Bólstaður

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search

Húsið Bólstaður sem stóð við Heimagötu 18 var byggt árið 1908 af Brynjólfi Stefánssyni, skósmið. Kona Brynjólfs var Halla Jónsdóttir frá Dölum og sonur þeirra var Jóhannes G. Brynjólfsson forstjóri Ísfélags Vestmannaeyja til margra ára.

Bólstaður
Bólstaður
Börn í garðinum á Bólstað. Húsbóndinn Hafsteinn Ágústsson er á bak við.
Hjónin á Bólstað, Hafsteinn og Íris.
Börnin á Bólstað
Stelpur í garðinum á Bólstað.
Bólstaður er lengst til vinstri á myndinni

Gosnóttina 1973 bjuggu á Bólstað við Heimagötu 18, hjónin Hafsteinn Ágústsson og Íris Sigurðardóttir ásamt börnum sínum Erni, Ágústu, Aðalheiði og Láru. Fyrir höfðu þau átt dótturina Hafdísi sem fæddist 1. Oktober 1963 en hún lést 10. Oktober sama ár. Þess má einnig geta að tæpum fjórum mánuðum eftir gos eða þann 5. Maí 1973 fæddist þeim sonurinn Árni.


Aðfaranótt 23. Janúar 1973

Hjá fjölskyldunni á Bólstað við Heimagötu

Íris var að lesa bókina Barist í bröttum hlíðum, rétt fyrir kl tvö verður hún vör við óvenjulega og mikla umferð í nágrenninu, hún vekur Happa, hann fór upp í ris og sá þá mikinn eld í austri og varð að orði “Ef það væri flugledaverksmiðja á Kirkjubæ þá væri hún að brenna” og með það fór hann bara aftur upp í rúm, en Íris fór út á stétt og hitti þar Högna á Lágafelli sem tilkynnir henni að farið sé að gjósa þarna austurfrá. Það var nokkuð ljóst að ekki yrði meira úr nætursvefni Happa á Bólstað. Börnin eru vakinn og undirbúin til brottfarar, klædd í hlýjan fatnað og stígvél en Íris fór í spariskóna enda alltaf með eindæmum hugguleg og vel til höfð kona og skyldi eldgos ekki breyta neinu um það. Þau yfurgáfu húsið í hinsta sinn og fóru niður í Varmahlíð sem stóð við Miðstræti 21 en þar bjó Pálína amma, hún harðneitar að yfirgefa heimilið sitt og Eyjuna kæru, því hér hafði hún átt og alið upp öll sín börn og hér ætlaði hún að deyja, með þessum orðum náði hún í konfektpoka inn í skáp og bauð börnunum. Pálínu ömmu er tilkynnt að þá fari enginn ef hún komi ekki með, á endanum gafst amma upp og fóru þau öll saman niður á bryggju þar komust þau um borð í bátinn Sigurfara Ve 138 og var lagt af stað til Þorlákshafnar um 04:30. Það var mjög vont í sjóinn og mikil sjóveiki um borð, Ágústa sú næst elsta af börnum þeirra hafði gripið með sér plastpokarúllu þegar hún yfirgaf Bólstað fyrr um nóttina, þetta kom sér mjög vel þarna og var pokunum hennar útbítt meðal sjóveikra.




Heimildir

  • Íbúaskrá Vestmannaeyja 1. desember 1972.