Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1981/Brot um útgerð í Eyjum fyrr á öldum og upphaf vélbátaútgerðar

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Brot um útgerð í Eyjum fyrr á öldum og upphaf


Greinarhöfundur

Höfundur þessarar greinar, Guðmundur Björnsson, sonur Sigurjónu Ólafsdóttur og Björns Guðmundssonar útgerðarmanns frá Miðbœ, valdi sér sem ritgerðarefni -upphaf vélbátaútgerðar í Vestmannaeyjum og ritaði þá eftirfarandi grein, er hann lauk stúdentsprófi 1972.
Það á vel við að birta hana í þessu blaði, þegar 75 ár eru liðin frá þeim atburðum sem höfundur segir frá.
Ritstjóri.

Að fortíð skal hyggja
ef frumlegt skal byggja.
Án fræðslu þess liðna
sést ei hvað er nýtt.

Svona litu fyrstu vélbátarnir út
Fiskiskip fyrir upphaf vélbátaútgerðar

Þessar ljóðlínur Einars Benediktssonar skálds ætla ég að hafa mér að leiðarljósi, og rekja í stuttu máli, hvernig ástandið var í útgerðar- og atvinnumálum Eyjabúa fyrr á öldum.
Megin áherslu ætla ég þó að leggja á lok 19. aldar og upphaf 20. aldar. Ég tel, að með því að lýsa atvinnuháttum og útgerð á þessum árum sjáist best, hversu gífurleg bylting átti sér stað við upphaf línuveiða og tilkomu vélbátsins. Það ber að hafa hugfast, að hér er farið fljótt yfir sögu, enda er hér aðeins um að ræða brot, eða mjög stutt ágrip af útgerð í Eyjum eins og nafn ritgerðarinnar bendir til.

l.


Snemma hafa landnámsmenn gert sér grein fyrir því, hvílíkur kjörstaður Vestmannaeyjar hafa verið til matfanga og notfært sér það eftir bestu getu. Í Landnámu segir, að áður en byggð festist í Vestmannaeyjum „var þar veiðistöð, en engra manna veturseta".
Eftir að land var numið þar um 930, er eðlilegt að álíta, að útgerð hafi farið vaxandi með aukinni byggð.
Þess ber að geta, að heimildir um fiskveiðar og aðrar athafnir Vestmanneyinga á næstu öldum eru mjög skornar við nögl, en vitað er, að Eyjarnar komust í eigu Skálholtsstóls um miðja 12. öld, og voru það þar til konungur er talinn hafa slegið eign sinni á þær, einhvern tíma á fyrstu áratugum 15. aldar.
Skálholtsstóll hélt þó áfram útgerð í Eyjum allt fram yfir siðaskipti. Má það ráða af minningargreinum Gissurar biskups Einarssonar 1540-1546.
Árið 1413 bannaði Eiríkur af Pommern alla verslun og viðskipti við erlenda menn, nema þeir hefðu leyfi konungs upp á vasann.
Lítil áhrif virtist þetta bann konungs hafa haft á Eyjamenn, því að þeir seldu Englendingum nær alla skreið sína, þannig að bændur áttu ekkert eftir upp í landsskuldir sínar til konungs.
Undu Danir þessu illa að vonum, og var sendur her til Eyja 1425. Englendingar reyndust yfirsterkari og héldust fiskveiðar og verslun þeirra í Vestmannaeyjum enn um langa stund.
Um miðja 16. öld var skreiðarverð mjög hátt, og var því gróðvænlegt að reka útgerð og verslun í Vestmannaeyjum. Þessar aðstæður leiddu til þess, að Kristján III. kom á fót útvegi og verslun þar fyrir eigin reikning 1558. Englendingar virðast þó ennþá hafa haldið uppi einhvers konar leyni útgerð í Eyjum. Á það bendir taka tveggja skipa (í lok 16. aldar), af fógeta konungs við Vestmannaeyjar, sem enskur kaupmaður, Reymond King átti.
Þessi maður viðurkenndi að hann ætti nokkra fiskibáta í Vestmannaeyjum. Virðast þeir hafa verið gjörðir út þar í nafni einhverra Eyjaskeggja. Kristján konungur III. lagði ríkt á það við verslunarstjóra sína, að þeir héldu úti sem flestum skipum. Voru nú ýmsar hömlur lagðar á útgerð Eyjabúa, meðal annars voru þeir skyldaðir að róa á skipum konungs, en setja eigin skip á hóla. Þetta ófremdarástand leiddi til þess, að um 1586 áttu Vestmanneyingar engin vertíðarskip.
Ástandið hélst svipað þessu næstu aldir, Eyjaskeggjar, eins og aðrir landsmenn, voru mergsognir og þjakaðir af einokunarvaldinu og sulturinn gapti við dyrum hvers manns.
Í ársbyrjun 1787 voru íbúar í Eyjum 237 alls, og enn átti þeim eftir að fækka, um aldamótin eru þeir komnir niður í 173.
Þessar tölur sýna betur en flest annað það ástand sem ríkti í atvinnumálum Eyjaskeggja síðustu áratugi 18. aldar og fram á 19. öld.
Um miðja 19. öld (1849) voru 11 vertíðarskip, sem voru í eigu héraðsmanna, gerð út frá Eyjum, og 12 skip sem nærsveitarmenn áttu. Lengst af 19. öldinni mun tala skipa hafa verið þessu lík.
Þó varð sú breyting á, eftir því sem leið á 19. öldina, að hinum stærri skipum fækkaði með hverju ári sem leið, þegar þau gengu úr sér, og varð ekki haldið út til sjóróðra.
í stað þeirra voru ekki byggð stór skip að nýju, heldur teknir upp litlir bátar, jul, eða bátar með færeysku lagi.
Þessu til staðfestingar má benda á tölur um skipastól Vestmanneyinga 1884.
Þá ganga til fiskjar frá Eyjum 5 áttæringar, 10 sexæringar og 36 tjóræringar. Tíæringar eru horfnir af sjónarsviöinu.
Þorsteinn Jónsson frá Laufási, er lengi var formaður í Eyjum, og hefur ritað bækur um sjómennsku sína þar, telur, að fyrir hvarfi stórskipanna hafi legið aðallega tvær ástæður og eru þær þessar: Setningur þessara stóru skipa var ekki fyrir neinar veimiltítur, þegar það er haft í huga, að menn komu meira og minna þrekaðir að landi, oft í köldum og nöprum vetrarveðrum.
Svo var uppsetningurinn illræmdur, segir Þorsteinn, að til hans var vitnað, er eitthvert erfiði þótti úr hófi keyra. „Það er nærri því eins og versti fjörusetningur" var oft sagt.
Skip rneð færeyska laginu voru auk þess mun gangbetri en stórskipin, og mun það hafa ráðið úrslitum.

Friðrik Svipmundsson, Löndum
Geir Guðmundsson, Geirlandi
2.


Einhver hákarlaveiði mun hafa verið stunduð frá Eyjum hér áður fyrr, en sú útgerð var aldrei mikil.
Hámarki náði hákarlaútgerðin á 19. öld, enda hafði þá verð á hákarlalifur hækkað mjög á heimsmarkaðinum. Vestmanneyingar eignuðust þilskip til þessara veiða, en því miður reyndust þau ekki þola sjóa við Eyjar og fórust flest eftir skammt útihald, með allri áhöfn. 1906 var síðasta árið, sem þilskip gekk frá Eyjum til fiskjar.

Þorsteinn Johnson, Jómsborg var eigenda fyrsta vélbátsins.
Þórarinn Gíslason, Lundi
Þorsteinn Jónsson, Laufási.
3.


Mér þykir rétt að geta hér stofnunar merks félagsskapar, Skipaábyrgðarfélags Vestmannaeyja, sem hóf göngu sína 26. janúar 1862.
Þessi samtök bátaeigenda áttu eftir að verða Eyjunum mikil lyftistöng, ekki aðeins með því að gera útgerð tryggari, heldur einnig með því að styrkja ýmsar aðrar framkvæmdir, sem stuðluðu að bættum hag manna og uppbyggingu Vestmannaeyja.
Stofnun þessara samtaka átti hvergi á landinu sína hliðstæðu nema á Ísafirði. en þar var stofnað 1853 ábyrgðarfélag fyrir þilskip, en leið undir Iok 1862. Í Norðra (31. mars 1854) er sagt frá stofnun ábyrgðarfélags Ísfirðinga, og síðan sagt um þá: „þetta vottar meðal annars, hve miklir ágætismenn Ísf. eru í vilja sínum, samtökum, mætti og framkvæmdum. Eins ættu menn annars staðar á landinu, að geta stofnað stærri og smærri félög fyrir skip sín".
Ekki er ólíklegt, að þessi ummæli hafi haft áhrif á Bjarna E. Magnússon sýslumann, og aðra þá er stóðu að stofnun Skipaábyrgðarfélags Vestmannaeyja. Ég álít þó að hin hryllilegu sjóslys, sem átt höfðu sér stað við Eyjar fyrr á árum, hafi verið sú dýrkeypta reynsla, sem ýtt hafi við mönnum og stuðlað að stofnun félagsins.
Ekki leið sá áratugur, að ekki færust eitt eða fleiri skip, og slysaárin frægu 1685 og 1757 fórust yfir 50 manns í hvort skipti. 1833 ferst skip með 14 mönnum, 1834 drukknuðu 13 menn og 1858 fórust 19 manns. Má nærri geta hversu geysileg blóðtaka þessi slys hafa verið fyrir ekki stærra byggðarlag en Vestmannaeyjar.
Með tilkomu Skipaábyrgðarfélagsins og tryggingu skipanna höfðu börn og ekkjur hinna drukknuðu von með að verða sér úti um annað skip, og voru því ekki eins bjargarlaus og ella hefði verið, ef engar skaðabætur hefðu verið greiddar.
Þegar vélbátaútgerð hófst í Vestmannaeyjum árið 1906, stóð nokkur styrr um það, hvort taka skyldi vélbáta í ábyrgð. Vélbátarnir voru að sjálfsögðu mun dýrari en opnu skipin, og gömlu mennirnir höfðu megnustu ótrú á þessum drápsfleytum.
Svo fóru leikar að þau tvö vélskip, sem gerð voru út frá Eyjum 1906, voru ótryggð. Þar sem þau reyndust ágætlega þótti sjálfsagt að taka þau í ábyrgð strax árið 1907 og aðra þá vélbáta sem gerðir voru út frá Eyjum þá vertíð.
Skipaábyrgðarfélagið sem breytti um nafn 1906 og var þá nefnt Bátaábyrgðarfélag Vestmannaeyja, hefur síðan starfað með blómlegum hætti allt fram á okkar daga.

4.


Handfæri var framan af eina veiðarfærið, sem notað var í Eyjum.
Venjulega var færið 60 faðmar að lengd, en oft var það mun styttra, t.d. voru færin komin niður í 40 faðma á 18. öld. Helsta breytingin, sem varð á handfærinu í rás tímans, var sú, að farið var að nota blýsökkur í stað vaðsteins, sem eingöngu mun hafa verið notaður fyrstu aldirnar. Línuveiðar er talið, að Eyjaskeggjar hefji á 15. öld eftir Englendingum, sem stunduðu þá veiðar við Eyjar, eins og fyrr er getið. Árið 1585 kæra Vestmanneyingar Englendinga fyrir upptekt á veiðarfærum, og kemur þar vart annað veiðarfæri til greina en lína.
Notkun línu til fiskveiða virðist svo hafa lagst nær alveg niður næstu aldir, og varð það ekki fyrr en seint á 19. öld, að hún var tekin upp aftur svo nokkuð kvæði að.
Því hafði lengi verið haldið fram, að línunotkun væri ekki möguleg við Eyjar sökum mikilla strauma. Þegar Vestmanneyingar fara að leita til Austfjarða yfir sumarmánuðina til atvinnuleitar, um og eftir 1890, kom það í ljós, að víða við Austfirði voru straumar mun harðari en gerðist í Vestmannaeyjum. Þó virtist línunotkun heppnast þar mjög vel.
Einnig má benda á það, að Englendingar höfðu um langan aldur stundað línuveiðar við Eyjar með ágætum árangri. Margir urðu því til þess að spyrja, hvers vegna Eyjaskeggjar gætu ekki reynt þetta líka. Þó hefði þessi nýjung að líkindum dregist til 1898, að því er Þorsteinn í Laufási telur, ef ekki hefði hent óvænt atvik. Í lok ágústmánaðar 1896 strandaði hér eimknúinn línuveiðari frá Hull á skeri skammt frá Eyjum. Mannbjörg varð, og einnig tókst að bjarga öllum veiðarfærum. Englendingar seldu síðan alla línuna á uppboði í Eyjum, og fór hún á frekar vægu verði.
Þrír formenn hlutu hnossið, þeir Gísli Lárusson í Stakkagerði, sem réri á áttæringnum Frið, Hannes Jónsson á Miðhúsum, formaður með áttæringinn Gideon, og Magnús Guðmundsson á Vesturhúsum, formaður með áttæringinn Ingólf.
Menn þessir hófu línuútgerð á skipum sínum strax á næstu vertíð.

Í róðratali Magnúsar Guðmundssonar frá 1897 segir, að dagana 7. og 8. apríl hafi aðeins komið einn þorskur í hlut hvers manns. Magnús lét þá beita línuna 9. apríl, og réri aftur á þann tíunda, en þá brá svo við, að í hlut kom 21 þorskur og 2 ýsur.
Upp frá þessum degi gerðu menn sér ljóst, hvílíka yfirburði línan hafði yfir handfærin. Frá þeim tíma þurfti enginn að líða skort, sem hafði heilsu, þrek og vilja til þess að sjá sér og sínum farborða. Hófst nú mikið framfaratímabil í sögu Vestmannaeyja. Menn hristu af sér slen fyrri alda og tóku að horfa bjartari augum til framtíðarinnar. Ýmsir örðugleikar steðjuðu þó fyrst í byrjun að línuútgerð. Var þar beituskortur þyngstur á metum. Væru gæftir sæmilegar fékkst yfirleitt næg beita. Var þá mikið beitt af ýsu og þorskhrognum og ljósbeita notuð til drýginda. Sérstaklega fór að verða vart við beituskort, þegar líða tók á haustið. Aflaðist þá oft mikið af ýsu, en þá skorti hrognin. Voru m.a. notuð innyfli úr fuglum, kálfum, kindum, selum og hnísum og almælt var, að köttum hefði fækkað óeðlilega, er líða tók á haustið.
Strax þegar línan var orðin almennt veiðarfæri tók að bóla á því, að menn kepptust við að verða fyrstir á miðin. Smábátaeign var þá orðin mjög mikil. Að jafnaði voru 2-4 menn, sem slógu saman í bát og réru á honum sjálfir eða lögðu til menn. Var svo komið um aldamótin, að næstum hver einasti búandi maður tók beinan þátt í útgerðinni. Þessi þróun hélt áfram þegar vélbátaútgerðin hófst, og hefur sjálfsagt átt sinn þátt í því, hversu vel hún fór af stað.
Þetta kapp manna um að verða fyrstir á miðin hafði þær afleiðingar, að einstaka hugmenn fóru að róa á næturnar, miklu fyrr en öruggt gat talist.
Kertaluktir voru einu ljóstýrurnar um borð, í áraskipunum, en þær voru að sjálfsögðu lítt hæfar til þess að leiðbeina mönnum um fjarlægðir milli skipa.
Kom það því oft fyrir, að þeir sem seinna réru lögðu lóðir sínar yfir þeirra, sem höfðu verið fyrr á ferðinni. Hlaust af þessu aflatjón og jafnvel hatur milli formanna.
Sáu þá margir, að þessu hvimleiða næturrölti varð að linna. Voru þá sett ákvæði í fiskveiðisamþykktina um, að enginn mætti fara í fiskiróður með línu fyrir ákveðinn tíma, að viðlögðum allháum sektum, sem fóru hækkandi við endurtekin brot.

Ísleifur VE 63. Þessir komu um 1930
Ófeigur II VE 324. Þessir komu um 1960
Gullberg VE 292 og Halkion VE 205. Þessir komu á tímabilinu 1965 - 1975.
5.


Hinn mikli beituskortur, sem gerði vart við sig á haustin, olli því, að menn fóru alvarlega að hugsa um að koma sér upp íshúsi. Oft vildi það brenna við, er nóg var af beitu, að hún nýttist ekki og vildi þá skemmast.
Því var það, að Árni Filippusson og Magnús Jónsson sýslumaður boðuðu til fundar 15. september 1901.
Tilgangur fundarins var að kanna áhuga fólks fyrir að stofna íshús (frystihús). Fundarmenn samþykktu að leggja sitt af mörkum til þess að svo mætti verða, og tók það formlega til starfa 1903. Nýtt hús var síðan byggt árið 1908, enda hafði hið gamla gengið úr sér, og gat ekki lengur séð sívaxandi bátaflota fyrir óskemmdri beitu.
Var þá maður sendur utan til þess að kynna sér meðferð frystivéla, og má segja að með tilkomu þeirra hafi verið stigið stórt framfaraspor í Eyjum.

6.


Þegar afli tók að stóraukast upp úr aldamótunum, breyttust ýmsar aðferðir við nýtingu hans.
Áður fyrr hafði þótt sjálfsagt að hirða alla hausa af löngu og þorski til herslu, en nú komust menn ekki yfir það vegna mikils afla. Oft dvöldust utanhéraðsmenn í Eyjum yfir vertíðina, og höfðu það að aðalstarfi, að hirða hausa, sem annars hefðu farið fyrir lítið. Höfðu þeir af dágóðan skilding. Aðferð við fiskþvott breyttist mikið. Var nú byrjað að þvo fiskinn í vatnsheldum trékerum. Áður fyrr hafði fiskurinn öldum saman verið borinn niður að sjó, en þá voru menn háðir sjávarföllum við þvottinn.
Síðar var farið að salta fiskinn í þessi þvottakör og nefndist það pækilsöltun. Vinnsla lýsis úr lifur breytist einnig. Frá fyrstu tíð hafði lýsisvinnsla farið fram á þann hátt að lifrinni var safnað í stór keröld, þar sem lýsið skildist að nokkru frá grútnum. Grúturinn var síðan soðinn í stórum pottum, í þar til gerðum húsakynnum.
Gamlar konur störfuðu við þessa bræðslu, daga og nætur, og þótti þetta hið mesta óþrifaverk.
Með gufubræðslu lifrar gerbreyttist öll aðstaða við þessa vinnslu og lifrin varð verðmeiri. Lifrarvinnsla er líka fremur hagstæð í Eyjum, þar sem stutt er á miðin og hráefnið yfirleitt stór og feitur þorskur.
Segja má að með auknum afla hafi nýtni manna minnkað og fiskurinn ekki verið eins vel unninn og áður. Gömlu mennirnir nostruðu við fiskinn á stakkstæðunum, þar sem hann hafði verið breiddur til sólþurkunar. Sólþurrkun leggst nú niður, af því að hún þótti of tímafrek. Við það hafa gæði fisksins eflaust minnkað. Þegar sólþurrkun leggst niður byggðu Eyjabúar þurrkhús. Þar var hægt að þurrka meira af fiski á skemmri tíma, vegna þess að þurrkunin var þá ekki háð veðráttu.

Mikill afli hefur oft borist að landi
7.


Á fyrstu árum 20. aldar tóku að berast fregnir um það til Vestmannaeyja að erlendis væri farið að smíða vélar, sem ætlaðar væru til notkunar í fiskibáta.
Í fyrstu skeyttu menn lítið um þessar fregnir. Hefur það sjálfsagt stafað af ótrú á getu véla til þess að taka við af vöðvaafli manna, enda voru vélar óþekktar í Eyjum um þessar mundir.
Flestir urðu undrandi síðla maímánaðar 1904, þegar það var ljóst að um borð í millilandaskipi, sem lá í Eyjahöfn, væri bátur sem ætti að skipa upp í Eyjum.
Hafði komu þessa báts lítt verið haldið á lofti. Vakti hann mikla athygli, sökum þess hversu frábrugðinn hann var öðrum bátum, sem úr Eyjum var róið.
Bátur þessi líktist Faxaflóaskipunum, mjór og djúpur, en slíkir bátar höfðu reynst frekar illa í Vestmannaeyjum. Undrun fólks átti þó enn eftir að vaxa, er það hvisaðist að ekki ætti að láta róa bátnum, heldur skyldi vél knýja hann. Fljótt kom í ljós eftir að byrjað var að reyna bátinn, að vonir þær sem eigendurnir höfðu bundið við hann myndu ekki rætast.
Vélin reyndist mjög ógangviss og hávaðasöm. Yfirleitt voru menn á einu máli um að vélbáturinn yrði ónothæfur til fiskveiða á vetrarvertíð, enda fór svo að hann var aldrei gerður út frá Eyjum.
Í ágústmánuði þetta sumar (1904) hélt Þorsteinn Jónsson, ásamt tveim öðrum mönnum, austur á Seyðisfjörð til sjóróðra. Þangað hafði Stefán Th. Jónsson nýlega keypt vélbát, sem smíðaður var í Danmörku og hét Bjólfur.
Bjólfur var 28 fet að lengd og 8 fet á vídd með 6 hestafla Danvél.
Eftir að Þorsteinn hafði kynnst þessum bát lítillega og talað við formann og vélstjóra, sem gáfu bátnum lofsamleg ummæli, sá hann að hér myndi vera á ferð bátur, sem hægt myndi að nota í Eyjum með sérstakri aðgæslu. Þótti honum þó báturinn of lítill, en stærð báta í Eyjum, á fyrstu árum vélbátaútgerðar, voru ávallt takmörk sett vegna mjög lélegra hafnarskilyrða.
Með vélbátaútgerð var stefnt að því að hafa báta liggjandi í höfninni yfir vertíðina. Reynslan var sú að yfir sumartímann, þegar eitthvað blés, gat orðið erfitt að hemja árskipin og var þeim þá hætta búin.
Þrátt fyrir þessa augljósu erfiðleika ákvað Þorsteinn með þeim Friðriki Svipmundssyni, Þórarni Gíslasyni og Geir Guðmundssyni, um páskaleytið 1905, að festa kaup á vélbát og gera hann út frá Eyjum vertíðina 1906.
Þorsteinn segir, að frá sínum bæjardyrum séð hafi það aðallega verið þrennt, sem varð þess valdandi að hann réðst í þessa útgerð.
Í fyrsta lagi var það vonin um að geta orðið fyrstur á miðin, án þess að þurfa að kappróa úr landi. Í öðru lagi hafði sjósókn aukist það mikið síðustu árin, eins og áður hefur verið drepið á, að slysahætta var orðin geigvænleg. Ábyrgðin sem hvíldi á herðum formanna var því mjög mikil, því að á flestum áraskipunum var hálfur annar tugur manna.
Í þriðja lagi hafði verið svo mikið góðæri síðustu árin, samfara aukinni sjósókn, að vart var hægt að hugsa sér betri afkomu. Þorsteinn segðist ekki hafa getað sætt sig við þá tilhugsun, að lokatakmarki væri náð, því það hefði boðið upp á stöðnun.
Einnig hefur það verið ögrandi fyrir Eyjabúa að sjá sæg útlendinga að veiðum rétt fyrir utan Eyjar og moka upp fiski, þegar þeir urðu að sitja í landi vegna sinna frumstæðu fiskiskipa.
Ég ætla nú að lýsa vélbátnum í fáum orðum og fyrstu dögum hans, því það hlýtur að hafa verið þýðingarmikið hvernig til hefur tekist í byrjun, með útgerð hans, eftir hrakfarir fyrsta vélbátsins.
Bátur þeirra félaga, sem þeir nefndu Unni, kom til Eyja 9. sept. 1905.
Unnur var 33 fet að lengd og rúm 8 fet á breidd og kostaði tæpar 4.000 kr. í henni var 8 hestafla Danvél, sem knúði bátinn 6-7 sjómílur í logni.

Hluti af Hrófunum og bryggja Gísla J. Johnsens, Edinborgarbryggjan

Unnur var tekin upp síðast í október og hófu þeir þá að búa hana sem best undir vertíðina.
Byrjað var á að setja vatnsþétt skilrúm fyrir báða enda, þannig að hún gæti flotið þó lestin fylltist af sjó. Einnig settu þeir í bátinn öflug segl, sem áttu að notast í sparnaðarskyni. Þann 3. febrúar 1906 hélt Unnur í fyrsta sinn til veiða. Veður var gott, en allir aðrir bátar voru þó í landi, vegna þess að undanfarið hafði gengið á með suðaustan stormi og þeir því ekki tilbúnir til þess að róa.
Beindu þeir bátnum djúpt suður með Heimaey, þótt logn væri, svo rík var tortryggni þeirra sjálfra í garð vélarinnar. Var það ekki óeðlilegt, því marga hrakspána höfðu þeir heyrt.
Allt gekk þó vel, línan var lögð og kaffi hitað við vélarlampann, en það var nýjung í róðri.
Á leið í land settu þeir upp segl, því tekið var að blása.
Þegar þeir nálgast Skansinn, (sem er við innsiglinguna) sjá þeir, að þar er hópur fólks saman kominn. Var ferðin aukin eins og hægt var, til þess að sýna mönnum, að þótt spaðarnir væru smáir, væru þeir þó margra manna jafnoki í róðri og þreyttust aldrei, en það höfðu flestir talið hina mestu endaleysu.

Friðþjófur VE 98. Svona bátar komu 1915 til 1920

Aflinn reyndist vera 280 þorskar og 30 ýsur. Margir komu til þess að skoða aflann og sökum þess hvað bryggjan var mjó, margfaldaðist hann í augum margra. Mikið var rætt um þennan róður í Eyjum og þóttu þetta hin mestu undur.
Báturinn átti svo eftir að sanna kosti sína, svo ekki varð um villst, en verst af öllu þótti mönnum, að þurfa að sitja í landi þegar þeir félagar gátu róið.
Aflinn í vertíðarlok var sem hér segir eftir 83 róðra: 24.250 stykki af þorski og löngu, 4000 stykki af ýsu, 2.460 af keilu og 240 stórskötur. Var þetta þrisvar sinnum betra en gott þótti hjá árskipunum. Þess ber þó að geta að róðrafjöldi þeirra var helmingi meiri og vel það.
Þessi velgengni olli svo miklum straumhvörfum í hugum manna, að næstu vertíð (1907) voru 22 vélbátar gerðir út frá Eyjum og áttu þá 119 menn.
Þróunin var síðan sú, að bátunum fjölgaði, þeir stækkuðu og hestaflatala vélanna jókst. Eftir þetta urðu framfarir mjög örar. Ráðist var í víðtækari hafnarframkvæmdir, dráttarbraut var byggð og línan varð smám saman að þoka fyrir netum, sem aðalveiðarfæri, en við það jókst afli enn.
Öryggi sjómanna varð einnig miklu meira þegar farið var að raflýsa skipin og nota talstöðvar. Vitar voru reistir í landi til leiðbeiningar sjófarenda og árið 1920 kom til Eyja björgunarskipið Þór, sem Vestmanneyingar höfðu að mestu kostað. Skipið átti einnig að gæta veiðarfæra Eyjabúa, en ágangur erlendra togara var mikill. Íslenska ríkið tók svo við rekstrinum á skipinu 1926 og skuldbatt sig til þess að hafa það við Eyjar 3-4 mánuði á ári.

Þessir voru beitumenn á Unni I og fyrstu eiginlegu beitumennirnir í Eyjum. Frá vinstri: Hannes Hansson, Hvoli; Jóhann Pálmason, Stíghúsi og Ársœll Sveinsson, Fögrubrekku. Hannes og Ársœll eru látnir, en Jóhann dvelur nú á dvalarheimilinu Hraunbúðum.
8.


Að síðustu vildi ég, til glöggvunar, vekja athygli á tölum um íbúafjölda og skipaeign Vestmanneyinga á þessum breytingartímum, en þessir tveir þættir hafa ávallt verið nátengdir. Árið 1890 er íbúafjöldi í Vestmannaeyjum 565 og er hagur þeirra flestra bágborinn. 1901: 607, 1910: 1.319, 1920: 2.426, 1930: 3.573.
Árið 1890 ganga til fiskjar frá Eyjum 13 áraskip. Um aldamótin eru þau orðin 16 og fer fjölgandi, þar til vélbátarnir ryðja þeim til hliðar að mestu.
Árið 1910 eru 46 vélbátar í Eyjum og afli þeirra rúm 8.000 skippund af fullverkuðum fiski. 1920 eru vélbátarnir orðnir 68, og afli þeirra 18.600 fullverkuð skippund, og svo 1930 eru vélbátarnir orðnir 95 og aflinn 43.000 fullverkuð skippund.
Þegar hér var komið blasti við gjörólík mynd frá því er gömlu mennirnir bogruðu yfir handfærunum sínum (sem höfðu aðeins 2 öngla) á opnum skipum, þar sem hvergi var skjól fyrir ágjöf og þeir urðu eingöngu að treysta á sitt eigið vöðvaafl til heimkomu.
Á þessum gömlu árskipum var oft meira en hálfur annar tugur manna og ef eitthvað brást, þurftu 6-8 menn að pæla andófið, eða jafnvel fleiri. Má nærri geta að veiði varð að vera mikil til þess að eitthvað kæmi í hlut hvers manns.
Á fyrstu vélbátunum voru venjulega aðeins 5 menn um borð. Hægt var að matast og hvílast og sækja lengra og leita fengsælli miða.
Öldum saman höfðu útgerð og veiðiaðferðir tekið litlum sem engum breytingum og sultur var tíður gestur, ef gæftir voru slæmar, eða ef fiskinum þóknaðist ekki að ganga inn á hin venjulegu mið.
Á tæpum 20 árum hafði allt þetta breyst, það er því sannarlega hægt að tala um byltingu í atvinnuháttum og útgerð.

Heimildir: Aldahvörf í Eyjum eftir Þorstein Jónsson, Laufási, útgefandi: Bæjarstjórn Vestmannaeyja 1958.
Bátaábyrgðarfélag Vestmannaeyja 1862-1937, höf. Guðm. Einarsson, útgefandi: Bátaábyrgðarfélag Vestmannaeyja Rv. 1939.
Formannsævi í Eyjum eftir Þorstein Jónsson, Laufási, útgefandi Hlaðbúð Rvk. 1950.
Saga Vestmannaeyja eftir Sigfús M. Johnsen, útgefandi: Ísafoldarprentsmiðja hf. Rvk. 1946.