Ritverk Árna Árnasonar/Um tónlist í Vestmannaeyjum fyrr á tímum, fyrri hluti

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search
Úr fórum Árna Árnasonar


Um tónlist í Vestmannaeyjum fyrr á tímum


Í þorpi ekki stærra en Vestmannaeyjar voru til skamms tíma, var ekki um margþætt hljómlistarlíf að ræða. Fólk var hér fátt og flest fátækt og hafði nóg annað að gera við peningana en að eyða þeim fyrir annað en hinar brýnustu nauðsynjar. Að minnsta kosti var þeim ekki eytt í svo hlægilegan óþarfa, að þess tíma áliti, sem til hverskonar hljóðfærakaupa, er voru nokkuð dýr. Ekki fengu unglingar heldur eða höfðu nokkrar aðstæður til þess að læra að spila á hljóðfæri, þótt þeir væru að upplagi hljómelskir. Fyrst og fremst höfðu þeir engin hljóðfæri, en þau voru helst í höndum einstaka útlendings við verzlunarhúsin, og í öðru lagi hefði slík tímasóun frá vinnu þótt stríða í mót ströngum heimilissiðum. Það hefði þótt saga til næsta bæjar, ef einhver hefði lagt út í þessa vitleysu og greiða peninga fyrir kennlu í slíkum kúnstum að auki. Hugsunarháttur almennings var um allt annað. Allt snerist um daglegar nauðsynjar, fæði, skjól og hlíf. Allt annað, sem ekki kom þessu við, var hreinn og beinn óþarfi. Hinsvegar hafa ávallt verið hér, sem annarsstaðar einstaka menn, sem hljómelskir voru og söngvinnir og áttu á seinni tímum einhver hljóðfæri, t.d. langspil, dragspil, fíolín eða pípur, er þeir notuðu til eigin ánægju og yndisauka.
Til Vestmannaeyja hefir hljómlist borist mjög snemma og jafnvel fyrr en víða annarsstaðar á landinu. Því hefir vafalaust valdið, að hér voru að staðaldri margir útlendir menn, auk fjölda erlendra farmanna, svo sem Englendinga, Frakka, Hollendinga og svo auðvitað Dana. Hafa þeir efalaust haft kynni af hljómlist og haft með sér ýmiss konar hljóðfæri, t.d. lútu, fíolín, lúðra og flautur.
Fyrir árið 1500 er talið að Ofanleitiskirkja hafi átt hljóðfæri, sem þó var fágætt um kirkjur hérlendis, er nefndist klavíkord. Það varð síðar í nokkurri notkun hér á landi. Þetta var þó lítið og ófullkomið strengjahljóðfæri, en gerði sitt til þess að leiða sönginn og raddfesta. Það hafði sjö strengi og framan á því var nótnaborð. Með því að styðja á nótu, slóst lítill klaffi upp undir strenginn og framleiddi tóninn. Er ekki óvarlegt að ætla, að þar sé að finna frumhugmyndina til slaghörpunnar. Klavíkordið var svo lítið, að það gat hæglega staðið á altarinu, en hafði þó nokkurn hljómstyrkleika.
Álykta mætti, að farmenn hafi gefið kirkjunni hljóðfærið eða söngvinn klerkur kirkjunnar á þeim tíma. Einnig getur hugsast, að hljóðfærið hafi verið gefið kirkjunni af Árna biskup milda Ólafssyni í Skálholti 1413 til 1420, en hann hafði mikið um sig, var mjög gjöfull og hlaut af því örlæti sínu viðurnefnið hinn mildi. Hann hafði og haldið uppi mikilli rausn, gaf stórar gjafir og hafði um hönd miklar framkvæmdir í Skálholti. Lét hann m.a. smíða stórt stéttarker, er vóg 9 merkur silfurs, silfurbolla, er vóg 11 merkur og lét gera fjögur ölturu til viðbótar í Skálholtskirkju. En hafi hann gefið klavíkordið til Ofanleitis hefir það verið löngu fyrr 1500. Hann lést utanlands 1420. Þessutan gat svo konungur hafa gefið hljóðfærið, þareð sannanlegt er, að eyjararnar voru í hans eigu 1450.
Einnig átti Ofanleitiskirkja hinar svonefndu syngjandi tíðabækur, en það voru nótnabækur með íprentuðum sálmunum líkt og gamli grallarinn var.

19. öldin


Árið 1843 segir sér Jón Austmann prestur að Ofanleiti, að í Eyjum sé enginn innlendur maður, sem kunni á hljóðfæri eða nótnalestur, svo að í nokkru lagi sé. Má auðvledlega skilja þetta orðalag svo, að þá séu hér útlendir menn, sem þessar kúnstir kunni. Hafa þá og efalaust verið komin hér hljóðfæri af ýmsum gerðum og þá helst í eigu útlendra manna.
Árið 1852 var séra Brynjólfur Jónsson aðstoðarprestur hjá séra Austmann að Ofanleiti. Kom séra Brynjólfur með góða fiðlu með sér, sem hann svo notaði við söngkennslu og við að leiða kirkjusönginn. Hann var sjálfur góður söngmaður svo að af var látið og mjög hljómelskur.
Orgelharmoníum útvegaði hann til Landakirkju og var fyrst spilað á það á hvítasunnudag árið 1879 og þá af fyrsta reglulega orgelleikaranum hér Sigfúsi Árnasyni á Löndum, f. 10. sept. 1856, d. 5. júní 1922. Kona hans var (gift 10. júní 1882) Jónína Kristín Nikolína Brynjólfsdóttir prests að Ofanleiti, Jónssonar. Þau Sigfús og Jónína voru foreldrar Brynjólfs Sigfússonar organleikara Landakirkju og tónskáldsins okkar góða.
Telja verður með nokkurnveginn fullri vissu séra Brynjólf Jónsson fyrsta reglulega söngkennarann hér. Hann kenndi kirkjukór sínum söng sem og einstökum mönnum og hafði að sögn þátíma manna ágætum söngkröftum á að skipa. Síðar tók svo Sigfús tengdasonur hans við söngkennslunni og stofnaði hér fyrsta karlakórinn með 12 manns 1881-82. Auk þess æfði hann svo að sjálfsögðu kirkjukórinn.
Lúðurþeytara er fyrst getið hér í sambandi við herfylkingu Vestmannaeyja 1858. Lúðurþeytari var þá Lars Tranberg, en um sveit slíkra var þá ekki að ræða.
Árið 1860 eru dragspil, þ.e. harmonikur í eigu einstaka manna hér, þareð um það leyti var hér kominn útlendur dans og viðhafður í brúðkaupsveislu. Fyrir þann tíma voru hér aðeins söngdansar líkt og enn tíðkast í Færeyjum og margir þeirra danskir að uppruna svo sem „að vefa vaðmál,“ sem mikið og lengi frameftir árum var dansaður hér og sungið fyrir:

„Nu væver vi Vadmel
saa slaar vi det sammen
væve Vadmel, slaa det sammen
lade Skyttelen gaa.
Væve Vadmel slaa det sammen
lade Skyttelen gaa.“
Principalkórinn


Um síðustu aldamót stofnaði A.J. Johnsen, síðar bankagjaldkeri, (hét annars Ágúst Jón Kristjánsson, f. 9. ág. 1879 að Marteinstungu í Holtum, orgelleikari og trésmiður að iðn), hér blandaðan söngkór, er hann nefndi Principal. Söng kórinn fyrst árið 1902 og þótti takast vel. Var hér þá mikill söngáhugi meðal manna og vel æft, og voru þá um skeið starfandi bæði karlakór Sigfúsar Árnasonar og svo Principal Jóns Kristjánssonar.
Árið 1905 fór Sigfús Árnason til Ameríku, en við burtför hans losnaði orgelleikarastarfið við Landakirkju og varð karlakórinn stjórnandalaus. Sótti þá Jón Kristjánsson um orgelleikarastarfið við kirkjuna, en þegar það var veitt Brynjólfi Sigfússyni, hvarf Jón héðan úr Eyjum og Principal var búinn að vera.

Brynjúlfur Sigfússon


Brynjúlfur tók þá við báðum kórunum, sem faðir hans hafði æft, þ.e. Karlakórnum og Kirkjukórnum, æfði af kappi, eftir því sem ástæður söngmannanna leyfðu, og söng kórinn fyrst fyrir almenning, undir stjórn hins unga og ötula söngstjóra Brynjólfs, 17. júní 1907. Þótti kórinn frábærlega góður og skipaður ágætum söngmönnum. Minntist eldra fólk hér þessara söngskemmtana lengi og sönglaga þeirra, er kórinn fór með.
Árin 1909 til 1910 fór Brynjúlfur að æfa blandaðan söngkór. Voru það söngkraftar úr kirkjukórnum og karlakórnum, sem hann gerði úr eina heild og skóp mjög sterkan söngkór. Söng hann fyrst fyrir almenning um sumarið, 17. júní 1911, og vakti almenna hrifningu. Þareftir söng hann við ýmis tækifæri og vitanlega á hverri þjóðhátíð og hélt auk þess sjálfstæðar söngskemmtanir við góða aðsókn. Margt af þessu söngfólki söng svo í Landakirkju svo árum skipti, enda þótti söngurinn þar með einsdæmum góður. Var honum sérstaklega viðbrugðið á stórhátíðum, þegar söngpallur kirkjunnar var svo þéttskipaður söngfólki, að fleirum varð ekki fyrirkomið. Fór þá saman fagur söngurinn og snilldarlegt tón hins ástsæla prests séra Oddgeirs Guðmundsen. Það voru hugþekkar stundir í fullu samræmi við hátíð hátíðanna, jólin, sem eldri menn mun lengi reka minni til.
Þessi söngkór Brynjúlfs Sigfússnoar æfði upp og söng hér hið mikla tónverk Helga sál. Helgasonar tónskálds Gunnarshólma, en því verki lauk Helgi, er hann dvaldi hér árin 1916 til 1921.
Söngskemmtan þessi var haldin í Gamla Bíó (Borg) seinnipart vetrar 1918 við mikla hrifningu áheyrenda. Er og verk þetta mjög stórbrotið og fagurt og var meðferð þess öll með hinum mestu ágætum. Má þar til minnast einsöngs Páls verslunarmanns Ólafssonar á Sunnuhvoli, er söng bassasóló með slíkum ágætum, að fárra manna annarra myndi á færi vera, enda var hann og einhver besti bassasöngvari, er sögur fara af hérlendis. Þá söng og Árni J. Johnsen aðra sóló með ágætum, sem efalaust heyrir til meistarastykkja þessa ágæta söngvara.
Þá söng og tónskáldið sjálft eina tenórsólo, mjög svo vel, enda þótt hann væri þá 70 ára gamall, en í tilefni þess var þetta mikla söngverk uppæft og sungið. Annars var öll dagskrá þessarar söngskemmtunar einungis lög eftir Helga Helgason.

Vestmannakór


Upp úr þessum blandaða kór var svo Vestmannakórinn skapaður, og með því nafni 1925, þótt ekki væri hann talinn stofnaður sem félagsheild fyrr en 20. maí 1937. Hann var hinsvegar starfandi öll hin árin, hélt t.d. samsöngva í Nýja Bíó 1921-23 og við ýmisleg tækifæri. Formaður Vestmannakórs var fyrstu 3 árin Ragnar Benediktsson, en síðar tók við stjórn hans Sveinn Guðmundsson forstjóri og er sennilega enn í dag formaður hans.
Hiklaust má telja Vestmannakór með bestu blönduðum kórum landsins, sem hefir aukið hróður Eyjanna með söngferðum sínum til meginlandsins, t.d. 1941 um Skaftafells- og Rangárvallasýslu og árið 1944 til Reykjavíkur og Keflavíkur. Einsöngvarar kórsins hafa m.a. verið Sigurður Bogason, Jóhanna Ágústsdóttir o.fl., en fararstjóri hefur ávallt verið Sveinn Guðmundsson forstjóri. Söngstjóri var vitanlega Brynjúlfur tónskáld Sigfússon, sem var trygging fyrri góðum og fáguðum söng.
Það er ekkert smáræði, sem Brynjúlfur Sigfússon hefir gert fyrir söngmennt þessa byggðarlags fyrr og síðar. Má hiklaust telja hann einn af fremstu forfeðrum hljómlistar í Eyjum, þann, sem mestan skerf hefir lagt í þann menningarsjóð með þrotlausri kennslu í söng og orgelleik, frumsmíðum í tónlist og túlkun á erlendum stórverkum í kirkjulegri hljómlist, með slíkum ágætum að til fádæma má telja. Einhver vill nú máske segja, að ég taki stórt til orða, en svo er þó ekki. Hann var snillingur í orgelleik að allra dómi og átti sárfáa jafningja hérlendis.
Í Vestmannakór minnist ég eftirtalinna félaga, sem sungu við góðan orðstír svo árum skipti með litlum hvíldum:

Helgi Árnason múrari Júlíus Þórarinnsson
Hannes Hreinsson Vigfús Jónsson
Sófus Guðmundsson Ragnar Benediktsson
Sigurður Sæmundsson Kjartan Jónsson, Búastöðum
Hjálmar Eiríksson Árni J. Johnsen
Sigurður Bogason Ingólfur Guðmundsson úrsmiður
Sigurgeir Jónsson Þorgils Þorgilsson
Sveinn Guðmundsson Sigurmundur Einarsson
Oddgeir Hjartarson Vilhjálmur Jónsson
Ármann Guðmundsson Kjartan frá Drangshlíðardal

og fleiri.

Meðal kvenfólks má telja:

Margrét Johnsen, Suðurgarði Bergþóra Árnadóttir, Grund
Lilja Jónsdóttir, Mjölni Margrét Gestsdóttir, Herjólfsg. 6
Ingrid Sigfússon Magnea Hannesdóttir
Aðalheiður Árnadóttir Olga Þorkelsdóttir, Reynistað
Jóhanna Ágústsdóttir, Kiðjabergi Matthildur Ísleifsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir, Garðshorni Guðrún Árnadóttir, Ásgarði
Guðrún Ágústsdóttir, Kiðjabergi Sesselja Einarsdóttir, London
Ingveldur Þórarinsdóttir Ragnhildur Þórarinsdóttir
Anna Eiríksdóttir, Vegamótum Njála Guðjónsdóttir, Oddsstöðum
Torfhildur Sigurðardóttir, Hallormsstað Lára Sturludóttir
Alda Björnsdóttir Guðrún Loftsdóttir


Annað tónlistarlíf á 20. öldinni


Margir fleiri söngkórar hafa verið starfandi hér, eitt til 3 ár, en svo lognast út af. Stafaði skammlífi þeirra mest af því, að í þeim voru menn, sem komu hér til dvalar stuttan tíma, en fóru svo burtu aftur og söngkórarnir urðu óstarfhæfir. Þannig mætti minnast ágætra söngkóra, sem stofnaðir voru innan verkalýðsfélaganna, karla- og kvennakórar. Minnist ég sérstaklega Karlakórs verkamanna, sem Árni J. Johnsen stjórnaði 1936 til 1939. Þar voru góðir söngmenn.
Síðar stjórnaði Guðjón Guðjónsson frá Brekkum í Hvolhreppi sama kórnum eða frá 1939 til 1942. Meðlimatala hans var þá 25, mikið utanbæjarmenn.
Sigurður Scheving stofnaði og æfði karlakórinn Herjólfur um tveggja ára bil, en þá lognaðist sá kór út af og var ekki endurreistur. Sigurmundur Einarsson æfði karlakór Vestmannaeyja 1936 til 1939 og Sigurður Gíslason frá Stokkseyri karlakórinn Hljómar um líkt leyti. Báðir þessir kórar urðu skammlífir vegna burtflutninga manna úr bænum.
Einn karlakór er enn ótalinn. Það er karlakór sá er Halldór Guðjónsson stofnaði og stjórnaði. Þótti sá kór mjög góður, enda samanstóð hann af úrvals söngmönnum. Birti ég hér mynd af karlakór þessum og eru á henni talið frá vinstri:

Helgi Árnason múrari, fór til Ameríku,
Eiríkur Jónsson, nú verkamannaskýlinu,
Jón Rafnsson, nú í Reykjavík,
Sigurgeir Jónsson, Suðurgarði,
Halldór Guðjónsson skólastjóri og söngstjóri,
Sófús Guðmundsson skósmiður, nú í Reykjavík,
Haraldur Eiríksson, Vegamótum, nú í Reykjavík,
Þórhallur Sæmundsson lögfræðingur, nú á Akranesi,
Bjarni Bjarnason kennari, nú í Reykjavík,
Hermann Benediktsson, dáinn,
Bryngeir Torfason, Búastöðum, dáinn,
Hannes Hansson, Hæli, nú í Reykjavík,
Árni J. Johnsen kaupmaður,
Sigurður Sæmundsson smiður Hallormsstað.

Einnig varð þessi karlakór óstarfhæfur vegna burtflutninga einstakra meðlima hans, en hinir, sem eftir voru, gengu inn í aðra kóra, t.d. Vestmannakór.
Í verkakvennafélaginu Snót starfaði um skeið kvennakór. Stjórnandi hans var Sigríður Árnadóttir kennari. Það var á árunum 1939 til 1942. Mun það einasti kvennakór, sem hér hefir starfað að heitið geti.
Enda þótt nefndir söngkórar o.fl., hafi flestir starfað aðeins stuttan tíma, hafa þeir þó eflaust gert sitt til þess að efla söngmennt Eyjamanna, en starfsmöguleikar kóranna voru mjög háðir aðkomumönnum, sem aðeins voru hér stuttan tíma og því fór, að allir söngkórarnir lognuðust útaf.

Árið 1941 er stórt ár í sönglífi bæjarins. Þá var stofnaður stærsti og öflugasti karlakór, sem hér hefir starfað. Hann var stofnaður 21. sept. 1941 með 15 meðlimum, en telur nú yfir 30 eða flesta góðsöngvara þessa bæjar, sem ekki eru meðlimir Vestmannakórs.
Fyrsta stjórn þessa Karlakórs Vestmannaeyja skipuðu Ragnar Halldórsson formaður, Guðmundur Ágústsson og Sveinbjörn Guðlaugsson. Fyrsti söngstjóri var Helgi Þorláksson kennari frá Múlakoti á Síðu. Þegar hann svo flutti úr bænum tók við kórnum Ragnar Jónsson organisti Landakirkju. Er ekkert ofsagt, að kórinn jafnist fyllilega öðrum karlakórum landsins. Kórinn hefir ferðast til fastalandsins og haldið þar söngskemmtanir við góðan orðstír.
Fyrr á árum og allt fram um síðustu aldamót voru samsöngvar og hljómleikar lítt þekktir hér í þorpinu, uns fyrstu söngkórarnir hófu starfsemi sína og svo Lúðrasveit Vestmannaeyja. Ekki komu hér heldur neinir inn- eða erlendir söng- eða hljómlistamenn svo heitið gæti. Hefir þeim sennilega ekki þótt árennilegt að troða hér upp með sitt andlega fóður, þareð lítt voru Eyjamenn álitnir bera skyn á slíkar listir fremur en annað. Það var ekki fyrr en á seinni árum, að slíka gesti bar hér að garði. Þeir lögðu út í óvissuna um undirtektir Eyjaskeggja, réðust til slíkrar ferðar með hálfum hug. En þeir sáu ekki eftir að hafa troðið þá braut. Þeim var vel fagnað og undirtektir Eyjamanna undraverðar, hvað listþekking og áhuga snerti. Og fiskisagan flaug fljótt. Þó komu hér færri en ætla mætti, en því hefir miklu um ráðið, hve ferðir voru miklum erfiðleikum bundnar.
Það þótti mikil nýlunda, þegar Halldór Gunnlaugsson héraðslæknir, eftir komu sína hingað, hélt söngskemmtanir ásamt Kristjáni Gíslasyni á Hóli og sungu þar mörg tvísöngslög, Gluntana eftir G. Vennerberg. Ekki voru þetta þó sjálfstæðar skemmtanir, en hinn ágæti söngur þeirra felldur inn í skemmtiskrár einstakra félagasamtaka og vöktu þar almenna aðdáun.
Eftir að Viggó sál. Björnsson bankastjóri flutti til Eyja árið 1919, söng hann oft á skemmtunum og hélt sjálfstæðar söngskemmtanir við sérstaklega góðar undirtektir Eyjamanna. Hann var vel þekkur söngvari úr höfuðstaðnum og hafði mjög fagra barryton-söngrödd. Undirleik annaðist frú Anna Pálsdóttir, kona Sigurðar Sigurðssonar lyfsala, en hún var sem kunnugt er ein af snjöllustu slagshörpuleikurum landsins fyrr og síðar. Var hún brautryðjandi hér á þessu listasviði, sem við komu hennar hingað 1913 var varast þekkt hér, nema af afspurn. Hún kenndi hér fjölmörgum stúlkum slaghörpuleik, sem síðar urðu vel þekktar í þeirri list. Minnist ég m.a. systranna í Valhöll, Rebekku og Soffíu, systranna á Hóli Guðnýjar og Önnu Jesdætra.
Slaghörpur voru til hér nokkuð snemma, t.d. á Hóli hjá past. emir. Jes Gíslasyni, hjá Gísla J. JohnsenBreiðabliki, í Valhöll hjá Ágústi Gíslasyni o.fl. Meðal góðra slaghörpuleikara má og minnast Sigríðar dóttur Valdimars Ottesen kaupmanns í Vísi, sem flutt hafði með sér slaghörpu, er hann kom hingað. Sigríður lék mikið á skemmtunum og tók að sér kennslu um árabil.
Ekki lögðu margir karlmenn þessa list fyrir sig hér í bæ. Þó mætti minnast á Alfreðs W. Þórðarson á Vesturhúsum á seinni árum. Hann lærði fyrst hér heima, en síðan utanlands og iðkaði hljómlist um árabil, samdi lög og kenndi síðar á slaghörpu. Á fleiri hljóðfæri lék hann með ágætum, t.d. píanóharmoniku, en hefir nú að mestu lagt hljóðfæraleik niður.
Ég minnist hinna fyrstu eiginlegu hljómleika, ásamt þeim Torfa Sigmundssyni, sem lék á klarínett, Önnu Pálsdóttur á slaghörpu og Brynjúlfs Sigfússonar, er lék á orgel harmoníum. Voru leikin ýms stór verk með ágætum og var sveitungi okkar, Brynjúlfur, enginn eftirbátur hinna listamannanna í einleik og samleik.
Síðar í vikunni héldu þau svo dansleik í Gúttó og spiluðu að mestu fyrir dansinum. Var það ball lengi í minnum haft vegna góðrar skemmtunar og einsdæma danshljómlistar fyrir dansinum. Það var þá sem lagið „Det var paa Frederiksberg det var í Maj“ var spilað hér fyrst og varð á allra vörum löngu eftir, jafnvel um árabil, í tíma og ótíma. Undir því lagi orti svo Örn Arnarson sitt gullfagra kvæði „Manstu okkar fyrsta fund, forðum daga í Eyjum.“
Árið 1916 héldu þær einsöngs- og slaghörpuhljómleika frúrnar Jarþrúður Johnsen og Anna Pálsdóttir. Var það raunverulega fyrsta sinni, að slík skemmtun var haldin hér og hlaut ágæta dóma almennings.
Á næstu árum komu nokkrir listamenn hingað með söng- og hljómleika, og fóru flestir þeirra héðan aftur við góðan orðstír og þungar pyngjur. Þeim var ávallt vel tekið.
Ég gat þess áðan, að séra Br. Jónsson hefði notað fiðlu við söngkennslu sína. Í framhaldi af því má geta þess, að þegar Árni Filippusson í Ásgarði var hér skólastjóri og kennari, notaði hann einnig fiðlu við söngkennsluna og gafst vel. Það var árin 1886 til 1893.
Fiðlur hafa annars borist snemma til Eyja og verið hér. Fiðlur hafa Eyjamenn sjálfir eignast, er séra Brynjólfur Jónsson flutti til Eyja 1853 eða a.m.k. ekki síðar en 1873. Harmonikur voru þá í eigu nokkurra manna. Um þetta segir séra Br. Jónsson í sóknarlýsingu sinni, að þá sé hér 1 sem spili á fiolin, 2 sem spili á langspil, 7 á harmoniku og nokkrir, sem beri skyn á nótnasöng. Í brúðkaupsveislum og á öðrum gleðisamkomum hafa menn hljóðfæraslátt og er þá jafnan séð svo um, að einhver sá, er þar til kann, sé í samkvæminu, með því slík skemmtun þykir hin ágætasta. Þá er líka sungið og dansað.
Um 1880 er þetta þá þegar mikið breytt. Fiðlur eiga þá nokkrir menn og margir harmonikur. Frú Anna dóttir Jes Thomsen verslunarstjóra átti góða fiðlu og spilaði oft fyrir dansi og raddleiddi söng. Á hinu mikla hljómlistarheimili, Löndum var að sjálfsögðu fiðla í eigu Sigfúsar Árnasonar, er notaði hana við söngkennslu í söngkórum sínum. Hún var einnig líklega til í aðeins tveim húsum öðrum en Landakirkju, þ.e.a.s. á Löndum og Ofanleiti. Rétt upp úr aldamótunum eignaðist Pétur Lárusson á Búastöðum fiðlu og spilaði laglega eftir nótum allt fram á síðasta æviár sitt 1953. Rétt síðar eignuðust fiðlur þeir Sæmundur Jónsson í Jómsborg, Björn Bjarnason í Hlaðbæ, Guðjón Helgason, Dalbæ, Bergur Guðjónsson, Kirkjubóli, Haraldur Eiríksson, Vegamótum, Árni Finnbogason, [[Norðurgarður|Norðurgarði}}, Árni Árnason yngri, Grund o.fl. Allir spiluðu þeir laglega, en flestir til yndisauka sjálfum sér og hemilisfólki sínu.
Harmonikur áttu margir og spiluðu vel, t.d. fyrrnefnd Anna Thomsen, Ólafur Ólafsson í London, Árni Sigurðsson, Steinsstöðum, Árni Árnason eldri, Grund, Guðlaugur Vigfússon, Vilborgarstöðum, Halldór Brynjólfsson frá Norðurgarði kallaður Dóri blindi, Björn Finnbogason, Norðurgarði o.m.fl. Harmonika Ólafs í London var íslensk smíði og svo stór, að hann varð að bera hana í ól yfir axlir sér. Hún var með hálftónum að nokkru og var þessvegna hægt að spila á hana flest lög. Bar hún af öðrum vegna hljómfegurðar og nefndra hálftóna.
Um 1910 fóru að koma hér tvíraða harmonikur, sem þóttu hin mesta gersemi. Þá fyrstu mun Bensi á Vertshúsinu hafa komið með af Austfjörðum. Hann var bróðir þeira Hermanns og Ragnars Benediktssonar frá Mjóafirði. Þessar harmonikur gjörbreyttu takti dansins og danslögunum. Rétt síðar komu svo fleiri slíkar og spilarar urðu margir mjög leiknir. Má þar til nefna Vilhjálm Jónsson í Dölum, Árna Finnbogason, Norðurgarði, Árna Árnason yngri á Grund. Hann var svo smávaxinn 1911, að hann sást varla upp fyrir belg harmonikunar, þegar hann sat og spilaði fyrir dansinum. Héldu sumir jafnvel, að harmonikan væri sjálfspilandi. Þá spilaði líka Hjálmar frá Dölum, Jóhann Jörgen Sigurðsson, Frydendal og fleiri.

Frá Austfjörðum komu margir mjög góðir harmonikuspilarar, svo sem þeir bræður Eiríkur og Tómas Jónssynir frá Reyðarfirði, er spiluðu hér, ásamt Árna Árnasyni, á nær hverju balli í mörg ár, einnig Daníel Einarsson frá Fáskrúðsfirði, Valgeir Guðmundsson frá Norðfirði o.m.fl.
Við komu Ragnars Benediktssonar vigtarmanns til Eyja breyttist dansmúsikin enn. Hann fór þá að spila fyrir dansi á orgel, norsk og sænsk danslög, sem þótti með slíkum ágætum, að harmonikunni var nær útrýmt. Þótti ekkert ball, sem Ragnar Ben. spilaði ekki fyrir dansinum.
Síðar komu fleiri slíkir orgelleikarar, svo sem Einar Bjarnason, var síðast í Keflavík, Sigurður Högnason, Vatnsdal, Kjartan Norðfjörð, futti til Rvíkur, o.fl. Einstöku sinnum heyrðist þó til harmoniku á dansskemmtunum og þá aðeins til hvíldar orgelleikurunum.


síðari hluti


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit