíma, en þegar Tyrkir brenndu hana til ösku 17. júlí 1627? Þau bera sjálf þess vitni, þessi klukknaramböld, sem þjónuðu 4 kirkjum eftir ránið mikla: Kirkjunni, sem byggð var 1631, og svo 1686 og svo 1722 og svo 1749 og síðast þeirri Landakirkju, sem byggð var í Eyjum á árunum 1774—1778 og enn er þar við lýði, annað elzta guðshús landsins.
Já, og ramböldin eru að öllum líkindum smíðuð úr skipskrikkju, sagði einn af skipasmíðameisturum bæjarins, er hann hafði skoðað þau í krók og kring. Ég hef hneigðir til að álykta hið sama eftir sniði þeirra, gerð og naglaförum og nöglum, sem í þeim eru.
Þrettán árum áður en Tyrkir brenndu Landakirkju, hafði hún verið rænd ýmsum gripum, m.a. annarri klukkunni sinni a.m.k. Þetta rán framdi Englendingurinn John Gentleman og menn hans árið 1614. Englandskonungur hegndi ræningjum þessum með lífláti, og Landakirkja fékk nýja klukku þrem árum síðar eða 1617.

Til baka