Saga Vestmannaeyja II./ VIII. Arður, er erlendir menn höfðu af Vestmannaeyjum m.m.

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search
VIII. Arður, er erlendir menn höfðu af Vestmannaeyjum m.m.


Hér verður í fám dráttum reynt að gera grein fyrir heildarupphæð arðs þess, er konungur og danskir kaupmenn höfðu af Vestmannaeyjum frá því eyjarnar urðu konungseign, og er hér miðað við árin kringum 1400 og fram um lok einokunartímanna og síðan tímabil selstöðukaupmannanna, eða fram til byrjunar þessarar aldar. Niðurstöðutölurnar verða að byggjast á þeim ályktunum, er virðist mega draga af því, er tekizt hefir að upplýsa um þessi mál, sjá hér að framan. En auðvitað verður hér að nokkru um ágizkanir að ræða.
Tímabilið frá því um 1400 og til 1600. Jarðabókartekjur áætlaðar árl. 5-7 og jafnvel upp í 9 lestir fiskjar. Lestin reiknuð á 35 rd. Fyrir verzlunarleyfi og skipatolla má og gera ráð fyrir að flest árin hafi goldizt nokkuð, og safnast þegar saman kemur, en að vísu mun oft hafa verið allerfitt um innheimtuna. Áætlaður arður þetta tímabil 70—80 þúsund rd.
1600—1780. Tekjur konungs, jarðabókartekjur og verzlunarleiga. Verzlunararður einokunarkaupmanna. Arðurinn samanlagður 140 þúsund rd. Virðist sízt of hátt áætlað, er reiknað er með 900—1000 skpd. framleiðslu af fiski árlega og miðað við hlutföllin milli innkaupsverðsins á fiskinum og útsöluverðs á erlendum markaði, sem og söluhagnaðinn af útlendu vörunni. Einnig arður af útgerðinni. En mest öll útgerðin hér var þá í höndum kaupmannanna.
1780—1900. Verzlun dönsku selstöðukaupmannanna. Jarðabókartekjur og arður kaupmanna af verzlun og útgerð. Hér virðist mega gera ráð fyrir eigi lægri upphæð samanlagðri en fyrir hið fyrrgreinda tímabil.
Af þessu má sjá, hversu mjög Vestmannaeyjar hafa verið arðrændar. Hér gilti „Absentismi“, þ.e. að þeir, er arðs njóta af jarðeignum og af arðbærum atvinnuvegum, búa í öðru landi og draga allan arðinn þangað.
Til gleggra yfirlits og samanburðar um fjárhagsmálin má geta þess, að í álitsskjali sínu frá 1757 um verzlunarhagina hér á landi telur Skúli Magnússon landfógeti, að jarðeignir hér á landi í eigu einstakra manna — opinberar eignir eigi taldar með, svo sem stólseignir, kirkjujarðir o.fl. — muni láta nærri að vera um 200 þúsund rd. virði. Um gildi peninga er það að segja, að eitt kúgildi, 1 kýr eða 6 ær, var lengi metið 4 rd. virði.
Búið var að mörgu leyti öðruvísi að Vestmannaeyingum en öðrum landsmönnum. Hefir hér að framan verið lýst, hversu atvinnu- og fjárhagsmálum hér var í mörgu öðruvísi háttað og að ýmsu leyti eigi fylgt almennum lögum og lagavenjum, svo sem um tíundir, launagreiðslur, kirkjugjald og um fátækraframfærslu. Einokunarkaupmennirnir höfðu auk fullra umráða yfir verzluninni og alger yfirráð yfir útgerðinni, svo að eyjamenn voru útilokaðir frá útgerð á eigin skipum, en íbúarnir allir háðir skipsáróðurskvöðum, er eigi munu hafa þekkzt í svo fullum mæli annars staðar. Þessar kvaðir héldust langt fram á 19. öld, en að vísu nokkuð vægari. Þannig var landseti skyldur til, ef hann átti ekki skip eða jul sjálfur, að róa á því skipi, sem umboðsmaður tilnefndi, ef óvilhallir, góðir menn töldu honum það bagalaust, móti venjulegu skipsáróðursgjaldi. Landseti var og skyldur til að flytja bréf og skjöl, er viðkomu „kgl. Majestatis þjónustu“, að tiltölu við aðra bændur hér í eyjum. Landseti var þó ekki skyldur til að ljá ferju sína eða skip. Skipakosti til slíkra ferða átti hreppstjóri að sjá fyrir. Ríkt var eftir því gengið við leiguliða, að þeir héldu „allar útkomnar og seinna útkomandi fyrirskipanir og reglur og gildandi viðtektir“, eins og komizt er að orði í texta byggingarbréfanna, og yfirleitt sýndu umboðsmanni hlýðni í hvívetna og trúmennsku. Tómthúsmönnum var gert að skyldu „að sýna tregðulausa hlýðni gagnvart yfirvaldsboðum og skuldbundnu erfiði“.
Afgjaldið af eyjajörðum, sem mun hafa haldizt að mestu óbreytt frá fyrri öldum, eins og áður er sýnt, hefir verið hærra eða með því hæsta, er gerðist hér á landi, einkum þegar miðað er við heyfeng og kúafjölda jarðanna. Matið á eyjajörðunum, er löngu seinna kom til, sýnist og töluvert of hátt, miðað við jarðir á landi. Vegna fiskisældarinnar hér og hlunninda þeirra, er bændur höfðu af fuglatekju, er þó var miklum erfiðleikum bundin og áhættusöm, en sem eyjamönnum hafði tekizt að skipuleggja prýðilega, hefir verið hægt að halda við hinum háu afgjöldum af jörðunum. Og af þessari atvinnugrein höfðu bændur drjúgan skerf til lífsframfærslu, svo að unnt var að fleyta sér áfram, þótt hart blési á stundum. Þótt jarðirnar hér væru metnar hátt til dýrleika, náðu afgjöldin samt um 10% miðað við dýrleika jarðanna, og hafa því verið eins og jarðarafgjöld eru talin að forngildu, sbr. Búalög: 12 álnir = 24 fiskar í afgjald af hverju jarðarhundraði. Þetta háa jarðarafgjald virðist hafa haldizt hér óbreytt frá fyrstu tíð, en hins vegar voru jarðarafgjöld annars staðar á landinu lækkuð svo á seinni árum, að þau munu víða eigi hafa náð mikið yfir 5% miðað við matsverð jarðanna, og jarðarhundraðið metið eitt hndr. á landsvísu, og í mörgum tilfellum er afgjaldið miklu lægra. Samanburður við nokkra sambærilega staði á landi sýnir líka útkomu. Þannig má sjá af afgjaldareikningum Kristjáns skrifara af konungsjörðum á Suðurnesjum um miðja 16. öld,¹) að hreinar landskyldir af umræddum jörðum, sem landskyldir eru goldnar af í fiski, eru af hverri einstakri jörð — kúgildaleigur ekki teknar með — allt að helmingi lægri en af jörðum í Vestmannaeyjum á síðari hluta 16. aldar, miðað við dýrleika jarðanna, eins og hann var seinna ákveðinn, og árlega samanlagða upphæð landskyldarfiskjarins. Að vísu hækka afgjöldin á Nesjajörðunum nokkuð seinna, sbr. jarðabók 1704, og nokkru meiri kvaðir eru að vísu, að minnsta kosti á seinni tímum, á þessum jörðum en Vestmannaeyjajörðunum. Þannig eru, svo nefnd séu dæmi, landskyldir 1547—1548 af 12 jörðum í Vatnsleysustrandarhreppi, sem allar eru konungseign og goldið eftir í fiski, 43 vættir fiska, en hundraðatal jarðanna samanlagt, sbr. jarðabók Á.M. og P.V. fyrir Gullbringusýslu 1703, um 200 hndr., þannig, að af 4 jarðarhndr. fæst í afgjald tæp vætt, en af eyjajörðum, samanborið við jarðarhundrað þar, — af Yztakletti var eigi reiknað afgjald, — helmingi hærra. Svipað þessu er um jarðir í Álftanesshreppi í Gullbringusýslu og í öðrum hreppum sýslunnar, en að vísu hækka afgjöld jarðanna seinna, svo að mismunurinn verður eigi svo mikill. Af konungsjörðum í Snæfellsnessýslu eru landskyldir að jafnaði miklum mun lægri en í Vestmannaeyjum, sbr. jarðabók Á.M. og P.V., miðað við dýrleika jarðanna, svo að í sumum tilfellum munar meira en helmingi. Leigan af tómthúsum þar er einum þriðja lægri en venjuleg tómthúsleiga í eyjunum, og af grasbýlum aðeins 20 fiskum hærri. Hlutföllin á milli landskyldnanna af jörðum í Austur-Eyjafjallahreppi um 1700, sbr. jarðabók Á.M. og P.V., og eyjajarða, miðað við dýrleika jarðanna, er sem 7 á móti 10, og eru þó raunverulega mun hærri, þegar tekið er tillit til þess, að af eyjajörðunum er greitt í fiski, en af hinum jörðunum goldið í fríðu. Miðað við meðalverð allra meðalverða eftir verðlagsskrá voru afgjöldin í Vestmannaeyjum helmingi hærri en t.d. sums staðar í Rangárvallasýslu, miðað við jarðarhundruð, sbr. álitsskjal Landsnefndar 1875. Landskyldir af konungsjörðum á öllu landinu að frátöldum Vestmannaeyjum²) eru kringum 1590 samtals, 4722 dalir. Fiskalestin af landskyldarfiski reiknuð 50 dalir. Hreinar landskyldir af Vestmannaeyjum eru þá um 388 rd. virði, reiknað með sama verði, er gerir um 1/12 af ofannefndri landskyldarupphæð, en 1/10, ef tómthúsleigurnar af eyjunum eru taldar með, og 1/9, ef miðað er við samanlagðar jarðabókartekjur af eyjunum á þessum tíma. Umboðslaun eru eigi reiknuð frá. Samkvæmt mati 30. apríl 1851, sbr. tilsk. 27. maí 1848 og 8. júní 1850, voru jarðir hér að samanlögðu heildarverði virtar á 17.540 rd. Meðalverð á hvert jarðarhundrað rúmir 45 rd. Eftir dýrleika voru jarðirnar 389,5 að nýju mati. Stóragerði, 1/2 völlur, dýrl. 9,8 hndr., var hæst metin eða 440 rd. virði. Afgjald hafði alltaf verið hátt af Gerði, til forna 200 fiskar (stórt hndr.). Næst að mati var Kornhólsjörðin, 430 rd., dýrl. 9,5 hndr. Lægsta mat var á Presthúsajörðum, 250 rd. á hvorri jörð. Í téðu jarðamati er tekið tillit til túnstærðar aðallega og úteyjaafnota. Vallartalið helzt hið sama. Flestallar jarðirnar eru taldar framfleyta aðeins 1 kú, 2—3 aðeins eða vel það. Í matinu felst og húsaverð landeiganda. Kúgildi hafa eigi fylgt jörðum hér. Þess má geta, að Yztiklettur er í matinu frá 1851 metinn nær á við 4 jarðir. Yztaklett hafði umboðsmaður og seinna sýslumaður um tíma afgjaldslaust, sbr. konungsúrsk. 30. sept. 1823 og 18. marz 1840. Yztiklettur var frá 1876 leigður með venjulegum hætti. Landsskuld af jörðunum er ennþá reiknuð í álnum. Jarðirnar án húsa metnar 1940: 161.300 kr. + 13.300 kr. Ræktunarlóðir um 1/2 millj. kr. Aðrar lóðir og lendur, sem goldið er eftir, eru flokkaðar niður sem hér segir: Þurrabúðarlóðir, verzlunarlóðir, fiskhúsalóðir, þerrireitir, húslóðir, jarðatún.³)
Ennþá hefir engin jörð hér verið seld úr eign þess opinbera, svo að héraðsmenn mega greiða afgjald fyrir hverja lóð og lendu.⁴)
Samkvæmt tillögum stiftamtmanns í samráði við J. Abel sýslumann, er mun hafa átt frumkvæðið, gerði landsstjórnin fyrir rúmum hundrað árum falt til kaups „hið konunglega jarðagóss“ hér. Undanskilið væntanlegri sölu voru þó báðar verzlunarlóðirnar, sem sé Miðbúðarlóð og Garðsverzlunarlóð, er báðar teljast eignarlendur konungs, en eins og áður er tekið fram var ekkert afgjald tekið eftir verzlunarlóðirnar. Einnig voru undanskildar sölu prestssetursjarðirnar í Kirkjubæ og á Ofanleiti og ennfremur tómthúslóðirnar. Með rentuk.br. frá 11. maí 1833 var svo ákveðið, að jarðirnar með tilheyrandi húsum og hlunnindum skyldu boðnar upp á sama uppboði allar, hver jörð þó út af fyrir sig. Jarðauppboðið var auglýst bæði hér og í þrem næstu sýslunum á landi og var haldið hér 24. júní 1834. Boðið var frá 235 og upp í 280 rd. í hverja jörð. Í Yztaklett 1000 rd. Kauptilboðin náðu samanlögð 11.856 rd. Kaupmennirnir við Garðs- og Miðbúðarverzlanir áttu flest kauptilboðin. Er sennilegt, að þeir hafi átt mestan þáttinn í því, að jarðirnar voru boðnar upp, og þeir hafi ætlað sjálfum sér hnossið. Aðeins tveir bændur buðu sjálfir í ábýlisjarðir sínar. Voru það merkisbóndinn Einar Sigurðsson á Vilborgarstöðum, faðir Árna Einarssonar, og Guðmundur Sigurðsson á Oddsstöðum, tengdasonur Jóns sýslumanns Þorleifssonar. Séra Jón Austmann bauð í nokkrar jarðir, og mun hafa boðið fyrir bændur. Eyjólfur hreppstjóri Þorbjörnsson á Búastöðum gerði boð í allmargar jarðir, og munu kaupmenn hafa staðið bak við að minnsta kosti sum þeirra.⁵) Stjórnin taldi tilboðið í jarðirnar of lágt og neitaði að samþykkja söluna, sbr. rentuk.br. 27. sept. 1834.
Rúmum 20 árum síðar hófust eyjabændur handa og fóru nú fram á það við stjórnarvöldin, að fá ábýlisjarðir sínar keyptar, eða ef þess væri enginn kostur, að þeim væru leigðar jarðirnar með erfðafestu. Umsókninni fylgdu meðmæli sýslumanns von Kohl. En stjórnin vildi í engu sinna beiðninni, sbr. bréf dómsmálaráðuneytisins til stiftamtmanns 17. nóv. 1857.⁶)
Hér verður drepið á nokkur atriði enn viðvíkjandi afgjaldamálunum. Því var svo varið, að um miðja 19. öld hélzt ennþá hinn forni siður að miða landskyldir og afgjöld hér í eyjum við harðfisksverð eftir verðlagsskrá. Með þessu hækkuðu landskyldir nokkuð og eyjamenn ver settir en aðrir. Harðfisksverkun var að leggjast niður, en saltfisksverkun tekin upp. Harðfiskur barst hingað í verzlanir úr nærsveitum á landi, en þar var ennþá hertur þorskur, er aflaðist fyrir Söndum. Var því harðfiskur í verzlunarskýrslum talinn útflutningsvara héðan. Einnig kom það fyrir og hélzt lengi að vísu, að fiskur var hertur hér í viðlögum, svo sem ef saltlaust var í verzlunum. Frá Víkurverzlun í Mýrdal var harðfiskur fluttur út um Vestmannaeyjar fram undir aldamótin síðustu. Eyjamenn báru upp fyrir umboðsmanni umkvartanir sínar út af jarðaafgjöldunum og umboðsmaður skrifaði stjórninni hér um, en þessu var eigi sinnt. Loks sendu eyjamenn Alþingi, en það var þeirra þrautalending, bænarskrá þess efnis, að þeim leyfðist að greiða landskuldir „af hinu konunglega góssi“ eftir meðalverði allra meðalverða, eins og tíðkaðist annars staðar, eða eftir meðalverði á saltfiski. Á þessum tímum — upp úr miðbiki aldarinnar — var risin sterk framfaraalda í eyjunum eftir margra alda kyrrstöðu. Félagslyndi hafði stórum aukizt og menn snéru bökum saman, í atvinnu- og útgerðarmálum voru menn sjálfstæðari en áður og ekki öldungis eins upp á kaupmennina komnir. Menn litu orðið framtíðina bjartari augum. Stofnun hins nýendurreista Alþingis átti töluverðan þátt í þessu. Á fyrstu þrem þingunum, 1845, 1847 og 1850, höfðu Vestmannaeyingar samt engan fulltrúa á Alþingi, því að kosningarrétturinn náði raunverulega eigi þangað, meðan hann var bundinn við 10 hndr. fasteign eða 20 hndr. í lífsfestu, sbr. tilsk. 8. marz 1843 og kansellíbr. 14. nóv. 1843. Fyrst 1851 á þjóðfundinum höfðu Vestmannaeyingar þingfulltrúa.⁷)
Afgjaldsmálum Vestmannaeyinga vísaði Alþingi frá sér, sbr. Alþt. 1867, og til aðgerða stjórnarinnar. En stjórnin vildi ekkert sinna málinu, sbr. bréf dómsmálaráðun. til stiftamtm. 13. maí 1869, og bar það fyrir, að afgjöld af eyjunum væru sízt of há, þótt harðfiskurinn væri lagður til grundvallar. Eyjamenn létu nú samt eigi þar við sitja og snéru sér ennþá til Alþingis með þessi málefni. Rak nú hver bænaskráin frá eyjamönnum til Alþingis aðra, sem sé árin 1871, 1873 og 1875. Fóru eyjamenn fram á það, að verða leystir undan því að greiða gjöld sín eftir harðfisksverði, því að þótt harðfiskur hefði verið þeirra aðalverzlunarvara og gjaldmiðill um margar aldir, væri hann nú úr sögunni sem framleiðsluvara. Málið fékk góðar undirtektir, en náði samt eigi fram að ganga, þrátt fyrir það, að margir þingmenn lýstu því yfir að krafa eyjamanna væri sanngjörn og sjálfsögð, og vitanlega ættu þeir að fá gjöld sín reiknuð eftir meðalverði. Frá varakröfu sinni um greiðslu eftir saltfiskstaxta höfðu eyjamenn fallið, sökum þess, hve fiskverðið var breytilegt, og stundum fór saltfisksverðið nú orðið fram úr harðfisksverðinu.
Þegar hér var komið voru Vestmannaeyjar gengnar úr eign konungs og orðnar landssjóðseign.
Landsskyldarmálum eyjabúa var loks vísað til nefndar þeirrar, er af Alþingi var skipuð til að undirbúa væntanleg lög um byggingu þjóðjarða yfirleitt. 1879 gaf Alþingi út þingsályktun um byggingu og ábúð jarða. Síðan voru samkvæmt tillögum amtsráðs gefnar út reglur um byggingu á þjóðjörðum, sbr. ráðgjafabr. 25. maí 1880. Fyrir jarðir í Vestmannaeyjum, er byggðust eftir fardaga 1880, skyldi nú greiða eftir meðalverði allra meðalverða í peningum eða innskrift með samþykki umboðsmanns, eða í tilteknum landaurum.⁸) Öllum afgjöldum umboðsins skyldi og breytt í meðalálnir frá fardögum 1881 að telja, á þann hátt, að taka fyrst verðlag á harðfisksvættum fyrir 5 ár síðastl. og reikna afgjöldin, að svo miklu leyti, sem þau voru reiknuð í heilum vættum, út eftir 5 ára meðaltali vættanna. En að svo miklu leyti, sem afgjöldin voru ákveðin í fiskum eftir því 5 ára meðaltali, sem hefir fundizt á harðfisksálnunum, og síðan deilt með 5 ára meðalalin. Árin 1876—1880 var verðlag á harðfisksvættinni, er lögð var til grundvallar sem reikningseining, samkv. verðskrám sömu ára, samtals fyrir tímabilið kr. 77,64, að meðaltali kr. 15,52 og 4/5. Verðlag á harðfisksalin 387 aurar, meðaltal 77 2/3 aurar, meðalálnir alls 273 aurar. Meðaltal þeirra þá 54 og 3/5 aurar.⁹)
Með þessu fyrirkomulagi, er löggilt var nú um jarðaafgjöldin, var samt harla lítið um jöfnuð, því að þeir leiguliðar á jörðum og tómthúsum, er sátu í eldri byggingu, hlutu að svara mun hærri leigu en þeir, er komu að býlum sínum eftir 1880. Leið enn langur tími þar til úr þessu var bætt og snúið sér til Alþingis ennþá einu sinni. Á Alþingi var afgreidd þingsályktunartillaga 1887 í þá átt, að frá fardögum 1887 skyldu landskyldir hér greiddar eftir meðalverði allra meðalverða með því álnatali, er amtsráðið ákvæði, og á sama hátt greidd leigan eftir tómthús, er nú var ákveðin 16 álnir árl.¹⁰) Afgjöldin voru að álnatali 1885: 4856 álnir rúmar, í peningum eftir verðlagsskrá 52 aurar alin, að viðbættu eftirgjaldi af Yztakletti: kr. 350,00, — samtals kr. 2875,07.

Heimildir og umfjöllun neðanmáls í þessum kafla:
1) Leigna-, landskyldna- og skreiðarreikningar Kristjáns skrifara 1547 —1548, Ísl. fornbrs. XII, bls. 114—116.
2) P.E.Ó.: Menn og menntir III, bls. 28-29.
3) Gjaldab. bæjarfógetaembættisins.
4) Undantekning er þó með Garðsverzlunarlóðina, sbr. áðurnefndan hæstaréttardóm, — og eina húslóð.
5) Sjá skýrslu J. Abels sýslumanns til Krügers stiftamtmanns 1834: Uppboðsgerð á kóngsbýlunum í Vestmannaeyjum, 40, Lbs. 44, IV.
6) Sjá Tíð. um stjórnarmálefni Íslands I. — Svo hefir verið sagt, að löngu seinna, er illa áraði, hafi J.P.T. Bryde kaupmanni gefizt kostur á að kaupa eyjajarðirnar við vægu verði, en hann hafi hafnað.
7) Sýsluskjöl V.E. 1840—1846, Þjóðskjs.
8) Um þessi mál sjá Alþt. 1871; 1873 II, 97—100; 1875 II, 194—204; 1877 II, 454—461; 1879 II, 155; Stjórnart. B, 1880, 106.
9) Hjá umboðsmanni reiknuðust jarðaafgjöldin eftir hinum nýja taxta fyrst skakkt út, því að hann fylgdi meðaltali áranna 1875—1879, svo að jarðaafgjöldin urðu lægri eða 124 meðalálnir 1047/2809 meðalálnir fyrir 4 vættir 20 f. í stað 127 og 255/275, 93 og 2633/2809 3 vættir 16 f. í stað 96 og 181/273 álna. Var þessu fljótlega kippt í lag.
10) Alþt. 1887.


Saga Vestmannaeyja efnisyfirlit