Djasskóngur Eyjanna

Þegar ég futti til Vestmannaeyja um jólin 1960 var ég forfallinn djassgeggjari og hafði eignast fyrstu Ornette Coleman plöturnar sem voru það framsæknasta af öllu framsæknu í djassinum um þær mundir. Að vísu féllu þær ekki mörgum í geð á Íslandi þá og liðu áratugir þangað til svo varð. Þó voru tveir Eyjapeyjar sem féllu flatir fyrir Ornette, Gylfi prent Gunnarsson, sem var glúrinn bæði á trompet og barýtonsaxofón, og Aðalsteinn Brynjólfsson í Brynjólfsbúð, bassasnillingur - auk þeirra Alli Vosa eða Alfreð Washington Þórðarson, sem þá hafði drukkið sig útúr tónlistarlífi Eyjanna. Hann sat oft með okkur Gylfa prent í bakherberginu á Smárabar, sem Sigurður trommari Guðmundsson á Háeyri rak þá. „Stórkostleg músík,“ sagði Alli Vosi, sem var þó hrifnastur af Mozart.

Alli hafði verið fyrsti píanistinn í fyrstu djasshljómsveit Eyjanna: H.G. Sextettnum, sem trompetleikarinn Haraldur Guðmundsson stofnaði eftir að hann flutti aftur til Eyja 1949. Hann hafið verið trompetleikari í fyrstu alíslensku djasshljómsveitinni, ef frá er talinn danshljómsveit Þóris Jónssonar, sem Björn R. Einarsson og félagar stofnuðu 1946, er lék í Listamannaskálanum í Reykjavík þar sem Guðni Hermansen hélt málverkasýningu löngu síðar. Haraldur var glúrinn dixílandtrompetleikari og hafði sveifluna á valdi sínu. Í þessum sextetti léku með Haraldi og Alla, Guðni á tenórsaxofón, Gísli Bryngeirsson á klarinett, Haraldur Baldursson á gítar og Sigurður Þórarinsson á trommur, en hann vék fljótt fyrir Sigurði Háeyringi.

Nokkrar upptökur hafa varðveist með sextettnum sem sanna það að ekkert er ofsagt í grein í júlí/ágúst hefti Jazzblaðsins 1950 um stofnun Jazzklúbbs Vestmannaeyja:

„[...] voru allir reykvísku hljóðfæraleikararnir sammála um, að leikur hljómsveitarinnar (þ.e. H.G.sextettsins) væri hinn prýðilegasti og mun betri en menn höfðu gert sér vonir um, þar sem um var að ræða hljómsveit áhugamanna úti á landi“.

Meðal reykvísku hljóðfærleikaranna voru ekki minni karlar en Kristján Magnússon, Óli Gaukur, Jón bassi, Guðmundur R. Einarsson og Svavar Gest sem trúlega hefur skrifað þessa grein. Þar var líka einn af bestu tenórsaxófónleikurum Íslands á þeirri tíð, Ólafur Pétursson, og hefur verið gamna að heyra þá Guðna blása saman á djammsessjón er haldin var í lok dansleiks eftir stofnfundinn. Þeir höfðu áþekkan stíl, báðir af Coleman Hawkins ættinni eins og allir tenósaxofónleikarar landsins þar til Gunnar Ormslev kom hingað með tón ættaðan frá Lester Young.

Guðni hóf tónlistarferilinn sem píanó- og harmonikkuleikari og fyrsta hljómsveitin sem hann lék með var Tunnubandið fræga, sem hann Guðjón Pálsson og fleiri stofnuðu í Gagnfræðaskóla Vetsmannaeyja. Hann nam meira að segja um tíma píanóleik við Tónlistarskólann í Reykjavík. Rondósextett hans (1960-64) var fín ballhljómsveit og ekki síðri djasssveit og eru ýmsar upptökur varðveittar með sextettnum, en þá var gjarnan tekið upp á verkstæði Erlings Ágústssonar söngvara, en hann var hinn flinkasti radíóamatör og rak meir að segja útvarpsstöð um tíma í Eyjum.

Er Rondósextettinn hafði runnið sitt skeið sneri Guðni sér fyrst og fremst að listmálun en blé þó einstaka sinnum í tenórinn og til er upptaka með honum frá Færeyjum og einnig þegar Mezzoforte heimsóttu Eyjar og með saxófónleikurum á borð við Rúnar Georgsson, Sigurð Flosason og Þorleif Gíslason á dögum bjórlíkisins.

Guðni var að mörgu leyti frábær tenórsaxófónisti og mikið náttúrutalent eins og annar borinn og barnfæddur Vestmannaeyingur og tenóristi, Rúnar Georgsson. Tónninn var mikill og breiður og oft urrandi fínn svo minnti á Illions Jacquet og kom það sér vel þegar rokkið hélt innreið sína, en Guðni var fyrsta flokks rýþmablúsblásari. Hann var líka næmur ballöðuspilari eins og Ben Webster og er mér minnisstætt er ég heimsótti hann síðast í Eyjum, haustið 1985, þegar hann blés undurfallega inná band fyrir mig. Ég ætlaði að freista þess að taka viðtal við Guðna, en hann krosslagði bara hendur eftir að hafa bætt bjór í glasið mitt. Þegar ég bjóst til að kveðja og fara í flug sagði hann: „Ég skal blása fyrir þig inná bandið“. Lagið var Stardust og veit ég ekki hvort eitthvað var hljóðritað með honum eftir það.

Margir djassunnendur í Eyjum muna eins og það hefði gerst í gær er Gunnar heitinn Ormslev heimsótti Vestmannaeyjar. Blésu þeir þá saman djasskóngur Íslands og djasskóngur Eyjanna og þótti Eyjamönnum ekki halla á sinn mann. Sagan hermir að Erling Ágústsson hafð náð þessu á band, en það hefur ekki fundist. Því er mikilvægt að allir þeir er hafa undir höndum upptökur með Eyjadjassinum á segulbandsspólum eða lakkplötum láti undirritaðan eða aðra unnendur Eyjadjassins vita. Þetta efni þarf sem fyrst að fá rétta meðhöndlun sé það til.

Vernharður Linnet