Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1999/ Stefna skal tekin. Hver er við stýrið?

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 2. mars 2017 kl. 12:34 eftir Karibjarna2 (spjall | framlög) Útgáfa frá 2. mars 2017 kl. 12:34 eftir Karibjarna2 (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit

Séra Bára Friðriksdóttir
Stefna skal tekin. Hver er við stýrið?

Ég sit við gluggann og horfi út á haf. Myrkrið er að skella á. Roði á himninum sér fyrir því að Smáeyjarnar teiknast enn í hafflötinn. Það er dimmt úti við sjóndeildarhring, utan þess að ein og ein gul ljóstýra hreyfist í rökkrinu. Það eru loðnubátar rétt utan við Smáeyjarnar og hjarta mitt tekur kipp af fögnuði. Loðnan er hér rétt við bæjardyrnar og sjómennirnir okkar farnir til að sækja gull í greipar Ægis.
Það þýðir velsæld fyrir bæinn, mikla vinnu og hagnað. Höggið kom eftir á, loðnan var lítil og léleg, markaðsverð lágt og nóg um byrðir. Þannig getur lífið verið, sýnd veiði en ekki gefin. Þann veruleika hafa sjómenn nær sér en flestar aðrar stéttir. Lífið getur verið ólgandi hamingja þegar vel fiskast og brotsjór gerir ekki usla. Á sama hátt verður þröngt í búi þegar varla kemur fiskur úr sjó. Að ekki sé minnst á sorgina þegar brotið tekur einhvern með sér í vota gröf.
Þessi nálægð sjómannsins við náttúruna kallar á vissa auðmýkt sem er hverjum manni holl. Auðmýkt þess sem skilur og skynjar að hann er ekki eingöngu sinn eigin herra. Það er svo margt utanaðkomandi sem getur haft áhrif á líf okkar, það er svo margt sem við ekki getum stjórnað. Þá ríður á að við lærum að greina á milli þess sem við getum eða eigum að stjórna og hins sem ekki er á okkar valdi. Sá maður er farsælli í lífinu sem leggur allt sitt í Drottins hönd og lærir að stjórna eigin lífi. Utanaðkomandi öfl hafa alltaf áhrif á umhverfi okkar, en þau eiga ekki endanlega að stjórna lífi okkar, þar þarf hver maður að gæta að sér.
Sjávarútvegurinn spilar stórt hlutverk í íslensku efnahagslífi og hefur áhrif inn á hvert heimili í landinu. Hátt hlutfall sjávarafla í útflutningi okkar gerir það að verkum að hárskerinn, presturinn og hjúkrunarfræðingurinn finna til þess eins og sjómaðurinn eða útgerðarmaðurinn ef afli bregst til lengdar. Það er bæði lán okkar og ólán hvað sjávarútvegurinn spilar stórt hlutverk í íslensku efnahagslífi.

Lánið liggur í því að veiðin sé mikil og jöfn. Til þess að svo sé þarf góða stýringu og mikla umhverfisvernd, því með ofveiði eða lélegri nýtingu aflans er þjóðin að höggva undan sér fótinn um hábjargræðistímann.
Ólánið felst í því að þegar of mörg egg eru í sömu körfunni má lítið út af bregða. Sveiflur verða miklar og geta komið hart niður á fólki. Annar og nýr vandi blasir við, þjóðin er farin að deila svo um auðlindir hafsins að við liggur að við slítum í sundur friðinn. Fyrir eittþúsund árum deildu forfeður okkar um hvort hér ætti að ríkja heiðni eða kristni. Niðurstaðan er öllum kunn. Menn tókum höndum saman um að hér yrðu ein lög, einn réttur, því ekki vildu menn slíta í sundur friðinn. Þá var setið á rökstólum, enn er setið á rökstólum og hafa margar þjóðir litið upp til okkar fyrir þá leið Íslendinga að ræða saman, komast að niðurstöðu og fylgja henni, í stað þess að berast á banaspjót.

Um þessar mundir eru að verða kaflaskil í íslenskum sjávarútvegi. Tekist er á um auðlindir hafsins. Ekki eru allir á eitt sáttir um hverjir séu eigendur fisksins sem syndir í sjónum. Hagsmunaaðilar deila jafnvel á dómarann og kvótalaus almenningur telur sig hlunnfarinn. Undirrituð hefur áhyggjur af framvindunni því ekki er vænlegt að etja ólíkum hagsmunahópum saman til lengdar þegar svo stórt mál liggur fyrir. Stjórnvöldum ber skylda til að ná sátt með þjóðinni þannig að einn sé ekki hlunnfarinn frekar en annar. Sjávarútvegurinn hefur það djúpstæð áhrif á efnahagskerfið að þjóðin hefur ekki efni á að horfa upp á stór mistök í afgreiðslu þessa máls. Mistökin verða ef eingöngu verður horft til hagsmuna annars hópsins. Þá verður slitinn í sundur friðurinn, þjóðin verður ekki ein heldur talar tveimur tungum og farsæld lands og þjóðar verður eftir því. Við erum örsmá þjóð innan um aðrar þjóðir og allt eigum við undir sjávarútvegi. Stjórnvöld verða að standa vörð um hagsmuni heildarinnar svo að áfram verði byggilegt hér á hjara veraldar.
Fyrir fáum árum stjórnaðist gengi íslensku krónunnar af ganginum í sjávarútvegsfyrirtækjum landsins. Afleiðingin, fyrir alla landsmenn, var há verðbólga. Stjórnvöld eru hætt að stýra genginu út frá þessu gengi og samt er staða sjávarútvegs betri en oft áður. Öðrum og nýjum leiðum var beitt og árangurinn var til góðs fyrir land og þjóð. Enn á ný er hægt að finna leiðir til að sætta ólík sjónarmið, þar hvílir ábyrgð stjórnvalda hverju sinni.
Öldufall sjávarútvegsins mun stjórna ýmsu í lífi Íslendinga um ókomin ár. Það má þó ekki stjórna öllu og þegar upp er staðið ber hver ábyrgð á sjálfum sér. Okkur ber hverju og einu að stjórna lífi okkar, sjálfum okkur og öðrum til góðs. Það er ærið verkefni og fáum ferst það mjög vel úr hendi. Eina eigum við fyrirmynd, Jesú Krist. Hann sýndi okkur hvernig við eigum að lifa, en meira en það. Jesús er okkur bróðir og systir, hann stendur þétt með okkur þegar á móti blæs. Hann stynur með okkur þegar enginn finnst aflinn. Grætur með okkur þegar engin sýnist lausnin. Bendir okkur á leiðir þegar við erum tilbúin að hlusta. Gefur okkur kraft þegar við ætlum að hníga. Jesús Kristur er þeim allt í öllu sem leita hans og læra að lúta handleiðslu hans.
Þannig stígur Jesús ölduna með okkur og við með honum. Þegar öldufallið hans nær yfirhöndinni ríkir jafnvægi og stjórn.

Ég óska öllum Vestmannaeyingum til hamingju með sjómannadaginn og bið þeim Guðs blessunar.
Séra Bára Friðriksdóttir prestur í Landakirkju