Blik 1969/Heimahagarnir, II. hluti

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1969


ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON:


Heimahagarnir

(2. hluti)


V.
Hvar stóðu Ormsstaðir í Vestmannaeyjum?


Annar landnámsmaður í Vestmannaeyjum var Ormur sonur Herjólfs bónda, eftir því sem Hauksbók fullyrðir. Ég trúi því, sem þar er skráð um landnám í Eyjum, því að mér þykir sú frásögn sennilegust. Ormur Herjólfsson kallaði bæ sinn Ormsstaði. Sagan segir hann hafa átt allar Eyjar og verið kallaður inn auðgi. Hjá honum hefur svo Vilborg systir hans fengið land undir bú, er hún byggði á Vilborgarstöðum og tók að reka þar búskap í meydómi sínum og jómfrúarstandi. Hún var úrvalskona með hjartað sannarlega á réttum stað, eftir því sem þjóðsagan um hana og hrafninn gefa í skyn og svo sagan um vatnssölu föðurins og gjafavatnið hennar.
Höfundur Hauksbókar segir Ormsstaði í Eyjum hafa staðið „við Hamar niðri, þar sem nú er blásið allt.“
Þegar Hauksbók var skráð, um 1300, voru Ormsstaðir ekki lengur til í Eyjum. Meginhluti lands þeirra, heimalands, var blásið upp, -— örfoka. Við skulum veita því athygli, að höfundur Hauksbókar orðar það ekki þannig, að land jarðarinnar hafi sokkið í sæ eða Ægir brotið það niður. Mundi það ekki líklegra orðalag, ef Ormsstaðir hefðu staðið vestan við Ofanleitishamar, eins og einn sögugrúskari Eyja fullyrðir. Sú fullyrðing virðist mér býsna hæpin.

ctr


Þar sem áður voru heimalendur Ormsstaða í Eyjum, liggja nú fiskibátar í tugatali.


Þeir hinir sögufróðu, sem fullyrða, að Ormsstaðir í Eyjum hafi staðið vestur við Ofanleitishamar eða jafnvel vestan við hann (sjórinn brotið landið), færa fram m.a. máli sínu til sönnunar, að orðið hamar á gömlu Vestmannaeyjamáli feli einvörðungu í sér hugtakið blágrýtishamar, bergvegg úr blágrýti. Önnur merking sé þar ekki til í orðinu og hafi aldrei verið þar til. Þess vegna hljóti að vera átt við Ofanleitishamar, þar sem Hauksbók segir ,,við Hamar niðri“.
Það getur verið rétt eða hér um bil rétt, að orðið berghamar í gömlu Eyjamáli merki aðeins blágrýtishamar eða bergvegg úr öðru efni en móbergi. Ýmislegt styður þá fullyrðingu, svo sem þessi örnefni, þar sem bergtegundin er blágrýti: Austurhamar í Elliðaey, — Steðjahamar og Suðurhamar í sömu ey. Hér er byggt á því, sem greinagóðir fuglaveiðimenn tjá mér. Þannig mun það einnig vera um Álkuhamar sunnan í Miðkletti, Lambhilluhamar í Stórhöfða og Rauðhamar í Brandi. Ekki má heldur gleyma Grásteinshamrinum fyrir sunnan Kaplapytti í Stórhöfða.
En svo kemur babb í bátinn og það stríðir illa gegn fullyrðingu hins sögufróða Eyjamanns. Í Álfsey (Álsey) er móbergshamar, sem heitir Búðarhamar. Þannig má þá benda sögugrúskaranum á það, að ekki er kenningin einhlít.
Við fullyrðingu sögugrúskarans er líka það að athuga, að Hauksbók er alls ekki skrifuð á máli Eyjafólks um 1300, og líklega hefur Haukur lögmaður Erlendsson aldrei til Eyja komið, enda þótt hann væri lögmaður Suður- og Austuramtsins um fimm ára skeið. Áður en hann hlaut þá tign, hafði hann lokið við að skrá bók sína.
Haukur lögmaður hefur orðað frásögn sína um Ormsstaðabæinn í Eyjum eftir sögn eða lýsingu annarra manna á staðháttum þar, — þeirra, sem að líkindum hafa dvalizt í Vestmannaeyjum einhvern tíma, t.d. við sjóróðra, — haft þar vetur- eða vorsetu.
Séra Jón J. Austmann, prestur á Ofanleiti, var alinn upp í Vestur-Skaftafellssýslu og svo prestur þar um skeið, nefnir bergveggi Heimakletts hamra bæði að norðan og sunnan. Ekki fer milli mála, hver bergtegundin er í klettinum þeim. Um Dufþekju segir prestur: „Yfir sjávarmál eru þar annars geysiháir hamrar ...“ Prestur ræðir um fýlungann utan í hömrunum, þar sem einungis er um móbergshamra að ræða. Hann ræðir einnig um háa hamra stöllótta. „Þeir heita Skiphellar,“ segir hann. Engum dylst, að þeir eru úr móbergi. „Grjótbyrgi eru þar uppi í hömrunum,“ segir hann um Fiskhellana. Það eru móbergshamrar. Skrúðabyrgi segir prestur vera uppi í hömrum í Kleifnabergi, móbergshömrunum þeim, einmitt þar sem Ormsstaðir stóðu við „Hamar niðri.“
Sveinn Pálsson, læknir og náttúrufræðingur, kemst þannig að orði í Ferðabók sinni: „Í hömrum þessum er alls staðar móberg (Túffa).“
Þannig hef ég sannað það, að hugtakið hamar á íslenzku getur alveg eins vel þýtt móbergshamar, þ.e. þverhníptur bergveggur úr móhergi.
„... við Hamar niðri ...“ er ofur eðlilegt orðalag hjá höfundi Hauksbókar, þar sem Ormsstaðir hafa staðið á graslendinu, þar sem Heimaey er lægst, nefnilega á flatlendinu grasigróna suður og vestur af Kleifnabergi, ef til vill norðaustur af Skiphellunum, þar sem bærinn var öruggur fyrir grjóthruni úr Klifi, Stóra- og Litlaklifi.
Heimaland bæjarins hefur verið hið slétta graslendi, Botninn eða Botnar, eins og það var kallað. Þarna var votlent á vissum svæðum, tjarnir og pyttir með gróðri í og allt um kring. Já, þarna voru víðáttumiklar graslendur, áður en allt þetta flæmi blés upp eða hvarf fyrir afli Ægis. Það þoldi ekki ágang búfjárins og átroðning manna og dýra fremur en svo mörg önnur landspildan á landi okkar fyrr og síðar. Þess vegna er þar nú allt of víða blásið land og örfoka, þar sem áður var grassvörður þykkur og gróðursæld mikil.
Og þarna mitt í graslendinu suður og austur af Kleifnaberginu var Álfheiðarpollur, þar sem blessuð gamla konan hún Álfheiður drukknaði í á leið til kirkju sinnar, Klementskirkju á Hörgaeyri, svo sem greint er frá í gömlum heimildum.
Á Ormsstöðum voru býsnagóð búsetuskilyrði. Graslendið um alla Heimaey var mikið og kjarngott. Þarna voru líka góð ræktunarskilyrði heima við, hafi Ormur bóndi kunnað að „aka skarni á hóla“, notfæra sér búfjáráburðinn og saurindin frá búaliðinu, eins og bóndinn á Bergþórshvoli. Ekki efast ég um það, ef Herjólfur faðir hans hefur komið frá Bretlandseyjum eða Orkneyjum hingað til landsins. Þá hefur hann það kunnað og kennt syni sínum.
Skammt frá Ormsstaðabænum fékkst nægilegt og gott drykkjarvatn. Það gat Ormur bóndi látið sækja undir hamarinn austan við Kleifnabergið, þar sem enn seytlar vatn fram úr berginu og dönsku verzlunarmennirnir höfðu „körin“ sín síðar um aldaskeið og sóttu í neyzluvatn, því að þeim bauð við rigningarvatninu, sem Eyjabúar ella urðu að gera sér að góðu. Af dönsku „körunum“, vatnskerjunum þeirra, er myndað örnefnið „Karató“, ofan við framstreymi vatnsins úr berginu.
Í pyttunum og tjörnunum á flatlendinu sunnan við Kleifnabergið og þar vestur og austur hefur einnig fengizt nægilegt vatn til þvotta a.m.k., því að saltmengað hefur það ekki verið að mun fremur en vatnið í Póstinum á Póstflötum var hér áður fyrr. Nothæft hefur það einnig verið til brynningar búfjár.
Hvenær Ormur bóndi Herjólfsson bjó á Ormsstöðum, er mér ekki vitanlegt nákvæmlega, en það hefur verið í síðari hluta 10. aldar og fram á þá 11., ef faðir hans hefur byggt bæ sinn í Herjólfsdal eða í mynni hans við lok landnámsaldar (930).
Eftir því sem bezt er vitað, býr Ormur bóndi á Ormsstöðum, er Hjalti Skeggjason og Gissur hvíti komu til Eyja með kirkjuviðinn í júnímánuði árið 1000.
Þá hefur Ormur bóndi verið orðinn aldraður nokkuð, lífsreyndur og hugsandi forustumaður sinnar sveitar og ættar um tugi ára. Líkindi eru til þess, að hann hafi verið blendinn í trúnni, enginn hreinræktaður heiðingi, þegar hann veitti kirkjuviðnum móttöku til þess að byggja kirkju á grunni þeim, sem þeir félagar mótuðu og byggðu dagana þrjá, sem þeir stóðu þá við í Eyjum og áttu skip sitt bundið við Hörgeyrarhálsinn.
Margt fleira um Orm bónda er þess vert, að það sé íhugað. Hann hafði nærtæka beit í heimasta klettinum, sem hann gaf nafnið Heimaklettur, til aðgreiningar frá hinum, sem fjær voru Ormsstaðabænum. En til þess að koma fé upp í Heimaklettinn, þurfti að klifra og draga það síðan upp á böndum, upp á stalla suðvestan í klettinum. Þessir stallar heita síðan Neðri- og Efri Kleifar. Orðið kleif er samstofna sögninni að klifra.
Uppi á fjallinu vestan við Ormsstaðabæinn var einnig gott beitiland. En bratt var þar upp og einstigi að mestu leyti. Þangað upp þurfti einnig að klifra, ef nokkur kostur skyldi á að notfæra sér beitina kjarngóðu þar uppi. Þetta fjall hlaut því nafnið Klif. Orðið er einnig samstofna sagnorðinu að klifra.


VI.
Fyrsta kirkjan byggð í Eyjum


Að öllum líkindum hefur Ormur bóndi Herjólfsson verið talinn heiðinn maður. Ekki er ég þó alveg viss um óskiptan hug hans í þeim efnum. Hversvegna lét Herjólfur bóndi í Herjólfsdal ekki reisa hörga í námunda við bæ sinn? Blótaði hann þá ekki goðin? Nei, hann hefur ekki blótað goðin. Ef til vill hefur hann látið trúmálin liggja á hillunni og hans fólk, en hugað því meir að fjármunum, — fjáröflun og hagsæld. Á efri árum sínum, þegar fólki tók að fjölga lítils háttar í Eyjum, seldi hann því neyzluvatnið úr lindinni í dalnum og auðgaðist þannig á kostnað „meðbræðranna“. Þessi breytni hans hefur vakið mikla gremju með Eyjafólki. Þess vegna hafa minnin um fjárplógshætti þessa lifað með fólkinu kynslóð fram af kynslóð og síðast orðið að þjóðsögunni kunnu um vatnssöluna. Skyldi það vera þannig nú, að enginn „kristinn“ maður noti sér neyð „meðbræðranna“ sjálfum sér til auðgunar eða fjáröflunar?! Hefur okkur farið ákaflega mikið fram í þessum efnum undanfarnar 10 aldir?
Til þess að fullnægja að einhverju leyti trúarþörf og trúrækt þess fólks, sem búsetti sig í Vestmannaeyjum eða dvaldist þar um lengri tíma úr árinu við fiskveiðar og/eða fugladráp á síðari hluta 10. aldar, hefur Ormur bóndi hlaðið hörg eða hörga út við ströndina nálægt Hörgeyrarhálsinum, ef til vill suðaustur af Kleifnaberginu. Þarna hefur hann að öllum líkindum stjórnað blótum sjálfur fólki til fullnægingar og sjálfum sér til einhvers, þó ekki væri nema til þess að fá frið fyrir goðanum næsta eða öðrum valdamönnum og goðadýrkendum, sem talið gátu það skyldu sína að vera á verði, vakta það, að Eyjafólk færi ekki hjá þeim styrk, er hinir heiðnu guðir megnuðu að veita fólkinu í harðri lífsbaráttu þess og hégiljutrú. Sú þjónusta og þóknun hefur ef til vill tryggt Ormi bónda friðinn, valdið og fylgið¹.
Veturinn 999—1000 leið á Ormsstöðum í Vestmannaeyjum við margvíslegar annir, og vorið blessað tók við blítt og strítt eins og gengur.
Ómur af illdeilum heiðinna og kristinna manna í landinu hafði auðvitað borizt að eyrum búsettra manna og kvenna í Vestmannaeyjum. Þangað höfðu vetursetumenn borið fréttirnar um deilurnar miklu og uggvænlegu. Eyjafólk undir leiðsögn landsdrottins síns, eiganda allra Eyjanna, Orms bónda Herjólfssonar ins auðga, gaf sér tíma til að hugleiða mál þessi öll og afleiðingar þess, ef íslenzka þjóðin skiptist í tvo hatrama flokka. Auðvitað var það Ormur bóndi, sem hafði mestu áhrifin um afstöðu fólksins í Eyjum til trúarbragðadeilnanna, sökum valds síns og auðs, gáfna og líklega mikils persónuleika. Að öðrum kosti hefði hann tæpast eignazt allar Eyjarnar eða haldið þeirri eign og forustu þar.
Svo leið tíminn í önn og athöfn fram yfir miðjan júnímánuð. Tími alþingis var að hefjast. Bændur víðsvegar að af landinu þustu á Þingvöll á reiðskjótum sínum og var gustur á þeim sumum ekki lítill, trúarhiti í sál og sinni og ofsi í geði. Ýfingar voru með mönnum, svo að uggvænlega horfði. Átti íslenzka þjóðin eftir að skiptast í tvo hatrama trúflokka, sem svo berðust innbyrðis þar til yfirlyki um tilveru þjóðarinnar? Ormur bóndi hugleiddi þessi mál öll og þau systkinin. Vilborg systir hans, húsfreyjan á Vilborgarstöðum, lagði þar einnig ýmislegt gott til málanna. Ormur tók mikið tillit til hennar. Þau unnust, systkinin, og hjartagæzka hennar og mannlund var áberandi. Þjóðsagan er ómur af persónuleika hennar og mannviti, samúð og hjartagæzku.
Og morguninn 17. júní (1000) rann upp blíður, kyrrlátur og fagur. Vart lóaði við fjörustein eða steðja. Það var því vandalaust hverjum ókunnum skipstjórnarmanni að sigla skipi sínu inn á voginn í Vestmannaeyjum, norðan við Skerið, yfir Rifið og fram með Eyrarhálsinum.
Þarna lentu þeir Hjalti Skeggjason og Gissur hvíti þennan dag. Systkinin nafnkunnu í Eyjum tóku þeim vel, enda færðu gestirnir þeim vinarkveðju kristna frá ekki minni manni en sjálfum Noregskonungi, Ólafi Tryggvasyni. Þeir höfðu meðferðis tilhögginn við í heila kirkju frá kónginum. Þegar hann sigldi til ættlands síns frá Bretlandseyjum, þá fyrir 5 árum, hafði hann með sér kirkjuvið. Úr honum byggði hann kirkju á eynni Mostur, þar sem vitað var, að fólkið hafði dálitla nasasjón af kristinni trú. Það var fyrsta kirkjan í Noregi. Konungi þótti hyggilegast að byggja hana ekki of nálægt valdhafanum mikla í Noregi þá, Hákoni jarli. Ekki var heldur ráðlegt að byggja kirkjuna á Íslandi, of nærri hrömmum hins heiðna valds.
Ef Eyjafólk, sem að miklu leyti mun hafa verið venzlafólk systkinanna úr Herjólfsdal, hefði verið harðlyndur og ofstækisfullur heiðingjalýður, þegar Hjalti og Gissur lentu skipi sínu innan við Hörgaeyrarhálsinn, hefðu þeir ekki skipað kirkjuviðnum á land þar. Það var óðra manna æði, þrátt fyrir boð konungs. Svo óraunsýnn maður og hyggjulaus var Ólafur konungur ekki, að hann skipaði nokkrum Íslandsfara að setja kirkjuvið á land, þar sem hann fyrst kenndi grunns á Íslandi. Konungur þekkti vel ýmsa staðhætti þar, svo marga Íslendinga hafði hann haft við hirð sína á árunum 995—1000.
En hvort átti kirkjan að standa Ormsmegin eða Vilborgarmegin við Voginn? Ekki skyldi beita Vilborgu systur neinu valdi? Svo mikils mat Ormur mannkosti systur sinnar. Guð eða guðirnir skyldu hér skera úr. Það fór alveg eftir sannfæringu hvers og eins og trú, hvort eintalan eða fleirtalan á hér við. Og svo var varpað hlutkesti um stöðu kirkjunnar. Ormur bóndi varð systur sinni hlutskarpari. Venzlafólk hans og búalið gladdist stórlega. Aflið mikla var þeim hliðholt.
Svo dvöldust gestirnir í Eyjum 2—3 daga og unnu að því með atorku mikilli að móta grunninn undir kirkjubygginguna. Mannafla höfðu þeir nægan á skipinu sínu.
Hver byggði síðan sjálfa kirkjuna? Auðvitað hafa Eyjabúar gjört það í sameiningu undir forustu og stjórn Orms bónda og systur hans á Vilborgarstöðum. Og þó að öllum líkindum ekki fyrr en séð var, hvernig deilumálunum lyki á Þingvöllum þetta sumar.
Og fyrstu kirkjunni í Eyjum var valinn staður út undir ströndinni, þar sem sjávaraldan hafði borið upp möl og stórgrýti fyrr á öldum og myndað þannig öflugan varnarvegg gegn ásókn sjálfrar sín á landið.
Ströndin þarna var há og traust og fagurt um að litast yfir sléttlendið vestur af, —- vestur undir Klifið. Grjótið úr hinum heiðnu hörgum hefur að líkindum verið notað í varnargarð um kirkjugarðinn, sem mótaður var nær Klettinum, því að ólíklegt er það, að kirkju þessari hafi verið ætlað að standa inni í kirkjugarðinum, heldur hefur honum verið markaður staður nær bergveggnum, „undir Löngu“. Séra Brynjólfur Jónsson á Ofanleiti getur þess í sóknarlýsingu sinni, að mannabein hafi fundizt í sandinum undir Löngu, þ.e. austan við Kleifnabergið. Ekki var maður sá þekktur að því að fara með lausyrði eða fleipur, og við höfum ekkert leyfi til að skilja það orð hans öðruvísi en þau eru sögð, þó að sumir sögugrúskararnir hafi leyft sér það.

¹Rétt þykir mér að geta þess, að fyrir nokkrum árum fannst skállagaður steinn í Hörgaeyrinni. Víst gæti hann hafa verið hlautbolli. Steinninn er til sýnis í Byggðarsafni Vestmannaeyja.


VII.
Klemensarkirkja á Hörgaeyri frá 1000 til (um) 1280


Eftir að katólska trúin hafði fest rætur í hugsun og háttum þjóðarinnar, var flest gert til þess að uppræta allt, sem minnti á hinn heiðna sið. Hörgaeyri mátti ekki heita hinu „heiðna“ nafni sínu. Kirkjan þarna var helguð hinum helga Klemens Rómanusi og eyrin, sem hún stóð við eða á, skyldi heita Klemenseyri. Síðar var nafn þetta afbakað á tungu Eyjabúa. Þá hét eyrin Klemuseyri. Sú afbökun hélzt hér í byggð næstum eins lengi og Jómaborg fyrir Jómsborg.
Timburkirkja sú, sem þarna var reist, af hinum konunglega kirkjuviði, getum við hugsað okkur að hafi staðið 70—80 ár, eða fram á síðari hluta 11. aldar, — tæplega lengur sökum raka sjávarloftsins og sjódrifs. Voru þá ekki næstu kirkjur þarna byggðar úr torfi og grjóti? Vissulega er það líklegast. Þá hafa allar hleðslur veggja þeirra kirkna verið gjörðar úr móbergssteinum, teknum og eitthvað höggnum til þarna undir berginu.
Meðan torfkirkjurnar voru í byggingu hverju sinni á 30—40 ára fresti fram á seinni hluta 13. aldar, eða þar til Klemenskirkja á Hörgaeyri var að fullu lögð niður um 1280, hefur prestaskrúði kirkjunnar og fleiri gripir hennar verið geymdir í Skrúðabyrginu. Þá var auðvelt þangað upp að ná með því að jarðvegur undir Kleifnabergi, þar sem Skrúðabyrgi er, mun hafa verið um það bil tveim metrum hærri en hann er nú.
Klemensarkirkju er síðast getið í kirkjumáldaga Árna biskups Þorlákssonar 1269. Þá er hún ekki lengur grafarkirkja. Að öllum líkindum hefur kirkjan þá fyrir löngu verið flutt vestur með Kleifnaberginu og þó svo fjarri því, að henni stafaði engin hætta af steinhruni úr berginu eða ofan af því. Það má segja fullsannað, að kirkjugarður Eyjabúa var einhverntíma á þessu tímabili (1000—1280) fluttur vestur fyrir Kleifnabergið, því að ágangur sjávar á ströndina, Hörgaeyrina gömlu, fór sífellt vaxandi, eftir því sem fram leið á 12. og 13. öldina. Ef til vill hefur landsig þá átt sér stað í Eyjum. Mér vitanlega hefur enginn vísinda- eða fræðimaður um það atriði fjallað.
Vestan við Kleifnabergið eða undir „Litlu-Löngu“ fundu drengir mannabein 1882. Beinagrindurnar komu í ljós þarna í sandinum eftir mikinn sjávargang. Þær lágu þarna á kristilega vísu. Einnig lét Aagaard sýslumaður rannsaka þetta svæði að nokkru, og fundust þá einnig þarna mannabein, sem færð voru til grafar í Landakirkjugarði. Síðast fundust undir Litlu-Löngu vestan við Kleifnabergið mannabein vorið 1913, er grafið var fyrir undirstöðum Sundskálans, er Ungmennafélag Vestmannaeyja lét byggja þarna vestan við Kleifnabergið eða „við Hamar niðri“.
Já, ég gat þess, að skipt hafði verið um nafn á Hörgaeyrinni, eftir að katólskan festi rætur í huga Eyjafólks. Eftir það hét eyrin Klemenseyri og í afbökun Klemuseyri. Minna mætti hér í þessu sambandi á þá staðreynd, að katólikkarnir íslenzku breyttu einnig nafninu á hæsta kletti eða bergstalli Eyjafjallajökuls. Í heiðni hét hann Goðasteinn. Katólska kirkjan íslenzka lét breyta nafninu í Guðnastein. Það nafn ber hann enn hjá sumum. Auðvitað eigum við að kalla hann sínu upprunalega nafni. (Sbr. Herforingjaráðskortið íslenzka).


VIII.
Vogurinn í Vestmannaeyjum


Ætla má, að Ægi hafi tekizt að brjóta skarð í varnarvegginn sinn, sjávarströndina milli Heimakletts að norðan og hraunjaðarsins að sunnan, mörgum öldum fyrir landnámstíð. Stafaði það landbrot af landsigi? Hver getur svarað því?




Vogurinn í Vestmannaeyjum (innri höfnin) fyrir eða um aldamótin síðustu. Til vinsri á myndinni örlar á Hörgaeyri yzt við voginn að norðanverðu. Básaskerin sjást innar í vognum og Tangi. Skildingafjaran nœst vestan við Tangann. Annesarvikið skerst lengst til suðurs úr vognum. Engin hafnarmannvirki. Mannanna verk hafa hvergi breytt hraunjaðrinum. Vestur af Hörgaeyrinni (Klemuseyrinni) voru lendur hinnar fyrstu kirkju í Eyjum, Klemenskirkju. Þar vestur af tóku við lendur Ormsstaðanna.



Vogur tók að myndast inn með hraunjaðrinum, vísir að lendingu eða höfn. Hafnareyrin (eyrin, sem Suður-hafnargarðurinn er byggður á) myndaðist og Skerið (Hringskerið, sem svo var kallað mörgum öldum síðar) stóð þar eftir „sem klettur úr hafinu“ til skjóls og bárubrots austan við vogsmynnið. Aldan braut landið, ströndina, sem hún sjálf hafði skapað, hlaðið upp, fyrir þúsundum ára. Þannig hefði einnig farið um Eiðið á fyrri hluta þessarar aldar, ef tækni tímans eða tímanna hefði þá eigi notið við.
Aldir liðu. Hin forna strönd milli klettsins og hraunjaðarsins skiptist í þrennt. Á milli þeirra lá sand- eða malarrif á sjávarbotni. Yfir það flaut grunnur sjór við lágflæði. Þetta rif bjó sjómönnum lengi miklar hættur og stundum grand, er þeir sigldu um vogsmynnið eða Leiðina, eins og hún hét um aldir og heitir enn á góðu Eyjamáli.


IX.
„Undir Löngu


Þegar séra Gissur Pétursson skrifaði Tilvísan sína um 1700, segir hann voginn inn með hraunjaðrinum, höfnina í Eyjum, vera um 80 faðma (160 metra) á breidd, þar sem hann er mjóstur. Ætla má eftir sögn prestsins, að vogurinn hafi þá náð inn fyrir Básaskerin. Eftir þessari frásögn prestsins er eðlilegast að álykta, að norðan vogsins frá Hörgaeyri inn undir Eiði hafi þá verið enn við lýði samfelld grastorfa um 50—80 metra breið, leifar af lendum hinna fornu Ormsstaða.
Við bakka þessa graslendis, jaðar þess að sunnan, hafa Danir, dönsku verzlunarmennirnir, lagt báti sínum, er þeir sóttu sér neyzluvatn í kerin sín undir „karató“, því að þeir neyttu ógjarnan rigningarvatns, eins og áður getur.
Örnefnið „Langa“ þarna sunnan við bergveggi Heimakletts er sérlegt og ber ekki íslenzkan svip, er ekki hugsað á íslenzka vísu, þegar allar aðstæður og landslag er íhugað og athugað. Ég er sannfærður um, að örnefni þetta er danskt, hefur upprunalega orðið til á danskri tungu, og þannig til orðið, að Danirnir hafi kallað hina löngu grastorfu frá Hörgaeyri vestur með Kleifnaberginu og vestur á Eiðið eða vestur undir Hlíðarbrekkur „Langen“ sökum lengdar hennar. Þegar þeir svo lögðu báti sínum eða bátum við jaðar torfunnar, þegar þeir sóttu neyzluvatnið sitt í kerin undir bergveggnum, hét það á máli þeirra að fara „under Langen.“
Eftir því sem sjórinn eyddi torfunni, þessum leifum Ormsstaðalandsins, gróf sig til norðurs, breikkaði vogurinn eða höfnin. Þá færðist örnefni þetta nær Klettinum smám saman, ef ég mætti orða það þannig. Að lokum, þegar jarðvegur allur var þar eyddur og Ægi gefinn, erfði sandvikið og hin grasivaxna brekka upp af því örnefni þetta, hét framvegis Langa á tungu Eyjafólks, og „undir Löngu“ staðurinn þar, enda þótt ekkert í landslaginu réttlætti það örnefni lengur eða myndi ástæður fyrir því.
Þegar Hörgaeyrargarðurinn var byggður, tættist grassvörðurinn af brekkunni þarna suður undir Klettinum við sprengingar og hrun úr berginu og aðrar athafnir þarna. Síðan er þar sandfláin ein og ber eftir.
Heimildir eru fyrir því, að á árunum 1880—1890 stóð grastorfa 2—3 metra há vestan við Almenninginn (fjárréttina) á Eiðinu. Ef til vill var hún rofabakki. Þetta voru síðustu leifar hins þykka grassvarðar, sem þakti meginhluta Botnsins, þegar Ormsstaðir voru og hétu og ekki var ýkjahátt upp í Skrúðabyrgið í Kleifnaberginu. Grastorfa þessi þarna vestan við réttina var kölluð Rofið. Hún stóð þarna vestur frá sem klettur úr hafinu, eins og Sveinn Jónsson orðar það í skrifum sínum 1936 (Víðir). Smám saman svarf vindurinn utan úr henni og eyddi henni loks að fullu.

III. hluti

Til baka