Úr fórum Árna Árnasonar. Verk hans og annarra/Erfiður fiskiróður

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 10. september 2013 kl. 22:18 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 10. september 2013 kl. 22:18 eftir Viglundur (spjall | framlög) (Verndaði „Úr fórum Árna Árnasonar. Verk hans og annarra/Erfiður fiskiróður“ (‎[edit=sysop] (ótiltekinn)))
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit




Úr fórum Árna Árnasonar


Erfiður fiskiróður


Fast þeir sóttu sjóinn
og sækja hann enn...


ÓVÍÐA á landi hér mun vera erfiðari sjósókn og hættulegri en frá Vestmannaeyjum. Þar gerast dætur Ránar gömlu ærslafengnari og ágengari við sjómennina en víðast annars staðar við íslenzkar verstöðvar. Óhemjulegar og trylltar leika þær um stríða straumála og sker, flúðir og grynningar, og leika margan sjómanninn grátt með glettni sinni. Þar er ríki Ránar á alla vegu svo þeim mæðgum finnst efalaust, að þær hafi fullan rétt til þess, að valsa þar um í fullum skrúða og haga leik sínum að eigin geðþótta.
En þessi gamla trausta hamraborg, Vestmannaeyjar, er þeim ávallt þyrnir í augum, sérstaklega hin síðari ár, vegna tregðu íbúa hennar að gjalda þann skatt til Ránar ríkis, sem krafinn hefur verið af henni frá alda öðli í mannfórnum. Hinir harðgeru íbúar Eyjanna og samanval sannra karlmenna þangað hvaðanæfa af meginlandinu, hafa með sívaxandi tækni og betri útbúnaði í hvívetna, hrundið æ betur öllum áhlaupum Ránar, brögðum hennar og brellum um skattgreiðsluna.
Eyjamenn eru nú betur búnir í þessari þrotlausu baráttu en þeir voru fyrrum, þegar sjómenn höfðu ekki einu sinni áttavita eða ljóstýru um borð sér til öryggis, miklu betur útbúnir en þeir voru fyrir þrem til fjórum áratugum, þegar engir bátar höfðu þau siglingatæki, sem sjálfsögð og ómissandi þykja í dag. Má þar til nefna örugg ljós, rafmagnsljós, tal- og viðtökustöðvar, dýptarmæli, ratsjá, miðunarstöð og síðast en ekki sízt miklu stærri og traustari báta með aflmiklum vélum, og öllum hugsanlegum tækjum til aukins öryggis.
En þrátt fyrir algera vöntun á hvers konar nauðsynlegum tækjum til sjósóknar og öryggis, héldu Eyjamenn lífsbaráttu sinni á hafinu ótrauðir áfram ár frá ári. Ekki ósjaldan var fetað tæpasta vaðið af óbilandi þori, þreki og þoli, sem þessar kempur höfðu til að bera í ríkum mæli, eiginleikar, sem færðu Eyjamönnum oftar sigurinn heim, því ekki var skatturinn til Ránar ávallt greiddur þó krafinn væri í fullri alvöru og harkalegu návígi.
Hér skal skýrt frá einni slíkri viðureiga. Í henni var allur bátafloti Eyjanna þátttakandi með um 400 manns innanborðs, samanvalið lið Eyjaskeggja og meginlandsverkamanna. Reyndi þá mjög á þessa kjarnakarla og þá ekki sízt þær skipshafnir, sem lágu úti um nóttina. Voru þær alls 19 og lágu ýmist í vari vestan og norðan Heimaeyjar, eftir að hafa brotizt þangað í ofsaveðri eða háðu hörðustu baráttu fyrir lífi sínu á hafi úti í nær þrjú dægur.
Í sjálfri útilegunni voru um 100 manns og er það fjölmennasta útilega í Eyjum síðan 1869, en þá, hinn 25. febrúar, lágu úti 13 áraskip með um 230 menn innanborðs. Fórust þá alls 16 menn, skipshöfnin af „Blíð“ og 3 aðrir.
Vertíðina árið 1928, sem er fræg í sögu sjómanna Eyjanna, var róðrartímum hagað þannig að búið væri að leggja línuna á miðin með birtu. Böjuluktir voru þá ekki komnar til sögunnar. Kæmi fyrir, að bátarnir væru búnir að leggja línuna áður en bjart var orðið af degi, varð að andæfa á færinu þar til dagur var á lofti. Til þess þurfti venjulega tvo menn auk formanns. Gætti þá annar maðurinn færisins í línurúllunni, dró inn eða gaf út eftir því sem við átti, en hinn bar á milli til formanns og lét hann fylgjast með því hvernig færi á.
Eftir að farið var að birta veðurlýsingu og veðurspá á vegum Björgunarfélags Vestmannaeyja í glugga „Söluturnsins“ við Strandveg og sett hafði verið þar upp, af félaginu, sjálfritandi loftvog (Barograf), lögðu formenn oftast leið sína þangað, er þeir fóru til róðra, til athugunar á veðri og vog. Urðu þar oft spjallfundir um veðrið ef menn „voru í vomum“, þ.e. hvort róa skyldi eða ekki. Þegar veðurspáin var vond, stormur eða rok í aðsigi, var hún birt á rauðum þar til gerðum eyðublöðum. Vöktu þau eyðublöð meiri athygli en venjuleg hvít. Þessi rauðu skeyti voru nefnd „stormskeyti“. Ef þau birtust í glugga Söluturnsins tók af allar vomur og spjallfundi formanna lauk.
„Það er rok í honum, ég ræ ekki,“ sögðu þeir, eða eitthvað því líkt, og hver fór aftur til síns heima. Menn trúðu fastlega á veðurspána.
Burtfararmerkið, þ.e. blússið, var þá gefið frá einum bát, sem kjörinn var til þessa starfa af bæjarstjórn kaupstaðarins. Þótti það virðingarstarf hið mesta. Blússið var gefið með björtum ljósblossa, sem bar vel yfir. Olíublautum tvisti var vafið um skaft á t.d. fiskigogg, kveikt í tvistinum og blysinu haldið á lofti stutta stund. Síðan var drepið snögglega á blysinu þannig, að því var dýft í sjóinn.
Hver bátur lá þá við eigin festi á höfninni þar til að blússið kom. Enginn mátti fara af stað í róðurinn á undan því, og lágu refsingar, þ.e. fjársektir, við ef út af var brugðið.
Vel var þess gætt að hafa ekki of mörg vöf af viðlegukeðjunni á pallstyttunni, þegar leið að blússtíma og hafður handfljótur og öruggur maður við að sleppa viðlegubólinu.
„Skjögtbáturinn“, þ.e. þríróinn árabátur, sem hafður var til þess að fara á, milli lands og vélbáts þegar útfiri var og ekki flaut að bryggjunum, sem og til þess, að fara á út í vélbátinn, sem lá við festar sínar á „Botninum“, þ.e. Innri höfninni, og lá þar oftast þegar vélbáturinn fór í róður, honum var haldið þannig, að sem allra fljótlegast gengi að komast af stað og sleppa honum þegar blússið kom. Þetta gekk oftast ótrúlega fljótt fyrir sig. Þess var einnig ávallt gætt að láta vélbátinn „horfa út Leiðina“, þ.e. hafnarmynnið.
Þegar vindur var vestan eða norðvestanstæður, var stundum strítt í ströngu í þessu efni. Viðlegukeðjan var þá færð aftur á og hún fest þar, svo báturinn gæti snúið rétt þegar blússið kom. Þegar það svo birtist, varð allt á flugi og ferð og oft þröng mikil á „Leiðinni“ og yzt í höfninni. Allir vildu verða fyrstir út og hreppa beztu fiskimiðin. Voru bátarnir þá keyrðir áfram með þeirri orku, sem frekast þótti gerlegt, út á bátaleguna og innsiglinguna allt út á „Víkina“, þ.e. Ytri-höfnina. Þar var svo allt sett á fullt, svo sem bátur og vél þoldu.
Oft virtist þessi útsigling bátanna úr Innri-höfninni gerð meir af kappi en forsjá, þar eð „Leiðin“ er þröng milli hafnargarðanna, ekki bein útsigling og bátafjöldinn þess utan 70 til 80 bátar af mismunandi stærðum og ganghraða. Furðu lítið var þó um stór eða alvarleg brot á bátum í þessum ærslagangi, þó hins vegar kæmi fyrir ekki ósjaldan minni háttar árekstrar og allharðir pústrar, er ollu einhverjum skemmdum, braki og brestum, hrópum og köllum skipverja með mergjuðum orðahnippingum milli báta. Þó orkaði þetta meir sem græskulaus orðaleikur heldur en alvarlegar ásakanir, sem gleymt var um leið og það varð til.
Austur á „Skansi“ og frammi á haus syðri hafnargarðsins, mátti oft sjá fólk á öllum aldri, sem beinlínis vakti fram á róðrartíma bátanna eða vaknaði til þess að sjá bátaflotann leggja úr höfn á góðviðrisnóttum. Það þótti fögur sjón og tilkomumikil, að sjá hann upplýstan eftir föngum þeysast út „Botninn“, bátaleguna, út um hið þrönga hafnarmynni í kolsvarta myrkri aðeins máske hálfan meter frá hafnargarðshausnum. Þar stóð fólkið og hrópaði velfarnaðarkveðjur til sjómannanna, sem stóðu í hálfrökkri á dekkinu, nema þegar ljósgeislar hafnargarðsvitans klufu myrkrið með ljósgeisla sínum nokkur augnablik í einu.
Þarna þutu bátarnir áfram hlið við hlið, stefni við stafn í óslítandi röð. Vélarnar stynjandi, suðandi og hljóðandi í ýmiss konar hljómföllum, hátt og hvellt, dimmt og mjúklega. „Leiðin“ varð eins og uppbólginn, hvítfaldandi straumáll frá átökum skrúfunnar og hvarvetna á bátunum voru menn með stuðpúða og stjaka, viðbúnir ef næsti bátur yrði of nærgöngull. Þá var betra að vél bátsins hikaði ekki í gangi eða stöðvaðist. Henti það, hlutu næstu bátar að lenda á hinum bilaða og gat þá ekkert forðað, hvorki stjórnkænska skipstjórans og lipurð eða stuðpúðar og stjakar, broti, jafnvel á fleiri bátum en þeim eina, sem bilaði. Hættast var gangtregum bátum að verða fyrir, ef þeir lentu framarlega í flotanum. Þeir stærri og gangfrekari ráku á eftir. Var engu líkara en þar geystust frískir og óstýrilátir unghestar, sem reiðmennirnir hefðu lítt taumhald á eða ekkert. Já, það var augnayndi Eyverja að sjá bátaflotann leggja úr höfn í róður, sjón, sem ekki gleymdist skjótlega.
Nú er þetta á annan hátt, síðan bátaflotinn má fara út á Ytri-höfnina og bíða þar burtfararmerkisins. Það er nú gefið með rafmagnsljósi frá landi og ber vel yfir.
Á þeim árum, sem hér um ræðir og vertíðina 1928, voru flestir bátar óraflýstir. Einstaka höfðu þó einn rafgeymi og frá honum eitt eða tvö ljós. Þóttu þetta miklar gersemar, sem alltof fáir bátar voru aðnjótandi.
Rafgeymar þessir eyddust fljótt að innihaldi og voru þess vegna sparaðir til notkunar. Þeir fengust hlaðnir á rafstöð bæjarins og höfðu starfsmenn hennar ekki svo lítil aukastörf þeirra vegna. En þeir þekktu þörfina fyrir gott ljós á sjónum og létu aukavinnu sína í té af fúsum vilja og endurgjaldslaust. Það voru þeir Dalabræður, Sveinbjörn, rafstöðvarstjóri, Vilhjálmur og Hjálmar Jónssynir ásamt Oddgeiri Þórarinssyni.
Slík raflýsing var mikil þægindi, öryggi og framför frá kerta og olíuluktunum, sem mjög erfitt var að láta lifa ljós á í illviðrum, roki og sjógangi.
Morguninn þann 11. febrúar 1928 var SA-kaldi í Eyjum, sennilega um 5 vindstig á nútíma mælikvarða. Formenn lögðu að venju leið sína að glugga Söluturnsins við Strandveg til athugunar á síðustu veðurfregnum veðurstofunnar. Í glugganum var ekkert rautt stormskeyti og Barografinn strikaði pappírinn nokkurn veginn jafnt, en þó aðeins niður á við. Allir formenn fóru þess vegna óhikað í róður og héldu til yztu fiskimiða er þá voru sótt á línuveiðum. Það voru fiskimiðin suður og vestur af „Súlnaskeri“, „Geirfuglaskeri“ og nokkuð vestur fyrir „Einidrang“. Byrjuðu flestir bátarnir ferð sína suður með „Urðunum“, þ.e, austurströnd Heimaeyjar, og hafa sennilega flestir ætlað sér suður og vestur fyrir nefndar úteyjar. Einstaka bátur hélt þó norður fyrir „Klettinn“, þ.e. YztaklettHeimaklettEiðið og vestur fyrir „Einidrang“ og var það venjuleg leið á þau fiskimið.
Eins og aðrir bátarnir fór mb. „Hansína“ VE 200 í róður þessa nótt. Bátur þessi var 12 tonn að stærð, traustur og góður súðbyrðingur. Formaður á bátnum var Eyjólfur Gíslason frá Eystri-Búastöðum, Eyjólfssonar. Eru þeír feðgar kunnir Eyjamenn frá fiskveiðum og fjallaferðum.
Eyjólfur hélt langt vestur fyrir „Hryggi“, sem kallað er, þ.e. í útsuður. Vesturferðin gekk að óskum og ekkert sérlegt kom fyrir.
Þar var svo línan lögð. Voru það 12 bjóð 6 strengja, sem var almenn línulengd í þann tíma framan af vertíð. Venjulegur lagningstími hennar var einn til einn tími og 20 mínútur.
Þegar nú lagningu línunnar var lokið, var þegar kominn þunga vindur af SA og töluverð sjókvika. Dimmt var til lofts og sýnilegt að stormur var í aðsigi. Línan var þess vegna ekki látin liggja lengur en 30 mínútur eða rétt á meðan verið var að hita kaffi og drekka það í flýti, en þá farið að draga hana. Var strax sæmilegur fiskreitingur á henni og hélzt það alljafnt. Fengu þeir alls 505 þorska og töluvert af ýsu og smáfiski, sem ekki var talið. Fimm sinnum slitnaði línan í drættinum, svo að honum var ekki lokið fyrr en klukkan hálffjögur eftir hádegi.
Þá var kominn rokstormur af SA með slyddubyl. Gerðu þeir þá sjóklárt. Allt lauslegt, sem út gat tekið, var látið niður í lestina svo sem línubelgirnir með ávöfðum bólfærum eins og þá tíðkaðist. Ekki var þá siður að hafa segl yfir lestarlúkunni, en hins vegar skálkar viðhafðir og notaðir í slæmu veðri.
Var nú tekin stefna til lands og stýrt í austur. Hvergi sá til kennileita, en öll landsýn horfin í bylsortann. Um kl. 4 fór björgunarskipið „Þór“ (elzti Þór) fram hjá Hansínu. Hafði hann tvö flögg í lóðréttri línu uppi milli mastra, er gaf til kynna að veðurstofan spáði illviðri. Hjá mb. „Hansínu“ var allt í bezta lagi, svo að Þór hélt þá vestureftir til aðstoðar öðrum Eyjabátum og eftirlits með þeim.
Um klukkan fimm rofaði til stutta stund og sáu þeir á Hansínu þá, að stefna þeirra var austan til á „Álsey“ vestan Heimaeyjar og var sú stefna látin standa. Þá var komið mjög hart veður, rokstormur, mjög mikill sjór og varð því oft að „slá af“. Báturinn var súðbyrtur, sem fyrr segir, og mjög erfiður í mótkeyrslu en að öðru leyti afburða góður bátur. Klukkan hálfsjö voru þeir komnir austur að „Álsey“ eftir því er þeir vissu bezt. Ekki sáu þeir þó eyjuna vegna þess, hve snjódrífan var mikil. Sást ekki nema örskammt frá bátnum enda var og næturmyrkrið farið að segja til sín. Hins vegar þóttist Eyjólfur þess fullviss, að hann væri rétt vestan við Álsey og réði það af rokhviðunum, sem gengu yfir hjá þeim, tiltölulega sléttum sjó og, hve lengi þeir höfðu keyrt frá því að þeir sáu eyjuna um kl. fimm. Þetta reyndist líka rétt ályktun formanns.
Heimferðinni var nú haldið áfram í þeirri von að ná að „Smáeyjum“ vestan Heimaeyjar og frá þeim austur undir „Eiði“ í var fyrir veðurofsanum. Þetta er stutt leið en hefur oft reynzt sjómönnum erfið og hættuleg í austan illviðrum.
Kl. hálfátta hættu þeir að keyra áfram, en héldu upp í veðrið. Voru þeir þá komnir í svo til sléttan sjó, en harðar og strjálar rokhviður rak á annað slagið. Var bylurinn og myrkrið þá svo mikið að skipverjum þeim er skyggnivakt höfðu, kom saman um að ekki sæist lengra frá bátnum en máske 1 til 2 faðma. Treysti Eyjólfur sér þess vegna ekki til þess, að taka landkenningu, þar eð á þessari leið eru stórhættuleg sker og boðar, sem mörgum manninum og bátnum hefur orðið að fjörtjóni fyrr og síðar.
Þessa vertíð hafði Eyjólfur fengið einn 6 volta rafgeymi til lýsingar á Hansínu. Voru tengd við geyminn tvö ljós. Annað var notað við lagningu línunnar og tengt við bíllukt. Gaf það góða birtu og reyndist sæmilega gott kastljós. Hitt ljósið var notað við áttavitann í stýrishúsinu, en þar notuð aðeins 2ja til 3ja kerta ljósapera úr vasaljósi. Sem fyrr getur var farið mjög sparlega með þessi ljós, þar eð ekki entist á rafgeyminum nema aðeins nokkra róðra. Tíðarandinn leyfði ekki að bruðlað væri með þessa gersemi sjómannsins, ljósið.
Eftir að hafa andæft þarna nokkra stund, kom bátur fast upp að borðinu á Hansínu, utan úr myrkrinu. Brá Eyjólfur þegar upp kastljósinu og sá að bátur þessi var mb. „Skógafoss“ VE 236. Formaður hans var Jónas Sigurðsson frá Skuld í Eyjum, Oddssonar, kunnir formenn á sinni tíð í Eyjum.
Hjá þeim á mb. Skógafossi var þannig ástatt þessa nótt, að ekki lifði á neinu ljósi ofanþilja eða í stýrishúsinu, utan ein togböjulukt uppi á stýrishúsinu, sem sýndi hvítt ljós í allar áttir. Þeir á Hansínu voru að þessu leyti miklu betur staddir. Hjá þeim lifðu hliðar- og toppljós. Mátti það gott heita þótt afturljósið vantaði. Þar var að venju notuð svonefnd hænsnalukt, en í þetta skipti tóku þeir hana og settu inn í toppluktina, sem var mjög stór, í stað olíulampans. Á honum var ómögulegt að hemja ljós er báturinn hjó vegna öldugangsins.
Báðum varð þeim Eyjólfi og Jónasi líkt hugsað, er þeir hittust þarna. Það var, að reyna að hafa samfylgd. Í því fælist mikið öryggi auk þess að stytta tímann að einhverju leyti, þótt vitanlega yrði ekki um neitt samtal að ræða í þessum veðurham.
Þessi óveðursnótt reyndist þeim báðum og mörgum öðrum mjög erfið, löng og ógleymanleg. Báðir stóðu þeir alla nóttina við stýrið, með alla glugga og hurðina opna á stýrishúsinu, starandi út í myrkrið, hríðina og særokið. Fleiri báta urðu þeir varir við, báta, sem ekki höfðu náð landi. Varð þess vegna að viðhafa ýtrustu gætni á öllu, ekki sízt að varast árekstra frá bátum, sem gátu komið einhvers staðar úr sortanum, sem lá alveg við borðstokkinn.
Klukkan 6 til 7 um morguninn lægði storminn mjög mikið en snjókoman og myrkrið hélzt áfram. Ekki batnaði aðstaða þeirra við það þótt lygndi, þar eð þá var ekkert til að átta sig á. Var þess vegna útilokað að leita lands fyrr en birti vel af degi. Meðan rokið hélzt, höfðu þeir alltaf haldið upp í veðrið, þar til að byljirnir urðu harðari og strjálli og sjóinn fór að slétta. Reiknuðu þeir þá með því, að vera vestan við eða inn af „Smáeyjum“. Mun það og hafa verið rétt ályktað. Nú þegar lygndi, mátti búast við að þeir drifu eitthvað töluvert af leið og vestur fyrir Eyjarnar.
Sunnudagsmorguninn 12. febrúar, strax og birti af degi, fóru fyrstu bátarnir er úti höfðu legið, að koma í höfn, en það voru eftirtaldir bátar:
Bliki VE-143, formaður Sigurður Ingimundarson, Skjaldbreið.
Emma VE-219, formaður Eiríkur Ásbjörnsson, Urðavegi 41.
Enok VE-l64, formaður Sigurður Bjarnason frá Stokkseyri.
Geir goði VE-10, formaður Guðjón Jónsson, Heiði.
Gissur hvíti VE-5, formaður Guðlaugur Brynjólfsson, Odda.
Glaður VE-270, formaður Sigurður Þorsteinsson, Nýjabæ.
Gúlla VE-267, formaður Benóný Friðriksson, Gröf.
Ísleifur VE-63, formaður Ársæll Sveinsson, Fögrubrekku.
Kristbjörg VE-70, formaður Grímur Gíslason, Felli.
Ófeigur VE-217, formaður Jón Ólafsson, Hólmi.
Pipp VE-1, formaður Magnús Jónsson, Sólvangi.
Rap VE-14, formaður Sigurður Bjarnason, Hlaðbæ.
Sigríður VE-240, formaður Eiður Jónsson, Holti.
Sísí VE-265, formaður Guðmundur Vigfússon, Holti.
Skallagrímur VE-231, formaður Ólafur Vigfússon, Gíslholti.
Stakksárfoss VE-245, formaður Finnbogi Halldórsson frá Siglufirði.
Þessir bátar höfðu allir hlotið versta veður um nóttina. Höfðu þeir sumir legið undan Eiðinu, inn „undir Kambinum“ eða undan Ofanleitishamri í vari.
Þegar leið á morguninn vantaði enn 3 báta, sem úti höfðu legið en það voru:
Hansína VE-200, formaður Eyjólfur Gíslason, Búastöðum.
Skógafoss VE-236, formaður Jónas Sigurðsson, Skuld.
Sleipnir VE-280, formaður Sveinn Jónsson, Landamótum.
Um þessa báta hafði ekkert frétzt, síðan „Þór“ mætti Hansínu um eftirmiðdaginn á laugardeginum og voru menn farnir að óttast mjög um afdrif þeirra.
Strax um morguninn, er birta tók, fór björgunarskip Eyjanna, „Þór“, og tveir íslenzkir togarar, er voru við Eyjar að leita bátanna, samkvæmt beiðni manna í landi.
Í sama mund fóru útlegubátarnir að koma í höfn, hver eftir annan, sem fyrr getur, nema þeir þrír. Heimkoma þeirra drógst enn og voru menn mjög uggandi um hag þeirra. En um kl. 11 kom „Sleipnir“ heilu og höldnu að bryggju og vantaði þá aðeins Hansínu og Skógafoss.
Klukkan mun hafa verið um 10, þegar annar togaranna fór fram hjá nefndum bátum og hélt hann þá til norðvesturs. Þá var enn mikil snjódrífa, en bátarnir farnir að leita lands og stýrðu í SSA. Skömmu síðar stytti upp og sáu útilegufélagarnir þá, að þeir voru á réttri leið og höfðu stefnu að Eiðinu. Hafði þá hrakið undan veðrinu og voru komnir inn og norður af „Þrídröngum“. Gekk nú allt vel um stund og keyrt með allgóðri ferð í áttina heim. En ekki var öllu erfiði þessara tveggja báta enn lokið, þó mikið væri afstaðið.
Skömmu eftir að heimkeyrslan byrjaði, bilaði vélin í Skógafossi og komst ekki í lag. Var því ekki annað að gera en Hansína tæki hann á drátt. Ekki var þetta sérlega álitlegt, en það varð þó að gerast. Þrátt fyrir mjög erfiðar aðstæður tókst giftusamlega að koma dráttartaug á milli bátanna og hófst síðan síðasti þáttur þessarar hörðu útilegu, þ.e. heimdráttur Skógafoss. En allt gekk vel og drógu þeir bátinn nokkuð á aðra klukkustund án þess nokkurt sérlegt óhapp vildi til og komu í heimahöfn kl. 13.30 12. febrúar, síðastir allra.
Lauk þar með þessari erfiðu og eftirminnilegu útilegu Eyjamanna.
Síðasti báturinn, sem kom í höfn um kvöldið þann 11. febrúar, var mb. „Lundi“ VE-141, er þá var 14 smálesta tvístöfnungur. Þegar hann var á miðri „Víkinni“, þ.e. ytri höfninni, rétt utan við syðri hafnargarðinn, slokknuðu öll rafljós í bænum og um leið á vita hafnargarðsins, sem tengdur var þá við bæjarkerfið. Allt varð hulið glórulausu myrkri, særoki, og hríðarbyl, svo varla sá út úr augunum og stórsjór svo að „Leiðin“ var mjög aðgæzluverð til innsiglingar. Ekki þótti gerlegt að snúa við þarna og þess vegna haldið áfram inn í höfnina þótt lagt væri á tæpasta vaðið. En hvoru tveggja var, að báturinn var afbragðs góður í sjó að leggja og formaðurinn snilldar sjómaður og stjórnari, svo allt fór vel. Formaður á mb. Lunda var Þorgeir Jóelsson á Sælundi Eyjólfssonar, einn af þekktustu formönnum Eyjanna.
Umrætt laugardagskvöld og alla nóttina var svo mikið rok, snjókoma og myrkur að menn, sem stóðu við hús gömlu Brydesverzlunarinnar, aðeins nokkra metra frá sjónum og ca. 100 metra frá innleið bátanna í höfnina, og skyggndust eftir bátunum, sáu ekki eða heyrðu til Lundans, er hann kom inn í höfnina. Var báturinn þó með ljósum, vélina í fullum gangi og hún all hávær.
Þannig lauk þessari bátaflestu og fjölmennustu útilegu Eyjamanna, sem orðið hefur í tíð vélbátaútgerðarinnar og einum af mörgum erfiðum fiskiróðrum þeirra. Allir komust að síðustu heilir í heimahöfn og manntjón varð ekkert. Er það með ólíkindum miðað við veðurofsann, stærð bátanna og allan öryggisútbúnað, sem að nútímamati var mjög ábótavant á öllum sviðum.
Daginn eftir, mánudaginn 13. febrúar, rauk aftur upp með ofsaveður og sjógang. Voru þá allflestir Eyjabátar í róðri utan þeir er síðastir komu í höfn úr útilegunni daginn áður. Það var með naumindum, að bátaflotinn náði í höfn úr þessum mánudagsróðri, þótt björgunarskipið Þór og erlendir togarar veittu þeim ómetanlega aðstoð. Hefði að öðrum kosti orðið um stórslys að ræða á mönnum og bátum. Einn bátur fórst í því veðri, mb. Sigríður VE-240, sem rak upp í Ofanleitishamar síðla um kvöldið. Bjargaðist áhöfn bátsins á síðustu stundu upp á stall í Hamrinum, en báturinn brotnaði í spón. Það var þá sem vélstjórinn, Jón Vigfússon frá Holti í Eyjum, kleif snjófylltan „Hamarinn“ og bjargaði með því félögum sínum frá ömurlegum dauðdaga. Var það einstætt og ótrúlegt afrek og frægt mjög, enda var Jón sæmdur verðlaunum úr hetjusjóði Carnegies.
Störf íslenzkra sjómanna eru erfið og hættuleg, ekki sízt í Vestmannaeyjum, þar eð úthafið í veldi sínu umlykur þær. Þar eru mjög harðir straumálar, boðar, flúðir og sker á næsta leiti, sem tugum sjómanna hafa orðið að grandi fyrr og síðar. Oft hafa sjómenn Eyjanna teflt lífinu á tæpasta vaðinu í þessari erfiðu baráttu við æst náttúruöflin og því aðeins borið sigur af hólmi, að til Eyjanna hafa alla tíð valizt úrvals sjómenn, bæði sem búendur þar og vermenn. Það eru þeir kjarnakarlar, sem hafa gert Vestmannaeyjar að stærstu verstöð landsins, verstöð, sem launar konunglega orku og hættuþrungin störf í þágu lands og þjóðar og gerir verstöðina eftirsóknarverðari en aðrar.

„Þroska glæður Eyja arfs
öðrum gæði tryggja.
Gegnum æðar orku, starfs,
allir þræðir liggja.“
Vestmannaeyjum, 20. maí 1958.

Ofanritað er skráð með leyfi og eftir frásögn Eyjólfs Gíslasonar, formanns á mb. Hansínu. — Á.Á.


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit