Úr fórum Árna Árnasonar. Verk hans og annarra/Strand franska skipsins Admiral l'Hermite árið 1867

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search
Úr fórum Árna Árnasonar


Strand franska skipsins Admiral-l'Hermite árið 1867
Bréf Bjarna E. Magnússonar sýslumanns
til stiftamtmannsins yfir Íslandi, dags. 5. maí 1867


Hinn 30. dag næstliðins mánaðar um formiðdaginn hérumbil kl. 10 sást frönsk skonnorta fyrir austan Vestmannaeyjar og var auðséð, að hún ætlaði sér að sigla inn á Vestmannaeyjahöfn. Veður var mjög hvasst á austan og lá nær því við roki og ógurlega háar bárur og ylginn sjór. En af því að skip þetta auðsjáanlega var stórt og einungis hálffallinn sjór var flaggað á Skansinum, er upp hafði verið dregið, þegar skip þetta sást, látið aftur niður falla í því skyni, að skip þetta eigi legði inn, en þareð skipstjórinn eigi þekkti merki þetta, hélt það áfram ferð sinni með franskt flagg á masturstoppi.
Hafnsögumaður fór í tæka tíð út á bát sínum til að leiðbeina skipi þessu, en komst ekkert, með því að sjórinn fyrir utan höfnina var með öllu ófær fyrir opin skip.
Hinu franska skipi var leiðbeint með flaggi í landi, þegar það tók að nálgast mjög og fór því öldungis rétta Leið, en allt í einu stóð það að framan við steinrif nokkurt, er liggur fyrir austan sjálfa skipaleguna, af því eigi var orðið nógu sjávarhátt fyrir jafn stórt skip og sló þegar með afturendann upp í rifið. Skullu þá bylgjurnar, er voru ógurlega stórar, hver eftir aðra, utan á flatt skipið, svo það með öllu barst upp á steinrifið, og gengu með krafti upp á mið möstrin.
Þareð ég, sem var áhorfandi, þegar skip þetta lagði inn, sá þegar, að skipverjar voru í hinni mestu lífshættu, skoraði ég þegar á alla valda karlmenn, er ég í sama vetfangi saman safnaði, undir eins að setja fram á sjó tvö stórskip til þess að reyna að bjarga skipverjum, og var það þó auðsjáanleg lífshætta, að nálgast hið franska skip þar sem það var að veltast mitt í brimrótinu.
Hinni frösku skipshöfn, 20 að tölu, var bjargað með mikilli hættu og fyrirhöfn, og náðust allir og komu allir heilir á húfi til lands, hvar ég að vörmu spori útvegaði þeim hús til íbúðar.
Hið franska strandaða skip, sem er að mestu brotið og ómögulegt er við að gera, heitir Admiral l'Hermite frá Dunkerque, kapteinn Druel, og er sem stendur mjög nálægt landi, hérumbil á þurru um fjöruna, en fullt af sjó um flóðið.
Við björgun hinna frönsku skipverja má ég einnig taka fram dugnað og atorku Faktors Péturs Bjarnasen, sem var formaður fyrir skipi því, sem bjargaði hinni frönsku skipshöfn, og vildi ég því leyfa mér að biðja yður, hávelborinn herra stiftamtmaður, næst því, að yðar hávelborinheitum vilduð þóknast að kunngera foringjanum fyrir herskipum franskra aðalinnihald bréfs þessa, að mæla fram með því, að hann af hinni frönsku stjórn yrði æ síðan sæmdur með franskri Redningsmedaille og að sömuleiðis hinum íslensku hásetum, sem með kappi studdu að björgun þessara manna, yrði veitt einhver verðlaun í peningum. Að síðustu skal þess getið, að farmi skips þessa hefir að mestu orðið bjargað, en þó flestu skemmdu, þar skipið sökk þegar og var fullt af sjó, hvað ég hérmeð ekki vil undan fella að tilkynna yðar hávelborinheitum samkvæmt rentukammerbréfi 8. maí 1847.

Á Enok, sem Pétur var fyrir, voru 13 menn, en á Áróru 14. Pétur Bjarnasen fékk verðlaunapening fyrir dugnað sinn við björgunina og leyfði stiftamtmaður honum að bera hann við hátíðleg tækifæri. Hver maður, sem var á Enok við björgunina fékk eftirfarandi bréf frá sendiherra Frakka í Kaupmannahöfn:
„Stjórn keisarans á Frakklandi hefir verið skýrt frá, hvernig þér af drenglyndi yðar hafið hraðað yður að koma til aðstoðar skipshöfninni af hinu frakkneska fiskiskipi Admiral l'Hermite frá Dúnkirkju, skipstjóri Druel, sem strandaði í Vestmannaeyjum 30. apríl 1867.
Stjórn keisarans, sem er gagntekin af velvilja þeim, er þér hafið sýnt við björgun skipstjórans og skipshafnarinnar hefir falið mér í hendur að láta yður í ljósi sitt innilegasta þakklæti og er það mikil ánægja fyrir mig að gjörast túlkur stjórnar minnar í þessu efni. Verið jafnan fullvissir um mína innilegustu virðingu.“
Skömmu áður en þetta strand varð, fyrsta páskadag um veturinn, kom önnur frönsk skúta, Aigle frá Binic, til Eyja og var hún að því komin að sökkva af leka. Hafði skipshöfnin þá staðið í austri í 3 sólarhringa stanslaust og var að fram komin af vökum og þreytu. Skipi þessu var lagt upp í Botn og þar varð það til.


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit