Úr fórum Árna Árnasonar. Verk Árna og annarra/Veiðimenn, frásagnir og kveðskapur í Elliðaey á öndverðri 20. öld

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search
Úr fórum Árna Árnasonar


Veiðimenn í Elliðaey á öndverðri 20. öld,
frásagnir og kveðskapur


Lengi fram eftir árum og sennilegast lengst miðað við aðrar úteyjar, var sofið í einni allsherjar flatsæng í Elliðaey. Eyjólfur Gíslason á Bessastöðum var ekki nema 4 ára, þegar hann fór þangað fyrst, þ.e. árið 1901, og fór þá með föður sínum. Þá var að venju fjöl fyrir framan flatsængina, þar sem menn gátu tyllt sér á og t.d. farið úr skónum. Við höfðalagið var matarskrínan. Þá og næstu árin var svefnplássum manna þannig niðurraðað, og vissi höfuðið að veggnum, en kofinn sneri nálægt því frá suðri til norðurs og voru dyr á nyrðra gafli:

Talið framan frá og inn eftir:
Vestan megin: Austanmegin:
Jón Jónsson, Gerði
(Stefán Guðlaugsson,
ef Jón var ekki)
Jón Pétursson,
Þorlaugargerði
Björn Erlendsson, Gerði Sigurður Helgason, Götu
Sigbjörn Björnsson, Ekru Tómas M. Guðjónsson,
Miðhúsum
Árni Sigfússon, Löndum Guðni J. Johnsen, Frydendal
Guðjón Jónsson, Oddsstöðum Finnbogi Björnsson, Norðurgarði
Pétur Lárusson, Búastöðum Einar Sveinsson, Þorlaugargerði
Gísli Eyjólfsson, Búastöðum Einar Jónsson, Norðurgarði


Í hengikojum við Austurvegg voru strákarnir hafðir. Þeir voru:
Einar og Sigurður í Norðurgarði,
Árni Finnbogason, Norðurgarði,
Eyjólfur Gíslason, Búastöðum,
Lárus Árnason, Búastöðum,
Kristófer Guðjónsson, Oddsstöðum.
Ekki voru strákarnir allir jafnlengi eða samtíma, en þessir voru þeir fyrstu, sem Eyjólfur minnist. Auk þeirra voru um tíma þeir Einar Björn Sigurðsson, Pétursborg og Jóhann Jörgen Sigurðsson, Frydendal, en þeir voru sendir heim vegna þess að þeir voru alltaf að tildrast. Hafa þeir ekki hlýðnast fyrirmælum viðlegumanna og þá var ekki um annað að tala en láta slíka drengi fara heim.
Sókningsmenn voru fyrst eða 1901 þeir Hannes lóðs á Miðhúsum og Magnús Þórðarson í Sjólyst. Síðar sóttu svo um árabil þeir Maríus í Framnesi og Vilhjálmur Ólafsson á Múla. En síðastir, sem Eyjólfur man eftir á veruárum sínum í Elliðaey, voru þeir Stefán Guðlaugsson, Gerði og Símon Egilsson, Miðey, sem sóttu á mb. Halkion. Það var árið 1910.
Á nefndu tímabili voru einnig í Elliðaey þeir:
Kristján Gíslason, Hlíðarhúsum,
Árni J. Johnsen, Frydendal,
Ágúst Gíslason, Landlyst,
Magnús Guðmundsson, Hlíðarási,
Guðmundur Árnason, bróðir Stefáns Árnasonar lögregluþjóns í Eyjum o.fl.


Höskuldarhellir


Einhvern tíma fyrir löngu síðan var margt fólk til heyja í Elliðaey eins og tíðkaðist allt fram á 20. öldina. Meðal þeirra, er voru þarna fyrrum við slátt, var stúlka ein, Guðrún Höskuldsdóttir að nafni. Var það í almæli, að stúlka þessi væri með barni og er sagt, að hún hafi orðið léttari úti í eynni, meðan sláttur þar stóð yfir. Bar hún svo barnið út og faldi í helli einum í lundabyggðinni skammt austur af Nautarétt.
Oft varð útburðar þessa vart, og nefndu menn hann Höskuld, eftir föður stúlkunnar og hellirinn, sem hún fargaði barninu í, var síðan nefndur Höskuldarhellir.
Útburðurinn gerði lundamönnum og heyfólki oft ýmsar skráveifur og þó sérstaklega, er óveður var í aðsigi. Heyrðist þá útburðarvælið langt að.
Ekki hefir þessa orðið vart á seinni árum og mun því Höskuldur nú útdauður, þótt hins vegar sé Höskuldarhellir enn á sínum stað og hafi stundum verið þrautavatnsból viðlegumanna.


Einar í Norðurgarði


Það var stundum nauðsynlegt fyrir þá, sem lundaveiðar stunduðu í úteyjum, að fara heim og sinna heyskapnum. Ekki mátti slá slöku við hann, þótt hitt væri og nauðsynlegt að fá sem mest af fugli til heimilanna. Nú var það einu sinni, að Einar Jónsson bóndi í Norðurgarði, sem alltaf var til lunda í Elliðaey, varð eitt sinn að fara heim og sinna heyhirðingu. Fór hann þess vegna heim með sókningsbátnum á laugardagskveldi í ágústmánuði 1894.
Sama kvöld og hann kom heim, fór hann að sinna heyskaparverkum. Fyrir þetta athæfi sitt var Einar kærður og sakaður um helgidagslöggjafarbrot. Ekki varð það sannað, að hann hefði staðið við heyvinnu fram yfir miðnætti. Jafnframt var þá rifjað upp, að hann hefði átt að flytja heim á sunnudegi nokkra torfusnepla. Fyrir þetta athæfi sitt fékk Einar aðvörun og varð að greiða málskostnað. – Það virðist hafa verið betra að halda helgidagslöggjöfina út í ystu æsar, ef allt átti vel að fara.
Í sambandi við Einar í Norðurgarði mætti geta þess, að hann veiddi aldrei fugl í Elliðaey, en bar alltaf frá þeim, sem veiddu í veiðistöðunum. Eitt er athyglisvert við þetta. Einar bar alltaf berfættur, hvort hann heldur bar í grasi eða á bergflám. Hann var ekki sárfættur karlinn sá.
Einar var mikið við fuglaveiðar, ekki síst við fýlatekjuna, og þá oftast á bát hin síðari ár. Á yngri árum fór hann hins vegar mikið til fýla í úteyjar og fór þá oft sem göngumaður. Þannig var t.d. 1896, er þeir voru norðan í Álsey Guðjón og Gísli Eyjólfssynir, ásamt Einari, er þeir voru í grastorfunni, er losnaði, og þeir sluppu allir á undursamlegan hátt úr og frá bráðum dauða. Um þetta getur annars staðar í pistlum þessum.


Kveðskapur Ólafs í Nýborg í Elliðaey.


Eitt sinn var Pétur Pétursson í Vanangri til viðlegu í Elliðaey. Þá var þar og margt fólk til heyvinnu og bjó það í tjöldum. Pétur var með skinnhald með sér við veiðarnar, því að oft kom fyrir, að vegna bleytu þurftu menn að vera skinnklæddir.
Hann hafði nú hengt skinnbrók sína til þerris við kofann. Vegna vinds fauk brókin og lenti á tjaldi heyvinnufólksins, sem vaknaði við vondan draum. Þá var kveðið um skinnbrók Péturs:

Ef hún skaða oftar gerir
eyðir manna frið
Pétri ber að bæta fyrir
bölvað skinnhaldið.
En ef hún skaða engan gerir
og eflir manna frið,
okkur ber að bæta fyrir
blessað skinnhaldið.

Talið er, að þetta muni vera eftir Ólaf Magnússon í Nýborg, og hafi hann kveðið það fyrir munn heyvinnufólksins, þar eð sjálfur hefir hann vafalaust verið við fuglatekjuna, ásamt Pétri o.fl. Ólafur gerði nokkrar úteyjavísur, meðan hann davldist t.d. í Elliðey, en allflestar munu þær nú týndar eða gleymdar. Eitt sinn sagði Ólafur, er hann var að tíunda veiði sína eftir daginn. Hefir honum sennilega fundist hún vera harla lítil því að hann segir í vísunni:

Veiðin mín er voða smá
víst er það ei gaman.
Til helvítis ég henda má
háf með öllu saman.

Annað skipti fór Ólafur út til athugunar á því, hvort lundinn væri við og, hvort átt væri. Þá var hann með Lárusi á Búastöðum til lunda í Elliðaey. Er svo að skilja, að honum hafi þótt góðar veiðiaðstæður, en hann hálfkviðið fyrir því að setjast að veiðum. Hann kom til Lárusar þar, sem hann var inni í viðlegutjaldinu og sagði:

„Hér að skreppa hlýt ég inn
hörð að kreppir pína.
Farðu hreppaforinginn
fljótt í leppa þína.“

Lárus var, sem kunnugt er, hreppstjóri og þess vegna nefnir Óli hann hreppaforingja.


Kveðskapur úr Elliðaey


Um enga af úteyjunum og þá menn, sem þar lágu við, hefur verið meira kveðið en Elliðaey. Þar munar hvað mestu, að einn afkastamesti ljóðasmiður Eyjanna, Óskar Kárason, var þar um árabil við veiði. Reyndar orti Óskar Kárason um aðrar eyjar, en Elliðaey var honum hugleiknust eins og skiljanlegt er. Óskar á lungann úr þeim kveðskap, sem hér fer á eftir, og er að finna í safni Árna Árnasonar sem skráði niður vísurnar. (Eyjar og úteyjalíf – Úrval verka Árna Árnasonar símritara frá Grund. Sögufélag Vestmannaeyja í samstarfi við Safnahús Vestmannaeyja 2012).


Bólsöngur úr Elliðaey.
(Höf. Óskar Kárason)
Í úteyjar faðminum vægum í vindi
við skulum syngja að bjargmanna sið.
Hér lífið er frelsi og unaðaryndi
með ómum frá lundans og svölunnar klið.
Nú lokið er veiði og sigin er sól
saman við skálum og röllum við ból.
Bravissi, bravissi, bravissi, bravissi
bravissi, bravissi, bravissi mó.


Veiðimannasöngur Elliðaeyinga
Lag: Litla flugan eftir Sigfús Halldórsson.
Elliðaey á frelsi og fegurð lista,
fugl og gróður prýðir björgin ströng.
Hennar fold ég ungur gerði gista
glöðum drengjum með við leik og söng.
Ég þrái hennar dýrð og frið að finna,
fullkomin þá júlísólin skín.
Þá er hún meðal draumadjásna minna,
dásamlega paradísin mín,


Kerlingin í Elliðaey:
(Stór klettadrangur, nokkuð í konulíkingu).
Höfundar er ekki getið, en líklega er það Árni Árnason.
Freyjan sú er fremur stór
fjalla-nærri-brúnum.
Upp á hana áður fór
einn á beinum lúnum.
Heldur lítinn gaum því gaf
gömul fjalla-kella.
Sú hefir ekki heims í glaum
haldin verið mella.
Það var ég, sem grjótagná
gerði hreina spjalla.
Meyjarlaus ég mæddist þá .
mjög, á eynni fjalla
Lausmálg er mín ljóðasál,
lýður að má hyggja.
Það er ekkert efamál,
oft má satt kyrrt liggja.
Kerlingin í Elliðaey
yndi veitt mér getur.
Yrkja vil ég um þá mey
einhvern tíma betur.


Elliðaeyjarferðin
(Gamanbragur eftir Á.Á.)
Á trillu ég fór með „Trana“¹)
einn túr í Elliðaey,
af góðum gömlum vana
með grogg og væna mey.
Ég vissi að Tóti vinur
var alveg orðinn þurr
og Pétur líka linur
og lyst hafði ekki á Spur.²)
Við komum svo upp í kofa
og kölluðum glöð og hress:
„Hér skulu engir sofa,
við sjáum nú til þess.“
Hann Tóti sat í því straffi
að smyrja öllum brauð,
en kökur, heitt vatn og kaffi
og Commander³), Pétur bauð.
Brátt þreif hann Tóti upp tappann
og tæmd var óspart skál.
Þá fór að fara um kappann
smá fiðringur og rjál.
Hann skipti skjótt um brækur
og setti upp lundahatt,
en ólmur af ást og sprækur
að ungmeynni sér vatt.
Hann strauk henni blítt um bakið
og brjóstin sitt á hvað.
En reif svo úr rúminu lakið
og rambaði út á hlað.
„Við skulum skoða eyna
og skreppa upp í Rétt.“⁴)
Svo fór hann í burt með meyna,
en meira hef ég ei frétt.
¹) Trani, þ.e. Valdimar Tranberg sókningsmaður.
²) Spur, gosdrykkur, áþekkur Coca Cola.
³) Commander, breskar sígarettur, sem Pétur Guðjónsson frá Kirkjubæ reykti.
⁴) Rétt, þ.e. fjárréttin í Elliðaey.
Kerlingin í Elliðaey
Ljóð: Óskar Kárason
(Klettur er í Elliðaey, sem Kerling er nefndur,
þar eð hann líkist mjög kvenmanni.
Um þessa kerlingu, þ.e. klettinn, kvað Óskar Kárason):
Á suðurbrún við sævartún
sólarrúnum kafin.
situr hún við silfurdún,
sínum búning vafin.
Eyjar gætir gyðjan mæt
glæst í sæti fjalla.
Meyjan bætir sinnið sæt,
sveina kætir alla.
Aldrað sprundið út við sund
eitt á grundu bíður.
Enn óbundið það er þund
því um stundir líður.
Kletts í ranni kvikkar mann
kunnur svanni eyja
þöll með sanni þeirra ann,
þessi glanni meyja.


Gömul ljóð úr Elliðaey


Þegar sá var siður að heyja í Elliðaey fyrir mörgum árum síðan, var þar oft margt fólk og glatt á hjalla. Veiðimenn voru sér í kofa, en heyfólkið í tjaldi. Var að sjálfsögðu nokkur samgangur milli fólksins, og gerði, ekki hvað síst vera kvenfólksins, sitt til þeirrar samveru heyfólksins og fuglamanna. Þá varð einhvern tíma til eftirfarandi kveðskapur; höfundur ókunnur.

Í tjaldinu Sveinn vill sofa,
húrra, húrra.
Bergur með læradofa,
húrra, húrra.
Rósa vill engu lofa,
húrra, húrra.
Guðbjörg vill aldrei sofa,
húrra, húrra.
Gudda vill fegin fá það,
húrra, húrra.
Steini, sem aldrei má það,
húrra, húrra.
Uss, Einar vill ekki sjá það,
húrra, húrra.
Oddgeir mun feginn ljá það,
húrra, húrra.

Líklega mun þetta ort nokkru eftir aldamótin, en ekki verður nú lengur vitað, hver meining brags þessa er, og ekki um, hvaða fólk það er, sem nafngreint er. Þó mun Rósa vera Rósa í Þorlaugargerði, Guðbjörg, líklega Guðbjörg Arnbjörnsdóttir, Prestshúsum, Einar mun vera Einar Sveinsson, en hann hafði að orðtæki í byrjun hverrar setningar, „uss“. Oddgeir mun vera Oddgeir Þórarinsson, Oddsstöðum, Bergur sennilega Bergur Guðjónsson, Kirkjubæ.

Veiðimannavísur úr Elliðaey árið 1920
Höfundur: Óskar Kárason
Forspjall:
Við mér ungum blasir blíð,
búin grænum feldi.
Elliðaeyjar foldin fríð,
föðmuð sólareldi.
Áður var mér aldrei skýr
úteyjanna bragur.
Hér er sérhver dagur dýr,
dásamlega fagur.
Eyjar þegar fann ég fljótt
frjálsa lífið sanna.
Hér er dýrðlegt dag sem nótt
dásemdir að kanna.
Görpum meður geri ég
gæðin eyjar meta.
Þeirra sál mín alls ótreg
ætlar nú að geta.


1. Fyrst ég Guðjón greina má
garpinn Odds-á stöðum.
Eyjar ræður sjóli sá
sveinum fyrir glöðum.
2. Hans er fyndið fjörugt mál,
frítt við angrið leiða.
Leggur háf við „Nef“ og „Nál“
njótur frægur veiða.
3. Elliðaeyjar byggir borg
bræðslumanna sómi.
Einar kátur ekta „Norg“,
okkar félagsljómi.
4. Fyrður lunda fer á stjá
frægan margan túrinn.
Þann ég fuglinn fleyga sá
fanga viður „Búrin“.
5. Einars bróður brátt ég má
burinn Sigurð skrifa.
Norðurgarðs er njótur sá
natinn björg að klifa.
6. Þrautgóður og þolinn er,
þreytir veiði á „Fláa“.
Enginn meir á baki ber
brekku yfir háa.
7. Soninn Helga svo skal tjá
Sigurð dagfarshægan.
Þann í „Skoru“ segg ég sá
sækja fuglinn nægan.
8. Fuglabjörg sá klífa kann
kræfur má ég segja.
Fjalla- engan finn ég mann
færari honum Eyja. .
9. Þórulaugargerðis-grér,
getinn Jóni, snarpur.
Ármann sóminn segist hér
sannur veiðigarpur.
10. Engan staðinn hefir hann
hér um byggðarsetur.
Þó ég engan ætla mann
Eyjar veiða betur.
11. Þá er kátur Kristófer
kunnur Guðjóns niður
lundann fimur langar sér
„Lauphausana“ viður.
12. Dagfars góða drengnum þeim
dáða skap er gefið.
Neftóbaks-þó unni-eim
upp að soga í nefið.
13. Ég um Landa-Kristin kann
knáan stöku banga.
„Krummajaðar“ hefur hann
helst til lunda-fanga.
14. Sá er fimur veiði við,
varast brekku setur.
Sjaldan ærslum leggur lið,
létt þó hlegið getur.
15. Arfa Guðjóns annan má
ungan telja Pétur.
Utan félags unir sá
enn við „Bunka-setur“.
16. Kommanderinn reykir rétt
rekkur sinnis glaður.
Hann er, skal í sögu sett,
sóma veiðimaður.
17. Öðrum dreng ég óðar vil
eina vísu pára.
„Bunka“ arkar einnig til,
Óskar, sonur Kára.
18. Sá er meður létta lund,
listum óðar þekkur.
Púnsið elskar alla stund
unginn, þegar drekkur.
Endavísur:
Þá eru taldir, því ég má
þjóð með réttu lofa,
veiðimenn, sem eynni á
arka Bóls að kofa.
Hér er lífið, hér er fjör,
hér er gott að vera.
Úteyjar-við unaðs-kjör
allt er hægt að gera.
Lundinn syngur sinn við rann,
sólin eyna kveður.
Nætursvalan svæfir mann
sínu diggi meður.
Glaður ég í fletið fer,
frískur eftir daginn.
Óðardísin ætlar mér
ekki lengri braginn.


Skýringar við
vísurnar:
Vísa 1-2 Guðjón Jónsson,
Oddsstöðum
„Nef og Nál“eru
veiðistaðir
3-4 Einar Einarsson,
Norðurgarði
„Norg“, þ.e.
Einar Norg – Einar
5-6 Sigurður Einarsson,
Norðurgarði
7-8 Sigurður Helgason,
Götu
Búrin eru
lundaveiðistaður
9-10 Ármann Jónsson,
Þorlaugargerði
11-12 Kristófer Guðjónsson,
Oddsstöðum
Skora er
lundaveiðistaður
13-14 Kristinn Sigurðsson,
Löndum
Lauphausar eru
lundaveiðistaður
15-16 Pétur Guðjónsson,
Oddsstöðum
Krummajaðar er
lundaveiðistaður
17-18 Óskar Kárason,
Presthúsum
Bunki,
lundabyggðForspjall að veiðimannatali um Elliðaeyjarmenn 1950
Höf.: Óskar Kárason.
Rommið viður vil ég yður, vinir, segja,
mig um biður Boðnar-meyja
bragar-mjöðinn fram að teygja.
Ég vil tali virða að vali vænu snúa.
Þeir nú sali bólsins búa
bundnir máli svölu grúa.


Veiðimannatal 1950:
Fyrst skal Pétur frægan telja fuglahalinn.
Oddsstöðum frá upp mun alinn,
einn af sonum Guðjóns valinn.
Methafi sá má nú heita í morði lunda,
því níu hundruð og nokkra betur
nýtur veiddi í Skoru Pétur.
Afrek slíkt ég engan vissi áður vinna.
Við skulum því við rommið rjála
og röskum drengjum fyrir skála.
Kristófer þá kemur næstur, kappi veiða,
Péturs bróðir, árum eldri,
aldrei meður sálu hrelldri.
Hann má segjast sérstakur á sína vísu,
því engum vissi ég garpi gefið,
að geta tekið meira í nefið.
Þann ég vænstan virða tel í viðmótshlýju.
Til heiðurs skal því honum syngja
háttinn forna og glösum klingja.
Þórarin frægan þá skal telja í þessum bragi.
Á Kirkjubæ er garpur getinn
Guðjónssonur traustur metinn.
Á „Búrunum“ veiðir berserkurinn býsna fimur,
og oft í háfinn álkur laðar,
einkum viður Hrafnajaðar.


Veiðimannavísur úr Elliðaey árið 1952


Höf: Óskar Kárason.


ctr


Veiðimenn í Elliðaey. Guðlaugur Guðjónsson, Kristófer Guðjónsson, Hávarður Birgir Sigurðsson, (Varði) , Pétur Guðjónsson, Guðmundur Guðjónsson, Þórarinn Guðjónsson, (Tóti).
Forspjall:
Um ég segi Elliðaey
og það degi sanna:
Henni eigi fegra fley
finnst á vegi hranna.


1. Upp að telja alla skal
Elliðaeyjar þunda,
sem í fríðum fjallasal
fuglaveiðar stunda.
2. Bræður staðar Odds á ey
enn sér bólið velja.
Kónginn yfir klettamey
Kristófer má telja.
3. Greinist fyrður fugl við snar
frægur Skoru-Pétur.
Útvarpsstjóri er hann þar,
ekki veit ég betur.
4. Guðlaug ég og Guðmund má
garpa veiði kalla.
Odds nú staðar eg hef þá
upp skráð bræður snjalla.
5. Þórarin ég þybbinn fann
þramma hengin fjalla.
Röskan dreng ég rita þann
ræðumanninn snjalla.
6. Kirkjubæ er kominn frá.
Kalla má hann Tóta.
Þrælatökum tekur sá
teita, sem að skjóta.
7. Laugi kátur Kristófers
kann að raka og greiða.
Sá er, meðal manna vers,
magnaður að veiða.
8. Einnig drengir una hér,
Árni, Gutti og Varði.
Háf bar líka, brattur ber,
Bjarni í Háagarði.
9. Fleiri ekki fuglamenn
finnast hér má pára.
Endar spjallið óðar senn
Óskar sonur Kára.
10. Bunki gamli brúnalaus,
búinn stráum grunda.
Elds úr námu upp sér gaus
aðeins fyrir lunda.


Lundavísur:
Sjái lundi á krumma kvik,
kjarkurinn er búinn.
Þá er hann eftir augnablik
allur burtu flúinn.
Ég vil ekki spor í sport
sprunda leita funda,
heldur skýrt og skorinort
skunda háf-með lunda.


Steinhrúturinn í Elliðaey:
Veðrahríð þó hrjái stríð
„Hrútinn“ tíðum „Nálar“.
Hann við fríða fjallahlíð
fegurð lýðum málar.


Um Háubæli:
Háubæli hrikalegu hengin fjalla
fyrðum sýna fegurð snjalla
fugli skreyttum alla stalla.


Einstakar vísur úr Elliðaey
eftir Óskar Kárason.
Mín þó hrundin blíða best
bæti stundar amann,
veiði lunda veit ég mest
vera þundar gaman.


Lundavísa:
Er mín lunda einkar góð
etinn lundabaggi.
Fjalls við lunda fjærri þjóð
fangar lunda Maggi.


Datt með háfinn í Elliðaey:
Ekki get ég af mig stært
aflabrögðum lunda.
Með brotinn háf og bakið sært
bóls til má ég skunda.


Flánefið í Elliðaey:
Víða ég með háfinn hef
haft við brúnir töf.
Fjandinn hirði Fláarnef
fjalls á ystu nöf.


Strákakórinn í Hábarði:
Þó ég ungur feti frí
fjalla tæpa stíga,
Strákakórinn aldrei í
aftur skal ég síga.


Tregur afli:
Aflinn minn er ekki rýr
eftir tíund slíka.
Hjá mér lágu þrennir þrír,
þar með álku-píka.
Lítil veiði:
Enginn lundi að mér fló
upp þó setti stillur.
Tæpt á fláa tók ég þó
tvær í háfinn rillur.
Hamrabjörgin hef ég laus
heimskur gert að flakka.
Mulinn, að ei minn er haus,
má ég guði þakka.
Bragarbót:
Um kerlinguna í Elliðaey
Höf: Óskar Kárason
Á suðurbrún við sævar-tún,
sólar-rúnum kafin,
situr hún með silfur dún
sinn um búning vafin.
Eyjar gætir gyðjan mæt,
glæst í sæti fjalla.
Meyjan bætir sinnið sæt,
sveina kætir alla.
Aldrað sprundið út við sund,
eitt á grundu bíður.
Enn óbundið það er þund
því um stundir líður.
Fyrðinn bundinn fjalls-við grund
fögur hrund má skoða,
en á fund hans yfir sund
enga stund má troða.
Forlög ljót þó frú og njót
festi grjóts við ögur
Klettsins Bótar „Bónda“ mót
brosir snótin fögur.
Aðeins má hún segginn sjá,
síðan þrá og bíða.
Bjargs því háum brúnum á
bæði stráin líða.
Sýnir trölla-trúna snjöll
trygga þöllin steina.
Laus við spjöllun ennþá öll
eins og mjöllin hreina.
Kletts í ranni kætir mann
kunnur svanni Eyja,
því með sanni þeirri ann
þessi glanni meyja.


Eftirfarandi vísum Óskars Kárasonar fylgir engin nafngift,
en ort er um veiðimenn í Elliðaey, og fyrstu fjórar vísurnar
fjalla um Þórarin Guðjónsson (Tóta á Kirkjubæ).
Vandlátur sá virðist mér í vali sprunda,
því enda vill hann að sér binda
eiginkonu til að mynda.
Hann þó aki heim á kvöldin heilum skara
lætur hann allar frá sér fríar
og fær sér bara aftur nýjar.
Þetta er met, ég má nú segja í meyja bransa.
Tóti er líka, satt að segja,
svannagullið Vestmannaeyja.
Honum skal því herrasafn til heiðurs skála
og dreypa á þeim drykknum fína,
sem drjúgum hressir sálu mína.
Víst eru taldir virðar þeir, sem veiði þjóna.
Ungir greinast Árni og Bjarni,
ennþá drengir lífs á hjarni.
Geta má um gesti tvo með garpa safni:
Hólnum frá ég Friðrik pára
flestir þekkja Óskar Kára.
Lokavísur:
Af rommi hálfur rak ég saman rímna lagið.
Braghendu skal háttinn þylja,
þó hann enginn geri skilja.
Hálf var líka, trú ég talin, tvítug öldin,
hálf var mæna í höldinn farinn,
hálfur allur karla skarinn.
Síðast galinn varð ég válinn víst ég hjala.
Meir um hali má ei tala
mjög þó gali skrofa, svala...


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit