Saga Vestmannaeyja II./ III. Atvinnuvegir, 2. hluti

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search




Fuglaveiðar og eggjatekja.
(1. hluti)


Meðal helztu hlunninda Vestmannaeyjajarða var fuglatekjan. Þessi atvinnugrein, sem er hættuleg og erfið, hefir verið kappsamlega stunduð í eyjunum alla tíð, vegna arðseminnar, sem lýsir sér í miklu búsílagi af kjöti og feiti af fuglinum, og fiðrið, lunda- og svartfuglafiðrið einkum, hefir ætíð verið góð og gild verzlunarvara. Í harðæris- og fiskileysisárunum hefir fuglatekjan einatt bjargað frá skorti.
Í byggingarbréfum jarðanna er hverjum ábúanda áskilinn réttur til fuglaveiði á vissum stöðum, á sjálfu Heimalandinu og í úteyjum með sameignarmönnum, þ.e. með öðrum ábúendum jarða í sama leigumála. Fuglaplássunum er skipt milli leigumálanna, og á hver einstök jörð innan leigumálans jafna ítölu hér í. Undantekning er þó með Almenningsskerið og Geirfuglasker, og einnig að nokkru leyti með Hellisey, er allar teljast til Suðureyjanna. Er þarna að finna leifar af hinu eldra fyrirkomulagi, að mörgu leyti, er gilti í eyjunum áður en skipting á veiðiréttindum í úteyjum var gerð. Reglan er, að sömu jörðinni fylgi sömu fjöll og úteyjar til fuglatekju og grasnytja, og eyjarnar nýttar árlega af ábúendum í sameiningu eftir fastsettum gömlum reglum.
Fuglaveiðarnar skiptust aðallega í tvennt: fýlunga- og súlnaveiðar annars vegar, er fóru fram að mestu samtímis og með líkum hætti, og hins vegar lunda- og svartfuglaveiðar. Til umgetinna hlunninda telst og eggjatekjan, svartfuglaegg aðallega og fýlsegg lítils háttar fyrrum, en meira nú eftir að bönnuð var með lögum veiði á fýlunga.
Þessi skipting á fuglaveiðiréttindunum, á þann hátt, að öðrum en sameignarmönnum var óheimil veiði á tilteknum stöðum, gilti eigi að öllu leyti fyrr en á seinni tímum. Fuglaveiðirétturinn fylgdi að vísu alltaf jörðunum og var tekið tillit til hans við ákvörðun jarðarafgjaldanna. Hver sameign naut og að vísu mest sinna eigin eyja, að því er fuglatekjuna snerti, en mátti samt þola það, að aðrir stunduðu og veiði í þeirra eyjum, meðan fuglaveiði og eggjatekja var talin óskipt hlunnindi allrar sveitarinnar, með vissum undantekningum þó. En fyrir þessi not bar að gjalda sameignarmönnum vissan hlut, eyjahlut, sem bætur fyrir átroðning og skaða á grasnytjum eyjanna.
Umgetinna hlunninda, fugla- og eggjatekjunnar, nutu ábúendur jarðanna sem löglegra landsnytja, og mun svo hafa verið frá fornu fari, bæði í þeim eyjum, sem heyrðu sérstaklega undir leigumálana, sem og í hinum sumum, t.d. Suðureyjunum, sem eigi hafa talizt sem graseyjar, eða beitareyjar, og því eigi í þessu tilliti skipt undir jarðirnar. Í þessum eyjum hefir fuglatekjan, súlnaveiði, verið almenningseign, og stunduð sameiginlega af öllum eyjabændum, eins og á sér stað enn þann dag í dag um sumar af þessum eyjum, sbr. það, er að ofan segir. Símon Surbeck, forstöðumaður konungsverzlunarinnar, er í flestu fylgdi hart fram hagsmunum konungs, landsdrottins, gagnvart leiguliðunum hér, gerði kröfu til súlnaveiðarinnar, sem var almenningseign, til handa konungi, sbr. skipti hans á súlnaveiðinni í Brandi og Geldingi undir Kirkjubæjarjarðir, gegn því að Kirkjubæjarbændur létu Yztaklett í staðinn. Með þessa almenningsveiði fór umboðsmaður konungs svipað að og um rekaréttindin, er áður fyrr hafa verið til sameiginlegra afnota fyrir eyjabændur, en sem umboðsmaður tók undir landsdrottinn, án þess að bændur hefðu þar af venjulegt leiguliðagagn. Með kærumálum sínum til Alþingis 1583 hefir eyjabændum þó orðið það ágengt, að þeir misstu eigi súlnaveiðina í öðrum eyjum. Í kæru gegn séra Gísla Þorvarðarsyni á Ofanleiti, sem kom fyrir biskup 1636, var prestur borinn þeim sökum, að hann hefði ranglega haft þau ummæli eftir umboðsmanninum, að eyjamenn hefðu stolið frá kónginum súlnahlutum sínum fyrr og seinna. Á þessi mál var sætzt. Þau sýna, að alllengi hafa verið værur milli eyjabúa og umboðsmanna út af súlnaveiðinni, er umboðsmaður vildi eigna kóngi.¹)
Á seinni tímum var fýlungaveiðin mjög veigamikill þáttur fuglatekjunnar hér. En þær komu löngu síðar til sögunnar en lunda- og súlnaveiðin. Þannig er það ljóst af skilagreinum umboðsins í Vestmannaeyjum frá lokum 16. aldar, að þá hefir fýlungaveiði eigi verið stunduð hér. Í reikningum og skilagreinum frá umgetnum tímum er oft getið meðal tekna konungs af eyjunum leigugjalds af konungsbátunum fyrir sókn í úteyjar á lunda og súlu og eggjum. Fýlunga sést aldrei getið eða fýlseggja, og þó er hér um sömu eyjar að ræða, sem síðar var alltaf mjög mikil fýlatekja í. Svartfugls getur heldur eigi og hann eigi veiddur, en af eggjatökunni má ráða, að svartfuglaegg hafa verið tekin. Um fýlunga getur heldur eigi í skilagreinum 17. aldar og eigi heldur eftir 1700. Sama gegnir um sóknarlýsingu séra Gissurar og Jarðabók Á.M. og P.V. 1704. Í ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar, um rannsóknarferðir þeirra hér á landi 1752—1757,²) er fýlungi þó talinn meðal þeirra fuglategunda, sem veiddar eru í Vestmannaeyjum. Hvenær fýlunginn hefir sezt að, „tekið heima“ í björgum í eyjunum og byrjað að verpa þar, verður eigi sagt um með vissu, en líklegt, að fýlungaveiðar hafi eigi hafizt hér að verulegum mun fyrr en á 3. eða 4. tug 18. aldarinnar, og að líkindum fyrst á Heimalandinu. Þar er og fýlungatekjan talin mest um miðbik 18. aldar.³) Það hefir og verið haft eftir gömlu fólki hér, að í sumar úteyjar, sem nú er mikil fýlatekja í, hafi eigi verið farið til fýla fyrr en löngu eftir miðja 18. öld. Í lok 18. aldar voru nokkrar jarðir fyrir ofan Hraun, er eigi var hægt að byggja gegn venjulegri landskuld. Er auðsætt, að fýlungatekja á þessum jörðum, sem á síðari tímum hafa verið taldar meðal beztu „fýlajarða“, hefir þá eigi verið eins mikil og seinna varð. Fýlungaveiði hefir heldur eigi verið að mun í Smáeyjum, meðan þar var haft fullorðið fé, er hefir verið fram eftir 18. öldinni.⁴)
Fýllinn eða fýlunginn er íshafsfugl, sem talið er, að hafi fyrst á seinni tímum fært sig suður eftir Atlantshafinu, t.d. til Vestmannaeyja og þaðan til suðurstrandar Íslands. Síðan lengra suður, til Færeyja, en þar getur hans eigi fyrr en allmikið löngu síðar.
Á fyrstu áratugum 19. aldar hefir fýlatekjan aukizt mjög í eyjunum. Þannig segir í skýrslu frá 1823,⁵) að fuglatekjan þar aukist árlega, og er fýlungi þá talinn þar mesti nytjafuglinn. Mun fýlatekjan eftir aldamótin 1800 fyrst hafa aukizt verulega í úteyjum. Fýllinn grýfist nokkru fyrir sumarmál. Varptíminn er um miðjan maí.
Í Mýrdal, þar sem seinna varð mikil fýlatekja, getur fyrst um fýl í Höfðabrekkuhálsi 1820, um áratug síðar í Hjörleifshöfða, en þar voru fjöllin fullbyggð af fugli um 1860.⁶) Í Mýrdal var fýlatekjan svo mikil, að þangað komu á hverju sumri fjöldi manna úr nærsveitunum til fýlakaupa hjá fýlabændunum. Í Drangshlíðarfjall undir Eyjafjöllum komu ein fýlahjón 1866. Bæði þar og í Hrútafellsfjalli varð síðar allmikil fýlatekja. Á seinni árum sótti fýllinn lengra inn til fjalla. Hans varð og vart lengra austur, t.d. í Suðursveit, þótt eigi festi hann þar byggð. Eftir að fýlnum fór aftur að fækka í Vestmannaeyjum var talið, að hann flytti sig þaðan upp í land. Á síðustu tímum hefir fýlnum allmikið fækkað í gömlu fýlabyggðunum í Mýrdal, en þar hefir og verið veitt drjúgt af vetrarfýl og töluvert einnig hér í eyjum á vissum stöðum, er hætt var að aðsækja á sumrum.
Í Færeyjum var enginn fýll í lok 18. aldar. Þar verpti fýll fyrst, að því er talið er, 1834, en 100 árum síðar var hann orðinn þar einn af mestu nytjafuglunum.⁷)
Þótt fýllinn, eins og áður segir, teljist eigi nytjafugl í Vestmannaeyjum fyrr en frá fyrri hluta 18. aldar, virðist þó eigi útilokað, að til forna hafi verið fýll í björgum hér, en síðar lagzt frá, eins og hann nú virðist gera, og ef til vill breytir fuglinn með löngu millibili um verustaði, hvernig sem þessu annars kann að vera varið. Í þessa átt gætu og bent gamlar og rótgrónar sagnir um miklar og tíðar slysfarir við fuglaveiði fyrr á tímum í eyjunum, á vissum stöðum, þar sem á seinni tímum hafa verið einna mestu fýlungapláss eyjanna, svo sem Dufþekja norðan í Heimakletti. Er að vísu eigi auðvelt að skera úr því, hvort þessar sagnir eiga við þann tíma, er farið var með vissu að veiða fýlunga hér á 18. öld, en líklegt, að slysfarir hafi þá verið miklar í sambandi við þessar veiðar, sökum ókunnugleika manna á veiðiaðferðum þá við þessa hættulegu veiði, þótt þessa sjáist ekki getið sérstaklega, eða að sagnirnar standa fótum lengra aftur í tímann. Um Dufþekju segja munnmæli, að þar hafi farizt, hrapað til dauða, jafn margir menn og drukknað hafa í Jökulsá á Sólheimasandi, sem talin var hið mesta mannskaðafljót sunnanlands. Þetta sýnir, hve Dufþekja var álitin hættuleg. Athugandi er og, að þangað hafa stöðugt verið farnar hvannarótarferðir frá fornu fari. En Dufþekja er eingöngu fýlapláss, en eigi lunda.
Með ránveiði og skökkum veiðiaðferðum gat verið auðvelt að útrýma fýlnum, líkt og ástæða var til að ætla, að farið hefði um lundann, hefði netjaveiðinni verið haldið hér áfram. En með tilhögun þeirri um alla fýlungaveiði, er bændur í Vestmannaeyjum höfðu fylgt á seinni tímum eftir skipulagsbundnum reglum, hafði þeim tekizt, þrátt fyrir árlegt dráp á miklu af unganum, en gamla fuglinum hins vegar hlíft með öllu og strangt bann lagt við eggjatöku á flestum stöðum, að viðhalda stofninum og forðast offjölgun, og gera þannig þessa atvinnugrein arðbæra. Virðist með þeim veiðiaðferðum, sem beitt var, þrátt fyrir harða sókn á hendur fýlunganum, sem nægilegt af ungviðinu hafi samt komizt undan árlega til þess að halda stofninum við. Þetta breyttist, er farið var að veiða gamla fýlinn að vetrinum, og sama hermt úr öðrum fýlaplássum.
Fýlungaveiðar (í Vestmannaeyjum nefndar fýlaferðir) hafa verið stundaðar þar árlega síðan að líkindum frá því um miðja 18. öld, og fylgt föstum venjum, hinum sömu, svo lengi sem vitað er. Fýlaplássum var skipt niður samkvæmt byggingarbréfum milli vissra jarða eftir leigumálum, svo að bændur í sama leigumála aðsóttu sínar fýlabyggðir sameiginlega, og mátti í þessu efni enginn rjúfa gerðar samþykktir.
Fýlaferðirnar byrjuðu með ákveðnum degi, Skerdeginum, en það var dagurinn, sem farið var í Almenningsskerið, er allar eyjajarðir höfðu sameiginlega. Skerdagurinn er laugardagurinn í 17. viku sumars. Væri eigi fært þennan dag, var farið næsta dag, er færi gafst, og að lokinni ferðinni í Skerið hófust fýlaferðirnar almennt. Þær stóðu yfir upp undir hálfan mánuð. Tilhögunin um veiðiskapinn mun alltaf hafa verið hin sama, byrjað og endað í sömu stöðum ár frá ári.
Einn bóndi úr sameigninni hafði það á hendi að sjá um ferðirnar, ákveða farardag og kalla hina. Var þetta jafnan talin vegtylla nokkur og eigi falið öðrum en þeim, sem reyndir voru að aðgætni og þekkingu á öllu, er að veiðunum laut. Hlaut hann aukahlut fyrir, köllunarhlut. Undirbúning töluverðan þurfti til fýlaferðanna, svo sem að sjá um að útvega göngumenn (fjallamenn), þar sem með þurfti, athuga sigabönd o.fl. Stundum voru og gerðar aukaferðir, til þess að treysta bjarghöld og járnhnoða, þar sem þeim var komið fyrir í berginu, gerður vegur, og notaður hnoðaburður um hengiflugin. Í úteyjar var farið til fýla snemma að morgni á einu skipi, og komið heim að kvöldi með veiðina. Í Almenningsskerið var farið á tveim stórskipum (vertíðarskipum). Fuglinum var fleygt niður í sjó jafnóðum og hann var drepinn uppi á eynni eða utan í, og hirtu bátslegumennirnir fuglinn á sjónum undir berginu og innbyrtu með svokölluðum fýlahrífum. Skipti á fuglakösinni fóru fram á lendingarstað, eins og þegar skipt var fiski. Fullur hlutur var jarðar- og mannshlutur. Aukahlutir voru gönguhlutir, skipshlutir og þóknun í köllunarhlut. Að óskiptu úr fýlakös mátti hver maður, er þátt tók í veiðiförinni, velja sér 3—4 fýla, þá vænstu, sem keppfýla. Lík tilhögun gilti um veiðiferðirnar, aðsóknina, á Heimalandi. En víða þar var fuglinum fleygt niður í hlíðar fjallanna, sem voru tilsýndar hvítflekkóttar að sjá af dauðum fugli, meðan verið var að aðsækja. Þar, sem ekki var aðsótt af sjó, var fuglinn fluttur heim á hestum. Sum fjöll var verið marga daga að aðsækja. Þurfti að gera margar ofanferðir frá brún og alveg niður að fjallarótum í böndum, og margar aukaferðir og útúrdúra gerðu menn lausir, til þess að ná inn á kóra og grastær í berginu, þar sem fýlahreiðrin voru. En eins og áður segir var það jafnan siður að fara eigi út fyrir þau takmörk hvað umferð snerti, er frá fornu höfðu verið ætluð til eins dags, og var veiðiplássunum í hverju fjalli þannig nákvæmlega hnitað niður, og þekkti það hver maður. Hver bóndi lét einn mann til hverrar ferðar, en stundum var bætt við göngumönnum, þ.e. mönnum, sem var sérstaklega ætlað að síga, eða fara utan í, og voru þeir og kallaðir fjallamenn. Við fýlaveiðarnar var notað sérstakt verkfæri til þess að rota með fýlinn í hreiðrunum, bælunum: fýlakeppurinn, er veiðimaðurinn, göngumaðurinn, bar í hægri hendi. Var þetta alldigur, sívalur, telgdur trjálurkur, rúm alin að lengd, járnhólkur neðan í með gaddi í, en í efri enda lítil ól, er brugðið var um úlnlið mannsins, keppólin. Á fýlaferðum var aðeins veiddur ungur eða sumargamall fýll. Í seinni tíð tóku menn og að veiða gamla fýlinn, en á öðrum tímum, á haustin og fram eftir vetri. Þessi veiði tilheyrir ekki hinum eiginlegu, skipulagsbundnu fýlaveiðum, og var áður með öllu bönnuð. Myndu gamlir bændur hafa talið það ganga goðgá næst, að drepa gamla fýlinn. Fýlsegg var og ekki leyft að taka, nema á stöku stað, þar sem reynsla var fyrir, að unginn komst ekki á legg, svo sem í brunabergi. Yfirleitt gerðu menn sér sérlega mikið far um að varðveita fýlastofninn og leyfðu enga töku eða veiði fram yfir það, sem helgað var af gömlum venjum og samþykktum milli bænda, er fylgt var mann fram af manni. Fýllinn var mesti nytjafugl og góður til búsílags. Kjötið var saltað og soðið í súpu og þótti jafnan holl og góð fæða, eða fýllinn var reyktur og þótti þá hátíðamatur. Feitin af fýlnum, er rann úr fyllunni við suðu, var notuð sem aðalviðbit, brædd saman við tólg, fýlafeitarbræðingur. Innmörinn í vænum fýl er 2—3 lóð. Hann var látinn sjálfbráðna, og búið til úr honum eins konar hrálýsi, er notað var til ljósmetis, og sparaðist þannig þorskalýsið, sem ætíð gekk með góðu verði í verzlanir. Innyfli, hausar, ef þeir voru eigi matreiddir, og vængir var notað til eldsneytis. Fýlafiðrið var mjög erfitt að verka og gera úr því verzlunarvöru. Það var siður að láta það rigna úti lengi og þurrka síðan, en aldrei náðist samt úr því lyktin, svo að á þrifaheimilum notaði fólk það aldrei í sængurföt. Verðið á því í verzlunum um aldamótin síðustu var um 20 aura pundið.
Fýllinn (Fulmarus glacialis) er úthafsfugl. Hann leitar fæðunnar á yfirborði hafsins, því að hann getur eigi stungið sér. Fýllinn heldur sig nærri varpstöðvum sínum, einnig á vetrum, og er því staðfugl. Aðalfæða hans er krabbadýr og Plankton, marglittur og kolkrabbar, sem og alls konar hræ, er fljóta á hafinu. Hann hefir sterka vængi og er allra fugla leiknastur og þolnastur við flug. Unga sinn fæðir fýllinn með því að spúa ætinu, er hann hefir gleypt, ofan í gin ungans. Heyrist þá í fuglunum einkennilegur, hávær kliður. Unginn var drepinn, eins og áður er sagt, áður en hann er kominn á flug og náði að yfirgefa hreiðrið. Nái hann að fljúga úr hreiðrinu, reynir hann að komast á sjóinn, því að þá er honum borgið. En unginn er þungur af átu og fitu og verður að svelta sig undir flugið. En í þessu teflir unginn oft á tæpasta vað, því að hættulegt er að bíða veiðimannsins, og ofbýður vængjum sínum, sem eigi eru orðnir nógu reyndir eða þolnir á fluginu í fyrsta sinn, svo að ef hann elst upp þeim megin í fjallinu, er að landi snýr, endist honum eigi flugið til þess að komast á sjóinn, og var þá tekinn, því að fuglinn getur eigi hafið sig til flugs af jafnsléttu. En unginn reynir að verja sig af fremsta megni með því að spúa lýsi í kringum sig í allar áttir, ef einhver nálgast hann. Er hann þá ekki árennilegur, og helzt mátti ekki gubban eða lýsið komast í föt, vegna hins ógurlega óþefs af því, sem ómögulegt er að ná úr aftur. Fýllinn, sem þannig var tekinn niðri á grundum og móum, var kallaður flugfýll. Voru það æfinlega drengir, sem hirtu flugfýlana. Gat það orðið allálitleg tala af flugfýlum, er drengir náðu yfir fýlaferðatímann. Veiðimenn, fýlamenn, klæddust sérstökum fötum, fýlafötum, alltaf er verið var til fýla, og var það jafnan léttabúningur, fýlaburan og fýlabrækur. Mikið af ungum, flugfýlum, er flaug á sjóinn, var og náð á bátum. Um flugsúlu og flugpysju sjá síðar.
Fýlapláss eyjanna eru allar úteyjarnar og fjöllin á Heimaey. Fýllinn verpir utan í björgunum á Heimaey, í grastóm, kórum, bekkjum og syllum, í hvannstóðum, skarfakáls- og baldursbrárhillum. Í Suðureyjum verpir fuglinn uppi á eyjunum og þar, sem lambagangan er á vetrum. Úr þessum eyjum verður að taka lömbin heim á vorin, áður en fýllinn „tekur heima“.
Fýlungaveiðar eru hættulegastar af fuglaveiðunum, og hafa kostað hér mörg mannslíf bæði fyrr og seinna, einkum úr Heimalandsfjöllum. Þegar komið var úr Almenningsskeri, og oft úr úteyjum yfirleitt, voru höfð flögg uppi sem merki um, að allt hefði gengið slysalaust. Var sem fargi væri létt af mörgum, er úti voru fýlaferðir og allt hafði gengið vel.
Fýlaferðirnar voru svo minnisstæðar fólki í Vestmannaeyjum, að fram að þessum tímum heyrðist gamalt fólk miða fæðingardaga sína við fýlaferðirnar, líkt og við þorra og góu og fleira.
Fram um síðustu aldamót höfðu þær jarðir, er almesta fýlatekju höfðu árlega í hlut, jarðarhlut með mannshlut í meðalári, um 12 hdr.⁸) Auk jarðarhluta var oft skipt einum eða tveimur aukamannahlutum, sem var 1/2 hlutur eða viss fuglatala hvern veiðidag, og gönguhlutum, vallarhlut, var skipt milli göngumanna við sókn í sumar úteyjar, og loks skipshlutum, sóknarhlutum, heilum eða hálfum jarðarhlut, festarhlut og sigahlut.
Almenningsskerið áttu allar jarðir í eyjunum jafnt. Gönguna á Geirfuglasker höfðu 8 jarðir í senn eftir boðleið. Það er nær 2 mílur í suðvestur af Heimaey. Geirfugl var tekinn við Geirfuglasker um aldamótin 1800.⁹)
Fýlungatekjan hafði minnkað mjög á seinni tímum, svo að þar, sem hún var mest, mun hún með fáum undantekningum tæplega hafa náð helmingi á við það, sem áður var. Veiði var með öllu lögð niður í mörgum fýlaplássum á Heimalandi, þar sem fýlatekjan var mjög mikil áður, svo sem í Dalfjalli og Klifi og víðar. Fýllinn tók orðið mikið ver heima en áður og virtist hafa mjög fækkað. Voru ýmsar orsakir taldar til þess: stóraukin umferð á sjó og landi; sumir kenndu og nokkuð um drápi á gamla fýlnum; aðallega, að fýllinn flytti sig á burtu í fjöllin á landi. Þess má og geta, að miklu ver voru fýlabjörg aðsótt hér á seinni tímum, og átti það auðvitað sinn þátt í rýrnun veiðinnar.
Frá því sumarið 1940 hefir landsstjórnin bannað fýlungaveiði, sbr. heimildarlög nr. 70, 7. maí 1940, um ráðstafanir gegn fýlasótt. En fýlasóttar, páfagaukaveiki, hafði orðið vart hér sumarið áður. Mun hafa komið frá Færeyjum.
Er nú þessi erfiða og sérstæða atvinnugrein, er eyjamenn höfðu notfært sér og skipulagt svo vel, að mikla aðdáun hlýtur að vekja, úr sögunni, að minnsta kosti um ófyrirsjáanlegan tíma og ef til vill að fullu og öllu.
Í Almenningsskerið eða Súlnasker lét helmingur eyjabænda árlega til veiða einn mann á víxl, en jafnan hlut tóku þeir, er eigi áttu förina í það sinn, á við hina. Göngunni upp á Skerið var skipt eftir fornum reglum á 8 jarðir ár hvert eftir boðleið, og þessar jarðir fengu einmitt sérstakan aukahlut, gönguhlut, en góðan og gildan fjallamann máttu þeir, er gönguna áttu, leggja til fararinnar. Farið var á tveim stórskipum, áttæringum, í Skerið á Skerdaginn. Við skipti úr Súlnaskeri hélzt sá forni siður að skipta á jarðarvöll, hér 2 jarðir. Í hlut var á völl um eitt stórt hundrað. Úr Súlnaskeri var og skipt gjafahlut svokölluðum til fátækra. Festarhlutur var greiddur þeim, er lögðu til festar og sigabönd. — Súlnasker eða Skerið, Skerið góða, sem líklegt er og almennt talið, að beri nafn sitt af súlu, er þar verpir, fremur en af því, að það stendur á súlum, og einnig kallast Almenningssker, af því að allar jarðir í eyjunum hafa þar jafnan rétt til ínytja, er meðal Suðureyjanna. Þegar farið er í Skerið, er lent við Steðjann og farið upp Steðjabringinn, sem er um 3 faðma á hæð. Er þá lýst uppgöngu á Skerið, áður en „vegur“ var lagður þangað upp um aldamótin síðustu. Upp frá Steðjabringnum kemur langur bekkur, sem kallaður er Bænabringur, þar var kropið og fjallgöngubænin lesin, áður en lagt var til hinnar eiginlegu uppgöngu, sem eigi er fær nema allgóðum fjallamönnum. Er því næst var komið upp í svonefndar Göngur, sem eru um 16 faðma háar, og þaðan á Súlnabæli svokallað, sem er bekkur eigi stærri en svo, að aðeins 5 menn geta setið þar og verða að hengja fæturna fram af, síðan gengið á affláan bekk um 2 faðma með tveim höldum, svo kom dálítill vegarspotti, sem kallaðist góður, þótt farið væri utan í háu bergi, og komið upp undir Hellu. Söfnuðust menn þar saman í litlum kór, og síðan haldið út á Hellu. Hella er eins konar þrep í standberginu, sums staðar um fet á breidd. Þegar Hellu sleppir er komið að neðsta Jappa, og er nú hálfnaður vegurinn upp í Skerið. Var þá hinum fyrsta lyft upp og fór hann með band og upp á Mið-Jappa, setti bandið fast, og fóru hinir upp á bandinu, og í Efsta-Jappa fóru tveir, halda í bandið (sitja undir), og ganga hinir svo upp með því að halda sér í bandið. Í Tómasargili eru höggvin spor, og þegar komið er upp úr grasteignum þar fyrir ofan er komið alveg upp á brún. Hryggur gengur eftir endilöngu Súlnaskeri og hallar út af honum til beggja hliða. Sagt er um Súlnasker, að eigi gætu ókunnir menn af eigin reynd neitt í það ráðið, hvar gengið er upp á Skerið. Súlubreiður eru kallaðar súlubyggðirnar uppi á Skerinu. Skiptast þær þannig: Útsuðursbreiða, sem er stærst, Útnorðursbreiða og Landnorðursbreiða. Lundabyggð er þar mikil og graslendi útgrafið, einnig fýlabyggð mjög mikil. Hinni gömlu hefð Almenningsskersins er enn eigi lokið, þótt margt hafi breytzt. Veiði í Súlnaskeri var skipt þannig fyrir fáum árum milli jarðanna, að þriðjungur þeirra hefir það til aðsóknar árlega á víxl. Vegur var lagður upp á Súlnasker eftir aldamótin síðustu með boltum og járnkeðjum og endurnýjaður fyrir fáum árum, því að allar keðjur voru ónýtar orðnar af riði. Til þess að leggja veg upp á Skerið var veitt úr umboðssjóði 50 krónur, sbr. bréf amtm. til sýslum. Vestm.eyja 22. okt. 1902.¹⁰)
Elztu aðferðirnar til uppgöngu á Súlnasker, er menn þekkja og vera munu æfagamlar, voru sem hér segir: Þrír mjög léttfærir menn voru valdir til þess að fara á undan, og fór sá fyrstur, er færastur var, en alls voru göngumennirnir 7 með sigamanninum. Er þeir stigu af skipi, gengu þeir fyrst upp bergið í 6—7 faðma hæð og staðnæmdust þar á palli, er kallaður var Illugabæli, féllu þar á kné og gerðu bæn sína við bergið. Að bænagerðinni lokinni hófu þeir uppgönguna á ný og fór fyrirliðinn fyrir, en hinir í röð á eftir, ýmist beint upp eða á ská, en þó oftast skáhallt. En þar sem varð fyrir þeim slétt berg eða framslútandi, svo að hvorki var hægt að festa tá né fingur á minnstu körtu í berginu, var höfð þessi aðferð: Skergöngumaðurinn eða sá, er á undan fór, tók snæri og batt í það léttum steini og kastaði því svo yfir næstu snös eða nef, sem hann sá fyrir ofan sig, oft í 5—6 faðma hæð. Sló hann síðan til snærislykkjunni, svo að þyngd steinsins dró hana niður hinum megin, og seig snærið smám saman niður, þar til hægt var að ná í það með hendinni. Síðan sátu einn eða tveir menn neðan á vaðarendanum, svo að vaðurinn varð stífari, og dró Skergöngumaður sig svo upp á höndunum og sló vinstra fæti yfir um vaðinn, en þeim hægri tyllti hann á bergið, þegar hann náði til þess, og með þessum seinfæra hætti komust mennirnir upp á einum glastíma eða undir það. Fimm af göngumönnunum var gefið niður ofan af Skerinu á Helli, en tveir, þeir er eftir voru, fóru niður sama veg og þeir komu upp.¹¹)
Um 1880 var árlegur arður af Súlnaskeri í fýlunga og súlu talinn um 290 rd. virði. Fýlungi var þá virtur á 4 sk. og súla á 16 sk. stykkið.¹²)
Skammt í útnorður frá Súlnaskeri er eyjan Geldungur, 274 fet á hæð, sem nú er að vísu tvær eyjar, en var áður einn klettur og gat í gegn og bogi yfir. Í jarðskjálftunum 1896 hrapaði boginn af, svo að síðan teljast eyjarnar tvær, Stóri- og Litli-Geldungur. Áður var farið upp þar, sem er Litli-Geldungur, og var það talinn góður vegur, en eftir að boginn fór af, varð eigi komizt upp á eyna fyrr en gerður var þangað vegur árið 1898 með því að reka bolta í bergið með jöfnu millibili, höggva spor og meitla, og var víða lögð járnkeðja á boltana. Tók það tvo daga að gera veginn. Fyrri dagurinn fór í það að klöngrast upp — og var það afar hættuleg ferð — og reka bolta í bergið, en seinni daginn var lögð keðja. Er aðstaðan til uppgöngu á ey þessa nú allsvipuð því, sem er um Súlnasker. Þeir, sem veginn lögðu upp á Geldung, höfðu með sér 6 álna langan og allgildan planka, og negldu á hann spýtur með jöfnu millibili. Var stigi þessi reistur þar, sem því varð við komið, en þarna eru hengiflug og aðeins snasir og syllur, og var farið eftir plankanum og reknir boltar í bergið. Var sérlega erfitt að komast upp fyrir einn bringinn í berginu, þar sem loft var fyrir neðan, og tókst loks, er búið var að festa bolta upp á kór þar undir, og var svo stiginn festur á boltann, og með mesta snarræði tókst einum mannanna að komast upp á bringinn með því að stíga upp í efsta þrep stigans, sem nærri lék í lausu lofti. Milli járnboltanna er höfð svo sem rúm alin og fóru menn þannig á hnoðaburði, þ.e., að bandi var brugðið um boltann miðjan og báðir endar teknir saman að neðan, og gátu menn þannig lesið sig upp, eða að járnkeðjur voru settar í boltana og farið eftir þeim. Vegurinn upp á Geldung liggur upp að sunnan, þar sem eyjan er hæst. Þótti ferðin þangað ein með erfiðustu fjallferðum í eyjunum. Uppi verpir fýll og súla. Þessum fjallgönguvegum þarf iðulega að líta eftir og dytta að.
Um sömu mundir og áðurnefndur steinbogi hrapaði í sjó í jarðskjálftunum 1896, hrapaði um koll allhár drangur, 87 fet, og sökk í sæ. Var hann rétt hjá Geldungnum. Geldungur heyrir undir Kirkjubæjarjarðir.
Súlnaveiði er aðeins á fjórum eyjum: Súlnaskeri, Hellisey, Brandi og Geldungi. Súlan er veidd um leið og fýllinn, en stundum voru farnar aukaferðir eftir súlu, „til súlna“, bæði á undan og eftir fýlaferðum, því að súlan verpir mjög misjafnt, og þrjár ferðir voru algengar fyrrum. Unga súlan er tekin í bælum, súlubæli, uppi á eyjunum, eða sígið í bælin utan í, og eru súlnasigin oftast erfiðustu og mestu sigaferðirnar, stórsig svokölluð, einkum í Hellisey. Súlan byggir hreiður sín á beru berginu og býr í þéttbýli, súlubyggð. Uppi á Suðureyjunum er hver blettur þéttsetinn af fugli, svartfugli og súlu, þar sem ekkert gras er, en lundi og fýll á graslendinu. Súlan ælir upp ætinu handa unganum, er svo lepur það upp. Aðeins unga súlan er veidd, slegin með barefli, súlukeppnum, líkt og fýllinn, og kastað ofan fyrir í sjó. Um súluna var sagt eins og fýlinn: velgerð, algerð eða illa gerð, eftir því, hvað langt hún var komin að vaxa. Ung, aldúna súla, gráhvít af dún, kallast skerlingur eftir Súlnaskeri. Súlan verpir svo misjafnt, að í súlubyggðunum voru stundum ungar að skríða út úr eggi, þegar aðrir voru orðnir fullþroska og flognir af bælunum, flugsúlur kallaðar.
Súlan var étin mest í súpu ný, eða söltuð og reykt. Vængir af súlu, súlukrakar, voru sviðnir og étnir sem svið, súlusvið, ásamt löppunum og hausnum. Úr lifrinni var búin til lifrarpylsa, súlublóðmör, svipað því sem hagnýtt er gæsalifur, og soðin í fylluhólknum utan af hálsinum. Í vænni súlu er um ein mörk af mör. Súlumörinn er notaður á sama hátt og fýlungamörinn.
Súlnahlutir voru eigi háir, 20—40 fuglar. Hlutaskiptin lík og við fýlungaskipti. Veiðimennirnir máttu velja sér af óskiptu eina súlu hver, keppsúlu.
Súlnaveiðin mun á seinni tímum alllengi hafa verið svipuð, en meiri fyrrum, t.d. í Brandi og Geldungi.¹³) Fyrir sóknina á súlu er greiddur sóknarhlutur, skipshlutur. Súlan var sótt á stórskipum, áður á konungs- eða innstæðubátunum. Í lok 16. aldar var farin ein ferð í hvora eyna, Brand og Geldung, í ágúst, og þriðja ferðin sameiginlega í báðar eyjarnar snemma í september. Reiknaði konungsverzlunin sér fyrir hverja ferð tvo skipshluti, tvo mannshluti og einn eyjahlut. Líkt var við sókn úr öðrum eyjum. 1587 voru taldar 68 súlur í skipshlutina úr Brandi og Geldungi.¹⁴) Hinn svokallaði eyjahlutur mun vera fuglahlutur sá, er um getur í kærumálum eyjamanna 1583. Um ýmsar nauðsynjar eyjamanna segir hér: „In primis frá jörðum tekinn einn hlutur af hverju skipi á sumar af fugli og eggjum, hverjum bændurnir áttu með sér að skipta, eftir því, sem hver hafði mikið úr jörðu“.¹⁵) Súlnahlutirnir, sem forstöðumanni konungsverzlunarinnar tilféllu, voru lagðir í verzlunarbúið og súlan notuð handa verkamönnum, er unnu skylduvinnu fyrir búið.
Súlnaveiði í Hellisey eiga allar Vestmannaeyjajarðir eins og að fornu, og skiptist hún þannig, að Vestursóknin, þ.e. vesturhluti eyjarinnar, féll undir Ofanbyggjarajarðir, Álfseyjarjarðir og Niðurgirðingu, en hinn hlutinn, Austursóknin, Stórhellarnir (Stórhellrarnir), undir hinar jarðirnar í eyjunum. Hánefið og Höfðinn í Hellisey skiptist hvert ár á víxl á Vestur- og Austursóknina. Á síðustu árum eru komnar gerbreytingar á um fuglaveiðarnar og fuglasóknina yfirleitt.
Við súlnaveiði Vestmannaeyinga bættist ríflega eftir förina upp á Eldey 1894. Eldey liggur fyrir utan Reykjanes, 1⅔ mílu frá landi. Eyjan er um hálft þriðja hundrað fet á hæð. Hinn 30. maí 1894 bjuggu þrír ungir menn úr Vestmannaeyjum sig til þess að fara upp á Eldey, en þangað hafði enginn maður farið áður, svo að vitað sé.¹⁶) Hefir eyjan verið aðsótt frá Vestmannaeyjum síðan, þar til sumarið 1938. Uppi á eynni verpa 5—6 þúsund súlur, að því er kunnugir hyggja. Ferðin í Eldey tekur 2—3 daga fram og aftur með eins dags viðstöðu í eynni. Farið hefir verið í Eldey í september, eða seinna en aðsótt er í úteyjum við Vestmannaeyjar, því að súlan verpir seinna í Eldey, af þeim sökum mest, að því er fuglamenn telja, að eigi hefir verið veitt í henni svo lengi, og hefir súlan því vanizt á að „sitja á unganum“, vera með unganum fram eftir hausti og langt fram yfir veturnætur. Segja menn, að súlan verpi jafnvel fyrr nú í eynni en áður, síðan farið var að aðsækja eyna, þó að eigi sé lengra umliðið. Búið er nú með lögum að friða Eldey.

Heimildir og umfjöllun neðanmáls í þessum hluta:
1) Bréfabók Gísla biskups Oddssonar, Landsb.s.
2) Sorö 1772, bls. 858.
3) Sbr. ferðabók Eggerts og Bjarna.
4) Þeir Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson hófu ferð sína hingað til lands frá Kaupmannahöfn 18. maí 1750 og komu fyrst í Vestmannaeyjar. Þar dvöldust þeir í tvo daga, en fóru síðan þaðan upp í land. (Landfr.s. Íslands III, 171.)
5) Sýsluskj. V.E. XXX, III, Þjóðskj.s.
6) Ísl. dýr III, dr. Bjarni Sæmundsson, bls. 482—483; Skaftafellssýsla og íbúar hennar, Rvík 1930.
7) Svabo: Föroyaferðin 1781—82, og Alwin Pedersen: Myggenæs, bls. 45, Khavn 1935.
8) Vilborgarstaðajarðir.
9) Þorv. Thoroddsen: Lýsing Íslands II, bls. 59.
10) Sýsluskjöl V.E., Þjóðskj.s. — Sjá um nýja skiptingu á Súlnaskeri: Hæstaréttardómar II. b., 1299—1302.
11) Sóknarlýsing séra Gissurar.
12) Þjóðs. J.Á. II, 45.
13) Nú hefir súla aftur aukizt í Geldungi og minnkað í Brandi, af því að gras eykst þar.
14) Umboðsskilagreinar 1586—1601.
15) Ísl. fornbr.s. VIII, 799.
16) Mennirir voru: Ágúst Gíslason, Hjalti Jónsson og Stefán Gíslason.


framhald

Til baka


Saga Vestmannaeyja efnisyfirlit