Blik 1969/Útræði í Öræfum

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search

Efnisyfirlit 1969


SIGURÐUR BJÖRNSSON, BÓNDI Á KVÍSKERJUM:


Útræði í Öræfum


Sé frásögnin rétt, að Ingólfur Arnarson hafi lent skipi sínu við Ingólfshöfða, hefur vafalaust verið all gott var þar þá. Ýmislegt bendir til að svo hafi verið. Frá þessum tíma hefur mjög mikill sandur borizt til sjávar beggja vegna Ingólfshöfða, og einnig hefur landið sigið talsvert, svo að líklegt er, að aðstæður hafi verið þar allt aðrar en nú eru. Engar sagnir eða heimildir eru þó til um höfn þar á söguöld eða síðar, nema þá óljósar sagnir skráðar um 1700, og engar samtíma heimildir eru um sjósókn frá Ingólfshöfða fyrr en um 1700. Þá eru skilyrði þar til útræðis talin mjög slæm.
Ekki er þó að efa, að sjósókn hefur verið stunduð frá Ingólfshöfða frá því að sveitin byggðist. Hins vegar munu sagnir um það, að Norðlendingar hafi sótt þangað, vera ótraustar, enda þótt víst sé, að fiskimiðin voru þar góð.
Elzta heimild um útræði við Ingólfshöfða mun vera í Chorographiaca Islandica Árna Magnússonar, prentuð í Safni til sögu Íslands, öðrum flokki, I. 3. 1955, bls. 18—20, en þar er sóknarlýsing Hofs- og Sandfellsprestakalla eftir séra Gísla Finnbogason, skrifuð um 1700. Hin traustasta heimild um þetta efni.
Kemur þar fram, að nokkurt útræði var þá við Ingólfshöfða. Og á uppdrætti, sem fylgir sóknarlýsingunni, eru teiknaðir þrír bátar og þrjú naust, svo að líklegt er, að þá hafi verið gerðir út þrír bátar þaðan. Á þessari mynd virðast naustin vera vestan við Höfðann, en ýmsir hafa haldið að útræðið hafi fremur verið austan við hann, enda virðist frásögn séra Gísla benda til þess. Hann segir þó, að þar verði ekki komizt út nema í mestu sjódeyðum.
Sveinn Pálsson getur um útræðið við Ingólfshöfða í Ferðabók (dagbók 11. sept. 1793, bls. 277), og er að sjá, að honum hafi verið sagt, að útræðið hafi verið austan við Ingólfshöfða. En þá var útræði þar niður lagt og bátur, sem þá hafði verið þar til, verið seldur um vorið austur á Hornafjörð (Sennilega er þar átt við Suðursveit).
Eggert Ólafsson minnist líka á útræði í Ferðabók sinni.
Sveinn Pálsson sá ekki sjálfur, hvernig aðstæður voru við þetta útræði, en heimildarmaður hans mun hafa verið Jón Einarsson bóndi í Skaftafelli. Svo er að sjá sem hann hafi svarað litlu til, þegar Sveinn átaldi Öræfinga fyrir að nota ekki útræðið, fyrst það var svipað og áður var. En Jóni bónda hefur verið það vel ljóst, hvernig þar var umhorfs, og að þar voru í raun og veru ekki aðstæður til útræðis á vetrarvertíð og höfðu ekki verið á þeirri öld. Bóndi vissi vel, að sveitungum hans var ekki láandi, þótt þeir hættu útgerð að fullu við Ingólfshöfða.
Sveinn Pálsson segir, að bátstapar hafi orðið við Ingólfshöfða, hver eftir annan, og helzt að sjá, að sá síðasti hafi orðið um 1770 eða litlu síðar. (Fyrir um það bil 20 árum 1793). Ekki eru nú aðrar heimildir um slys þar þá. Heimildir eru svo fáar frá þessu tímaskeiði, að vel má vera, að þetta sé rétt.
Vitað er með vissu, að bátur fórst við Ingólfshöfða 1758. Talið er, að flestir eða allir bændur á Hofi hafi þá farizt og eflaust allmargir fleiri. Sumir telja bátana hafa verið tvo.
Sigurður Stefánsson segir í sýslulýsingu sinni (Sögufélagið, Reykjavík 1957), að 12 menn hafi drukknað 6. apríl árið 1746 frá Ingólfshöfðavör, þar á meðal presturinn, séra Eiríkur Oddsson.
Ekki virðist hafa verið nokkurt skip í Öræfum frá 1793—1860, en þá komu 8 bændur þar sér upp skipi, sem haldið var út frá fjörunum all langt austan við Ingólfshöfða. Formaður á þessu skipi var Skarphéðinn Pálsson, bóndi á Fagurhólsmýri. Lítið er nú vitað um aflabrögð á skipi þessu, en því virðist helzt hafa verið haldið út yfir sumarmánuðina eða að sumrinu.
Skarphéðinn formaður hefur skrifað sér til minnis 29. september 1870: „Hér nú er búið að fá til hlutar á mitt skip undir hundrað af lýsu, skötu, ýsu og lítið af þorski, svo að ég get ekki talið í skipshlutinn nema tvo ...“ Árið 1871 létu 6 bændur á Austurbæjum í Öræfum smíða fyrir sig bát, sem var við lýði nokkur ár. Vitað er, að á honum var róið eftir 1873. Þá var formaður á honum Jón Guðmundsson frá Borgarhöfn. Honum þótti verra að taka lag þarna en í Suðursveit, enda tókst svo til, að báturinn kom öfugur að landi. Sögnin segir, að Jón hafi rölt um fjöruna á eftir og horft á sjóinn. Heyrðu þá félagar hans, að hann tautaði við sjálfan sig: „Heldur vildi ég róa eineygður í Suðursveit en fíreygður hér.“
Litlu fyrir aldamótin smíðuðu menn á Fagurhólsmýri lítinn sexróinn bát, sem nefndur var Fram. Öftustu ræðin voru svo kölluð gaffalræði, og voru þau ekki notuð að staðaldri. Á þennan bát aflaðist allvel um stuttan tíma, en þessi bátur brotnaði eftir fá ár.
Formaður á „Fram“ var Árni Hálfdánarson.
Hvort fleiri bátar voru smíðaðir í Öræfum á 19. öld, veit ég ekki. En árið 1911 var smíðaður bátur fyrir Austurbæinga. Hlaut hann nafnið Vongóður. Bát þennan smíðaði Þorsteinn Arason á Reynivöllum. Þessi bátur brotnaði við Ingólfshöfða 1915, eftir að lent var á honum 25. marz.
Árið 1914 smíðaði Skarphéðinn Gíslason á Vagnstöðum bát, sem nefndur var Ingólfur. Hann eyðilagðist fljótlega.
Árið 1916 smíðaði Þorsteinn Arason á Reynivöllum bát fyrir bændur á Hnappavöllum. Sá bátur var nefndur „Draupnir“. Þetta var sexæringur. Hann var mest notaður við uppskipun á vörum, en þótti of lítill til þeirra nota.
Árið 1919 fengu bændur á Hofi Þorstein Arason til að smíða fyrir sig áttæring, sem nefndur var „Blíðfari“. Það var síðasti bátur, sem smíðaður var í Öræfum til sjóferða.
Árið 1926 sendi Kaupfélag Skaftfellinga bát í Öræfin, er „Höfrungur“ hét. Var hann notaður við uppskipun á vörum. Var það sexróinn bátur, sem bar tvær smálestir, mjög traustur og bar vel af sér öldur, en þótti þungur nokkuð. Á þennan bát veiddist allmikið af fiski árið 1941 eða nær 6 smálestir. Það mun bezti afli, sem vitað er um hér í Öræfum.

——————————————————————————————————————


ctr


Bærinn Seglbúðir í Landbroti.