Blik 1976/Minjaskrá Byggðarsafns Vestmannaeyja, þar sem getið er um 320 Vestmannaeyinga, IV. hluti

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1976



Minjaskrá Byggðarsafns Vestmannaeyja

Framhald, (4. hluti)



821. Maltkvörn. Þessarar kvarnar er getið í eignarskrám hinnar dönsku konungsverzlunar í Vestmannaeyjum árið 1600. Þá hafði konungur sjálfur rekið hér einokunarverzlun um hálfrar aldar skeið. Árið 1600 hófu fjórir danskir kaupmenn að reka einokunarverzlunina fyrir eigin reikning. Þá var gjörð skrá yfir allar eignir konungsverzlunarinnar. Eitt af þeim tækjum, sem kaupmennirnir keyptu af konungsverzluninni, var þessi maltkvörn. Einokunarverzlunin flutti jafnan inn maltkorn, sem hún lét mala og brugga síðan maltöl til sölu. Kvörnin fannst í jörðu í austanverðum Skansi fyrir mörgum árum. (sbr. Sögu Vestmannaeyja, 2. b.. bls. 194 eftir S.M.J.)
822. Matskeið. Þessi matskeið kom upp úr höfninni í Vestmannaeyjum árið 1950, þegar unnið var að dýpkun hafnarinnar. Lagið á henni kvað benda til þess, að hún sé mjög gömul. e.t.v. frá miðri 18. öld.
823. Mjöltrog. Þessi trog voru notuð til þess að hnoða í brauðdeig. Þetta mjöltrog gaf prestsfrúin að Ofanleiti, frú Lára Ó. Kolbeins, Byggðarsafninu. Hún eignaðist það, er hún var prestfrú að Mælifelli í Skagafirði. Hún annaðist mjög heimili sitt og þá líka alla matseld.
824. Mjöltrog. Trog þetta áttu hjónin í Gerði, frú Guðbjörg Björnsdóttir frá Kirkjubæ og Jón Jónsson útgerðarmaður og formaður. Þau voru foreldrar frú Jónínu húsfreyju í Gerði, sem gaf Byggðarsafninu trogið.
825. Mortél eða steytill úr eirblöndu. Þetta mortél átti hér fyrst frú Johanne Ericsen skipstjórafrú (síðar Johanne Roed). Maður hennar hinn fyrri hét Morten Eriksen og fórst hann hér við sjötta mann á skútu sinni árið 1847. Þetta voru dönsk hjón og frúin ruddi hér brautir í vissum málum. Hún hóf að reka veitingahús eftir að hún missti mann sinn. - Um 1850 hóf hún að rækta hér kartöflur. Sú ræktun var óþekkt áður í Eyjum. Þar ruddi hún hinar markverðustu brautir, því að Eyjabúar létu sér framtak hennar sér að kenningu verða og ræktuðu kartöflur í stórum stíl um árabil. Frú Sigríður Árnadóttir Johnsen, húsfreyja í Frydendal og kaupkona þar um skeið, átti þetta mortél eftir daga hinnar dönsku frúar. Hjónin Sigfús og Jarþrúður Johnsen gáfu Byggðarsafninu grip þennan.
826. Mortél, svart úr potti með járnstutli. Mortél þetta áttu upprunalega verzlunarstjórahjónin í Danska Garði, Jóhann Pétur Benedikt Bjarnasen og k.h. frú Johanne (f. Rasmussen), dóttir frú Johanne veitinga og kartöfluræktarkonu.
827. Mortél. Þetta mortél gaf frú Jóhanna Jónasdóttir húsfr. í Nýjabæ Byggðarsafninu. Það var sagt vera úr dánarbúi afa og ömmu frú Jóhönnu, Helga Jónssonar beykis við Garðsverzlun (Brydeverzlun) og konu hans frú Sigríðar Bjarnadóttur. Þau bjuggu í Kornhólsfjósi í Eyjum á árunum 1840-1847.
828. Mortél með „krýndu“ F, sem líklega á að tákna vörumerki.
829. Olíuvél. Þessi litla olíuvél, „einkveikja“, er ein af þeim fyrstu, sem fluttust hingað í verzlun, líklega rétt eftir aldamótin. Hjónin í Ásgarði við Heimagötu áttu vélina. Hún var oft notuð á þjóðhátíð í Herjólfsdal. Stundum var hún notuð í vélbátum til þess að hita á henni kaffi í sjó- eða „landferðum“. Börn Ásgarðshjónanna, frú Gíslínar og Árna, gáfu Byggðarsafninu olíuvélina.
830. Olíuvél, „tvíkveikja“. Þessa olíuvél átti Júlíus múrarameistari Jónsson í Stafholti (nr. 7B) við Víðisveg hér i bæ. Olíuvélin var notuð á heimili hans um tugi ára. Hann gaf sjálfur Byggðarsafninu olíuvélina.
831. Olíuvél, „þríkveikja“. Olíuvél þessa áttu hjónin í Stóra-Gerði í Eyjum, frú Sigurfinna Þórðardóttir (Litla-Gerði) og Stefán Guðlaugsson, skipstjóri þar og útgerðarmaður. Þau keyptu vélina árið 1908. Frú Sigurfinna húsfreyja gaf Byggðarsafninu olíuvélina 1953.
832. Olíuvél, „þríkveikja“. Þessa olíuvél áttu hjónin á Litla-Landi við Kirkjuveg (nr. 59) Brynjólfur beykir Brynjólfsson, síðar spítalaráðsmaður í bænum, og frú Guðbjörg Magnúsdóttir.
833. Olíuvél, „tvíkveikja“. Þetta er yngri gerð. Þessar olíuvélar voru algengar á árunum 1920-1945.
834. Olíuvél, gasvél með olíugeymi til hliðar við vélina. Þessar vélar voru í notkun á árunum 1930-1960.
835. Panna.
836. Panna, „steikarapanna“. Þessi panna var notuð á einu stærsta útgerðarheimili hér í Eyjum um árabil. Hjónin gerðu út tvo vélbáta og höfðu að jafnaði 10 sjómenn á heimili sínu á vetrarvertíð auk aðgerðarfólks. Frúin gaf Byggðarsafninu pönnuna að manni hennar látnum með þagnarskyldu um fyrri eigendur.
837. Pottagrind. Hún var gefin Byggðarsafninu fyrir mörgum árum. Á henni sátu pottarnir, þegar eldað var við „prímus“. Þessi grind var notuð í Bjarnarey um 40 ára bil, þegar menn lágu þar við til lundaveiða. Lárus Árnason á Búastöðum var bifreiðarstjóri að starfi nema á lundaveiðitímanum á sumri hverju, en þá lá hann við í Bjarnarey, veiddi lunda og eldaði mat við prímuseld og notaði grind þessa. Þannig lifði hann 40 sumur af ævi sinni. Hann gaf Byggðarsafninu grindina.
838. Pottaskafi, pottaskefill. Þetta tæki var notað til þess að skafa skóf úr botni grautar potta (sbr. frásögn Jóns Thoroddsens um Hjálmar tudda og skófnaát hans).
839. Pottaskefill, pottaskafi, merktur G.V.
840. Pottaskefill. Hann var á sínum tíma sendur Byggðarsafninu af vini þess, sem þá bjó á Austfjörðum og óskaði ekki að láta nafns síns getið.
841. Pottkrókar. Þeir voru notaðir til þess að lyfta „eyrnapottum“ af hlóðum eða eldavél. Þessir pottkrókar eru mjög gamlir. Á fyrri öld voru þeir notaðir í Nýjabæ hér á Eyju. Þar bjuggu þá hjónin frú Steinvör Jónsdóttir og Jónas bóndi Helgason. Frú Jóhanna dóttir þeirra og maður hennar, Sigurður Þorsteinsson, sjómaður, fengu byggingu á jörðinni eftir daga gömlu hjónanna. Þau bjuggu þar um tugi ára. Frú Jóhanna gaf Byggðarsafninu pottkrókana.
842. Pottkrókar. Þessir eru með járnhandfangi.
843. Pottkrókar með tréhandfangi.
844. Pottur, „þrífótur“, sem lengi var notaður í útieldhúsinu á einum bænum í Gerði hér á Eyju. Þá áttu pott þennan bóndahjónin Jón formaður Jónsson og kona hans frú Ingibjörg Stefánsdóttir. Jón bóndi var formaður á opna skipinu, tíæringnum, Halkion. Jón bóndi Jónsson (yngri) í Gerði erfði pottinn eftir foreldra sína og svo dóttir hans, frú Jónina húsfr. í Gerði, sem gaf hann Byggðarsafninu.
845. Pottur, „kleinupottur“ „emaleraður“. Hjónin á Nýlendu (nr. 42) við Vestmannabraut, frú Jenný Jakobsdóttir og Jón verkamaður Sveinsson, gáfu hann Byggðarsafninu.
846. Pottur gjörður úr eirblendi.
847. Pottur, stór „þrífótur“. Þennan pott áttu héraðslæknishjónin að Kirkjuhvoli (nr. 65) við Kirkjuveg,frú Anna P. Gunnlaugsson og Halldór Gunnlaugsson.
„Þetta var sláturpotturinn þeirra hjóna,“ sagði einn, sem þekkti vel til læknisheimilisins. Erfingjar hjónanna gáfu Byggðarsafninu pottinn. 848. Pottur, lítill „emaleraður“ „kleinupottur“. Pottinn áttu hjónin í Stóra-Gerði, frú Sigurfinna Þórðardóttir og Stefán formaður Guðlaugsson.
849. Pottur, lítill og flatbotna.
850. Prímus, „eldunarprímus“ eða „húsprímus" til aðgreiningar frá prímusum þeim, sem notaðir voru til þess að hita upp glóðarhausa bátavélanna. Þessi prímus var notaður í Bjarnarey um tugi ára ásamt pottagrindinni nr. 837. sem potturinn var látinn standa á, meðan maturinn var soðinn. Þessi eldunartæki átti Lárus Árnason bifreiðarstjóri frá Búastöðum. Hann var einn kunnasti lundaveiðimaður í Eyjum á sínum æsku og manndómsárum. Í Bjarnarey lá hann við hvert sumar í 40 ár ævi sinnar. Hann gaf Byggðarsafninu prímusinn.
851. Rúllupylsupressa. Þessa „pressu“ áttu hjónin á Hrauni (nr. 4) við Landagötu, frú Solveig Jónasdóttir og Jón bókavörður Einarsson. Gjöf frá Laufásheimilinu, en Þorsteinn skipstjóri í Laufási var sonur Jóns Einarssonar að fyrra hjónabandi.
852. Rúllupylsupressa.
853. Skeggbolli. Þegar yfirskegg var mjög í tízku á fyrri öld og fyrri hluta þessarar aldar, voru þessir svokölluðu skeggbollar ekki óalgeng fyrirbrigði. Glerklampinn innan í bollanum hindraði, að yfirskeggið blotnaði í kaffinu, meðan það var drukkið. Þennan bolla átti Þorlákur kaupmaður Sverrisson á Hofi (nr. 25) við Landagötu. d. 1943.
854. Skeggbolli. Þennan skeggbolla átti Karl J. Einarsson, sem var bæjarfógeti í Vestmannaeyjum á árunum 1910-1924 og alþingismaður. Þegar hann fluttist úr Eyjum árið 1924, gaf hann einum bezta stuðningsmanni sínum við alþingiskosningarnar bolla þennan, „því að ég ræktaði meira skegg en alþingismaðurinn sjálfur,“ eins og stuðningsmaðurinn komst að orði, þegar hann gaf Byggðarsafninu bollann.
855. Skeið, silfurhúðuð, mjög gömul, merkt S.J. Hún fannst á lendum gagnfræðaskólans í febrúar 1947, þegar hafizt var handa um að grafa fyrir gagnfræðaskólabyggingunni. Kunnugir þekktu skeiðina. Hana átti Stefán Jónsson frá Skála undir Eyjafjöllum, afi Björgvins Jónsonar útgerðarm. í Úthlíð (nr. 58 A) við Vestmannabraut og þeirra systkina. Túnið, sem gagnfræðaskólabyggingin var reist á, ræktaði Halldór blindi Brynjólfsson, þar sem hinn alblindi athafnamaður lá á hnjám sínum dag eftir dag og risti grasrótina af óræktarmóanum. Ýmsir urðu þá til að hjálpa honum, m.a. Stefán Jónsson frá Skála. Þarna tapaði hann þá matskeiðinni sinni, sem fannst þarna um 40 árum síðar.
856. Skeið og matkvísl. Þessir hlutir voru upprunalega vinnuhjúaverðlaun frá Búnaðarfélagi Íslands til handa Jórunni Sigurðardóttur, sem var vinnukona á Löndum (nr.11) við Landagötu mörg ár, hjá hjónunum frú Elínu Þorsteinsdóttur og Friðriki Svipmundssyni, skipstjóra og útgerðarmanni. Frú Þórodda Loftsdóttir, Bræðraborg (nr. 3) við Njarðarstíg, gaf Byggðarsafninu verðlaunahluti þessa.
857. Smjöraskja. Hana áttu hreppstjórahjónin í Baldurshaga (nr. 5 A) við Vesturveg. Dóttir þeirra, frú Ingibjörg Högnadóttir, gaf hana Byggðarsafninu.
858. Smjöraskja mjög gömul. Smjöröskjur voru notaðar til að geyma í „viðbit“, smjör og bræðing, í úteyjaferðum við fuglaveiðar og heyskap, og svo í sjóróðrum, eftir að farið var að hafa nesti með sér í fiskiróðra.
859. Smjöraskja. Þessa smjöröskju átti frú Katrín Þórðardóttir frá Neðra-Dal undir Eyjafjöllum, sem gift var Þórarni Þórarinssyni frá Mörtungu á Síðu. Þegar þau hjón bjuggu í Hallskoti í Fljótshlíð (K. Þórðard), eignaðist húsfr. þessa smjöröskju. Þessi hjón voru tengdaforeldrar Gísla verzlunarstjóra Engilbertssonar á Tanganum í Eyjum, föður Engilberts Gíslasonar málarameistara og listmálara.
860. Smjöraskja. Þessa litlu smjöröskju átti Frydendalsheimilið. Hún var notuð um árabil á hverju sumri, þegar legið var í Úteyjum við fuglaveiðar, en Jóhann J. Johnsen átti ítök í Úteyjum, þar sem hann hafði byggingu á einni Kirkjubæjajörðinni. Sigfús M. Johnsen gaf Byggðarsafninu öskjuna.
861. Smjöraskja.
862. Smjöraskja.
863. Steikarfat úr búi hjónanna í Hlíð (nr. 4) við Skólaveg, frú Þórunnar Snorradóttur og Jóns útgerðarmanns Jónssonar. Fatið kvað hafa verið brúðargjöf til þeirra.
864. Steikarpanna úr búi hjónanna í Hlíð, frú Þórunnar Snorradóttur og Jóns útgerðarmanns Jónssonar, sem jafnan höfðu fjölmennt starfslið í heimili sínu á vetrarvertíðum.
865. Sykurkar. Sykurkar þetta, sem er meira en 100 ára gamalt, eignaðist Byggðarsafnið úr dánarbúi hjónanna á Kirkjubóli á Kirkjubæjum, frú Ólafar Lárusdóttur og Guðjóns Björnssonar. Það er „gamall „veizluleir“. (Sjá nr. 731). Frú Lára Guðjónsdóttir, Kirkjulandi, gaf Byggðarsafninu hlutinn.
866. Sykurkar og rjómakanna. Þetta var upprunalega brúðargjöf.
867. Sykurskál, eins og hún var kölluð. Hún var keypt í verzlun Gísla J Johnsen árið 1905.
868. Sykurtöng. Fram á þessa öld var hvítasykur „toppasykur“ „melis“ fluttur til landsins og seldur í steyptum toppum. Þá þurfti að mylja niður sykurtoppana og síðan klippa sykurinn í hæfilega stóra bita. Til þess voru sykurtangirnar notaðar. Þessi sykurtöng er smíðuð úr eirblendni. Hana smíðaði völundurinn á Kirkjubæjum, Magnús bóndi Eyjólfsson.
Töngina áttu hjónin á Kirkjubæjum, frú Halla Guðmundsdóttir og Guðjón bóndi Eyjólfsson. Frú Halla Guðmundsdóttir, dótturdóttir hjónanna, erfði töngina og gaf hana safninu.
869. Sykurtöng, erlend. Sykurtöng þessa áttu hjónin á Búastöðum frú Guðrún Magnúsdóttir og Gísli bóndi Eyjólfsson.
870. Tesía. Hún er erlend að uppruna. Tesíu þessa áttu verzlunarstjórahjónin við Garðsverzlun í Eyjum, frú Sigríður Guðmundsdóttir og Anton verzlunarstjóri Bjarnasen.
871. Tindiskur. Hann kom upp úr botni Vestmannaeyjahafnar við dýpkun hennar fyrir nokkrum árum. Líklegt er, að diskur þessi hafi fallið í höfnina, e.t.v. á 18. eða 19. öld af dönsku verzlunarskipi, sem þá lágu jafnan innan við hafnarmynnið, Leiðina, meðan þau voru afgreidd. Skipshöfnin á dýpkunarskipinu Vestmannaey gaf Byggðarsafninu diskinn.
872. Tréskeið. Þessi litla tréskeið var lengi notuð á Vestri-Oddstöðum, heimili hjónanna frú Guðrúnar Grímsdóttur og Guðjóns líkkistusmiðs Jónssonar. Skeiðin er sögð mjög gömul.
873. Teskeið. Hún fannst í jörðu suður af Oddstaðabæjum. Finnandi og gefandi er frú Guðbjört Guðbjartsdóttir húsfr. á Einlandi.
874. Tréskál, stór, gjörð úr rótarviði. Þegar fyrsta konungsverzlunin í Vestmannaeyjum, einokunarverzlun hins danska einvalds, sem stofnuð var árið 1552, var seld fjórum kaupmönnum í Kaupmannahöfn árið 1600, voru þar meðal annarra tækja 11 tréskálar, sem seldar voru kaupmönnum með öðrum gögnum og tækjum verzlunarinnar. Þessi skál mun vera ein þeirra. Hún fannst í einu verzlunarhúsi Brydeverzlunarinnar í Eyjum á s.l. öld og var síðan ávallt geymd þar sem helgur gripur til minja um liðna tíð. Síðast hékk skál þessi undir súð á lofti Kornloftsins á Skansi, sem var byggt 1830. Það hús fór undir hraun í eldgosinu á Heimaey árið 1973. Þegar Einar Sigurðsson „hinn ríki“ keypti verzlunarhúsin á Skansi af Kf. Fram 31. des. 1940 (sjá Blik 1974), sendi hann Byggðarsafninu skálina að gjöf. Þessara 11 tréskála er getið í eignaskrá hinnar dönsku konungsverzlunar árið 1600.
875. Vatnsdæla, vatnspóstur. Frá því byggð hófst í Eyjum urðu Eyjabúar að safna regnvatni til heimilisnota, ef þeir höfðu ekki aðstöðu til að sækja neyzluvatn í Daltjörnina eða Vilpu. Á síðari hluta seinustu aldar tóku framtakssamir dugnaðarmenn að grafa vatnsbrunna við hús sín og hlaða þá innan og slétta sementi milli steinanna í veggjunum. Þannig fengu þeir brunna sína vatnshelda. Regnvatnið rann síðan af þökunum í brunna þessa. Hús þau, sem ekki voru með torfþaki, voru lögð eins konar spæni á þaki, svo sem Landakirkja og hús einokunarverzlunarinnar. Auðvelt var að safna vatni af þeim húsum með rennum.
Konur sóttu vatn í tunnur, vatnsþrær eða brunna með því að sökkva fötum í þá. Þannig var það um langan aldur. En svo kom tæknin til sögunnar a.m.k. hjá kaupmannafólkinu. Þessi vatnsdæla er hin fyrsta, sem hingað fluttist. Það gerði danski einokunarkaupmaðurinn á síðari hluta síðustu aldar. En galli var á! Leggurinn var of stuttur og engin tækni til í Eyjum eða tök á að lengja hann með járnpípu. Þess vegna var gripið til þess úrræðis að lengja hann með tréstokk.
876. Vatnsdæla. Þessi dæla var á brunni Lyfjabúðarinnar hjá Sigurði lyfsala Sigurðssyni frá því að hann stofnaði hér lyfjabúð árið 1913.
877. Vatnsgrind. Til þess að létta sér vatnsburð í fötum notaði fólk almennt þessar vatnsgrindur, sem svo voru kallaðar. Þessa grind smíðaði Þorsteinn smiður Ólafsson í Fagradal (nr. 16) við Bárustíg árið 1906. Kristján Gunnarsson, fyrrum kunnur bræðslumaður í kaupstaðnum, Oddeyri (nr. 14) á Flötum, gaf Byggðarsafninu vatnsgrind þessa.
878. Öðuskel. Þessi öðuskel var á sínum tíma notuð í stað skeiðar eða spóns. Eftir hörðu árin, sultarárin 1881 og 1882, fluttust sárafátæk hjón til Vestmannaeyja með stóran barnahóp. Fjölskyldufaðirinn átti hvorki spón eða skeið til þess að borða með spónamatinn. Til þess notaði hann þessa öðuskel. Það mun ekki hafa verið einsdæmi hér á landi á þeim árum. Öðuskel þessi var geymd hér í ónefndu húsi um tugi ára til minja um bágindi þessarar fjölskyldu. Barnabarn hinna sárafátæku hjóna gaf Byggðarsafninu skelina, en það var búsett hér til aldurtilastundar. Sá einstaklingur lézt fjörgamall í mjög góðum efnum. Engin nöfn verða hér nefnd samkvæmt ósk gefandans.
879. Ölkanna. Hún er bornhólmsk að uppruna og hún er sögð mjög gömul. Sigfús M. Johnsen, fyrrv. bæjarfógeti hér í Eyjum, gaf Byggðarsafninu könnuna.


12. kafli
Húsgögn, hurðir og ýmsir fleiri
hús- og heimilismunir



880. Dragkista (kommóða). Sannanlegt er, að þessi dragkista er meira en 200 ára gömul. Dragkistu þessa smíðaði „kóngssmiðurinn" í Þórlaugargerði, Guðmundur bóndi þar Eyjólfsson. Kóngssmiðir voru þeir einir titlaðir í Eyjum, sem lært höfðu smíðar í Danmörku, voru „snikkarar“, og höfðu það að atvinnu öðrum þræði að stunda smíðar á vegum konungsvaldsins í Eyjum, byggja hús fyrir kónginn og gera við hin opnu fiskiskip hans, en konungsvaldið danska rak hér alla útgerð um tveggja alda skeið. Guðmundur Eyjólfsson setti t.d. þakið á Landakirkju, sem byggð var á árunum 1774-1778.
Þegar hjónin Lárus Jónsson og frú Kristín Gísladóttir fengu ábúð á Vestri-Búastöðum eftir Sigurð Torfason hreppstjóra árið 1870, þá lét hreppstjórinn hina nýju ábúendur „erfa“ dragkistuna.
Dragkistu þessa gaf frú Júlíana Sigurðardóttir, fyrrv. húsfreyja á Búastöðum, Byggðarsafninu, en hún var gift Pétri Lárussyni bónda, syni Búastaðahjónanna frú Kristínar og Lárusar.
881. Dragkista (kommóða). Þessa dragkistu áttu prestshjónin að Ofanleiti, séra Jón Jónsson Austmann og mad. Þórdís Magnúsdóttir að Ofanleiti. Þau voru búandi að Ofanleiti 1827-1858 (leiðr.). Kommóða þessi kvað vera dönsk að uppruna, og eignuðust prestshjónin hana árið 1817, er þau fengu prestakallið að Þykkvabæjarklaustri og settust að á Mýrum. Eftir fráfall séra Jóns J. Austmanns árið 1858 eignaðist Magnús J. Austmann, bóndi, stúdent og alþingismaður að Nýjabæ kommóðuna, en hann var elzta barn þeirra hjóna. Hann lézt árið 1859. Frú Kristín Einarsdóttir, ekkja hans, átti síðan húsgagn þetta alla sína búskapartíð í Nýjabæ eða til dauðadags árið 1899.
Við fráfall frú Kristínar Einarsdóttur eignaðist Þórarinn bóndi Árnason á Oddstöðum kommóðuna og síðan Oddgeir bifreiðarstjóri sonur hans. Oddgeir Þórarinsson gaf hana Byggðarsafninu árið 1958 eða á 100 ára ártíð séra Jóns Austmanns, hins gagnmerka sóknarprests.
882. Dragkista. Þessa litlu dragkistu átti frú Fríður Lárusdóttir bónda og hreppstjóra Jónssonar á Búastöðum. Lárus bóndi smíðaði sjálfur dragkistuna og gaf hana þessari dóttur sinni í fermingargjöf, en frú Fríður var fermd 26. maí 1894. Frú Fríður Lárusdóttir var gift Sturlu Indriðasyni frá Vattarnesi. Dóttir þeirra hjóna, frú Lára Sturludóttir, gaf Byggðarsafninu dragkistuna.
883. Dragkista, sem er smíðuð úr mahoní. Hún á þessa sögu: Árið 1880 rak langt og gildvaxið mahoní tré í Gunnarsurð, sem er í krikanum milli Kervíkurfjalls og Sæfells. Þarna átti þá rekaréttindi Jóhann J. Johnsen, veitingamaður og bóndi í Frydendal, en hann hafði byggingu fyrir einni Kirkjubæjarjörðinni (Bænhúsjörðinni á Kirkjubæjum).
Tré þetta var þurrkað vandlega og síðan rist í borð með stórviðarsög Ingimundar bónda Jónssonar á Gjábakka (sjá nr. 489). Hjá hjónunum í Frydendal dvaldist þá Árni trésmiður Árnason, sem stundaði sjó í Eyjum á útvegi Frydendalshjónanna, þegar hann vann ekki að smíðum. Árni Árnason hafði fyrir skömmu lokið við að smíða þessa dragkistu, þegar hann drukknaði, en það var árið 1887.
Til fyrirmyndar um smíði þessa hafði Árni smiður dragkistu hjónanna í Nýjabæ, sem prestshjónin á Ofanleiti höfðu átt. (Sjá nr. 881). Síðast átti þessa dragkistu Árni verzlunarmaður Jónsson í Odda (nr. 63 A) við Vestmannabraut, sem var starfsmaður Gunnars Ólafssonar og Co. um langt árabil. Hann var frá Helgusöndum í Landeyjum, f. 12. apríl 1889 og dáinn 21. júní 1963. Hann gaf Byggðarsafninu dragkistuna.
884. Fatakista. Kistu þessa áttu hreppstjórahjónin á Búastöðum hinum vestari, Lárus Jónsson og frú Kristín Gísladóttir. Hann smíðaði sjálfur kistuna um 1880.
885. Fatakista. Þessa kistu gaf Karl Guðmundsson skipstjóri Byggðarsafninu.
886. Fatakista.
887. Fótskör, fótskemill með sama sniði og sjóferðakista.
888. Hægindastóll eða vinnustóll frú Rósu Eyjólfsdóttur húsfr. í Þórlaugargerði. Jón bóndi Pétursson, maður hennar, smíðaði stólinn. Jón Guðjónsson, bóndi og smiður í Þórlaugargerði, fóstursonur þeirra hjóna, gaf Byggðarsafninu stólinn.
889. Kistill. Á hann er málað nafnið Una. Frú Una Jónsdóttir, skáldkona að Sólbrekku (nr. 21) við Faxastíg, átti þennan kistil og gaf hann Byggðarsafninu.
890. Skrifborð. Þetta skrifborð átti og notaði í skrifstofu sinni í Landlyst, Þorsteinn héraðslæknir Jónsson (1865-1905), „Eyjakarl“, eins og hann var stundum nefndur sökum opinberra starfa og valda í byggðarlagi Eyjamanna. Borðið gáfu Byggðarsafninu frú Matthildur Ágústsdóttir, dótturdóttir héraðslæknisins, og maður hennar Sigurður skrifstofustjóri Bogason, hjón í Eystra-Stakkagerði. Frú Matthildur erfði skrifborðið eftir afa sinn, sem lézt árið 1908.
891. Skrifborð. Þetta skrifborð átti Jón bóndi Guðmundsson í Suðurgarði.
892. Skatthol. Skatthol þetta átti Ólafur útgerðarmaður Auðunsson í Þinghól (nr. 19 við Kirkjuveg). Frú Solveig Ólafsdóttir, dóttir hjónanna í Þinghól, frú Margrétar Sigurðardóttur og Ó.A., gaf Byggðarsafninu skattholið.
893. Spegill. Stofuspegill hjónanna á Vilborgarstöðum, frú Guðfinnu J. Austmann og Árna Einarssonar, bónda og meðhjálpara. Haft var á orði, að naumast ætti sjálfur einokunarkaupmaðurinn eða „factorinn“ í Danska-Garði íburðarmeiri stofuspegil en þessi er. Spegillinn mun vera um það bil aldar gamall. Sigfús M. Johnsen, fyrrv. bæjarfógeti, gaf Byggðarsafninu spegilinn. Hann var sonarsonur frú Guðfinnu húsfreyju á Vilborgarstöðum.
894. Stofuborð. Þetta stofuborð er smíðað úr maghoní (ekki spónlagt). Það áttu hreppstjórahjónin í Stakkagerði, frú Ásdís Jónsdóttir og Árni bóndi og hreppstjóri Diðriksson. Þau hjón áttu hér í Eyjum markverða sögu. Árni bóndi var fyrst formaður á áttæringnum Gideon, þar til Hannes Jónsson gerðist formaður á honum, þá innan við tvítugt. Árni var myndarbóndi í Stakkagerði og hreppstjóri um árabil. Þá ruddi hann brautir um lundaveiðar í Eyjum með því að flytja inn fyrsta lundaháfinn og nota hann. Það var árið 1875. Árið eftir notuðu allir lundaveiðimenn í Eyjum háfinn. Frú Ásdís lézt 1892 og Árni bóndi 1903. Þau voru tengdaforeldrar Gísla gullsmiðs Lárussonar í Stakkagerði.
895. Stofuhurð. Stofuhurð þessi var fyrst notuð í íbúðarhúsi því á Ofanleiti, sem séra Brynjólfur Jónsson sóknarprestur byggði þar árið 1863. Þá hafði séra Brynjólfur verið þar prestur í 3 ár. Þetta íbúðarhús að Ofanleiti var rifið um eða eftir síðustu aldamót. Séra Oddgeir Þórðarson Guðmundsen, sóknarprestur að Ofanleiti frá 1889-1924, lét byggja nýtt prestssetur að Ofanleiti um eða eftir síðustu aldamót. Þá var þessi hurð notuð þar. Þegar svo steinhúsið að Ofanleiti var byggt árið 1927, í tíð prestshjónanna séra Sigurjóns Þ. Árnasonar og frú Þórunnar Kolbeins, var þessi hurð ekki notuð lengur. Hreppti hana þá húsameistarinn Kristján Jónsson á Heiðarbrún (nr. 59) við Vestmannabraut. Síðar eignaðist Magnús Eyjólfsson á Grundarbrekku (nr. 11) við Skólaveg hurðina. Þar var hún notuð í kjallara hússins á árunum 1946-1966. Gestir Byggðarsafnsins undrast, hvernig hægt var að nota svo lága stofuhurð sem þessi er. Athugandi er það, að þá voru þröskuldar hafðir 30—40 sm háir.
Hjónin á Grundarbrekku, frú Guðrún Magnúsdóttir og Jónas Guðmundsson, gáfu Byggðarsafninu hurðina.
896. Stofuhurð. Hún hefur einhverntíma verið máluð græn. Stofuhurð þessa smíðaði að danskri fyrirmynd Þórarinn Hafliðason, mormónaprestur hér í Eyjum. Hann var „snikkari“, lærður í Danmörku. Þórarinn Hafliðason drukknaði hér vestan við Heimaey árið 1852. Hurðin er þess vegna orðinn minnst 125 ára. Hún var um tugi ára notuð í kjallara íbúðarhúss hjónanna á Kirkjubæ, frú Höllu Guðmundsdóttur og Guðjóns bónda Eyjólfssonar.
Síðustu ábúendur á þessari Kirkjubæjarjörð fyrir gos voru hjónin frú Þórdís Guðmundsdóttir og Magnús Pétursson bónda á Kirkjubæ Guðjónssonar. Þessi hjón gáfu Byggðarsafninu hurðina.
897. Stofustólar. Þessir stofustólar, smíðaðir úr maghoní og bólstraðir, eru sagðir fyrstir sinnar gerðar í Vestmannaeyjum. Stólana áttu hjónin á Vilborgarstöðum, frú Guðfinna J. Austmann og Árni bóndi Einarsson.
Um tugi ára átti Sigfús M. Johnsen, fyrrv. bæjarfógeti, þessa stóla eftir ömmu sína. Hann gaf þá Byggðarsafninu.
898. Salerniskassi. Gísli J. Johnsen, kaupmaður og útgerðarmaður, lét byggja íbúðarhús sitt Breiðablik árið l908. Þá lét hann setja vatnssalerni í húsið að erlendri fyrirmynd. Áður voru þau tæki óþekkt í húsum hér í Eyjum. Það hneykslaði þá ýmsa, að þessi „jarl“ í Eyjum tæki upp á þeim býsnum að hafa „kamarinn“ í sjálfu íbúðarhúsinu. Iðnaðarmannafélag Vestmannaeyja, sem hefur átt Breiðablik í 40-50 ár, gaf Byggðarsafninu salerniskassann.
899. „Bæjarhurð“, líkan af bæjarhurð, eins og þær voru algengar á sveitabæjum hér áður fyrr, og á flestum tómthúsum hér í Eyjum fyrir og um síðustu aldamót a.m.k. Og þannig voru lamir og læsingar. Læsingarnar voru kallaðar klinkur. Þær voru oftast smíðaðar úr járni eða þá eirblendi eins og þessar.
Þessar lamir og klinkur gáfu hjónin Guðmundur Steinsson og frú Sigríður Jónatansdóttir frá Stórhöfða Byggðarsafninu.
900. Útvarpstæki. Þetta er eitt af allra fyrstu innbyggðu útvarpstækjunum, sem keypt voru til Eyja. Tækið sjálft og hátalarinn í einum og sama kassanum. Áður var þetta sitt í hvoru lagi. Tæki þetta áttu hjónin á Vestri-Búastöðum, frú Júlíana S. Sigurðardóttir og Pétur bóndi Lárusson.
901. Útvarpstæki með lausum hátalara (Philipstæki). Tæki þetta er gjöf frá frú Láru Guðjónsdóttur að Kirkjulandi. Foreldrar hennar á Kirkjubóli áttu tækið.
Þessi útvarpstæki voru algeng hér fyrst eftir að íslenzka útvarpsstöðin tók til starfa (1930).

V. hluti

Til baka