Blik 1961/Saga Ísfélags Vestmannaeyja, II. kafli, III. hluti

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search

Efnisyfirlit 1961



Saga Ísfélags Vestmannaeyja


II. KAFLI
(3. hluti)



Stríðsárin fyrri ollu stjórn Ísfélagsins miklum erfiðleikum. Þó tókst henni að halda lánstrausti félagsins óskertu og afla nægilegrar síldar handa útvegi Eyjamanna hverja vertíð.
Kaupgjaldið steig jafnt og þétt á stríðsárunum. Árið 1917 nam kaup Högna Sigurðssonar kr. 2.000,00, og þar að auki var honum greidd kr. 500,00 dýrtíðaruppbót. Sigurður sonur hans hafði kr. 1.500,00 árskaup og gjaldkerinn kr. 1.200,00. Að töluverðu leyti mun vinna hans hafa verið aukavinna.
Árin 1911—1916 að báðum þessum árum meðtöldum lét félagið afhenda frá áramótum til 15. maí til uppjafnaðar hvert ár 86,4 smálestir síldar til útvegsmanna og sjómanna í Eyjum. Sömu ár nam heildar síldarsalan 97,47 smálestum miðað við allt árið. Árið 1915 var síldareyðslan mest eða 153 smálestir, en minnst árin 1916 og 1917, um 100 smálestir hvort ár.
Oft var það stjórninni erfiðleikum háð að ná inn útistandandi skuldum. Stundum neyddist hún til að beita þeirri hörku að stöðva sölu síldar til skuldseigustu viðskiptavinanna á vertíð, þar til þeir höfðu greitt viðunandi hluta af skuld sinni.
Fundargjörðir Ísfélagsstjórnarinnar frá þessum árum bera það með sér, að Ísfélag Vestmannaeyja naut mikils trausts í viðskiptum, og síldarseljendur sóttust eftir viðskiptum við það. Kjötsalan í félagsbúðinni fór þá einnig vaxandi ár frá ári.
Stundum þurfti að grípa til þess úrræðis að skammta síldina, þegar knappt var um hana. Var þá t.d. úthlutað til vélbáta af venjulegri stærð 30 kg í róður. Hinir minni fengu 20 kg og róðrarbátar, sem enn áttu sér stað þá í Eyjum, fengu 10 kg. Þá var ekki óalgengt, að sjómenn höfðu „bjóð“ á bátnum, þ.e. eigin línu, sem þeir fengu þá aflann af í kaup. Sumir höfðu 1—2 strengi á bátnum og aflann af þeim til uppbótar á kaup.
Til alls þessa þurfti að taka, þegar bátum var skömmtuð síldin.
Andstæðingar Gísla J. Johnsen reyndu alltaf öðru hvoru að hnekkja honum og ná undan honum formannssætinu í Ísfélaginu. Þannig var það t.d. á aðalfundi Ísfélagsins 16. júní 1919. Þá stungu andstæðingar hans upp á skriflegri stjórnarkosningu í þeirri von, að nægilega margir félagsmenn reyndust honum andstæðir, ef leynileg kosning færi fram. Þessum óskum þeirra var framfylgt. Þá hlaut Gísli J. Johnsen og Jón Hinriksson, kaupfélagsstjóri svo að segja öll atkvæði fundarmanna, hvor um sig 90 atkvæði. Árni Filippusson hlaut 76 atkv. Símon Egilsson 73 og Magnús Guðmundsson 51. Meiri hluti þessara manna hafði lengst stjórnað Ísfélaginu og reynzt félagsmönnum ötulastir og dyggastir. Endurskoðendur voru kosnir Jóhann Þ. Jósefsson og Brynjúlfur Sigfússon.
Sumarið 1919 var síldarverðið í Reykjavík 58 aurar út af húsi. Það sumar festi Ísfélagið kaup á 60 smálestum af beitusíld hjá Ísbirninum h.f. og 30 hjá íshúsinu Herðubreið.
Á þessum árum var Gísli J. Johnsen mjög oft fjarrverandi úr bænum sökum hins margþætta og mikla atvinnureksturs síns. Þá gegndi Árni Filippusson, gjaldkerinn, störfum hans, kallaði saman stjórnarfundi og réði fram úr daglegum vandamálum og þó alltaf í samráði við formanninn, ef hann var hérlendis. Samvinna þessara tveggja manna um hag félagsins virðist hafa verið með ágætum. Ekki var það minnst henni að þakka hinn góði viðgangur Ísfélagsins og hið mikilvæga starf, sem þar var innt af hendi fyrir útveg Eyjamanna.
Haustið 1920 var í óefni komið um rekstur íshússins vegna þess, að gaskol þau, sem keypt höfðu verið, reyndust svikin vara, svo að naumast var haldið nægilegu frosti í húsinu af þeim sökum. Það var þá Ísfélaginu til happs að Stefán Guðlaugsson, útvegsbóndi í Gerði, átti í fórum sínum 18—22 hestafla Thuxam-vél. Þessa vél keypti Ísfélagið á 6.000 krónur og notaði hana til þess að knýja frystivélarnar. Það var fyrsta olíuknúða vélin, sem Ísfélagið eignaðist. Fresta varð kaupum á síld þetta haust sökum þessara breytinga.
21. okt. 1920 var aðalfundur haldinn og lagðir fram reikningar fyrir árin 1918 og 1919. Oftar hafði það átt sér stað, að ekki var haldinn aðalfundur nema annað hvort ár, þó að ástæður séu óljósar. Í þetta sinn hafði dregizt að halda aðalfund af þeim sökum, að reikningarnir fengust ekki endurskoðaðir. Þeir voru því lagðir fram með þeirri vissu að þeir reyndust réttir sem jafnan áður. Þó skyldu þeir auðvitað endurskoðaðir síðar. Til þess voru kosnir nýir endurskoðendur, þeir Bjarni Jónsson á Svalbarða og Guðni J. Johnsen, Ásbyrgi.
Aðalfundur þessi samþykkti að greiða félagsmönnum 6% arð fyrir árið 1918 og 8% fyrir árið 1919.
Þetta ár hækkaði síldarverð um 30% og varð söluverð kr. 1,30 út úr húsi.
Ekki þori ég að fullyrða að veiðzt hafi síld hér við Eyjar hvert ár allan fyrsta fimmtung þessarar aldar, en oft verður þess vart, að Ísfélagið kaupir eitthvað af síld, sem veidd hefur verið við Eyjar eða í nánd við þær.
Árið 1921 greiddi Ísfélagið 40 aura fyrir hvert kg af síld, sem hér veiddist.
Þegar leið fram yfir 1920, kom í ljós, að mikil þörf var á endurbótum frystihússins og lagfæringum. Á aðalfundi 1922 (29. maí), var stjórninni heimilað að taka lán til að endurbæta hús og vélar. Þessi lánheimild sannar okkur bezt, að Ísfélag Vestmannaeyja var aldrei rekið öðruvísi en hjálparhella eða tæki til hagsbóta og fyrirgreiðslu útvegi Eyjamanna. Gróði á rekstrinum kom ekki til greina eða varasjóður, sem nokkru næmi. Útgerðarmenn í Eyjum áttu alltaf við mikla örðugleika að etja um að fá nægilegt rekstrarfé til reksturs útveginum og var þá Ísfélagið einskonar banki þeirra um síldarkaupin. Það lánaði útgerðarmönnum beitu um lengri eða skemmri tíma til þess að útgerð gæti hafizt á réttum tíma og framleiðslan tekið til. Þessi útlán leiddu oft til þess, að Ísfélagið tapaði miklu fé vegna lána og neyddist stundum til að afskrifa á annan tug þúsunda af töpuðum skuldum. Þó var reynt til hins ýtrasta að greiða félagsmönnum arð af rekstrinum m.a. til þess að halda áhuganum vakandi og halda sem mestri og beztri samstöðu félagsmanna um fyrirtækið.
Á aðalfundi 1922 var samþykkt að greiða félagsmönnum 10% arð, og var svo gert næstu árin. Þessi aðalfundur afréð einnig, að gefa skyldi úr félagssjóði 1.200 krónur til ekkna þeirra, sem fórust.
Á vertíð 1922 eyddust um 1.700 tunnur síldar til maíloka en heldur minna síldarmagn næsta ár. Vitaskuld var síldareyðslan mjög háð gæftum á línuvertíð.
Á vertíðum 1923 og 1924 gengu frá Eyjum um 70 vélbátar. Gert var ráð fyrir, að þeim mundi fjölga og talan fylla 8. tuginn á vertíð 1925. Að sjálfsögðu varð stjórn Ísfélagsins að fylgjast vel með aukningu útgerðarinnar og fyrirætlunum Eyjamanna í þeim efnum til þess að geta áætlað sem nákvæmust kaup á beitusíld fyrir hverja vertíð.
Haustið 1924 leit mjög illa út með að tök yrðu á að festa kaup á nægilegu magni síldar til næstu vertíðar, þar sem hvergi var beitusíld að fá í landinu. Að vísu átti þá Ísfélag Vestmannaeyja töluvert miklar síldarbirgðir, þó hvergi nógar til næstu vertíðar. Nokkrum dögum fyrir jól boðaði stjórnin til almenns fundar í félaginu til þess að ræða þessi vandræði. Á fundinum var afráðin sú aðferð að skipta öllu síldarmagni Ísfélagsins fyrirfram milli Eyjabáta. Réði svo hver bátshöfn, hvenær og hvernig hún notaði síld sína. Aðkomubátar skyldu enga síld fá.
Á þessum fundi (20. des. 1924) hreyfði formaður Ísfélagsins, Gísli J. Johnsen, því nýmæli, að formenn í Eyjum og bátaeigendur gæfu fé í sérstakan sjóð, sem nefndur var „spítalasjóðurinn“, og átti að verða stoð og stytta þeirrar hugsjónar að byggja fullkomið sjúkrahús í Vestmannaeyjum. Formaður Ísfélagsins beitti sér þá mjög fyrir hugsjón þeirri og fékk hana gjörða að veruleika þrem árum síðar.
Eins og drepið var á, var enga síld að fá í landinu haustið 1924. Um áramót hafði síldareign Ísfélagsins verið skipt niður á útgerðarmenn eða bátafélög. Nokkrir útgerðarmenn í bænum voru óánægðir með hlutskipti sitt varðandi síldarskiptin og skrifuðu bréf til bæjarstjórnar Vestmannaeyja og báðu hana aðstoðar. Þá var Kristinn Ólafsson bæjarstjóri í Vestmannaeyjum. Bæjarstjórnin tók afstöðu í máli þessu með útgerðarmönnum og skrifaði stjórn Ísfélagsins bréf varðandi erindi þeirra. Bréf þetta tók stjórn Ísfélagsins fyrir á fundi sínum 11. jan. 1925 og svaraði því með svohljóðandi bréfi:
,,Mál þetta, sem hér ræðir um, (úthlutun síldar Ísfélagsins) álitur stjórn þess alls ekki heyra undir verksvið bæjarstjórnarinnar. Vegna afskipta hennar af því, leyfir Ísfélagsstjórnin sér að láta í ljós megna óánægju sína yfir því, að bæjarstjórnin skuli hafa tekið það til meðferðar og byggt ályktanir sínar á slíkri „Gróusögu“, er hér ræðir um, þar sem það er öllum almenningi kunnugt, að Ísfélagsstjórnin hefur jafnan gert sér eindregið far um að tryggja sjávarútgerð Vestmannaeyja svo vel að beitu, sem föng hafa verið á, enda aldrei komið fram kvartanir um hið gagnstæða. Eins og nú stóð á, þar sem Vestmannaeyingar eru nú líklega eina veiðistöðin hér á landi, sem hefur nokkurn veginn nægilegan síldarforða fyrir forsjálni Ísfélags Vestmannaeyja, hefði frekar mátt vænta þess, að einhverjum meiri yl hefði andað í garð Ísfélagsstjórnarinnar af hálfu bæjarstjórnar heldur en virðist vera í ofan umgetnu erindi, sem bæjarstjórnin hefur látið leiðast til að taka til meðferðar.“
Þannig fékk Ísfélagsstjórnin að sannreyna það, að laun heimsins eru vanþakklæti. Þá sátu í bæjarstjórn Vestmannaeyja nokkrir lítilsigldir menn, sem létu beint fram siga sér á mesta velgerðarfélag byggðarlagsins, af því að þeim var, eftir því sem bezt verður séð, í nöp við formann Ísfélagsins.
Síðari hluta janúarmánaðar 1925 var Ísfélaginu boðin til kaups síld í Noregi, en með því að verðið þótti óhagstætt og lítið hafði eyðzt þann mánuð sökum ógæfta, var boðinu hafnað.
Á aðalfundi Ísfélagsins 18. júní 1925 var samþykkt, að félagið gæfi kr. 5.000,00 Sjúkrahúsi Vestmannaeyja, þegar byggingin væri fullgerð.
Fyrir stjórnarfundi í ágúst 1925 lá teikning, sem formaður hafði fengið firmað Sabroe í Árhúsum til að gera af kælileiðslum, sem leggja skyldi í kjallara íshússins. Jafnframt hafði formaður fengið verkfræðinginn Þórð Runólfsson, sem staddur var í Danmörku, til þess að ferðast til Árhúsa til að kynna sér hvernig slíkum leiðslum væri komið fyrir með þeirri ætlan, að hann sæi síðan um þessar framkvæmdir Ísfélagsins. Um þetta leyti voru leiðslurnar á leiðinni til landsins.
Í ágústmánuði 1926 varð vélgæzlumaður Ísfélagsins, Finnbogi Finnsson, fyrir sprengingu sem orsakaði dauða hans. Hann hafði verið vélgæzlumaður hjá Ísfélaginu í 7 til 8 ár. Staða þessa manns var auglýst til umsóknar og sóttu um hana 13 menn, þar af 6 umsóknir frá utanbæjarmönnum. Páli Scheving frá Hjalla í Eyjum var veitt staðan. Jafnframt samþykkti stjórnin að veita móður Finnboga sáluga Finnssonar, Ólöfu Þórðardóttur, ellistyrk til æviloka, kr. 300,00 á ári.
Haustið 1926 fór stjórn Ísfélagsins fram á það við Íslandsbankaútibúið hér, að það lánaði félaginu peninga til síldar- og kjötkaupa. Bankastjórinn, Viggó Björnsson, gaf kost á því, ef stjórnarmenn Ísfélagsins ábyrgðust persónulega víxillán þessi. Þetta þótti stjórnarmönnum einkennileg skilyrði fyrir lánveitingunni og þar gæta nokkurrar tortryggni hjá bankastjóra. Var hann því inntur frekar eftir þessum skilyrðum. Þá kom þetta í ljós:
Ísfélagsstjórnin hafði tekið víxla af útgerðarmönnum og bátafélögum til tryggingar eða greiðslu á skuldum þessara aðila við félagið. Síðan hafði stjórnin selt bankanum þessa víxla með því að Ísfélagið hafði gefið þá út. Þeir námu samtals 100.600,00. Í desember 1926, þegar stjórnin fór fram á ný bankalán, voru allir þessir víxlar ógreiddir. Önnur ástæðan fyrir synjun bankastjórans var einnig sú, að reikningar Ísfélagsins fyrir árin 1924 og 1925 höfðu þá ekki ennþá verið lagðir fram eða aðalfundur haldinn. Í heild fannst sjálfri stjórn Ísfélagsins ástæður bankastjórans gildar fyrir lánsskilyrðum hans til Ísfélagsins og lét bóka það álit sitt í bók stjórnarinnar. Þetta haust (1926) neyddist Ísfélagsstjórnin til að stöðva öll útlán á kjöti vegna fjárhagsvandræða félagsins, þar sem engar útistandandi skuldir fengust greiddar. Útsöluverð á kjöti var þá kr. 2,00 í lærum og kr. 1.80 í framhlutum hvert kíló.
Seinast í jan. 1927 var haldinn aðalfundur Ísfélags Vestmannaeyja fyrir árin 1924 og 1925. Voru reikningar þá loks fullgerðir og endurskoðaðir. Reikningur ársins 1924 var samþykktur athugasemdalaust með öllum greiddum atkvæðum. Þegar bera skyldi reikninginn fyrir árið 1925 upp til samþykktar, kom fram svolátandi tillaga frá Helga Benediktssyni, kaupm.:
„Með því að fundurinn álítur, að endurskoðun sú, sem fram hefur farið á rekstursreikningi Ísfélags Vestmannaeyja fyrir árið 1925 og fyrir fundinum liggur, sé eingöngu töluendurskoðun en ekki „kritisk“, þá ákveður fundurinn, að reikningurinn sé ekki samþykktur að þessu sinni en tveim mönnum, sem fundurinn kýs, sé falið að yfirfara reikninginn á ný og sérstaklega athuga verð á innkeyptum vörum fyrir félagið á umræddu tímabili.“
Tillaga þessi var rædd á fundinum og síðan borin undir atkvæði. Var hún felld með 17 atkv. gegn 8.
Ýmislegt fleira var til ásteytingar á fundi þessum, svo sem síldarverð, og svo reipdráttur um væntanlega stjórnarmenn. Með skriflegri atkvæðagreiðslu var treyst á að takast mætti að skipta um stjórn að einhverju leyti. Þó var sama stjórn endurkosin:
Gísli J. Johnsen með 45 atkv., Ólafur Auðunsson 56, Gísli Magnússon 51, Magnús Guðmundsson 47, Jón Hinriksson 55. — Varamaður Jón Einarsson á Gjábakka sem áður.
Nú bað Helgi Benediktsson bókað að með skírskotun til 12. greinar félagslaganna mótmælti hann kosningu Gísla J. Johnsens sem ólöglegri og ógildri og krafðist þess, að nýr maður yrði kosinn í stjórnina í hans stað. Hér mun höfð í huga búseta Gísla J. Johnsens í Reykjavík. Þegar hér var komið fundi, var honum frestað til fyrsta landlegudags.
Á stjórnarfundi 5 dögum síðar, eða 2. febr., beiddist gjaldkerinn, Árni Filippusson, þess, að hann yrði leystur frá gjaldkerastörfunum, þar sem hann væri orðinn aldraður maður (þá 71 árs) og reikningshald Ísfélagsins vegna aukinna umsvifa þess honum um megn. Svo samdist þó um með Árna og stjórninni, að hann héldi enn áfram gjaldkerastarfinu og reikningshaldi, enda hafði hann frá upphafi unnið félaginu af trúmennsku og fórnfúsum áhuga á gengi þess og gagni.
Um kvöldið var svo aðalfundinum fram haldið. Var þá ekki minnst á ólögmæti Gísla J. Johnsens í stjórn félagsins heldur virðist þar allt hafa fallið í ljúfa löð með því, að Gunnar Ólafsson var nú kosinn endurskoðandi félagsreikninganna með Páli Bjarnasyni í stað Bjarna Jónssonar.
Í febrúar 1927 kom í ljós, að eyðzt höfðu 79 smálestir af síldarforða Ísfélagsins síðan um áramót. Eftir voru 62 smálestir. Var nú afráðið að skammta síldina eins og svo oft áður, og fékk hver bátur 60 kg. í róður. Svo var í lok þessa mánaðar fest kaup á síld á Vestfjörðum og í Noregi. Enn var Ísfélagið í miklum fjárhagsvandræðum vepna þess, að útistandandi skuldir fengust ekki greiddar. Til dæmis átti það 68.000,00 króna hjá 9 verzlunum og útgerðarfyrirtækjum í bænum. Þá skuldaði félagið kr. 81.000,00 aðeins tveim stærstu lánadrottnunum, og var nú hótað málsókn, ef ekki greiddist.
Í ágústmánuði 1927 fékk Ísfélagið t.d. síld senda frá Siglufirði, og skyldi hún greiðast við móttöku hér, kr. 17.600,00. Síldin var komin en sjóðurinn galtómur, svo að greiðslusvik voru óumflýjanleg nema úr rættist. Keypti þá bankinn víxla af Ísfélaginu með persónulegri ábyrgð stjórnarmanna. Þannig var þá staðið í skilum í það sinn.
Verzlunarrekstur Gísla J. Johnsen og útvegur hafði færzt mjög í aukana á þessum síðustu árum. Það olli því, að hann varð að vera æ meir út um hvippinn og hvappinn við ýmiskonar fyrirgreiðslur varðandi atvinnurekstur sinn. Í fjarveru hans var Árni Filippusson lengi vel aðalframámaður í rekstri félagsins og nú síðustu árin Jón Hinriksson, kaupfélagsstjóri við kf. Fram í Eyjum.
Fyrir stjórnarfundi 3. sept. 1927 lá bréf frá Gísla J. Johnsen, þar sem hann segir af sér formennsku og stjórnarstörfum í Ísfélagi Vestmannaeyja. Hafði hann þá verið í stjórn félagsins frá upphafi nema tvö ár og flest árin formaður þess, átt drýgstan þátt í vexti þess og viðgangi með nokkrum öðrum nýtum og mætum mönnum, sem áttu þá hugsjón eina, að félagið mætti sem mest og bezt þjóna aðalatvinnuvegi Eyjabúa og vera stoð hans og stytta, eins og það var vissulega, meðan þessir menn héldu um stjórnartaumana. Þar skulu nefndir auk Gísla J. Johnsens þeir Magnús Guðmundsson á Vesturhúsum, formaður, Árni Filippusson í Ásgarði, gjaldkeri félagsins og Jón Einarsson kaupm. á Gjábakka. Og svo á síðari árum fram að þessum tíma þeir Ólafur Auðunsson, Gísli Magnússon og Jón Hinriksson, sem var nú kosinn formaður félagsins, er Gísli hætti störfum. Á aðalfundi Ísfélags Vestmannaeyja 29. des. 1928 hlutu þessir menn kosningu í stjórn félagsins:
Jón Hinriksson með 71 atkv., Magnús Guðmundss. m. 68, Ólafur Auðunsson með 63, Gísli Magnússon með 62, Árni Filippusson með 62. Varamaður Jón Einarsson með 25 atkv.
Eftir þann fund veitti stjórnin Jóni Hinrikssyni, kaupfélagsstjóra, „prókúru“ fyrir Ísfélag Vestmannaeyja í stað Gísla J. Johnsen.

Hér endum við 2. kafla í sögu Ísfélags Vestmannaeyja. Til þessa hafði Gísli J. Johnsen verið áhrifamesti maðurinn í stjórn þess og lánað því oft og tíðum stórfé úr eigin sjóði, þegar syrti í álinn fyrir félaginu og það gat ekki á annan veg komið fram nauðsynlegum framkvæmdum til ómetanlegra hagsbóta öllum útvegi Eyjamanna. Við hlið Gísla þau 26 ár, sem félagið hefur starfað til þessa, hafa ágætir menn að dugnaði og myndarskap, fórnfýsi og glöggum skilningi á gildi starfsins borið hitann og þungann með forystumanninum og reynzt honum og málefninu vel í hvívetna.
Gísli J. Johnsen og félagar hans stjórnuðu ávallt Ísfélagi Vestmannaeyja með hag almennings fyrir sjónum fyrst og fremst. Þetta sjónarmið forustumannanna var að vísu ánægjulegt, drengilegt og gagnlegt, en því verður ekki neitað, að það leiddi oft af sér linkind í fjárreiðum félagsins og rekstri, sem olli oft fjárhagskreppum í rekstri þess og miklum erfiðleikum. Það var þegar í upphafi hugsjón frumkvöðla stofnunarinnar, Árna Filippussonar, gjaldkera, og Magnúsar Jónssonar sýslumanns, að allir eða flestir Eyjabúar gætu orðið þátttakendur í starfsemi félagsins eða hluthafar í því. Þess vegna var hver hlutur látinn kosta aðeins 25 krónur. Þessari hugsjón var Gísli J. Johnsen og hans félagar í stjórninni fyrr og síðar trúir og miðuðu ávallt ályktanir sínar og gjörðir við almenningsheill. Fram hjá þessu verður ekki gengið, ef fundargjörðarbækur Ísfélagsstjórnarinnar fyrsta aldarfjórðunginn, sem félagið starfaði, eru lesnar vandlega ofan í kjölinn. Fyrir allt þetta mikla og markverða starf eiga þessir forustumenn í félagsmálum Eyjabúa miklar alúðarþakkir skildar.
Þegar hér er komið sögu Ísfélags Vestmannaeyja, hafa nýir menn að nokkru tekið við forustunni. Þeirra verður 3. kaflinn í sögu félagsins.
Ísfélag Vestmannaeyja er 60 ára á þessu ári. Án nokkurs efa er það eitt af gagnmerkustu hagsmunafélögum til almenningsheilla, sem stofnað hefur verið í landinu, og byggði fyrst allra og rak vélknúið frystihús hér á landi.
Ársrit Gagnfræðaskólans og þeir, sem að því standa, óska Ísfélagi Vestmannaeyja allra heilla á þessum merku tímamótum. Mætti hugsjónin um starf til heilla almenningi ávallt halda velli innan veggja þess enn um langan aldur.

Til baka



Skansinn, Austurbúðin og Austurbúðarbryggjan 1906.