Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1951/Úr syrpu Eyjólfs á Búastöðum: Morgunstund gefur gull í mund

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
ÚR SYRPU EYJÓLFS Á BÚASTÖÐUM:
Morgunstund gefur gull í mund


Þetta alkunna spakmæli kannast allir við, og hjá sjómannastéttinni hefur þetta ekki hvað sízt verið orð að sönnu, og ætla ég að segja hér smá sögu því til sönnunar.
Friðrik heitinn Svipmundsson á Löndum, hinn þekkti formaður og mikli aflamaður fluttist hingað til Eyja austan úr Mýrdal. Fyrstu árin hér, var hann vinnumaður hjá Gísla heitnum Lárussyni í Stakkagerði. Gísli var formaður með áttæringinn „Frið“ á vetrarvertíðum og reri Friðrik hjá honum.
Fljótt kom í ljós hið mikla kapp og sérstaka árvekni við sjósóknina hjá Friðrik.
Það mun hafa verið aðra eða þriðju vertíðina, sem hann reri hjá Gísla, að hann vekur hann (sem þó var ekki svefnþungur maður) löngu fyrir dagmál, með þeim orðum að það sé stafalogn og ljósin á „Heimdalli“ (það var danskt varðskip) spegli sig í Botninum.
Gísli brá fljótt við, klæddi sig og leit til veðurs. Því næst bað hann Friðrik að kalla með sér upp á bæi. En þá svaraði Friðrik: „Ég er nú búinn að því.“
Ekki þykktist Gísli við tiltæki Friðriks, þó djarft væri, því svo vel þekkti hann áhuga hans í starfinu. Þeir flýttu því för sinni niður í Hrófin og voru þá ofanbyggjarahásetarnir þar mættir. Hér í Eyjum, á meðan áraskipin voru í notkun, var það hverjum manni metnaðarmál, að vera sem allra fljótastur til skips og víst var það ekki óþekkt að þeir sem lengst áttu, væru hálf klæddir þegar þeir áttu von á kalli.
Þegar þeir á „Frið“ ýttu úr Læknum sáu þeir ekki neitt til mannaferða og voru allir ánægðir með að geta farið fyrstir og einskipa.
Línuna lögðu þeir sunnan við Sandahraunið og þar austur og voru þeir búnir að leggja línuna með birtu. Því næst reru þeir á milli og byrjuðu strax að draga inn línuna. Þegar komið var í vesturendann, því farið var að hvessa á vestan og veðurútlit ekki sem bezt.
Fiskur var strax nógur og mátti segja að fiskur væri á hverjum krók, eins og oft kom fyrir hér, fyrst eftir að farið var að nota línuna (árið 1897). Þegar þeir sáu hvað fiskur var ör, var farið að afhausa. Er svo ekki að orðlengja það, að er eftir voru ódregin 3 bjóð (15 strengir) af línunni og búið var að slíta og henda fiski af tveimur bjóðum, segir Gísli þeim að skera á línun. Hittist þá svo á, að Friðrik er að draga, en þó að hann væri kappsmaður með afbriguðum lét hann ekki segja sér þetta tvisvar. Setti hann vaf af línunni á dráttarrúlluna og sleit línuna í einum rykk. Línan var tveggja punda lína, sem þá var algengt að nota hér. Því næst voru möstrin reist og skipið seglbúið. En þegar draga átti upp afturseglið, tókst svo til, að „rakkinn“ sem var á „klófalnum“ og gaffalendanum var krækt á, dróst upp í salningu án þess að á kræktist og hafðist ekki niður aftur. Reyndu þá þeir sem næstir voru mastrinu að klífa upp í það, til þess að ná í rakkann, en höfðu ekki upp. Hleypur Gísli þá úr formannssætinu og klifraði í einni svipan upp í mastrið og var það á orði haft, hve fimlega og fljótt hann hefði farið þetta, þó alskinnklæddur væri. Gísli Lárusson var sérstakt léttleika og lipurmenni og sennilega mesti fjallamaður sem Eyjarnar hafa alið og er þá mikið sagt.
„Friður“ sigldi svo á einum slag heim því vindur gekk norðlægari. Frönsk fiskiskúta kom til þeirra á „Frið“, þegar þeir voru að enda við að draga línuna og sigldi þeim samsíða heim undir Bjarnarey. Ekki var það víst einsdæmi, að franskar fiskiskútur sigldu með Eyjabátum heimleiðis, þegar tvísýnt var um heimkomuna. Á þessum árum voru franskar færaskútur svo hundruðum skipti hér við suðurströnd Íslands yfir vetrarvertíðina.
Ekki fór nema eitt skip annað í róður þennan dag, var það „Björg“, formaður Jón Ingimundarson í Mandal. Ekki lögðu þeir neitt af línunni, vegna storms, en komu samt á eftir „Frið“ í höfn. En flestum þóttu þeir á „Frið“ hafa notað vel morgunstundina, því þeir höfðu 31 fisk til hlutar í 23 staði. Þetta hafa því verið 713 fiskar á 25 strengi af línu. Þætti slíkt ótrúleg ástaða nú til dags.

(Sögn Péturs Lárussonar, Búastöðum, háseta á Frið).


Í hákarlalegu.

Á 19. öldinni tíðkaðist það mjög, að farið var í hákarlalegur á opnum skipum.
Á hákarlaskipunum var haft segl yfir barkarúminu til skjóls og þar var haft hitunartæki það, sem nefnt var „komfire“ og var hitað á því kaffið. Í einni slíkri ferð hafði eitt skipið mann einn innanborðs, er var mjög sjódeigur, en mannalegur. Er á miðin var komið var lagzt fyrir fast og byrjað að dorga. Kom þá austan kæla og fór heldur vaxandi. Gerðist þá maðurinn veikur og lagðist fyrir fram í krúsinni og vill helzt láta ferja sig í land, en félagar hans létu sér fátt um finnast. Samt kom að því að fara varð í land vegna veðurs og voru því sett upp segl og þau rifuð eins og hægt var. Þótt segl væru rifuð, var siglingin svo mikil að á keipum sauð og var það ei til að hressa upp á heilsu mannsins.
En er komið var inn úr leiðinni reis maðurinn upp og kallar:
„Látið þið hana nú hafa það piltar“. (Átti hann víst við að auka nú siglinguna). En er í land kom batnaði veikin svo, að maðurinn bjó sig upp og fór í heimsókn til sinnar útvöldu.
En lengi var það haft að orðtaki hér í Eyjum: „Látið þið hana nú hafa það, piltar“.


Staðið í austri.

Eitt sinn lenti þessi maður í útilegu og var þá háseti á einum vélbátanna héðan.
Formaðurinn, sem var alkunnur hæglætismaður, stóð við stýri, en vélstjórinn var niðri í vélarrúminu og gætti vélarinnar.
Veður var vont og urðu hásetar að standa við dælur. Austur varð svo mikill í bátnum, að vélstjóri varð að fá sér fötu og ausa úr vélarrúminu, en framangreindur háseti átti að standa við niðurganginn í vélarrúmið og taka á móti fötunum og hvolfa úr þeim.
Hugarástand mannsins var ekki í sem beztu lagi og fum mikið á honum. Er fyrsta fatan kom, snýr hann sér að formanni og segir mjög óðamála: „Hv. .. hva . . . hvar á að láta það.“ En hann svaraði með sinni alkunnu hægð. „Ætli það sé ekki óhætt að láta það þarna, laxi minn“ og benti út fyrir borðstokkinn.