Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1998/Í útgerð með óbilandi bjartsýni og þúsund krónur í vasanum - Svipmyndir af Ársæli Sveinssyni

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Guðmundur Sv. Hermannsson

Í útgerð með óbilandi bjartsýni og þúsund krónur í vasanum
Svipmyndir af Ársæli Sveinssyni á Fögrubrekku

Það er drepið á skrifstofudymar hjá Gísla J. Johnsen, útgerðar- og verslunarmanni í Vestmannaeyjum, dag einn árið 1912. Fyrir utan stendur 18 ára unglingur með stóra framtíðardrauma. Gísli býður honum sæti og spyr hvað hann geti gert.
„Geturðu ekki pantað fyrir mig bát?" segir unglingurinn.
„Fyrir hvern?" hváir Gísli.
„Fyrir mig" svarar ungi maðurinn.
„Fyrir þig, áttu nokkuð?" spyr Gísli.
Þá dregur unglingurinn þúsund krónur upp úr vasanum og leggur á borðið. „Það hefur margur byrjað með minna" segir Gísli, sem sjálfur var aðeins um tvítugt þegar hann hóf verslunarrekstur og útgerð. Hann afræður að hjálpa unga manninum og útvegar honum 10 tonna mótorbát frá Danmörku, smíðaðan í Frederikssundi, en stærri báta fluttu dönsku póstskipin ekki hingað til lands. Kominn í heimahöfn kostar báturinn 7.955 krónur og útgerðarmaðurinn ungi, og meðeigendur hans tveir, skulda því mestallt bátsverðið. Hann ákveður því að skýra bátinn sinn viðeigandi nafni: Skuld.

Þannig hóf Ársæll Sveinsson á Fögrubrekku í Vestmannaeyjum útgerð sína sem átti eftir að vaxa og margfaldast eftir því sem árin liðu. Og auk þess að standa fyrir umfangsmiklum fyrirtækjarekstri var Ársæll einn af forustumönnum bæjarfélagsins um áratuga skeið. Hér á eftir er þess freistað að draga upp svipmynd af þessum manni þótt augljóslega sé um lauslegt riss að ræða. Stuðst er við ritaðar og munnlegar frásagnir þeirra sem þekktu hann og einnig við viðtal við Ársæl sem birtist í Morgunblaðinu árið 1968.

Ársæll Sveinsson fæddist í Uppsölum í Vestmannaeyjum á gamlárskvöld árið 1893, sonur hjónanna Sveins Jónssonar trésmiðs, sem ættaður var frá Steinum undir Eyjafjöllum, og Guðrúnar Runólfsdóttur húsmóður sem ættuð var frá Maríubakka í Vestur-Skaftafellssýslu. Systkinin urðu fimm, Sveinn, Sigurveig, Júlíana, Ársæll og Sigurður. Fjölskyldan fluttist að Sveinsstöðum í Vestmannaeyjum þar sem Ársæll ólst upp. Sveinn, faðir Ársæls, virðist ekki hafa unað hag sínum vel í Vestmannaeyjum þótt hann og fjölskylda hans hefðu komið sér þar ágætlega fyrir. Þegar Ársæll var fimm ára gamall hélt Sveinn einhverra erinda til Reykjavíkur með millilandaskipi eins og þá tíðkaðist, kom aldrei aftur til Eyja og skildi við Guðrúnu skömmu síðar. Í Reykjavík varð Sveinn umsvifamikill byggingarmeistari og byggði þar hús sem enn standa. Þá stofnaði hann timburverslunina Völund ásamt öðrum og rak lengi í félagi við Svein son sinn sem tók síðar við fyrirtækinu. Sveinn Jónsson giftist þrívegist eftir að hann fór til Reykjavíkur en eignaðist ekki fleiri börn. Þau Guðrún höfðu lítil samskipti eftir þetta en báru þó gagnkvæma virðingu hvort fyrir öðru alla ævi.

Í Vestmanneyjum sat Guðrún Runólfsdóttir eftir með börn sín, það yngsta aðeins nokkurra mánaða gamalt. Meðlag með fimm börnum var um 250 krónur yfir árið sem hrökk eðlilega skammt og Guðrún hóf því fiskverkun og útgerð báts í félagi við aðra og tók einnig að sér hjúkrun erlendra sjómanna. Þá urðu börnin snemma að hjálpa við að draga björg í bú. Ársæll sagði síðar frá því að á heimilinu hefði ekki verið neinn íburður í meðlætinu en alltaf verið nóg að borða.
Þessar aðstæður hafa vafalaust sett mark sitt á börnin á Sveinsstöðum. Ársæll og systkini hans þurftu snemma að hjálpa við að draga björg í bú og hann þróaði með sér ríka ábyrgðartilfinningu og heiðarleika og þá staðfestu vissu að hægt væri að sigrast á öllum erfiðleikum með vinnusemi, áræði og bjartsýni.
Guðrún Runólfsdóttir mun hafa verið ákveðin kona og eru til sögur um það. Enskur togari var eitt sinn tekinn í landhelgi við Vestmannaeyjar. Afli bátsins var gerður upptækur og boðinn upp og Guðrún fór til uppboðsins ásamt Ársæli syni sínum, og nokkrir karlar komu einnig til uppboðsins.
Fiskurinn var settur í hrúgur með 100 fiskum í hverri og hófst uppboðið með því að boðnar voru upp þrjár hrúgur. Þá stökk Guðrún fram með krepptan hnefann og sagði: „Bjóðið þið á móti konunni?" Karlarnir tóku sér nokkurt hlé en gengu síðan til hennar og spurðu: „Guðrún á Sveinsstöðum. Hvað ræður þú við mörg boð?" Það kom nokkuð á Guðnínu en eftir nokkra umhugsun sagðist hún ráða við sex boð og þau fékk hún.

Vélbátaöld í Eyjum
Um þessar mundir varð mikil breyting á útgerð í Vestmannaeyjum þegar vélbátar tóku við af árabátum. Fyrsti vélbáturinn kom til Eyja árið 1904 og fékk nafnið Eros en var kallaður Rosi. Hann var rúm 3 tonn að þyngd með svonefndri Möllerupsvél, í eigu Gísla J. Johnsens, Ágústs Gíslasonar og Sigurðar Sigurðssonar. Báturinn gekk ekki að vonum eigendanna og sérstaklega var vélin ógangviss og hávaðinn af henni illþolandi enda enginn hljóðkúturinn. Það kom fljótlega í ljós að Rosi var ónothæfur til veiða á vetrarvertíð. En sama sumar kynntist Þorsteinn Jónsson útgerðarmaður í Laufási vélbáti á Seyðisfirði sem virtist reynast betur og ákvað ásamt fjórum mönnum öðrum að kaupa 7,23 tonna vélbát með 8 hestafla Danvél sem nefndur var Unnur. Sama ár sótti Sigurður Sigurfinnsson hreppstjóri 14 tonna vélbát til Noregs. Reynslan af bátunum var góð, bæði voru mun færri menn í áhöfn þegar ekki þurfti að róa og vélbátarnir gátu oft róið þegar aðrir urðu að sitja heima. Því fjölgaði vélbátunum ört í Eyjum eftir þetta: árið 1907 voru þeir orðnir 18 og yfir 30 árið eftir.
Þegar vélbátaöldin hófst í Eyjum var tekin upp sú nýjung að ráða drengi til að hjálpa til við að beita línuna og áttu þeir að beita tvö bjóð hver þegar róið var. Fyrstu beitudrengirnir voru ráðnir árið 1905 á Unni, þeir Ársæll Sveinsson og Hannes Hansson í Landakoti, sem voru báðir 11 ára, og Jóhann Pálmason í Stíghúsi sem var 9 ára. Til er mynd sem tekin var af beitustrákunum þremur 61 ári síðar.
Næstu þrjú árin var Ársæll beitningadrengur á útvegi móður sinnar og hann sótti einnig fyrsta mótornámskeiðið sem haldið var í Vestmannaeyjum á vegum Fiskifélagsins. Á sumrin reri hann, eins og fleiri unglingar, á smáferjum með Ólafi í Nýborg og Jakobi Tranberg. Ársæll hafði mikinn hug á að stunda framhaldsskólanám og vildi fara í Verslunarskólann í Reykjavík. Sveinn faðir hans hljóp undir bagga, eins og hann gerði þegar börn hans vildu til náms, og Ársæll settist í Verslunarskólann 17 ára gamall um haust og var í skólanum fram að jólum. Þá fór hann heim til Eyja í jólaleyfi, það var komin vertíð og sjórinn kallaði auk þess sem heimilisaðstæður voru erfiðar og skyldan bauð Ársæli að vinna. Það varð því úr að hann fór ekki aftur í skólann.

Útgerð og formennska
Og nú var útgerðarsaga Ársæls að hefjast. Ársæll eignaðist fyrsta bátinn, Skuld VE 163, árið 1912 og átti hann að hálfu á móti Sveinbirni Jónssyni frá Dölum og Jóni Ingileifssyni í Reykholti sem var formaður á Skuldinni fyrstu þrjár vertíðirnar. Sjálfur var Ársæll vélstjóri, eða mótoristi eins og það var kallað þá, í þrjú ár en tók síðan við formennsku og var sex vertíðir með Skuldina.
Ársæll þótti snemma efnilegur og kappsmikill formaður og sækja sjóinn með góðu samblandi af gætni og hörku. Það var eftirsótt að vera hjá Sæla, eins og hann var kallaður, og sumir hásetar hans voru með honum alla formannstíð hans, í tvo áratugi.
Hann var raunar aflasæll á fleiri sviðum en þorskveiðum og segir sagan að þegar Heimalandið var opnað fyrir lundaveiði árið 1917, eftir 30 ára friðun, var Ársæll einn 24 veiðimanna sem stunduðu þar lundaveiði um sumarið. Hann var næsthæstur veiðimanna og munaði aðeins 100 fuglum á veiði hans og Jóns Péturssonar frá Þorlaugargerði sem var annálaður lundaveiðimaður. Hjá þeim báðum var sumarveiðin um 50 kippur eða um 5.000 fuglar.

Ársæll eignaðist sinn annan bát, Frans VE 159, árið 1919. Þetta var 10 tonna eikarbátur sem hann keypti af Gunnari Ólafssyni & Co. Og árið eftir seldi hann gömlu Skuld og lét smíða 16 tonna bát í Danmörku í félagi við Sigurð bróður sinn og Magnús Ísleifsson í London. Ársæll fór til Frederikshavn í júní 1921 til að sækja bátinn en brá heldur í brún þegar þangað var komið því aðeins var búið að leggja kjöl og bönd. En þá var drifið í að smíða bátinn og einum mánuði og þremur dögum síðar fór Ársæll með nýja Skuld VE 263 til Íslands og var formaður á bátnum næstu sex ár.

Ísleifarnir grænu
Árið 1927 seldi Ársæll Skuldina og keypti sinn fyrsta Ísleif. Þetta var 30 tonna eikarbátur, smíðaður í Reykjavík árið 1916, og var búinn línulagningarrennu, þeirri fyrstu Í Eyjabát. Þetta þótti mikil tækninýjung sem gerbreytti línulengdinni og þar með aflabrögðum og létu allir aðrir smíða slíka rennu í báta sína. Báturinn hafði verið á Ísafirði en Ársæll keypti hann af Landsbankanum í Reykjavík. Síðar sagði Ársæll svo frá:
„Ég fór til Reykjavíkur til að ganga frá kaupunum og þar sem ég var á gangi á götu stoppaði mig maður og spurði mig hvort ég væri ekki Ársæll Sveinsson. Ég játti því og þetta var þá Magnús heitinn Thorberg en hann hafði átt Ísleif áður. Hann sagði mér að þetta væri happafleyta og bað mig um tvennt í sambandi við bátinn: Að breyta ekki nafninu Ísleifur og ekki heldur litnum á bátnum sem var grænn. Hvort tveggja hef ég haldið og það hefur reynst mér vel. Og reyndar hef ég gætt Litarins svo vandlega að ég hef látið mála nýmálaða báta aftur, ef mér hefur eitthvað þótt athugavert við litinn."
Það reyndist rétt sem Magnús Thorberg sagði að Ísleifur var happaskip. Ársæll var formaður á Ísleifi í þrjár vertíðir og fékk á honum sinn stærsta róður, um 8.000 fiska í fjórar 15 neta trossur. Alls eignaðist Ársæll fimm Ísleifa áður en yfir lauk. Þann síðasta, 243 lesta stálskip, sótti hann til Noregs árið 1967, þá 73 ára gamall, og sigldi honum heim en þetta skip, sem þótti þá eitt glæsilegasta fiskiskip íslenska flotans, bar sama nafn og númer og sá fyrsti: Ísleifur VE 63. Það skip, sem nú ber þetta nafn, er m.a. í eigu Leifs, sonar Ársæls, sem haldið hefur sömu venju og faðir hans og lætur mála bátinn grænan og gulan; raunar er sérstakt málningarnúmer geymt í Slippfélaginu með rétta græna litnum.

Haldið í land
Upp úr 1930 stóð heimskreppan sem hæst og þá voru erfiðir tímar í íslenskum sjávarútvegi. Ársæll stóð um tíma tæpt eins og aðrir útgerðarmenn, en komst af vegna þess að hann var sjálfur við formennsku. En eitt af mörgum fórnarlömbum kreppunnar var velgjörðarmaður Ársæls, Gísli J. Johnsen, sem var með umsvifamikla útgerð í Vest¬mannaeyjum og í Reykjavík auk þess sem verslun hans átti mikið undir sjávarútvegi. Árið 1930 voru eignir Gísla seldar nauðungarsölu að kröfu viðskiptabanka hans og Gísli fluttist frá Vestmannaeyjum þar sem hann hafði um árabil rekið eina stærstu verslun á Íslandi.
Ársæll seldi Frans árið 1930 en keypti árið eftir nýjan 13 tonna bát, Sísí, og var með hann í þrjú ár en fór þá í land til að sinna stöðugt umfangsmeiri rekstri fyrirtækis síns. Ársæll hafði frá upphafi útgerðar sinnar verkað aflann af bátum sínum sjálfur og fékk húsnæði við Formannasund og hafði þar fiskverkun þar til hann byggði sjálfur fiskverkunarhús við Strandveg.

Þetta fyrsta fiskverkunarhús Ársæls kom nokkuð við sögu bæjarstjórnar Vestmannaeyja síðar.
Formannasund var í upphafi óhrjálegt króasund og árið 1930 var ákveðið að breikka götuna. Þetta þótti einhver erfiðasta vegarlagning í Eyjum því að mikið þurfti að sprengja til að ná nægilegri breidd. Finnbogi Rútur Þorvaldsson verkfæðingur, faðir Vigdísar Finnbogadóttur fyrrv. forseta, gerði teikningar að götunni, en hann vann mikið við hafnargerð og hafnarviðgerðir í Eyjum á þessum árum. Gatan var skýrð upp og nefnd Formannabraut eftir andlitslyftinguna. Leyft var að tvö hús við götuna mættu standa, fiskhús Ársæls og verslunin Boston þar sem Einar Sigurðsson hóf verslun sína. Húsin tvö stóðu þó lengur en ætlað var í fyrstu því að Boston var rifið 1964 og fiskhúsið 1969. Formannabraut fór svo undir hraun í gosinu árið 1973. Við Strandveg rak Ársæll timburverslun sem hann stofnaði árið 1925, skipasmíðastöð ásamt dráttarbraut sem stofnuð var árið 1941 og þar var einnig skrifstofuhúsnæði og verbúð. Þegar árin liðu varð Ársæll umsvifamesti útgerðarmaður í Eyjum og til viðbótar þeim bátum, sem þegar hafa verið nefndir, eignaðist hann Ísleif II VE 36, 59 lesta eikarbát, árið 1954 og Ísleif III VE 336, 59 lesta eikarbát, árið 1955, báða í félagi með Lárusi og Sveini sonum sínum. Með þeim átti hann einnig Guðrúnu VE 163, 49 lesta eikarbát, sem fórst við Landeyjasand árið 1953 og var það eini báturinn í eigu Ársæls sem hlaut þau örlög. Einn átti Ársæll Leif VE 200, 19 lesta eikarbát, frá 1940 til 1950, Gísla J. Johnsen VE 100, 25 lesta eikarbát, frá 1957 til 1967, og Ísleif IV, 216 lesta stálskip, sem hann keypti árið 1964.

Forusta í bæjarstjórn
Eins og er með marga athafna- og hugsjónamenn tók Ársæll mikinn þátt í félagsstörfum hvers konar, þó einkum eftir að hann kom í land. Hann settist í hafnarnefnd Vestmannaeyja árið 1929 og sat þar í þrjá næstu áratugi, oftast sem formaður. Þá var hann kosinn í bæjarstjórn Vestmannaeyja fyrir Sjálfstæðisflokkinn árið 1938 og sat þar til 1962, þar af var hann forseti bæjarstjórnar árin 1954-62. Hann var einnig um árabil framkvæmdarstjóri Björgunarfélags Vestmannaeyja, hann var formaður Bátaábyrgðarfélags Vestmannaeyja og var fulltrúi á fiskiþingi svo að eitthvað sé nefnt. Ársæll hafði ákveðnar pólitískar skoðanir. Þannig mun honum ekki hafa líkað vel að lengi var Alþýðuhúsið eina samkomuhúsið í Vestmannaeyjum, sérstaklega eftir að elstu börn hans fóru að komast á legg og sækja þar samkomur. Hvort sem það var ástæðan eða ekki beitti hann sér af krafti fyrir byggingu Samkomuhúss Vestmannaeyja sem var vígt árið 1938 og vann sjálfur við byggingu þess, fékk fólk til að leggja byggingunni lið gegn hlutabréfum í húsinu, og fór einnig í ferðir til Reykjavíkur til að afla efnis og fjármagns og gekkst í ábyrgð fyrir lánum til byggingarinnar. En í störfum sínum í bæjarstjórn gætti hann þess að mismuna ekki um bjóðendum sínum eftir stjórnmálaskoðunum. Petrónella, dóttir hans, minnist þess að eitt sinn kom kona að Fögrubrekku, gerði boð fyrir Ársæl og spurði hann allæst hvernig hann gæti hugsað sér að vinna með þessum kommúnistum í bæjarstjórninni. Ársæll spurði á móti hvort henni dytti í hug að hann ætti bara að sinna sjálfstæðismönnum. Sér bæri skylda til að sinna öllum bæjarbúum, í hvaða flokki sem þeir væru.
Bæjarfulltrúar leituðu gjarnan ráða hjá Ársæli þótt hann og sjálfstæðismenn væru í minnihluta því að menn töldu sig geta treyst því að hann réði þeim heilt. Hins vegar mun Ársæll hafa þótt nokkuð einráður þegar hann var í meirihluta og hlusta lítið á minnihlutamenn eða taka undir tillögur þeirra, og sjalfsagt hefur hann ekki heldur alltaf spurt samflokksmenn sína álits. Hvað sem því leið kaus bæjarstjórnin hann einróma heiðursborgara Vestmannaeyja á sjötugsafmæli hans árið 1963, en í nærri átta áratuga sögu bæjarstjórnarinnar hafa aðeins átta einstaklingar hlotið þennan heiður.

Við höfum einhver ráð
Hafnarmálin voru meginviðfangsefni Ársæls í bæjarstjórninni. Hafnarskilyrði í Vestmannaeyjum voru ekki upp á marga fiska eftir að bátarnir fóru að stækka, eins og Ársæll þekkti vel af eigin raun, einkum eftir að hann fékk Ísleif. Sérstaklega voru skilyrði til löndunar slæm. Bæjarstjórnin samþykkti árið 1934 að kaupa dýpkunarskip en undirbúningur að þeim kaupum var raunar langur. Upp úr því kom mikill skriður á hafnarframkvæmdir í Eyjum og Ársæll sagði síðar að dýpkunarskipið, sem hafnarnefndin gaf nafnið Vestmannaey, hefði verið besti banki Vestmanneyinga.
Eitt þeirra verka, sem Ársæli var einkum þakkað, var viðgerð á syðri hafnargarðinum sem skemmdist árið 1942 í vetrarbrimi. Brotnaði 10 metra langt og 3 metra breitt stykki og féll fram og kom mikil glufa í garðinn. Samþykkti bæjarstjórnin að láta fara fram viðgerð og var leitað til Ársæls að hafa umsjón með framkvæmdinni, sem hann gerði ásamt Axel Sveinssyni verkfræðingi. Til að fylla glufuna var lagður vegur upp í blágrýtisskriðu vestan við Fjósaklett og mulningurinn fluttur fram á hafnargarðinn. Þangað var einnig flutt steypuhrærivél og hrærð í henni steypa sem sett var í fjóra stóra poka sem kallaðir voru pylsur. Pylsunum var svo komið fyrir í glufunum og stórgrýti sett meðfram þeim. Þetta var mikið verk og dýrt og tók nokkra mánuði og á meðan sást Ársæll lítið heima hjá sér nema á matmálstímum.
Þá hvatti Ársæll mjög til þess að hefju framkvæmdir við uppfyllingu fyrir botni hafnarinnar þar sem nú er Friðarhöfn.

Guðlaugur Gíslason, sem lengi starfaði með Ársæli í bæjarstjórninni, skrifaði síðar að það sem einkenndi Ársæl, sérstaklega í sambandi við afskipti hans af hafnarframkvæmdum í Eyjum, hafi einkum verið þrennt. Hann hafi verið raunsær, verkséður og óvenjulega bjartsýnn og óragur þótt djarft væri teflt. Þegar hann mætti á fundum, hvort heldur voru nefndarfundir eða í bæjarstjórn, hafi hann borið með sér hressandi blæ sem örvaði til athafna og daða. Iðulega, þegar verið var að ræða fyrirhugaðar hafnarframkvæmdir og menn verið með vangaveltur um áætlun Vitamálaskrifstofunnar um heildarkostnað og hvernig ætti að komast fram úr því, þá enduðu þær bollaleggingar með því að Ársæll sagði: „Piltar. Við skulum ekki vera að eyða meiri tíma í þetta. Ef við höfum tök á að kaupa hið erlenda efni, sem með þarf, og koma því heim, þá höfum við einhver ráð með að koma því fyrir og framkvæma verkið." Og það gekk alltaf eftir.
Þessi persónueinkenni Ársæls komu oft í ljós. Þegar ákveðið var að byggja nýtt áhaldahús bæjarins árið 1954 var það teiknað 10 metra breitt og þegar grafa átti fyrir grunninum kom Ársæll, sem þá var forseti bæjarstjórnar á staðinn. Hann skrefmældi húsbreiddina og sagði: „Húsið er of mjótt, við breikkum það um tvo metra." Þetta var gert og eftir að húsið var tekið í notkun átti Ársæll oft leið þangað inn, skrefmældi þá stundum 10 metra, kallaði í næstu menn og sagði: „Haldiði það sé munur að hafa þessa tvo metra aukalega!"

Bjartsýnin var raunar eins konar lífsmottó Ársæls. Hann sagði eitt sinn að það væri ekki dýrast að vera fátækur, það væri dýrast að vera ekki bjartsýnn og skorta von. Því ættu allir leggjast á eitt og draga fram ljósu hliðarnar í lífsbaráttunni og sýna landinu, fólkinu og hafinu alúð í samskiptum og verkum. Ársæll var einnig gæddur ríkri kímnigáfu og hafði gaman af góðlátlegri stríðni. Ef hann var þungur á brún var það oftast vegna þess að veðurguðirnir voru honum ekki hagstæðir. Sjálfur sagðist hann alltaf hafa verið deigur við að róa í vondu veðri því það gerði ekki neitt gagn. „Veðrið varð annar hluti af manni og það fór margt eftir því" sagði hann.

Líf og fjör á Fögrubrekku
Ársæll festi ráð sitt snemma. Árið 1913 sá hann unga stúlku í bænum sem honum leist vel á. Þetta var Laufey Sigurðardóttir, 18 ára gömul, sem hafði þá skömmu áður komið til Vestmannaeyja til að vinna á Franska spítalanum svonefnda, en systir hennar, Lilja, var búsett í Eyjum. Laufey var ættuð af Suðurnesjum en ólst upp hjá fósturforeldrum í Reykjavík. Ársæll leitaði Laufeyju uppi og það leið ekki á löngu áður en þau ákváðu að giftast. Ársæll sagði síðar að hann hefði krækt í konu sína með dósaávöxtum. Svo ung hjónaleysi þurftu sérstakt konungsbréf til að fá að giftast. Það fengu þau Ársæll og Laufey og gengu í hjónaband 31. desember 1913, á tvítugsafmæli Ársæls. Þau byrjuðu búskap í kjallaranum í Kirkjulandi hjá hjónunum Láru Guðjónsdóttur og Birni Finnbogasyni, en fljótlega hófu þau að byggja eigið hús, Fögrubrekku við Vestmannabraut, þar sem þau bjuggu æ síðan. Á Fögrubrekku var nóg að snúast enda margt í heimili. Börn þeirra Laufeyjar og Ársæls urðu níu. Elstur var Lárus Ársæll, fæddur 1914 en hann lést 1990, þá Sveinn fæddur 1915 en hann lést 1968, Guðrún fædd 1920 en hún lést 1927, Petrónella fædd 1921, Ásta Skuld fædd 1925 en hún lést 1928, Guðrún Ásta fædd 1929 en hún lést 1977, Leifur fæddur 1931, Guðný Lilja fædd 1933 og Ársæll fæddur 1936. Það tíðkaðist lengi að útgerðarmenn veittu húsaskjól þeim aðkomuvertíðarmönnum sem unnu við útveg þeirra. Þetta gerði Ársæll allt fram á fimmta áratuginn þegar hann byggði verbúð við Strandgötu, og því var oft þröngt á þingi á Fögrubrekku. Mest munu hafa verið 24 karlmenn í heimili fyrir utan fjölskylduna og þá var matast við langborð og þurfti að tví- eða þrísitja til borðs. Á meðan sátu börnin á gólfinu og biðu þess að fá mat því að mennirnir gengu fyrir. Það var lítið næði en reynt að leysa úr hvers manns vanda. Eitt sinn kvartaði vermaður yfir því að geta hvergi sest niður til að skrifa bréf. Laufey sagði honum þá að fara upp í svefnherbergi þeirra hjónanna sem var nánast eini staðurinn í húsinu þar sem ekki var krökkt af fólki.

Börnin voru snemma látin taka þátt starfinu enda nóg að gera í tengslum við atvinnureksturinn. Þau voru vakin klukkan sjö á morgnana og send til þeirra verka sem vinna þurfti í það og það skiptið: út á stakkstæði að stakka, breiða fisk, vinna í heyskap en Ársæll hélt kýr og hesta, stafla timbri o.s.frv. Þá var nóg að gera við heimilisstörfin, þvo þvott, elda mat og hugsa um kostgangarana.
Ársæll hefur sjálfsagt verið nokkuð strangur faðir á nútímamælikvarða og hann ætlaðist til þess að börn sín leggðu mikið á sig, en þó ekki um of og brýndi m.a. fyrir þeim að taka ekki fleiri fiska á börurnar en þau hefðu handleggi til. Og í endurminningunni er barnæska þeirra fyrst og fremst skemmtilegur tími og stöðugt líf og fjör. Þegar synir hans fjórir komust á legg fóru þeir allir til starfa við rekstur fyrirtækjanna. Laufey lést árið 1962 eftir langvinn veikindi og þá tók Ásta að sér húsmóðurskyldurnar á Fögrubrekku. Þótt margt breyttist við fráfall Laufeyjar hélt Ársæll áfram þeim sið, sem þau höfðu haft alla búskapartíð sína, að bjóða fjölskyldum þeirra til veislu að Fögrubrekku á gamlárskvöld.
Undir það síðasta voru þetta mannmargar samkomur þegar barnabörnin og barnabarnabörn höfðu bæst í hópinn. Þessar samkomur voru tilhlökkunarefni þeirra yngstu allt árið. Þar var matast við langborð í stofunni og eftir matinn settist fólk að spilum og öðrum skemmtunum langt fram eftir nóttu. Á miðmætti var haldin mikil flugeldasýning í garðinum þar sem gjarnan fóru á loft afgangar af skiparakettunum úr bátunum.
Síðustu æviárin átti Ársæll við veikindi að stríða en ekkert dró úr áhuga hans a sjónum og öllu því sem honum tengdist. Ásta ók Arsæli reglulega í Fordinum hans á bryggjurnar og á hverjum morgni var það hans fyrsta verk að fara með kíki í litla útsýnisgluggann á norðurvegg Fögrubrekku og fylgjast með bátunum.

Ársæll lagðist sína síðustu legu um páskaleytið 1969. Honum líkaði illa að vera í rúminu þegar vetrarvertíðin stóð sem hæst og sagði við Lilju dóttur sína: ,,Liggur ekki Ársæll í leti og það er páskahrota!" En hann réð ekki við manninn með ljáinn frekar en aðrir og lést 14. apríl 1969, 75 ára að aldri.

Við ritun þessarar greinar var m.a. stuðst við eftirtaldar ritaðar heimildir:
Saga Vestmannaeyja I—II. Sigfús M. Johnsen. Reykjavík 1989.
Við Ægisdyr I-II. Haraldur Guðnason. Reykjavík 1991.
Aldahvörf í Eyjum. Þorsteinn Jónsson. Vestmannaeyjar 1958
Íslensk skip 1-4. Jón Björnsson. Reykjavfk 1990.
Það er dýrast að skorta bjartýni. Rætt við Ársæl Sveinsson útvegsbónda á Fögrubrekku í Vestmannaeyjum. Árni Johnsen. Morgunblaðið 1968.
Ársæll Sveinsson útgerðarmaður Vesmannaeyjum - minning. Guðl. Gíslason. Morgunblaðið 1969.
Heiðursborgari Vestmannaeyja Ársæll Sveinsson útgerðarm. Páll Scheving. Fylkir 1969.
Aldarminning. Ársæll Sveinsson útgerðarmaður. Davíð Ólafsson. Morgunblaðið 1993. Ómerkt grein eftir E.G. (Einar Gíslason).