Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1955/ Látið gleðiópin gjalla fyrir Drottni – því að Drottinn er góður

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit


Séra Jóhann Hlíðar:


Látið gleðiópin gjalla fyrir Drottni, - því að Drottinn er góður.


Sálm.: 100 : 1. 5.


Í dag er hátíð fjölmennstu stéttar þjóðar vorrar, sjómannastéttarinnar. Erfiði og strit starfsins er lagt til hliðar. Gleði og hvíld ríkja. Allir þurfa að hafa ráð á slíkum stundum, þær eru oss nauðsyn. En því aðeins hafa þær gildi fyrir oss, að vér hlustum á boðskap þeirra, því að allar hátiðir, hverju nafni sem þær nefnast, eiga sér slíkan. — Í dag tökum vér oss næðisstund og látum þögnina tala. Hvað segir hún? „Þakkið Drottni, því að hann er góður.“ Og hún segir meir. Hún minnir oss á, að Guð hefir farið mildum höndum um þá, sem sjóinn stunda, ekki aðeins hér í Vestmannaeyjum, heldur um land allt. Aflabrögð hafa verið jöfn og yfirleitt góð. Velsæld ríkir þar sem fengins fjár er vel gætt. Þægindi og öryggi sjómanna aukast, og svona væri hægt að halda lengi áfram. Sjómannastéttin er rómuð fyrir starf sitt og hreysti og í dag er þeim þakkað af heilum hug framlag þeirra til aukinnar velmegunar þjóðarheildarinnar. En þessi hátíð minnir oss alvarlega á að gleyma ekki að lofa og þakka góðum Guði fyrir miskunn hans. Þar sem lofgjörðin og þakklætið hljóðnar missa allar hátíðir innsta kjarna eðlis síns og verða hismið eitt. Hversvegna erum vér svo oft fátæk af þakklæti til Guðs? Er það ekki vegna þess, að vér teljum allt svo sjálfsagt, eðlilegt og hversdagslegt, að Guðs gerist ekki þörf. Það er alltaf hætta á, að vér verðum svo andlega sljó og blind, að vér sjáum ekki Guð í því smáa né því, sem vér teljum hversdagslegt og sjálfsagt. Þessvegna kunna orð sálmsins, sem vitnað er til, að hljóma framandi, því að þau tjá gleði, sem fæst þegar reiknað er með Guði. Þau tjá fögnuð hjartans yfir Drottni, sem veitir þá náð, vernd og blessun, sem varir að eilífu, sem á þá trúfesti, sem varir frá kyni til kyns.
Vér lesum vers sálmsins aftur, — og tónar lofgjörðar og þakklætis magnast og deyja hægt og hægt út. — Hátíðinni er lokið. Hin tóma, fátæklega hversdaglega þögn ríkir. — Vér stöndum aftur mitt í hversdagsönnum. — Sömu gömlu hljóðin heyrast frá bergmáli daglegs strits. Það er erfiðað, börnin leika sér í áhyggjuleysi. Baráttan undir oki efnishyggjunnar heldur áfram. — Tíminn líður með ofsa hraða fram hjá. Og vér verðum að reyna að fylgja honum eftir. — En hugsaðu þér, ef það skyldi einmitt vera í öllu þessu hversdagslega starfi, sem lofsöngurinn ætti að stíga fram, sem hlýr, bjartur undirtónn, sem lyftir oss upp á æðra svið, — nær Guði. Hugsaðu þér, ef — ef það gæti skeð. Þú lítur í kringum þig, reynir að hlusta á hjartslátt náunga þíns, reynir að heyra hugsanir hans. Spurðu sjálfan þig, hvort lofsöngurinn og þakklætið búi hjá þér, eða hvort það sé framandi fyrir þér að tjá trú þína og traust á Guð með lofsöng og þakkargjörð.
Þessi dagur talar til vor enn hið mikla þakkarefni. Látum því lofsöng og gleðióp gjalla fyrir Drottni. Látum laðandi lífskraft lofsöngsins og þakklætisins og hins vonarbjarta guðstrausts kæfa rödd vantrúar, sem launar og skapar úrræðaleysi og vonleysi á öllum tímum. Felum sjómannastétt lands vors og starf hennar allt á hendur Guðs, svo að hún sé hans gæzluhjörð, sem þjónar honum með gleði. Þá mun bjart yfir hverjum bát, sem á miðin sækir, því að blessun Guðs er með honum.
Sjómenn, standið vörð um innsta kjarna allra sannrar hátíðar; lofgjörðina og þakklætið til Guðs.

JÓHANN HLÍÐAR.


400px.


Frá guðþjónustu á Sjómannadaginn 1954. Sér. Jóhann Hlíðar er í prédikunarstólnum.
Fremst á myndinni eru þau hjónin, frá Vallanesi, Halldóra og Valdemar Árnason, en hann hefur í mörg ár verið elzti starfandi háseti í Vesmannaeyjum.