Úr fórum Árna Árnasonar. Verk annarra/Líkræða yfir Árna Árnasyni, Grund

From Heimaslóð
Revision as of 17:34, 31 August 2013 by Viglundur (talk | contribs) (Verndaði „Úr fórum Árna Árnasonar. Verk annarra/Líkræða yfir Árna Árnasyni, Grund“ (‎[edit=sysop] (ótiltekinn)))
(diff) ← Older revision | Latest revision (diff) | Newer revision → (diff)
Jump to navigation Jump to search
Úr fórum Árna Árnasonar


Líkræða yfir Árna Árnasyni, Grund


Fæddur 14. júlí 1870, dáinn 18. jan. 1924.


Húskveðja


Ævidagar vorir eru 70 ár, og þegar best lætur 80 ár. Þeir líða í skyndi og vér fljúgum á burt.
„Ævidagar vorir líða í skyndi,“ segir hebreska sálmaskáldið. Skáldið hefir líklega verið gamall maður. Hann lítur til baka yfir liðna ævi, og honum finnst þá, hún hafa liðið svo undarlega fljótt. Honum sýnist svo stutt síðan, að hann sat sem lítill drengur á knjám móður sinnar. Og þó hefir áreiðanlega margt borið við á hans löngu ævi. Margir atburðir hafa sjálfsagt gjörst, sem hafa vakið gleði og ánægju í sál hans, en margt hefir einnig við borið, sem hefur orsakað sársauka og valdið sorg. Hann hefur átt stundir, er honum fundust langar og lengi að líða. En nú þegar hann lítur til baka yfir liðna ævi, sýnist honum allt hafa orðið með svo mikilli skyndingu.
Atburðirnir þjappast saman og mörgu hefur hann alveg gleymt. Viðburðirnir eru liðnir, lífið hans hefir liðið í skyndi, og nú á hann ekki annað eftir en að hverfa héðan, ,,fljúga héðan burt“ eins og hann kemst að orði, fljúga burt frá öllu hinu jarðneska, allri mæðunni og allri gleðinni, og með sér getur hann ekkert haft, nema þau áhrif, sem viðburðirnir hafa haft á sál hans, á hann sjálfan.
Nú höfum vér safnast saman á heimili eins bróður vors, sem er floginn í burt, sem er farinn héðan, safnast saman til þess að kveðja hann hinsta sinni. Á slíkum stundum finnst mér alltaf eins og einhver rödd kalli til mín: ,,Stansaðu maður, eitt augnablik, líttu til baka yfir liðna ævi og gættu að, hvar þú stendur nú. Mér finnst eins og hrópað sé til mín, þó misjafnlega sterkt, eftir því, hve vel ég þekkti hinn dána. Nú hefir þessi maður hafið sig til flugs, hann er horfinn, farinn héðan. Hver veit, hvenær þú verður að fljúga á stað, leggja á stað þangað, sem enginn á afturkvæmt frá. Stansaðu og athugaðu, hvar þú stendur.“
Nemum nú staðar eitt augnablik við líkbörur hins látna bróður vors. Lítum til baka á hina liðnu ævi vora. Ef vér gjörum það, býst ég við, að fyrir oss fari svipað og hebreska skáldinu, - oss finnst líf vort hafa liðið í skyndi. Hvað líf vort hleypur skjótt, hve stutt er síðan vér hlupum svo létt í lund í barnaleikjum, og þó hefur margt gjörst í lífi vor allra. Misjafnlega margt, eftir því hve gömul vér erum, en eitthvað markvert í lífi vor allra. Byrðar hafa verið lagðar á herðar vorar, sem hafa orsakað áhyggjur eða vakið hryggð í brjósti og margt hefur líka við borið, sem hefur vakið gleði og ánægju. En það er liðið, og vér höldum engu eftir, nema minningunum og áhrifunum, sem viðburðirnir liðnu hafa haft á oss sjálf, á vorar eigin sálir. Og hver hafa áhrifin orðið? Þetta er alvarleg spurning. Áreiðanlega er sá tilgangurinn með öllu því, sem fram við oss kemur, að vér gegnum það þroskumst, færumst nær Guði. Vér skulum reyna að vera hreinskilin við sjálf oss.
Höfum vér gegnum lífsins stríð og lífsins gleði færst nær Guði? Verðum vér minna jarðbundin með árunum, eða verðum vér alltaf bundnari og bundnari því jarðneska og færumst fjær Guði? Hér getur hver og einn aðeins dæmt um sjálfan sig. Vér þekkjum aðeins hinar ytri kringumstæður í lífi meðbræðra vorra, og þær ef til vill aðeins í stórum dráttum. Hið innra líf þeirra þekkjum vér sára lítið. En þótt vér ekki þekkjum hið andlega ástand annarra, nema að litlu leyti, þá er ég þó viss um það, að ef vér erum hreinskilin við sjálfa oss, þá verðum við öll að viðurkenna að oss hefur eigi tekist að nota tímann og tækifærin, sem Guð hefur gefið oss, eins vel eins og vér hefðum átt að gjöra. Oss hefir ekki tekist, í gegnum viðburði lífsins, að þroskast andlega og komast í eins innilegt samband við Guð vorn, eins og skyldi. Vér höfum þó þörf á að minnast alvöru og ábyrgðar lífsins, minnast þess, að það er undirbúningur undir annað líf, og því verðum vér að reyna að nota það vel. Og vér höfum öll þörf á því að stansa eitt augnablik við og minnast þeirra staðreynda, sem vér reyndar þekkjum öll svo afar vel, en gætum ekki alltaf jafnvel að, staðreyndarinnar þeirrar, að ævidagar vorir líða í skyndi, og þó að vér lifðum 70 eða jafnvel 80 ár, þá líður ævin svo ógnar fljótt – og öll verðum vér að hverfa héðan einhverntíma.
Nú erum vér stödd við líkbörur eins bróður vors, sem er horfinn héðan. Sjálfsagt hefir bæði ýmislegt erfitt og ýmislegt gleðilegt hent hann á hans jarðlífsgöngu. Ég þekkti minnst af því. En þegar vér erum stödd á heimili hans til þess að kveðja hann þar hinsta sinni, þá minnumst vér þess sérstaklega, að ein af bestu gjöfum Guðs honum til handa var heimilið hans. Vér, sem eigum heimili, vitum, að gott heimili er dýrmæt gjöf, því að gott heimili er eins og vermireitur, þar sem allt hið besta í mannsálinni þroskast og dafnar. Kærleikurinn, sem þar er ríkjandi, veitir skilyrðin til þess að svo geti orðið. Heimili vor eru vor kærasti staður. Þar er best að vera, það finnum vér öll. Annarsstaðar erum við oft misskilin, en ekki af ástvinum vorum á heimilum vorum, þar erum vér best skilin, þar hvílumst vér, þangað sækjum vér líkamlegan og andlegan þrótt til meiri starfa. Heimili vor, staðurinn, þar sem vér lifum samlífi voru við ástvini vora, mennina, sem skilja oss best, sem elska oss mest, það er vor kærasti staður.
Árni sálugi Árnason átti heimili hér á Grund öll hjúskaparár sín hér á landi, utan 3 hin fyrstu, og þau ár átti hann heima á Búastöðum. Hér var heimilið hans og konunnar hans. Hér hefur hann átt marga ánægjustund í samlífi við konu sína, börn sín og fósturbörn sín, og einnig hér háði hann sitt síðasta stríð við sjúkdóm og dauða.
Innan lítillar stundar verða hans jarðnesku leyfar bornar burt frá hans kæra heimili, út á leið til grafarinnar. Og þegar nú að því er komið, að lík hans skal borið burt frá kæra heimilinu hans, út á leið til grafarinnar, þá flytur hann vinum sínum og ástvinum hina síðustu kveðju fyrir minn munn. Hann þakkar öllum þeim, sem sýndu honum samúð og réttu honum hjálparhönd í síðasta stríði hans. Hann kveður æskuvini sína, mennina, sem hann ólst upp með hér á þessari ey og honum var svo hlýtt til alla ævi. Hann kveður alla sína vini og ættingja og þakkar þeim. Og svo síðast en ekki síst, kveður hann ástvinina sína kæru, konuna sína, börnin sín og fósturbörnin sín. Hann þakkar konunni sinni kæru fyrir alla hjálp hennar og aðstoð á langri samleið, og kveður hana. Hann þakkar börnum sínum og fósturbörnum fyrir allt hið góða, sem honum veittist gegnum þau. Hann þakkar þeim öllum og kveður þau hinsta sinni. Hann þakkar öllum þeim, er honum gott gjörðu og kveður þá.
Heimilisfaðir þessa heimilis er dáinn, hryggð ríkir í hjörtum ástvinanna, en minnist þess að vinurinn yðar er ekki horfinn yður fyrir fullt og allt, heldur aðeins um stundarsakir. Hann hefur aðeins haft vistaskipti, haldið til annarra hýbýla föðurhúsanna, og innan skamms munuð þér einnig komast þangað til hans.
Svo viljum vér biðja þig, himneski faðir, að gefa ástvinum hins látna bróður vors þrótt og kraft til þess að bera sorg sína þannig, að einnig hún megi verða til þess að færa þau nær þér, gjöra þau betri og þroskaðri. Heyrðu þessa bæn vora, himneski faðir, í Jesú nafni

Amen.


Útför


Hjarta yðar skelfist ekki, trúið á Guð og trúið á mig.
Jesús var að kveðja lærisveina sína. Hann vissi að skilnaðarstund þeirra var þegar komin. Hann vissi að innan skamms myndi hann deyja. Á þessari skilnaðarstund segir hann við lærisveina sína: ,,Hjarta yðar skelfist ekki.“ Látið það ei skelfa yður, að ég á bráðlega að deyja, trúið aðeins á Guð og mig. Vér skiljum það svo afar vel, að lærisveinunum hætti til að skelfast, er þeir hugsuðu til þess möguleika að bráðlega hyrfi Jesús frá þeim.
Var ekki ástæða fyrir þá að skelfast, er þeir hugsuðu til þess, að brátt myndi samvistunum við Jesúm vininn þeirra besta, lokið, brátt myndu þeir ekki fá notið návistar hans. Það hlaut að verða mikið tap fyrir þá að missa slíkan vin. Var ekki ástæða fyrir þá að skelfast, er þeir hugsuðu til þess að sjá besta vininn sinn hverfa, deyja, hverfa burt án þess að vita, hvert hann fór, án þess að vita hvert þeir myndu nokkurn tíma sjá hann aftur?
Jesús vildi ekki láta þá skelfast. Hann sagði við þá: „Skelfist ekki, trúið á Guð.“ En vér skiljum svo ögn vel, að þeim hætti til að skelfast, er þeir hugsuðu til þess, að Jesús myndi ef til vill deyja bráðlega.
Þá einnig oss hættir til þess, er vér verðum á bak að sjá vinum vorum og ástvinum. Aldrei finnum vér jafn mikið til og þá, er dauðinn tekur einhvern ástvin vorn. Sjaldan eða aldrei finnum vér jafn mikið til og þá, er samvistunum við vora nánustu, við þá, er oss eru kærastir, hlýtur að vera lokið – í bili. Og aldrei finnum vér betur en þá, hve lífið er alvarlegt og dularfullt.
Vér getum gengið hugsunarlaust, meðan allt leikur í lyndi, meðan vér fáum að halda þeim, er oss eru kærastir, en þegar allt í einu einhver af vorum nánustu er frá oss hrifinn, hrökkvum vér við, og hugsunin vaknar, hugsunin um jarðlífið, hugsunin um það, hvað það er undarlegt og dularfullt, og hugsunin um, hvað við taki. Þá sjáum vér best, hve lítið vér skiljum, hve litlir vér erum, og vér skelfumst. Á slíkum stundum höfum vér þörf fyrir að heyra orðin, sem Jesús sagði við lærisveina sína: „Skelfist ekki, trúið á Guð og trúið á mig, treystið Guði og treystið mér.“ Alltaf höfum vér þörf fyrir að treysta Guði, treysta Jesúm, hér í jarðlífi voru, en aldrei eins og þá, er vér höfum misst einhvern þann, sem oss er kær. Þá höfum vér sannarlega þörf á að treysta því, að ekki sé öllu lokið með dauðanum, treysta því, að vinurinn vor látni lifi og líði nú betur en oss getur liðið á þessari jörð, treysta því, að vér munum aftur fá að sjá hann, aftur notið samvistarinnar við hann. Ef við ekki eigum slíka trú og traust, er svo hætt við að örvæntingin grípi oss á alvörustundum lífsins. Við kristnir menn hryggjumst djúpt, já mjög djúpt, er dauðinn hrífur burt ástvini vora, því að það er ætíð afar sárt fyrir þá, sem unnast, að skilja, en vér skelfumst ekki, vér örvæntum ekki, því að vér trúum og treystum Jesú Kristi.
En það er alltaf sárt fyrir þá, sem unnast, að skilja. Og ég veit, að nú er sár sorgarstund upprunnin fyrir vini og ástvini Árna sáluga Árnasonar frá Grund, sem vér fylgjum til grafar í dag.
Árni sálugi Árnason var fæddur 14. júlí 1870 á Vilborgarstöðum hér í Vestmannaeyjum. Var þar þangað til hann missti föður sinn. Þá fór hann, 4 ára gamall, til hjónanna Árna Einarssonar og og Guðfinnu Jónsdóttur í Austurbæ á Vilborgarstöðum. Þar ólst hann upp.
Er hann var 20 ára gamall, fór hann til Ameríku, og þar giftist hann 29. júní 1893 eftirlifandi ekkju sinni Jóhönnu Lárusdóttur, hreppstjóra á Búastöðum. Eignuðust þau saman 6 börn, tvö dóu í æsku, en 4 eru á lífi, tveir synir og tvær dætur, öll uppkomin og til heimilis hér í Eyjum. Tvö börn tók Árni sálugi í fóstur, voru þau bæði hjá honum er hann dó, og eru bæði innan við fermingu.
Eftir 6 ára dvöl í Ameríku, hélt Árni sálugi aftur heim til Íslands, og hefur dvalið hér í Vestmannaeyjum síðan. Árni sálugi var heilsuhraustur maður þar til fyrir 5 árum, að hann kenndi fyrst sjúkdóms þess, sem nú hefur leitt hann til bana eftir 7 vikna þjáningarfulla legu. Hann dó 18. jan.
Árni sálugi var fjörmaður hinn mesti, meðan hann hafði heilsu, bráðsnar og fylginn sér. Hann fékkst mikið við fuglaveiðar og var sigamaður góður. Einn af þeim, sem oft var með honum við þann starfa áður fyrri, skrifar mér þannig um Árna sáluga: „Fjöll og fjallferðir urðu honum því leikur einn. Hékk hann oft í lausu lofti og lék þar sínar íþróttir, sem liprir fjallamenn einir kunna. Hann mátti því teljast einn af bestu fjallamönnum þessa byggðarlags.“
Söngmaður var Árni góður, enda mjög söngelskur, og var í kirkjukórnum hér í mörg ár.
Þeir, sem þekktu hann, segja, að hann hafi verið ákveðinn kristinn trúmaður, og hafi það snemma komið í ljós allgreinilega. Aðstandendur hans voru nefnilega margir mormónatrúar, þar á meðal móðir hans. Er Árni sálugi var 11 ára, sendi hún honum fargjald, að hann gæti komið vestur til sín. Var Árna sáluga það þvernauðugt. Þó að honum geðjaðist eigi trú mormónanna, varð hann að fara af stað og komst til Reykjavíkur, en þar hjálpuðu þeir Pétur biskup Pétursson og landshöfðinginn honum til að komast úr höndum mormóna og hingað heim til Vestmannaeyja aftur. Og eins og hann, 11 ára gamall drengur, hélt fast við sína kristnu trú, þannig hélt hann fast við hana alla ævi. Trú hans veitti honum þrótt í lífsstríðinu og loks einnig í hinum síðasta sjúkdómi hans, sem hann bar með þolinmæði og stillingu.
Að dómi þeirra, er þekktu Árna sáluga, er með honum horfinn góður drengur, og því hlýtur þeim þessi skilnaðarstund að vera sár, öllum vinum hans, en þó sárust fyrir ástvinina hans nánustu, börnin hans og konuna hans. Þau hafa mest misst.
Missir þessa ástvinar ykkar hefur valdið yður sárs saknaðar og sorgar. En þá vil ég benda yður á þessi orð Jesú: „Hjarta yðar skelfist ekki, trúið á Guð og trúið á mig.„Ég veit ekkert annað, sem getur gefið styrka skilnaðarstund en traustið einlæga, barnslega traustið á Guði vorum og á boðskap Jesú Krists. Ef vér virkilega trúum því, að vinurinn vor látni lifi, ef vér treystum því, að Guð muni leiða bæði hann og oss og leyfa oss að hitta hann síðar, þá tekur það sárasta sársaukabroddinn af. Ég vildi svo gjarnan leggja eftir lifandi ástvinum hins látna þetta á hjarta, eins alvarlega og ég get: Trúið Jesú, treystið Guði, leitið til hans með sorg yðar. Þar er styrk að fá.
Árni sálugi er frá oss horfinn. Hann átti langan starfsdag að baki. Nú kveðjum vér hann og þökkkum fyrir starfið, sem hann vann, fyrir góða framkomu hans. Vér kveðjum hann öll, en þó sérstaklega vinir hans og ástvinir, börnin hans og konan hans, þau þakka honum fyrir allt, er hann fyrir þau gerði, fyrir allt starf unnið í þeirra þágu, fyrir alla ástúðina, sem hann sýndi þeim. Blessunaróskir ástvina hans fylgja honum inn fyrir tjaldskör dauðans.
Árni sálugi er nú horfinn frá oss, hefur flogið til sælli og betri landa, - við sitjum eftir. En vitum, að einnig vér hverfum bráðlega af þessari jörð. Og með von getum vér litið fram til þeirrar stundar. Þá fáum við aftur að sjá ástvini vora, sem farnir eru á undan oss, fáum aftur að lifa með þeim. Því Jesú Kristi viljum vér öll treysta. Já himneski faðir, vér trúum því, að bróðir vor, sem nú er frá oss horfinn, hafi hlotið sælli vist. Vér treystum því, að þú viljir leiða og styrkja ástvini hans í sorg þeirra. Vér treystum því, að vér munum, er vér deyjum, aftur fá að sameinast ástvinum vorum, sem á undan eru farnir.
Himneski faðir! Blessaðu hann, sem er dáinn, ástvini hans, sem eftir lifa og oss öll.

Amen, í Jesú nafni, amen.Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit