Blik 1963/Saga barnafræðslunnar í Vestmannaeyjum, 4. kafli, I. hluti

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1963



ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON:


Saga barnafræðslunnar
í Vestmannaeyjum


IV. kafli, 1903-1914
(1. hluti)


Eftir að Eyjamenn loks tóku að veiða fisk á línu, fór aflamagn Eyjaskipa vaxandi ár frá ári. Sulturinn hvarf frá bæjardyrum þeirra og athafnamönnum óx kjarkur og dirfska til aukins framtaks. Fiskisagan flaug. Fólk úr nágrannahéruðum Suðurlandsins settist að í Eyjum meir en áður hafði tíðkazt og varð þátttakandi í aukinni útgerð, vaxandi byggð og batnandi lífskjörum.
Fyrstu 6 árin, eftir að línan var tekin í notkun, óx íbúatala Eyja um nálega 200 manns. Fyrsta áratug aldarinnar tvöfaldaðist íbúatala Eyjanna og vel það, óx frá 607 til 1319 manns á árunum 1901—1910. Og með auknu aðstreymi fólks til Eyja fylgdi vaxandi fjöldi barna, sem ráðandi mönnum bar að sjá um að nytu fræðslu í barnaskóla sýslufélagsins samkv. lögum.
Með vaxandi fólksfjölda og aukinni byggð reyndist „gamla barnaskólahúsið“ allt of lítið og ófullnægjandi. Eins og frá er greint í 3. kafla, þá störfuðu þar tveir kennarar með eldri og yngri deild, samtals um 40 nemendur. Sá barnahópur var um það bil 2/3 hlutar þeirra barna, sem í skólann þurftu að geta gengið, ef öllum fræðsluþörfum skyldi fullnægt í minnsta viðhlítandi mæli. Mörg þeirra barna, sem ekki fengu inni í barnaskólanum, nutu lítillar og sum engrar kennslu í heimilum sínum, sérstaklega þó eftir áramót, er vertíðarannir steðjuðu að og fönguðu hugi alls þorra Eyjamanna.
Árið 1902 hafði Steinn Sigurðsson frá Fagurhóli í Landeyjum fengið húsmennskuleyfi í Eyjum. (Sjá kennaratalið hér í ritinu.) Hann var þjálfaður kennari og áhugasamur skólamaður, „realskólastúdent“ frá Flensborgarskóla í Hafnarfirði og með kennaraprófi þaðan.
Haustið 1903 réði skólanefnd Vestmannaeyja Stein Sigurðsson eins konar farkennara í hreppnum. Steinn skyldi kenna 19 börnum, sem ekki fengu skólavist í hinum eiginlega barnaskóla sökum rúmleysis í skólahúsinu. Steinn Sigurðsson kenndi börnunum 3 tíma á dag. Að einhverju leyti mun hann hafa kennt þeim í skólahúsinu eftir daglegt starf barnaskólans þar, en að öðru leyti gengið í heimili manna og kennt, eftir því sem allar aðstæður leyfðu og húsrými gerði kleift. Hann kenndi 18 vikur þennan vetur og nutu 11 börn kennslu allan tímann, 7 börn í 10—14 vikur og 1 barn í 3 vikur.
Steinn Sigurðsson reyndist mjög vel í þessu starfi, áhugasamur og skyldurækinn, laginn og ljúfur, svo að nemendur létu hið bezta af kennslunni. Hann kenndi börnunum allar sömu kennslugreinar og kenndar voru í barnaskólanum, svo sem lestur, skrift og reikning, kristin fræði, landafræði og náttúrufræði, sem þá var jafnan nefnd náttúrusaga.
Árið 1902 hafði Þorsteinn læknir Jónsson setið í hreppsnefnd Vestmannaeyja í 26 ár, verið oddviti og ráðamesti maður, enda stundum kallaður „Eyjajarl“. Þetta ár skrifaði hann sýslunefnd Vestmannaeyja og óskaði þess að verða leystur frá hreppsnefndarstörfum, enda þótt 2 ár væru þá eftir af kjörtímabilinu, sem þá var 6 ár. Samkvæmt tilskipun um sveitarstjórn á Íslandi, dags. 4. maí 1872, bar sýslunefnd að taka beiðni oddvita til greina. Ástæður fyrir lausnarbeiðninni telur oddviti þær, að heilsa hans sé tekin að bila og hann sé jafnframt orðinn þreyttur á hinu látlausa vanþakklæti almennings, sem hann finni inn á varðandi oddvitastarf sitt og önnur störf í þágu hans.
Sýslunefnd samþykkti beiðni læknisins og bókaði þakklæti sitt til hans fyrir sérstaka samvizkusemi í starfi, hyggindi og réttsýni.
Sigurður Sigurfinnsson, hreppstjóri, tók við oddvitastörfum af Þorsteini lækni. Sigurður var dugnaðarþjarkur mikill að hverju sem hann gekk, áhugasamur um framfaramál og hugkvæmur, gáfaður og ósérhlífinn, en harður í horn að taka og óvæginn, ef því var að skipta, og gat þá verið óbilgjarn og tillitslaus.
Í byrjun árs 1904 hreyfði Sigurður oddviti því máli í hreppsnefnd, hvort ekki væri tímabært fyrir hreppinn að ráðast í að byggja nýtt skólahús, þar sem þinghús og barnaskóli yrðu undir sama þaki. Hið gamla þinghús Vestmannaeyja var nú orðið nær 50 ára gamalt, hrörlegt og úr sér gengið, upphaflega byggt úr torfi og timbri með fangageymslu við austurenda (sjá mynd á bls. 66). Fram með vesturgafli þess, sem var úr timbri, lá vegurinn upp að Vesturhúsum og upp á Gerðisbæi, lagður að einhverju leyti árið 1877 (heitir nú Heimagata) upp að „Gönguskarði fyrir norðan Vesturhús“. Einnig var barnafræðsla hreppsins að komast í öngþveiti sökum húsnæðisskorts.






Skóla- og þinghúsið (Borg, Heimagata no. 3), sem byggt var 1904.






Árið 1904, 4. febrúar, samþykkti hreppsnefnd Vestmannaeyja að selja „gamla skólann“ (Dvergastein), rífa Þinghúsið og byggja nýtt þinghús og barnaskólahús undir einu þaki. Jafnframt var þeim tilmælum beint til sýslunefndar, að sýslusjóður tæki lán til byggingarframkvæmdanna. Þessa samþykkt hreppsnefndar og málaleitan tilkynnti Sigurður oddviti Sigurfinnsson sýslunefnd með bréfi dags. 7. febrúar eða að þrem dögum liðnum.
Skólanefndin var mjög á einu máli með hreppsnefndinni, þar sem hún taldi barnaskólahúsið „óhæfilegt kennsluhús sakir hrörleika og rúmleysis.“
Hreppsnefndin ályktaði, að hið nýja skóla- og þinghús skyldi standa á stæði þinghússins og verða tvílyft, — þingsalur á neðri hæð og ein kennslustofa, en á efri hæð tvær kennslustofur, kennarastofa, geymsla o.fl. Áætlað var, að húsið mundi kosta fullgert um kr. 8.000,00.
Sýslunefndinni tókst að fá lán kr. 6.000,00 úr Landssjóði til byggingarinnar. Slíkt lán varð þó ekki tekið nema með samþykki amtsráðsins.
Þessir menn skipuðu hreppsnefnd Vestmannaeyjahrepps 1904 og beittu sér fyrir byggingarframkvæmdum við skóla- og þinghúsið:

Einar Jónsson, Garðhúsum, Jón Jónsson bóndi í Ólafshúsum, Sveinn Pálsson Scheving bóndi á Steinsstöðum, Árni Filippusson verzlunarm., fyrrverandi kennari, og Sigurður Sigurfinnsson hreppstjóri, sem var oddviti hreppsnefndar, eins og áður getur, eftir að Þorsteinn læknir Jónsson sagði sig úr hreppsnefndinni 1902. Þá var Sveinn P. Scheving kosinn í hans stað í hreppsnefndina. Árni og Sigurður voru sakir ýmissa hluta ráðamestir í hreppsnefndinni, áhrifaríkir og skeleggir atorkumenn, hvar sem þeir lögðust á sveifina, einnig í því sem miður fór og skyldi.

Um leið og sýslunefndin gjörði þessa ályktun og samþykkt, taldi hún sig standa í mikilli ábyrgð gagnvart sveitarfélaginu og sýslunni. Hún afréð því að sérstök byggingarnefnd skyldi hafa framkvæmdir þessar með höndum. Hún skyldi skipuð fimm mönnum, tveim úr hreppsnefnd, tveim sýslunefndarmönnum og einum utan nefndanna.
Eftir febrúarlokin 1904 var þegar hafizt handa um að undirbúa byggingarframkvæmdirnar. Sýslunefnd leitaði eftir láninu úr Landssjóði. Þar átti hún hauk í horni, þar sem var Jón Magnússon, fyrrverandi sýslumaður í Eyjum, sem nú var orðinn skrifstofustjóri í dómsmáladeild stjórnarráðsins, áhrifaríkur drengskaparmaður, velviljaður byggðarlaginu og Eyjamönnum, síðan hann var þar sýslumaður fyrir 8 árum.
Byggingarnefndin arkaði á fund Gísla J. Johnsen, kaupmanns, og tjáði honum þá ályktun sína, að enginn mundi líklegri til að útvega hreppnum ódýrara byggingarefni en hann, timbur, múrstein, gler o.s.frv.
Gísli tók þessari málaleitan vel. Honum varð það metnaðarmál að reynast byggingarnefndinni sem hallkvæmastur í þessu mikla framfara- og velferðarmáli byggðarlagsins. Þessi málaleitan hreppsnefndar við Gísla J. Johnsen leiddi til þess, að hann fékk um vorið (1904) sérstakan timburfarm til Eyja, hinn fyrsta, sem þangað hafði verið fluttur í heilu lagi, svo að sögur fari af.
Síðari hluta aprílmánaðar 1904 lestaði dönsk skúta timburfarminn í Halmstad í Danmörku. Timbrið var keypt hjá Carl P.M. Nielsen timburkaupmanni í Höfn og selt hreppnum samkvæmt reikningi hans með 2% álagninu.¹
Í farmi þessum komu til skólahússins 3.377 tré, plankar og borð, sem bæði skyldu til klæðningar utan húss og innan. Verðið var samtals kr. 1.365,78 með uppskipun og umboðslaunum.
Þá kom þar sérstakt þakefni, samtals 227 tré og plankar 3x4—7x8 þumlungar að gildleika. Það efni kostaði alls kr. 392,05.
Með flutningskostnaði, vátryggingargjaldi, uppskipun og 2% álagningu kostaði allt þetta efni samtals kr. 2.890,70.
Þá komu með skútu þessari 1.000 múrsteinar í reykháf hússins, sem kostuðu samtals kr. 72,04 komnir á byggingarstað frá Danmörku. Allur múrsteinninn kostaði á geymslustað ytra 27,50. En flutningskostnaður hans til landsins nam kr. 32,40.
Einnig keypti hreppsnefndin allt gler í skólahúsið með þessu skipi, alls 121 rúðu tilskorna, sem kostuðu alls á byggingarstað kr. 219,86.
Þá voru í farmi þessum tveir kolaofnar í húsið og reykpípur. Þær vörur kostuðu samtals kr. 112,75.
¹ Þetta er engin sögusögn, því að reikningana hefi ég í eigin hendi.

Síðast óska ég svo að nefna járnsúlu mikla með „fæti“ og „fleti“. Hún skyldi bera uppi loftbitana, standa í miðjum sal á neðri hæð, þingsalnum. Verð hennar var alls komin á byggingarstað kr. 57,08. Súla þessi kemur síðar við sögu mína hér, því að hún reyndist til fleiri hluta nytsamleg en að vera burðarsúla.
Samtals kostuðu þessar byggingarvörur kr. 3.353,03 komnar á byggingarstað. Enginn vafi er á því, að danskur byggingarmeistari hefur verið látinn reikna út efnið í húsið eftir teikningu, sem honum hefur verið send.
Yfirsmiður við bygginguna var ráðinn Ágúst Árnason frá Miðmörk undir Eyjafjöllum, lærður trésmiður, síðar kennari í Vestmannaeyjum um 30 ára skeið. (Sjá kennaratal hér í Bliki.) Smiðir Ágústs Árnasonar munu hafa verið Magnús Ísleifsson frá London í Eyjum og Sigurður Ísleifsson, svili Sigurðar oddvita Sigurfinnssonar.
Allt sumarið 1904 var unnið að byggingu skólahússins. Um haustið var hún svo að segja fullgerð, svo að skólinn gat tekið til starfa í henni á afráðnum tíma.
Meginið af öðru efni til byggingarinnar en hér hefur nefnt verið var sótt eftir þörfum og hendinni í verzlun Gísla J. Johnsen, Edinborgarverzlun. Það efni allt kostaði samtals kr. 1.883,27.
Í maímánuði um vorið hafði sýslan fengið heit um lánið úr Viðlagasjóði Íslands kr. 6.000,00, og fékk Gísli J. Johnsen kr. 3.500,00 greiddar af því í júnímánuði um sumarið. Önnur efniskaup stóðu í skuld hjá verzluninni við næstu áramót. Sú skuld var greidd að mestu í júní 1905 með því að Landsbankinn keypti þá víxil af Vestmannaeyjahreppi og gekk andvirði hans til greiðslu á byggingarskuldinni.
Alls kostaði byggingin um kr. 10.000,00 samkv. bréfi oddvita til hreppsnefndar dags. 22. febr. 1905. Hreppsnefnd leitaði þá samþykkis sýslunefndar til þess að taka lán kr. 3.000,00 til greiðslu á eftirstöðvum byggingarskuldanna. Sú heimild var samþykkt í sýslunefnd, og skyldi andvirði gamla skólahússins varið til greiðslu á láni því. Sú upphæð nam kr. 1.800,00.
Haustið 1904 tók barnaskóli Vestmannaeyja síðan til starfa í hinni nýju skólabyggingu, eins og fyrr segir, og var hann til húsa á báðum hæðum, eins og upphaflega hafði verið gert ráð fyrir, yngsta deild á neðri hæð.
Eftir næstu áramót (7. janúar 1905) komu síðan hinir eiðsvörnu virðingarmenn í Eyjum saman í þing- og skólahúsi hreppsfélagsins til þess að virða það til brunabóta. Þeir voru Sigurður oddviti Sigurfinnsson og Gísli Lárusson sýslunefndarmaður í Stakkagerði.
Lýsing þeirra af byggingunni er á þessa leið:
Húsið er byggt úr timbri, allt járnvarið utan. Það snýr austur og vestur, 21 1/2 alin (13,4 m) á lengd, 12 1/4 al. (7,7 m) á br. og 15 1/2 al. (9,8 m) á hæð. Undir því er steinlímdur grunnur 3/4-1 1/2 al. á hæð. Á norður- og suðurhlið, hvorri fyrir sig, eru 6 gluggar 4 áln. (2,52 m) háir, og 3 jafnstórir gluggar á austur- og vesturstafni. Á vesturstafni eru þar að auki 2 gluggar litlir, þar sem gert er ráð fyrir stundaklukku. Einn fjögurra rúðna gluggi er einnig á austurstafni, einn gluggi á norðurþekju og einn gluggi yfir útidyrum skólans, sem eru á norðurhlið. Upp að dyrum þeim liggja tvær palltröppur með handriði.
Dyrnar að þingsalnum eru á vesturgafli. Þar eru einnig sams konar tröppur sem við norðurhlið með svipuðum umbúnaði.
Húsið er tvær hæðir, og í því fastir tveir stigar með handriðum.
Á neðri hæð er þingsalur 11 2/3x11 3/4 áln. (54,4 fermetrar) að stærð og ein skólastofa 8 2/3x 6 2/3 áln. (23,2 ferm.) að stærð, anddyri (5x4 2/3 áln.) geymsluherbergi. Hæð undir loft í hverri stofu er 5 7/12 áln. (um 3,5 m).
Á efri hæð hússins er gangur („forstofa“ 6 1/3x4 2/3 áln.), tvær kennslustofur, 7 5/8x11 7/12 og 7x11 7/12 áln. og bókasafnsstofa 6 3/4x5 áln. Hæð undir loft er 5 1/12 al.
Hanabjálkaloftið er óþiljað enda á milli. Hæð þar í mæni er 3 3/4 áln.
Þakklæðning hússins er úr nótuðum borðum lögð tjörupappa. Síðan þakin bárujárni.
Loftin í húsinu eru tvöföld og lagður pappi á milli þeirra (mun svo hafa verið til hljóðeinangrunar, neðra loft, og hitaeinangrunar, efra loft). Þannig eru einnig allir skilveggir í húsinu.
Steinlímdur reykháfur, hlaðinn úr múrsteini, er í húsinu og steyptar plötur í veggjum bak við hvern kolaofn.
Undir miklum hluta hússins er lágur, steinlímdur kjallari, notaður til geymslu.

—————

Húsið mátu þeir félagar á kr. 10.000,00 til brunabóta.
Þetta var þá lýsing á öðru skólahúsinu, sem Eyjamenn byggðu og notuðu á árunum 1904-1915, eða þar til barnaskólinn flutti í steinhúsið stóra norðan við Landakirkju.
Haustið 1904 var Steinn Sigurðsson ráðinn yfirkennari skólans í stað séra Oddgeirs Guðmundsen, sóknarprests, er nú hætti kennslustörfum. (Sjá kennaratal í Bliki 1962). Eiríkur Hjálmarsson hélt áfram kennarastöðu sinni.
Einn bekkur bættist við í skólann, svo að nemendur urðu nær 60 alls. Nú var því ráðinn þriðji kennarinn að skólanum, Högni Sigurðsson, sonur Sigurðar Sigurfinnssonar oddvita. (Sjá kennaratal hér í ritinu).
Ekki hafði Steinn Sigurðsson fyrr ráðizt í yfirkennarastöðuna, en hann tók að hugleiða endurbætur á starfi barnaskólans, auka það og vinna meira fyrir börnin. Eitt hið fyrsta, sem hann vildi gera, var að koma á fimleikakennslu í skólanum, þó að engin væru áhöld til þess og erfitt að fá viðunandi húsnæði. Haustið 1904, 10. október, boðaði Steinn Sigurðsson alla foreldra barnanna á fund. Þar skýrði hann fyrir þeim nauðsyn þess, að börnin á þessu vaxtar- og þroskaskeiði nytu nokkurrar fimleikakennslu. Foreldrar tóku málinu vel. En hvað var til ráða, eins og ástatt var í kauptúninu? Enginn kennari, ekkert húsnæði, engin áhöld. Steinn bauðst til þess að kenna börnunum sjálfur fimleikana, útvega húsnæðið og hafa einhver ráð með nauðsynlegustu áhöld. En hann yrði m.a. að greiða húsaleigu o.fl. Þess vegna fór hann fram á 50 aura gjald af hverju barni fyrir allan veturinn. Því var vel tekið og þótti sanngjörn greiðsla.
Þegar á fyrsta mánuði fimleikakennslunnar voru mjög fá börn látin sækja tímana, sem voru utan við skyldukennslu eða nám í barnaskólanum, og því færri börn voru látin greiða 50-aura gjaldið. Hins vegar varð Steinn kennari að standa straum af húsaleigu, ljósi og hita vegna fimleikakennslunnar, sem annað tveggja mun hafa farið fram í sal Goodtemplarahússins eða þingsalnum. Sökum vanskila á 50-aura gjaldinu leitaði Steinn til hreppsnefndar og sótti um 10 kr. (tíu króna) styrk úr hreppssjóði fyrir allan veturinn til fimleikakennslunnar. Þeirri styrkbeiðni synjaði hreppsnefndin á þeim forsendum, að fimleikar væru ekki skyldunámsgrein í barnaskólanum.²
2) Til skilningsauka lesendum mínum, þykir mér rétt að geta þess hér, að „glímuflokkur Vestmannaeyja“ sótti um það til sömu manna, að fá þingsalinn leigðan til glímuæfinga. Glímumönnunum var synjað um húsnæðið á þeim forsendum, að gólfið mundi „slitna við það stímabrak.“

Eftir að skólinn flutti í hið nýbyggða hús, þurfti að koma nýju skipulagi á hætti skólans og rekstur. Það skyldi gert með nýrri reglugerð.
Árið 1905 samdi skólanefnd nýja reglugerð fyrir skólann, þar sem skólanefndinni sjálfri skyldi falið svo að segja alræðisvald yfir skólanum. Hún skyldi ráða námsgreinum, hve margar og hverjar, hve margar deildir væru í skólanum, ráðning kennara, sem skyldu framvegis eins og hingað til ráðnir aðeins til eins árs í senn, o.s.frv. Kennararnir skyldu þurfa að endurnýja umsókn sína um stöðu á hverju ári til skólanefndar. Að vísu skal hreppsnefnd ákveða laun kennara en eingöngu eftir tillögu skólanefndar. Lágmarkslaun skólastjóra, sem titlaður er hér þannig í fyrsta sinni, skulu ekki lægri en kr. 260,00 fyrir árið og laun kennara ekki lægri en kr. 200,00. Þessi laun voru mun lægri en greidd voru í Eyjum um 1890. Kennslustundir skulu vera 4—5 á dag og skólaárið vera frá 1. sept. til 28. febrúar. Hver kennslustund 55 mínútur og 5 mínútna hlé milli kennslustunda. Taki foreldrar barn sitt úr skóla eða það segi sig úr honum á skólaárinu, skal skylt að greiða skólagjaldið fyrir það allt skólaárið, kr. 2,00 á mánuði. Skólanefndin sjálf skal úrskurða, hvort barnið hefur verið tekið úr skólanum eða sagt sig úr honum að orsakalausu.
Skilyrði fyrir skólavist skulu þessi:

1. Barnið skal vera 7 ára a.m.k.
2. Það skal vera nokkurn veginn lesandi.
3. Það skal ekki hafa næman sjúkdóm.

Daglegir vitnisburðir skulu ekki gefnir. Á laugardögum skal hlýða nemendum yfir meginatriði þess, sem kennt var í vikunni. Próf um kunnáttu nemenda skal haldið um hver mánaðarlok. Gefa þá kennarar vitnisburð í öllum námsgreinum og raða nemendum eftir þeim. Vitnisburðina skal auglýsa annað hvort í skólanum eða á öðrum hentugum stað. Prófum þessum skal svo hagað, að sem minnst sé vikið frá daglegu kennslusniði.
Aðalpróf skal síðan haldið í lok skólaársins. Skólanefnd ber að útvega svo marga prófdómara, sem þurfa þykir. Einkunnir skulu táknaðar með tölunum 1—6. Tilhögun prófsins ræður skólanefnd og skólastjóri í sameiningu.
Skólanefndin skal að loknu skólaári senda stjórnarráðinu skýrslu um skólann og rekstursreikning. Jafnframt sækir hún um styrk til hans úr landssjóði.

———————

Mér er ekki kunnugt um það, að fundargjörðarbók eða -bækur skólanefnda í Vestmannaeyjum séu vísar eða þekktar til ársins 1908. Til þess tíma virðast þær glataðar. En samkvæmt öðrum heimildum munu þessir menn hafa skipað skólanefnd Vestmannaeyja á þessuni árum: Séra Oddgeir Guðmundsen, sem var sjálfkjörinn formaður nefndarinnar samkv. reglugjörð skólans frá 1891. Aðrir nefndarmenn voru Sigurður hreppstjóri, Sigurfinnsson, sem jafnframt var oddviti hreppsnefndar, og Magnús Jónsson sýslumaður, sem var fulltrúi sýslunefndar í skólanefndinni samkv. sömu reglugerð.
Sönnur eru á því, að einkunnir barnaskólanemendanna voru um tíma iðulega auglýstar í verzluninni Edinborg til þess að fullnægja vilja skólanefndarinnar um það, að auglýsa þær „á öðrum hentugum stað“ en í skólanum. Svo má hver og einn lesandi minn álykta, hversu skólanefndarmennirnir í Vestmannaeyjum hafa þá í alveldi sínu farið nærri um hin heillavænlegustu og sálfræðilegu áhrif hinna látlausu prófa og einkunnargjafa í skólanum á hug og hjarta nemendanna, siðgæði og uppeldi. Þetta skrifa ég án alls hugar til að lasta eða niðra, því að skólanefndarmennirnir sem flestir aðrir voru börn síns tíma, — tíma ofurharðrar og miskunnarlítillar lífsbaráttu, þar sem jafnvel treggáfaða barninu var ekki hlíft við þeirri niðurlægingu að vera auglýstur tossi á opinberum vettvangi.
Mér hefur ekki enn lánazt að fá staðfestingu á því, hvort þessi reglugjörð sem skólanefndin samdi og samþykkti handa skólanum 1905 fékkst nokkru sinni staðfest af stjórnarráðinu. Nær er mér að halda, að hún hafi aldrei fengizt staðfest, þó að skólinn væri rekinn og starfræktur samkvæmt henni í 3—4 ár.
Þegar hér var komið sögu, voru uppi sterkar raddir áhrifamanna í landinu, að alþingi tæki fræðslumál þjóðarinnar til rækilegrar úrlausnar og setti þjóðinni fræðslulög. Það hafði aldrei verið gert. Þetta hafði verið í undirbúningi síðustu árin. Menntamanni, Guðmundi Finnbogasyni, hafði verið falið að kynna sér uppeldis- og menntamál erlendis. Til þess hafði alþingi styrkt hann. Þegar heim kom, samdi hann frumvarp til fræðslulaga, sem landsstjórnin lagði fyrir alþingi árið 1905, einmitt sama árið sem skólanefndin í Vestmannaeyjum samdi nýju skólareglugerðina sína. Stórvægilegar breytingar voru því í aðsigi í fræðslumálum þjóðarinnar. Nýjar reglugerðir yrðu svo samdar og samþykktar í samráði við fræðslulögin. Var þá ekki rétt að láta staðfestingar á skólareglugjörðum, sem til urðu á þessum undirbúningsárum, bíða þar til alþingi hafði samþykkt allsherjar fræðslulög fyrir landið? Þau tóku gildi 1907.
Eftir að alþingi hafði samþykkt fræðslulögin, afréð fræðslumálastjórnin að láta semja fyrirmynd að reglugjörð handa öllum barnaskólum í landinu og senda hana öllum skólanefndum til leiðbeiningar um efni og gjörð hinnar nýju reglugerðar. Árið 1908 samdi skólanefnd Vestmannaeyja svo nýja reglugjörð handa barnaskóla hreppsins. Hér birtist hún orði til orðs eins og hún var samþykkt á fundi skólanefndarinnar 21. sept. 1908 og síðan staðfest af stjórnarráðinu eftir tillögu fræðslumálastjóra, Jóns Þórarinssonar, sem þá var titlaður umsjónarmaður fræðslumála.

REGLUGERÐ
fyrir
barnaskólann í Vestmannaeyjaskólahéraði.
I. Um tilgang skólans.
1. gr.

Það er tilgangur skólans að veita nemendum sem staðbezta þekkingu í þeim fræðigreinum, sem lögboðið er að kenna börnum til 14. árs og hafa heillavænleg áhrif á hugsunarhátt þeirra og siðferði.

II. Um inntöku nemenda í skólann.
2. gr.

Í skólann er veitt inntaka 10 ára börnum í Vestmannaeyjaskólahéraði, enda fullnægja þau þeim menntunarkröfum, sem lög um fræðslu barna (22. nóv. 1907) gera til þeirra barna á þeim aldri, og hafi engan næman sjúkdóm, er geti orðum öðrum börnum að meini.
Ef húsrúm og önnur skilyrði eru fyrir hendi og skólanefnd þykir sérstök ástæða til, má einnig veita yngri börnum aðgang að skólanum, svo og börnum, sem heimili eiga utan skólahéraðsins, gegn árlegu kennslukaupi: 15 kr. fyrir innan hrepps börn og 30 kr. fyrir utan hrepps börn.
Umsóknir um skóla fyrir börn þessi skulu stílaðar til skólanefndarinnar og vera komnar til hennar fyrir 15. ágúst ár hvert.

III. Um kennslutíma og leyfi.
3. gr.

Skólinn byrjar 1. sept. og endar 28. febrúar ár hvert. Skulu öll börn, sem skólann eiga að sækja, koma, þegar kennsla byrjar, eða í skólaársbyrjun og vera út allan skólatímann. Undantekningar frá því geta þó átt sér stað, þegar sérstaklega stendur á, og eftir samkomulagi skólanefndar við kennara.

4. gr.

Kennslan byrjar á degi hverjum kl. 10 f.h. og stendur til kl. 2—3 e.h., eða alls 4—5 stundir á milli kennslustundanna.

5. gr.

Leyfi skal vera aðeins jólaleyfi, frá Þorláksmessu til 2. jan. að báðum dögum meðtöldum.

IV. Um kennara skólans.
6. gr.

Fastir kennarar skólans eru ráðnir af skólanefnd. Uppsagnarfrestur af beggja hálfu eru 3 mánuðir, þó svo að uppsögn sé komin í hendur hlutaðeiganda fyrir 1. júní.
Stundakennara ræður skólanefndin einnig, ef þörf er á. Aðalkennari ber ábyrgð á störfum skólans og hefur aðalumsjón og eftirlit með skólanum og öllu því, sem honum tilheyrir. Hann skal halda kennsluáhöldum skólans í reglu og skrifa í lögskipaðar bækur skólans, eins og krafizt verður.

V. Nemendur skólans.
7. gr.

Börn þau, sem í skólann ganga, skulu jafnt í kennslustundum sem utan kennslustunda hegða sér siðlega og sýna kennurum virðing og hlýðni.

8. gr.

Börnin skulu koma í skólann á ákveðnum tíma. Þau skulu hafa með sér bækur og annað, sem við þarf, eftir fyrirmælum kennarans. Verði misbrestur á þessu, og sé efnaleysi um að kenna, skal börnum lagt til bækur af skólasjóði, ritföng og annað, er kennslan krefur.

9. gr.

Börn, sem sýkjast af einhverjum næmum sjúkdómi, mega ekki sækja skóla fyrr en þau eru læknuð að fullu.

10. gr.

Geri barn sig sekt í ósæmilegu athæfi eða brjóti í bág við settar reglur og fyrirskipanir skólans og láti ekki skipast við áminningar og fortölur kennara, getur hann vísað þeim burt úr skólanum um stundarsakir eða að fullu og öllu, ef miklar sakir eru til.

VI. Um próf.
11. gr.

Ganga skulu þau börn, er kennslu hafa notið í skólanum, undir hið opinbera próf í skólahéraðinu, — eins þau börn, sem yngri eru en 10 ára.
Prófið fer fram eftir reglum, sem yfirstjórn fræðslumála setur.

VII. Um skólabœkur, skýrslur og skírteini.
12. gr.

Í skólanum skulu vera þessar bækur, og skal aðalkennari sjá um, að reglulega sé í þær ritað: 1. prófbók, 2. dagbók og 3. bréfabók.

13. gr.

Skýrslur þær og skírteini, sem yfirstjórn fræðslumála heimtar um próf, fjárhag skólans, hús, kennsluáhöld og hvað annað, er að skólahaldinu lýtur, semur skólanefndin og afgreiðir til yfirstjórnarinnar.

VIII. Um námsgreinar og stundatöflu.
14. gr.

Þessar námsgreinar skal kenna í skólanum:
1. Í íslenzku (lestur, skrift), 2. kristinfræði (biblíusögur), 3. reikning, 4. sögu, 5. landafræði, 6. náttúrufræði, 7. söng, 8. leikfimi.
Stundatöflu skal aðalkennari semja á hverju ári og leggja undir samþykki skólanefndar.

Í 15. grein fyrirmyndarinnar var sett upp tímatafla, þar sem hverri námsgrein var ætlaður viss tímafjöldi á viku. Þessa tímatöflu tók skólanefnd Vestmannaeyja ekki til greina, þó að námsgreinar (sbr. 14. gr.) yrðu afráðnar hinar sömu, nema hvað skólanefndin sleppti handavinnukennslunni. Handavinna varð ekki kennslugrein í barnaskóla Vestmannaeyja fyrr en löngu síðar.

II. hluti