Náttúrusnillingurinn
Guðni Hermansen Guðni var listfengur og hagur en tónlistarhæfileikar hans voru hvað ríkastir. Hann var ágætur píanóleikari og tók í harmoniku ef svo bar undir. Einu sinni heyrði ég hann spila á básúnu, en saxófónninn var instrumentið sem hæfði honum best. Á þessum árum var dansmúsik að breytast verulega. Gömlu dansarnir að víkja fyrir djassinum. Amerísku hermennirnir í Eyjum hlustuðu á djass og tónnæmir framúrstefnumenn eins og Guðni hrifust af taktinum og möguleika á spuna, sem hverjum einum var frjálst að bregða á leik með. Guðni hafði snilldarlega eftir frasa frá Colman Hawkins og Lester Young, en síðan komu sólóar frá eigin brjósti. Hann náði líka tóni á fóninn, sem ég heyrði engann leika eftir. Samhljóm fann hann við hverja laglínu fyrirhafnalaust og léka af fingrum fram. Þegar Guðni var að byrja feril sinn skruppu menn ekki til Reykjavíkur úr Vestmannaeyjum eins og í dag. En öðru hvoru komu góðir hljóðfæraleikarar úr borginni. Þeir undruðust snilldarleik blásaranns á staðnum og vildu gjarna fá hann með í höfuðborgina. Jón bróðir minn sem menntaður var í orgel- og píanóleik hafði mikið dálæti á Guðna og naut þeirra stunda sem þeir spiluðu saman. Hann sagði að Guðni hefði undirbúningslaust getað tekið sæti í hvaða danshljómsveit sem var. Lög þurfti hann ekki að heyra nema einu sinni til að kunna þau. Ég veit ekki til að Guðni hafi fengið nokkra tilsögn í hlóðfæraleik, en næmi hans var ótrúlegt og hæfileikarnir meðfæddir. Sama er að segja um myndlistina. Hann fór aldrei í listaskóla, en af málverkum hans má ætla að hann hefði fengið akademiska tilsögn og þjálfun. Það er helst í teikningunni sem tæknina skortir. Nábúarnir Sverrir Haraldsson á Svalbarða og Guðni Hermansen á Ásbyrgi voru báðir uppteknir af myndlistinni. Svo fór að Sverrir fór í Myndlistarskólann í Reykjavík 15 eða 16 ára gamall. Guðni sagði mér að hann hefði lært heilmikið af Sverri og Sverrir sagði mér löngu seinna að það hefði verið gagnkvæmt. Þannig að eitthvað hefur það verið sem Guðni lumaði á. Myndir Guðna eru oftast einskonar draumsýnir
og þannig hluti af tilfinningum hans. Þetta eykur þeim
gildi og gerir þær sérstæðar. Hann var
á tímabili upptekinn af sögum og sögnum úr
heimahéraði. Myndir frá þeim tíma eru
eitt það besta sem hann skilur eftir sig. Við höfum
skyldur við þennan náttúrusnilling og arfinn
sem hann eftirlætur okkur. |