Minningu Guðna Hermansen haldið á lofti

Á þeim tímamótum að Guðni Agnar Hermansen hefði orðið áttræður á árinu ef hann hefði lifað. Guðna verðu minnst, á hans heimavelli – Vestmannaeyjum, með myndarlegum hætti nú í apríl.

Haldnir verða veglegir jazztónleikar sem fara fram föstudaginn 18. apríl n.k. í Akóges þar sem Kvartettinn Q kemur fram, ásamt söngkonunni Ragnheiði Gröndal, og leikur m.a. tónlist eftir meistara tenórsaxófónsins – Sonny Rollins. Tónlist Sonny Rollins má segja að sé í anda þess jazz sem Guðni unni svo mjög og lék. Kvartettinn skipa þau Sunna Gunnlaugsdóttir, píanó, Eyjólfur Þorleifsson, saxófón, Scott Mclemore, trommur og Ólafur Stolzenwald, kontrabassa.

Þá verður haldin yfirlitssýning með verkum Guðna í Akóges og opnar sýningin sama dag og jazztónleikarnir fara fram. Sýningin verður opin fram til sunnudagsins 27. apríl. Í tengslum við jazztónleika og myndlistarsýningu verður einnig gefin út myndarleg sýningarskrá til heiðurs Guðna ásamt því að heimasíða verður opnuð. Í ritinu og á heimasíðu verður farið yfir feril Guðna hvað varðar myndlistina og tónlistina og reynt að varpa ljósi á þann mikla meistara sem Guðni Hermansen var.