„Ég gat ekki hætt“
- um listamann af Guðs náð, Guðna Hermansen


Guðni Hermansen var listamaður af Guðs náð. Frjóar hugmyndir hans voru eins tilþrifamiklar og sjálf sólarbirtan þegar hún leikur um hafflötinn í kring um Vestmannaeyjar í hvaða veðri sem er. Í þessu birtuspili felst slík orka að með ólíkindum er og menn þurfa í rauninni að gæta sín á þeim galdri sem býr í þessari birtu. Aðalsmerki Guðna var birtan í málverkinu. Hann gat vakið sólina til ævintýra í birtuspilinu þegar honum sýndist, eða kveikt mánabirtu tunglsins inn í dulúðugar myndir sínar. Reyndar hafði Guðni einstakt dálæti á tunglinu og stundum hringdi hann á kvöldin og spurði hvort ég hefði séð tunglið í kvöld. Alla tíð síðan verður mér hugsað til Guðna þegar ég mæti tunglinu á kvöldrölti sínu, ekki síst yfir Stórhöfða og Helgafelli.

Vestmannaeyjar voru myndefni Guðna fyrst og fremst þótt hann hefði yndi af því að bregða á leik í gerð fantasíumynda í ótrúlegum litum og formi. Þá naut sín húmorinn hans í myndverkinu, en eyjarnar sjálfar voru bláköld alvaran sem hann unni svo heitt og bar svo mikla virðingu fyrir, því bjargmennirnir úr hafinu - bjargmennirnir sem kallast Vestmannaeyjar voru mótívin sem skópu honum orku og hann gaf orku og nýtt líf á léreftinu.

Guðni var snillingur í handverki og gat hvað sem var í þeim efnum hvort sem um var að ræða meðferð olíulita, vatnslita, útskurð í tré, smíði í járn eða módelsmíði. Nefndu það, hann gat allt alveg eins og góðvinur hans og æskufélagi og einn mesti listmálari Íslands, Sverrir Haraldsson. Þeir ólust upp á sama blettinum í Eyjum og þeir voru snillingar í öllum þáttum listagyðjunnar, ekki bara listsköpuninni og forminu á striga og í önnur efni, þeir voru óskabörn tónlistargyðjunnar. Guðni lék á saxafón, píanó og fleiri hljóðfæri og Sverrir lék á píanó. Þeir voru einhver mestu náttúrubörn sem Eyjarnar hafa alið og er þó af mörgu að taka.
Leiðir þeirra skildu eins og gengur þegar Sverri fór í myndlistanám til Reykjavíkur en Guðni í málaranám í Eyjum. Á ýmsu gekk hjá báðum, flest farsælt hjá Guðna, en Sverrir lenti í brotsjóum heima og heiman. 15 árum síðar, eða um 1965 byrjuðu þeir báðir að mála málverk í svipuðum stíl án þess að vita af því hjá hvor öðrum, jafnvel þótt þeir héldu alltaf símasambandi að minnsta kosti á afmælisdögum hvors annars. Þeir byrjuðu að mála myndir í sprautustíl, flöraðar myndir og stóð sú gjörð í nokkur ár en þá ventu þeir sínu kvæði í kross að byrjuðu að mála landslagsmyndir í sama anda og blæ, sem þeir höfðu reyndar gert einnig á unga aldri, þótt hvor héldi sínum stíl. Það var magnað að fylgjast með þessu, en ég varð vitni að þessu, kom svo oft til þeirra beggja, nánast vikulega til Sverris í Reykjavík og Hulduhólum í Mosfellsbæ og sama var að segja um heimsóknir til Guðna og árum saman hafði ég það hlutskipti að skíra öll málverk Guðna.

Það voru stundum skemmtilegar hringingar þegar Guðni byrjaði að hringja nokkru fyrir sýningar hjá sér og spurði hvort ég færi ekki alveg að koma, hann væri farinn að undirbúa sýningarskrána. Þetta voru skemmtilegar stundir, hreint frábærar á yndislegu heimili þeirra Guðna og Diddu. Þá var líka oft gripið í píanóið sem Guðni var snillingur á og saxófóninn á hátíðisstundum.

Guðni var ástríðu listamaður. Hann varð að mála, hann gat ekki annað og sama var að segja um allt annað sem hann skapaði og byggði úr betri heim, handverkinu hans öllu. Það var gott dæmi um þörf Guðna fyrir að leika tónlist eða mála að einu sinni á hefðbundnu Akógesballi á nýjarsnótt var Guðni í rokna stuði með saxófóninn. Didda hafði lagt í’ann heim á leið um þrjúleitið en um klukkan fimm þegar teitinu lauk var Guðni ekki búinn að fá nóg. Akóges tæmdist í rólegheitum en Guðni rölti um austurbæinn með saxófóninn á öxlinni. Hann gekk inn í hvert húsið á fætur öðru, því engin hús voru læst í Eyjum á þessum tíma og ófáir húsráðendur vöknuðu upp við það að Guðni stóð yfir þeim við hjónarúmið og djammaði á saxófóninn, eyjalögin eða dixiland ameríkuandans. Svo hvarf hann á braut, en enginn tók honum illa. Þetta var ævintýri, óvæntur lífstónn í morgunsárið. Ég spurði Guðna einhverntíma í sakleysi mínu af hverju hann hefði gert þetta. „Ég gat ekki hætt að spila,“ svaraði hann. Svo einfalt var það.

Hann gat ekki hætt að sinna listagyðjunni í málverkinu sem öðru og víst er það að málverkin hans eru ekki síður mikils virði fyrir Vestmannaeyjar og íslenska list heldur en handritin sjálf fyrir Ísland. Á tímabili málaði Guðni oft myndir á innveggi húsa, bæði einbýlishúsa og samkomuhúsa og sama gerðu reyndar Engilbert Gíslason, Ragnar Engilberts, Áki Granz og fleiri auk Guðna. Fyrir skömmu sá ég eina slíka mynd eftir Guðna, málaða á stigaganginn upp á efri hæð Herjólfsgötu 7. Frábær mynd af Ystakletti, Eyjafjallajökli, Mýrdalsjökli, Pétursey, Elliðaey og Bjarnarey og gott ef trillan Enok er ekki að sigla út Klettsvíkina. Þessa mynd verður að vernda því hún er mikil verðmæti fyrir menningu Vestmannaeyja og ástæða er til þess að biðja fólk að láta vita af því ef það veit um slíkar myndir, jafnvel undir veggfóðri eða klæðningum, því öllu slíku eigum við að halda til haga.

Guðni var framúrskarandi vandvirkur í öllu sem hann vann við. Hann vann oft lokaáferð málverka sinna með aðferð gömlu meistaranna frá Ítalí, blandaði fernis og ýmsum olíum saman og brá áferð blöndunnar yfir málverkið, náði sérstæðum hálfmöttum glampa og hann flíkaði engu í efnismeðferð, allt var þaulhugsað og byggt á reynslu aldanna. Einhverju sinni hreinsaði hann fyrir mig litla gamla mynd eftir Engilbert. Það fór ekkert á milli mála að hún var reykmettuð líklega bæði af sígarettureyk og sóti. Hann var marga mánuði að hreinsa hana vegna þess að hann notaði sitt eigin munnvatn við hreinsunina, tók alltaf smá blett í einu. Hann sagði að eina efnið sem væri öruggt að ekki gæti skemmt gömlu lökkin væri munnvatn mannsins.

Áratugum saman lék Guðni í danshljómsveitum í Eyjum auk þess að leika í djassböndum. Hann hafði sína eigin hljómsveit um árabil undir sínu nafni - Hljómsveit Guðna Hermansen. Eitt af áhugamálum Guðna var að safna lögum sem hann hafði yndi af á segulbandsspólur og margar spólur gerði hann þar sem hann setti saman ýmis lög með alls konar innskotum og aukahljóðum. Yfir þessu skemmti hann sér konunglega og sérstaklega ef hann gat látið koma fram óvæntar uppákomur. Þá skríkti í honum.

Metnaður Guðna Hermansen sem listmálara var órjúfanlega tengdur Vestmannaeyjum og til þess að geta dregið andann á eðlilegan hátt varð hann í rauninni að hafa tvennt fyrir augum hversdags, Heimaklett og Diddu sína. Annars var hann ómögulegur maður. Ef Didda var með var allt í lagi en ef hún var ekki til staðar þá gekk dæmið ekki upp. Einu sinni fórum við ásamt fleirum á sýningu sem hann tók þátt í á Grænlandi. Fyrsta morguninn þegar hann leit út um gluggann áttaði hann sig á því að Heimaklettur var ekki þarna og Didda var heima í Eyjum. Hann tók fyrstu flugvél til Íslands. Það vantaði allt sem skipti máli.

Guðni hafði gaman af því að fá sér bjórglas og smjattaði gjarnan á bjórnum. Þegar hann veiktist þá var það einn dag að ég vissi að hann hafði fengið að fara heim af sjúkrahúsinu. Ég hringdi í hann upp í Birkihlíð, en hann kvaðst þá vera að leggja af stað niður á sjúkrahús vegna þess að hann væri svo ofsalega slappur, gæti bara ekki haldið sér á fótunum. Ég sagði að það væri synd , ég hefði ætlað að skjótast með bjórkassa til hans. Ég býð sagði Guðni að bragði. Ég kom svo með kassann og hann lék á alls oddi, heilsan hafði snarbatnað og gamli góði glampinn var í augunum. Því miður dugði það skammt, allt of skammt, því hann féll frá langt fyrir aldur fram frá óteljandi yndisstundum og mótívum sem hann átti svo sannarlega skilið að fá tækifæri til þess að njóta og glíma við.

En enginn ræður för og einn af gullklumpum Vestmannaeyja hvarf á braut í miðri hringiðu lífsins þar sem allir penslar voru klárir til verka, litirnir biðu eftir herra sínum, en almættið greip inn í á sinn óskiljanlega hátt og kallaði til sín mann sem var mörgum harmdauði og ekki síst Eyjunum sjálfum.

Árni Johnsen