Blik 1962/Saga leiklistar í Vestmannaeyjum, I. kafli, III. hluti

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1962



ÁRNI ÁRNASON:


ctr


I. KAFLI
(3. hluti)


Mynd: Halldór Gunnlaugsson, lœknir, frumkvöðull að stofnun Kvenfélagsins Líknar, leikari góður og skáld ágætt, ötull kraftur í öllum félagsmálum Eyjabúa.

St. Báran lék mikið fyrir og eftir aldamótin, og voru það helzt einþáttungar, sem hún færði upp með félagsfólki sínu. Mætti þá minnast leikþátta sem nefndust „Útidyralykillinn“, „Sambýlisfólkið“, „Saklaus og slægur“ eftir Pál Árdal. „Féleysi og lausafé“ eða öðru nafni „Lifandi húsgögn“, „Tveir veitingamenn“ og „Veitingakonan“. Þessi starfsemi mun hafa farið fram á árunum 1906 til 1908. Stúkan hafði ávallt nokkuð af fólki, sem var vant að leika t.d. Gísla Lárusson, Jón Jónsson, Júlíönu Sigurðardóttur, Magnús Guðmundsson og eflaust m.fl.
Á þessum árum lék leikflokkur Eyjanna leikritið „Neyddur til að giftast“, eftir Moliere. Það var í 3 þáttum. Nokkru síðar lék flokkurinn „Söngkonuna“, — höfundur ókunnur. Þarna voru að leik meðal annarra Guðrún og Edv. Frederiksen, Gísli Lárusson, Theodóra dóttir hans og m.fl. Guðrún Frederiksen söng sérlega vel og var talin syngja hér kvenna bezt um árabil. Einnig lék (og leiðbeindi þá) Halldór Gunnlaugsson læknir, þá nýkominn í bæinn, Júlíana Sigurðardóttir og Ásdís Gísladóttir, er síðar varð kona Gísla J. Johnsen, Jóhann Þ. Jósefsson, Jón Jónsson og Jónína Jónsdóttir. Árið 1906—07 var líka leikið í Kumbalda leikrit, sem hét að mig minnir „Músin“ (eða „Rottan“). Ekki veit ég um höfund þessa leikrits, en trúlega hefir Halldór Gunnlaugsson útvegað það eða jafnvel snarað því úr dönsku yfir á íslenzku. Á meðal leikenda voru í þessu leikriti Gísli Lárusson. Hann var eitthvað að guma af kjarki sínum og sagðist ekkert hræðast, vera maður, sem kynni ekki að hræðast, en rétt í því kemur mús hlaupandi inn gólfið og varð hann þá svo hræddur, að hann hljóp upp á borð. Þá var hlegið í Kumbalda. Auk hans léku svo Jóhann Þ. Jósefsson, Ásdís Johnsen, Theódóra Gísladóttir, Halldór Gunnlaugsson o.fl.
Árið 1906 mun ávallt verða álitið merkisár í sögu leiklistar hér. Var það líka oft nefnt læknisárið þ.e.a.s. árið, sem Halldór læknir flutti til Eyjanna. Hann var snjall og ástsæll héraðslæknir. Hann tók strax við komu sína til Eyjanna virkan þátt í leikstarfseminni. Var hann þá þegar landskunnur leikari og leiklistarunnandi, sem t.d. skólabræður hans dáðu mjög mikið. Hann var gæddur sérlega auðugri kímnigáfu, smekkvís og úrræðagóður um allt, er varðaði vandamál leiklistar hér. Hann var bráðsnjall þýðandi, mikilsvirt kímniskáld og leiklistarleiðbeinandi mjög góður. Söngmaður var Halldór prýðilegur. Við komu hans til Eyja lifnaði mjög mikið yfir leikstarfseminni og má segja, að hann væri henni eitt og allt á mörgum sviðum.
Mörg ný leikrit voru þá sýnd hvert af öðru og nýir leikendur koma á sviðið. Var þá ýmist leikið í Gúttó, Tangahúsinu eða Kumbalda og leiksýningar fjölsóttar. Það er ekkert ofsagt, að þar sem Halldór læknir var að störfum, þar var líf og fjör á öllum sviðum. Halldór var vel þekktur af leiksviðinu í Reykjavík, en eftir að hann varð stúdent, fluttist hann norður til Akureyrar til stjúpu sinnar, er þá var nýflutt þangað. Það var frú Halldóra Vigfúsdóttir, er síðast var hér í Eyjum og lézt hjá syni sínum, Þórhalli Gunnlaugssyni, símstjóra, en hann var samfeðra hálfbróðir Halldórs læknis. Halldór læknir var hagyrðingur ágætur en sérstæður nokkuð.
Fátt er þó til af skáldskap hans, nema það er hefir lifað á vörum almennings. Flest annað með öllu glatað. Ég set hér smá sýnishorn af kveðskap hans, sem allur var grín og glens, kveðið á léttum strengjum gamansemi:

1.
Ung mey
er sem fley
úti fyrir landi,
fer á sker,
ef ekki er
áttaviti í standi.
2.
Freistingum
ferlegum
framhjá þarf að slaga,
hjónaband
boði strand.
Úti er meyjar saga.

Um mann sem var við nám í Kaupmannahöfn sagði Halldór:

„Komst hann oft í kjallara
í kast við lúsablesa,
honum væri hollara
heima „jús“ að lesa.“

Um Árna Pálsson prófessor:

Vizkuknerri Árni ólmur
út á sagna- hrinti -mar,
þá varð fyrir honum heimskuhólmur
og helv... báturinn strandaði þar.

Eitt sinn ætlaði Steingrímur Matthíasson læknir að koma til Eyja í fylgd með Jónasi Kristjánssyni og leituðu þeir til Halldórs læknis um móttökur. Hann sendi þá eftirfarandi símskeyti til Steingríms:

Vertu alltaf velkominn
konum, körlum, meyjum;
klökkur Heimakletturinn
kallar þig að Eyjum.
Oft er sundið erfitt þar,
aldan knörinn skekur
en Jónas í kviði hvalfiskjar
kannske með þig tekur.

Einu sinni var leikið í Rvík leikritið „Allt í grænum sjó“. Var það grín um ýmsa oddborgara og þótti sumum nokkuð nærri sér höggvið og létu varla átölulaust. Þá sagði Halldór:

„Óumtalað eitt sinn tók sér erkibófi
fas og gervi af filosófi.
Út í loftið teygði hann sína tíu fingur
og varð hann þá sem heimspekingur.
Eigandinn að fasi og gervi blíndi á bjálfann
og hélt hann hefði séð sig sjálfan.“

Á leikárinu 1906—07 var leikritið Hermannaglettur eftir Hostrup sýnt í Kumbalda við feikna mikla aðsókn og frábærar undirtektir. Þá léku þau Guðrún Frederiksen, Edv. Frederiksen, Jóhann Jónsson á Brekku, Jóhannes Hannesson, Miðhúsum, Gísli Lárusson, Stakkagerði og Halldór Gunnlaugsson, hinn nýi héraðslæknir Eyjanna, sem kom til starfs hér 1906 í júnímán. Er sagt að þeir hafi túlkað mjög skemmtilega sannar glettur, þeir Frederiksen og Halldór, og Jóhannes verið mjög skemmtilegur Mads, þótt stór væri. (Fáir stærri menn í þorpinu).
Skömmu eftir þetta var svo leikið „Kvöldið fyrir kóngsbænadaginn“. Það var leikið í Kumbalda og þótti takast mjög vel. Er talið fullvíst, að þar hafi Halldór Gunnlaugsson stjórnað leik og enda leikið sjálfur, er og sagt að hann hafi verið lífið og sálin í leiðbeiningum, og hefir það gert sitt til þess að vel mætti fara.
Síðla hausts 1908 eða nálægt hátíðum var leikritið Skugga-Sveinn leikinn í Kumbalda við mikla aðsókn eins og áður. Hlutverkaskipan var sem hér segir:

Skugga-Svein lék Guðmundur Felixson.
Lárenzíus, Guðjón Jónsson, Oddsst.
Ástu, Oddný Jónasdóttir, Vilborgarstöðum.
Harald, Jóhann Þ. Jósefsson, Fagurlyst.
Ögmund, Ólafur Sigurðss., Strönd.
Grasa-Guddu, Guðlaugur Hansson, Fögruvöllum.
Sigurð í Dal, Helgi Guðmundsson, Dalbæ.
Möngu, Jónína Jónsd., Steinholti.
Jón sterka, Magnús Guðmundsson, Vesturhúsum.
Smala-Gvend, Tómas Guðjónsson, Sjólyst.
Galdra-Héðinn, Guðm. Felixson.
Helga stúdent, Jóh. Jónss. Brekku.
Grím, Guðlaugur Hansson.
Ketil skræk, Hjálmrún Hjálmarsdóttir, Vegamótum.
Grana, Geir og Hróbjart er ekki vitað um, en fólk telur, að Jóhann Jósefsson hafi leikið Hróbjart.

Það segir og, að sýning þessi hafi verið mjög góð og henni vel tekið. T.d. hafi Guðjón á Oddsstöðum gert hlutverki sýslumannsins frábær skil; Jóhann hafi leikið Harald með mestu prýði og þau Oddný á Vilborgarstöðum verið saman valin í hlutverkum Haraldar og Ástu. Hefði Oddný sungið mjög vel. Jónína og Óli á Strönd hefðu sýnt þarna sérlega skemmtilegan leik, enda var sagt, að Ólafur væri alveg ómissandi í gervi Ögmundar og enginn gerði hann jafn eftirminnilegan áhorfendum. Guðlaugur var bráðsnjall í Grasa-Guddu, og er það eflaust bezta hlutverk, sem hann fór með á sinni tíð. Fólk virðist ekki hafa verið eins ánægt með Guðmund í Skugga-Sveini og fannst hann ekki ná góðum tökum á hlutverkinu. Sagði Guðjón á Oddsstöðum, að Jón Filippusson hefði hins vegar verið frábærlega góður í Sveini gamla og Jóhanna kona hans ógleymanleg í hlutverki Ástu. Frá fyrstu tíð hefir leikritið notið hér almennra vinsælda. Fólk verður aldrei þreytt á að sjá það. Fram til þessa hefir það líklega verið leikið hér oftar en víðast annarsstaðar t.d. í Reykjavík og Akureyri, miðað við fólksfjölda.
Í þessari sýningu á Skugga-Sveini lék Tómas Guðjónsson hlutverk Smala-Gvends. Er sagt, að hann hafi gert það ágætlega vel. Mun það sennilega vera hans einasta hlutverk á leiksviði hér. Leikhæfni sína átti hann ekki langt fram í ættir að sækja. Þá hefði Hjálmrún á Vegamótum leikið Ketil skræk mjög vel. Sagt er, að hún hafi verið gædd mjög góðum leikarahæfileikum.
Það mun hafa verið mjög nálægt 1909, að sýnt var hér í fyrsta skipti leikritið „Almannarómur“ eftir Stein Sigurðsson skólastjóra Barnaskólans. Það er í fimm þáttum.
Ekki hefir mér tekizt að hafa upp á leikendum þá nema þeim Helga Guðmundssyni í Dalbæ, Hjálmrúnu Hjálmarsdóttur og Jóni Jónssyni, Hlíð, Jóel Eyjólfssyni og Oddnýju Jónasdóttur. Upplýsingar um þetta leikrit eru mjög ósamhljóða. Sumir telja, að Gísli Lárusson og Jóhann Þ. Jósefsson hafi leikið þá, Guðrún Þorgrímsdóttir o.fl. Um leikendaval í Almannarómi í þetta skipti verður því ekki sagt með neinni vissu.
Árin 1907—08 var st. Báran nr. 2 mjög framarlega í leiklistinni. Eftir að hafa sýnt leikritið, „Saklaus og slægur“ eftir Árdal, tók hún til meðferðar leikritið, „Sannleikurinn“ eftir Stein Sigurðsson, skólastjóra. Fyrst á árinu 1908 lék stúkan leikrit, er nefndist „Settur eiginmaður“. Það er sennilega eftir E. Bögh. Var það sýnt á almennri skemmtun og var ýmislegt fleira til skemmtunar, upplestur, ræður, söngur og dans á eftir.
Árið 1908 síðla hausts sýndi leikflokkurinn leikritið „Heimkoman“ eftir Sudermann. Leikendur voru að mestu hinir sömu og áður úr Hermannaglettum, Söngkonunni og Neyddur til að giftast. Þetta var leikið í Gúttó við góða aðsókn. Hafði Halldór Gunnlaugsson haft leikritið með höndum, en lék þó ekki sjálfur. Leikstarfsemin hafði gengið mjög vel undanfarin ár og var áhugi Eyjabúa á leiklist undraverður, sem átti eftir að sannast enn betur.
Á stofnfundi kvenfélagsins Líkn 14. febr. 1909 gat Halldór þess, að á bók í Sparisjóði Vestmannaeyja væru rúmlega 200 kr., sem leikflokkurinn hefði safnað í sjóð á tveim undanförnum árum. Leikendur þessir ætluðu nú að gefa kvenfélaginu þessa fjárhæð til útbýtingar meðal þurfandi fólks og að eigin vali kvenfélagsins. Ekki getur þess, í fundargerð Líknar, hverjir þessir gefendur séu, sem starfað hafi í leikflokknum, en maður gæti hugsað sér, að þeir hefðu verið t.d. Gísli Lárusson, Theódóra dóttir hans, Jóhann Þ. Jósefsson, Edvard Frederiksen og frú Guðrún kona hans, Ásdís og Guðbjörg Gísladætur, Halldór læknir Gunnlaugsson, Jóhann Jónsson á Brekku, Guðjón Guðjónsson, Sjólyst, Júlíana Sigurðardóttir, Jónína Jónsdóttir og e.t.v. fleiri. Fjárhæð þessi var allmikil árið 1909 og góð sjóðsmyndun til þess að styrkja líknarhugsjón kvenfélagsins. En þetta var aðeins upphafið að ómetanlegum stuðningi héraðslæknisins við starfsemi og fjáröflunarleiðir kvenfélagsins, þess félags, sem óneitanlega var einmitt stofnað að tilhlutan héraðslæknisins.
Steinn Sigurðsson skólastjóri í Eyjum var þekktur rithöfundur á bundið og óbundið mál. Hann var skólastjóri í Eyjum frá 1904 allt til 1914 að hann var ósæmilega hrakinn þaðan. Strax við komu sína til Eyja og ávallt síðar samdi hann nokkra leikþætti, sem snemma voru sýndir hér t.d. í st. Báru nr. 2 og utan vébanda hennar. Hlutu þessir leikþættir hans yfirleitt ágæta dóma almennings. Einnig samdi hann stór leikrit t.d. Almannaróm og Storma, sem hlotið hafa góða dóma almennings. Árið 1908 hafði hann samið barnaleikrit, sem nefnt var hér „Átján barna faðir í álfheimum“, en hét annars „Skyggnu augun“, og var í 1 eða 2 þáttum. Það ár var leikritið sýnt hér. Kom Steinn skólastj. því upp með aðstoð Halldórs læknis o.fl. Voru það einungis börn úr barnaskólanum, sem fóru með öll hlutverkin. Mjög var vandað til þessarar sýningar, sem mun hafa verið í fyrsta sinn, að börn úr barnaskólanum léku hér. Þótti þeim vel takast, enda var allt gert til þess að gera leikritið sem glæsilegast úr garði. Þarna kom fram mesti fjöldi barna úr öllum deildum skólans og voru aðalhlutverkin í höndum hinna elztu. Þau yngri komu fram sem álfar og dansandi vættir, sem meðal annars sýndu dans í skrautklæðum, sérstaklega gerðum fyrir þetta leikrit. Þarna komu fram bændur og búalið, fríðar meyjar, álfadrottningin, umskiptingurinn o.m.fl.
Ennþá mun margur minnast ýmissa atriða úr leik þessum. Einstakir kaflar og söngvar lifðu um áraraðir á vörum alls almennings, þótt nú sé að vonum farið að fyrnast yfir efnið. Hver skyldi t.d. ekki muna eftir, þegar álfkonan skipti á mennska barninu í vöggunni og lét þangað gamlan karl sinn, sem þuldi eftirfarandi stef, er hann sá hrífuskaftið í pottinum á gólfinu, en það var útfærð brella hinnar ráðkænu konu:

„Nú em ek svo gamall
sem á grönum má sjá,
átján barna faðir í álfheimum,
en þó hefi ég aldrei fyrr
séð svo langan gaur í svo lítilli grýtu.“

Þá sá maður nú, að umskiptingurinn var bæði gamall, skeggjaður og ljótur, en hafði verið útbúinn sem ungbarn í reifastranga. Er hann hafði þuluna mælt, varð heldur handagangur í öskjunni. Hin ráðkæna kona og húsfreyjan, er legið höfðu í leyni, réðust þegar á karlinn í vöggunni og flengdu hann miskunnarlaust lengi, unz álfkonan kom inn með reifabarn á handleggnum, þeytti því í vögguna, en þreif karl sinn þaðan og sagði með þjósti miklum við húsfreyjuna: „Ólíkt höfumst við að. Ég þjóna barni þínu, en þú lemur bónda minn!“ Þar með rauk hún á dyr, en barn sitt fékk húsfreyjan heilt og óbrjálað. — Já, þau léku vel, skólabörnin, t.d. Ísleifur Högnason, fylliraftinn, sem alltaf bað um „eina pínu fyrir hana Bínu,“ þ.e. meira vín af húsbóndanum.
Umrætt leikrit, „Skyggnu augun“ var sýnt 1908—09. Fyrst var það sýnt í Tangahúsinu, því að sennilega hefir Gúttó verið upptekið, en síðar eða 1909 snemma árs var það sýnt í Gúttó. Með aðalhlutverkin fóru eftirtaldir nemendur:
Georg Gíslason, Stakkagerði, lék húsbóndann.
Haraldur Eiríksson, Vegamótum, son hans.
Árni Ólafsson, Löndum, annan son hans.
Guðjón Helgason, Dalbæ, prestinn.
Ísleifur Högnason, Baldurshaga, fylliraftinn föður Bínu.
Kristrún Gísladóttir, Stakkagerði, Bínu.
Sólveig Jesdóttir, Hóli, húsfreyjuna, konu húsbóndans.
Lárus G. Árnason, Búastöðum, umskiptinginn.
Guðbjörg Þórðardóttir, Dal, álfkonuna — drottninguna.
Jónína Jónasdóttir, Dal, (frá Helluvaði), ráðkænu konuna.
Kjartan Ólafss., Miðhúsum, vinnumann.
Helga Finnsdóttir, vinnukonu.

Auk þessara var fjöldi af álfum, sem börn úr öllum bekkjum skólans léku þarna með dansi og söng. Þegar Jónína frá Helluvaði fór héðan, tók Ingibjörg Bjarnadóttir í Hlaðbæ við hlutverki hennar. Einhver krakkanna fór að yrkja um suma leikendurna, en þar var þetta:

Sankti Pétur og Helga skrína,
Halli gálausi og hún Bína,
Gaui litli og hún Solla,
Kjartan stóri og Imba bolla...

Milli þátta lásu sumir krakkarnir upp kvæði ýmislegs efnis. Þetta þótti glæsileg skemmtun, enda var vel til hennar vandað á allan hátt. Mikill söngur var í leikritinu og álfar margir, sem klæddust skrautlegum klæðum og svifu um sviðið með mjúklegum hreyfingum.
Mér finnst furðulegt, að leikrit þetta skuli ekki hafa verið sýnt hér síðan, utan árið 1926, að kvenfél. Líkn sýndi hér lítinn hluta af því sem skrautsýningu (Tableau). Manni virðist þó, að það væri tilvalið verkefni annaðhvort fyrir barnaskólann og þó alveg sérstaklega fyrir Gagnfræðaskólann. Mundi sýning leikrits þessa efalaust verða unglingum og börnum kærkomið og heppilegt efni til dreifingar á frístundum.
„Skyggnu augun“ er eða var mjög hugþekkt leikrit og einmitt samið til flutnings fyrir börn og unglinga.
Með þeim tækniútbúnaði, sem nú er völ á, t.d. miðað við 1908—09 og svo 1926, mætti eflaust sýna leikritið með enn meiri glæsibrag í öllum sviðsútbúnaði, mislitum ljósum og ljósakösturum o.m.fl. Það mundi eflaust verða góð skemmtun fyrir unga og gamla.
Já, — hversvegna ekki að taka það til sýningar? Ég veit, að það yrði betri skemmtun og heilbrigðari heldur en lélegar kvikmyndir, göturáp, sem nú tíðkast helzt, en eru miður fagrar sýningar hvortveggja, og unglingum ekki hollar, ekki sæmandi.
Hitt er svo annað mál, — hvort skólabörn hafi það mikinn tíma afgangs frá lestri skólabóka, að þau treysti sér til að bæta á sig lærdómi hlutverka í leikriti.
Sem fyrr getur var árið 1909 að ýmsu leyti merkilegt ár í sögu leiklistar hér í Eyjum. Það ár var Kvenfél. Líkn stofnað að tilhlutan Halldórs Gunnlaugssonar héraðslæknis. Ég hef áður getið fjárhæðar þeirrar, er hann afhenti félaginu á stofnfundinum frá leikflokki Eyjanna, frá starfsemi hans tvö undanfarin ár. Eins og nafn kvenfélagsins bendir til, er það fyrst og fremst líknarfélag. Fáum hefir verið kunnara um þörfina fyrir líknandi hendur og fjárhagslegan stuðning við fátæka meðal almennings, en einmitt lækninum. Hverjum var betur trúandi til þeirra líknarstarfa en einmitt kvenfólkinu. Líknandi eiginleikar eru því meðfæddir.
Læknirinn sá einnig, að til þess að félagið gæti fylgt stefnuskrá sinni, yrði það að afla sér fjár á einhvern raunhæfan hátt. Meðlimagjöldin voru lág og hrukku skammt, ef til fjárhagslegs stuðnings við aðra kæmi. Halldór hafði hugsað málið og hann fann líka leiðina til tryggrar fjáröflunar. Hann hafði sem sagt unnið mjög mikið að leikstarfseminni undanfarin ár, eða frá því að hann flutti til Eyja. Hann hafði kynnzt þeirri starfsemi vel og séð, að hún var rétta leiðin, — sú leið, sem kvenfélagið átti að feta til þess að afla sér starfsfjár. Leiðin var örugg og jafnframt mikið menningaratriði fyrir þorpsbúa, sem sýnt höfðu, að þeir voru fróðleiks- og menntaþyrstir. Halldór hvatti þessvegna kvenfélagið eindregið til leiksýninga á vegum þess og hét því allri sinni aðstoð í framkvæmdinni og leiðbeiningum, bæði á leiksviði og utan þess, eftir því sem embættisstörf hans frekast leyfðu. Í kvenfél. ríkti mikill áhugi, enda var það lífsspursmál fyrir starfshugsjón þess. Tillögu læknisins var því tekið með fögnuði og samþykkt sem sjálfsögð fjáröflunarleið. Konurnar hétu því, að fá eiginmenn sína og vini í lið með sér. Þær voru margar hverjar sviðsvanar og menn þeirra sumir vel þekktir leikarar hér. Það var ekki látið sitja við orðin ein, heldur hafizt handa um útvegun á leikfólki. Síðan hófust æfingar á nýjum leikritum hér. Samkv. bókum Líknar voru fyrst sýnd leikritin „Villidýrið“ eftir E. Bögh; og „Bezt sem vitlausast“ (höfundur ókunnur), og „Apakötturinn“ eftir Heiberg. Ekki verður um það efazt, að Halldór læknir hafi útvegað leikritin og séð um og leiðbeint um sviðssetningu þeirra. Af bókum kvenfél. Líkn verður ekki séð, hvert þessara þriggja leikrita hefir verið fyrst tekið til sýningar, en eftir innfærslum teknanna virðist Apakötturinn hafa verið fyrst leikinn, þá Villidýrið og svo Bezt sem vitlausast. Ekki verður það heldur séð, hverjir hafi skipað hlutverkin, en að öllum líkum hafa það verið konur úr kvenfélaginu, eiginmenn þeirra eða vinir og velunnarar þess. Þó hefi ég heyrt þessa helzt tilnefnda í Apakettinum, Iversen: Guðjón Guðjónsson, Frú Sörensen: Sigurborg verzlunarstúlka hjá G.J. Johnsen, Óli gamli: leikinn af Guðjóni Jósefssyni, Margrét: Guðbjörg Gísladóttir, og unga manninn Lindal: Kristján Gíslason.
Í „Villidýrinu“ hef ég helzt heyrt talað um þau Petersen símstj., sem lék Villidýrið, Guðbjörgu Gísladóttur konu hans, Theódóru Gísladóttur, Stakkagerði, og Steingrím Magnússon á Miðhúsum, er þá var verzlunarmaður hjá Bryde. Leikrit þetta er eftir Erik Bögh. (Frásögn Stgr. Magnússonar nú í Rvík, en þetta hefir þá verið síðasta hlutverk Theodóru, þar eð hún fór til U.S.A. sumarið 1909).
Í Bezt sem vitlausast veit ég ekki um hlutverkaskipun, nema þau Petersen, sem lék Schwanner ofursta, og Guðbjörgu konu hans, er lék þjónustustúlkuna. Auk þess léku að sagt er Ágústa Eymundsdóttir og Árni Gíslason o.fl. Kostnaður við að koma þessari leikstarfsemi kvenfélagsins á stað hefir verið nokkur, einkum vegna leiksviðskostnaðar svo sem leiktjalda, ljósaumbúnaðar, efnis til gervisgerða o.m.fl. En sýningar félagsins báru sig vel fjárhagslega.
Um haustið 1909 og fram á vertíð var svo leikið nýtt leikrit á vegum kvenfélagsins. Það var „Æfintýri á gönguför“ eftir C. Hostrup, í fjórum þáttum. Er þetta danskur söngva- og gleðileikur, sem var mjög vinsæll á meginlandinu. Vel gekk með útvegun á leikurum og æfingar gengu vel. Var leikritið sýnt við fádæma góðar undirtektir og gaf vel í sjóð félagsins. Læknirinn hafði hitt naglann á höfuðið. Leikstarfsemin var örugg fjáröflunarleið ekki síður í Eyjum en annarsstaðar, skemmtun og menningarauki, sem Eyjamenn vildu sízt án vera.
Leikendur í Æfintýrinu voru þá, (Sögn Stgr. Magnússonar og Guðbjargar Gísladóttur 1961, og Sveins Jónssonar):

Skrifta-Hans eða Hans Mortensen, Ólafur Ottesen, Vísi.
Eibekk, Guðjón Jósefss., Fagurlyst.
Herluf, Kristján Gíslason, Hóli.
Assesor Svale, Guðjón Guðjónsson, Strandbergi.
Helena frú Krans, Sigurborg verzlunarstúlka hjá G.J.J.
Birkidómarinn, A.L. Petersen, Símastöðinni.
Ungfrú Lára, Guðbjörg Gísladóttir, Símastöðinni.
Jóhanna, Ágústa Eymundsdóttir, Hóli.
Vermundur, Steingr. Magnússon.
Pétur, Árni Gíslason?
Hvíslari var Georg Gíslason, sem mundi vel eftir þessari sýningu og eru upplýsingar hér á eftir um stofnun L.V. mest eftir frásögn hans (og fyrrnefndra Stgr. Magnússonar og Guðbj. Gíslad.).
Ólafur Ottesen lék Skrifta-Hans, eflaust hans annað bezta hlutverk í leiklist hér í Eyjum. Hann var óviðjafnanlegur snillingur á leiksviði. Birkidómarann lék Petersen frábærlega vel, og finnst mörgum sem hann hafi skapað þá persónu þá og ávallt síðan, hver sem hlutverkið hefir haft með höndum.
Sigurborg var verzlunarstúlka hjá G.J.J. Ekki man ég hvers dóttir hún var, en hún hafði leikið mjög vel. Um hana voru gárungarnir að segja í gamni:

Sigurborg sveimar
um salinn í hring
eins og svakaleg gyðja
í taustranga bing
afgreiðir fólkið
um allskonar vef
iðandi af fjöri
með uppstoppað nef.

(Hún var sennilega Sigurðardóttir og fer héðan til R.víkur skömmu síðar, 1912—13).
Undirleik við sýningarnar annaðist Sigríður Ottesen og fórst það vel úr hendi. Sigríður gerði lítið að því að leika, en þó mun hún hafa leikið í „Heimilinu“ eftir Sudermann ásamt Ólafi bróður sínum o.fl. Ekki var Ólafur ánægður með hana á leiksviðinu. Hún hafði alltaf verið hlæjandi og flissandi, jafnvel er sízt skyldi. Skammaði Ólafur hana stanzlaust en engan árangur virtist það bera. Hún bara hló og flissaði. Líklega hefir þetta verið hennar einasta hlutverk á sviðinu og fór því miður vel. En undirleik við sýningar annaðist hún af mikilli snilli um fjölda ára bil. (Frásögn Stgr. Magnússonar).
Árið 1909 sýndi kvenfélagið Líkn leikritið „Frú Prop“, höfundur ókunnur. Það var leikið í Gúttó og voru meðal leikenda þau:

Frú Ágústa Eymundsdóttir, Hóli,
Petersen símstjóri,
Guðjón Guðjónsson,
Guðjón Jónsson o.fl.

Þetta er bráðsnjall gamanleikur og tókst uppfærsla hans mjög vel. Halldór læknir aðstoðaði a.m.k. við sýninguna, en hvort hann lék nokkuð hlutverk, er ekki vitað lengur.

Á.Á.

(Framhald þessarar sögu (sem er I. kafli) birtist í Bliki 1965 og 1967 undir heitinu Leiklistarsaga Vestmannaeyja).

Til baka