Valdimar Ástgeirsson (Lilabæ)

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 14. ágúst 2021 kl. 17:31 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 14. ágúst 2021 kl. 17:31 eftir Viglundur (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit

Kynning.

Valdimar Ástgeirsson frá Litlabæ fæddist 19. september 1898 og lést 26. júlí 1978.
Foreldrar hans voru Ástgeir Guðmundsson bátasmiður í Litlabæ, f. 27. október 1858 á Bryggjum í Landeyjum, d. hér 30. september 1943, og kona hans Kristín Magnúsdóttir húsfreyja, f. 10. janúar 1859 að Skíðbakka í A-Landeyju, d. hér 13. júlí 1938.

Börn Kristínar og Ástgeirs hér:
1. Jónína Ástgeirsdóttir húsfreyja á Bergi, f. 4. júlí 1884 í V-Landeyjum, d. 8. mars 1917. Fyrri maður hennar var Sigurjón Jónsson sjómaður, f. 2. desember 1880, fórst af mb. Sæborgu VE-124 á Þykkvabæjarfjöru 9. október 1909. Síðari maður hennar var Þórður Jónsson formaður og skipasmiður frá Gamla-Hrauni á Eyrarbakka, f. 10. júní 1887, d. 1. febrúar 1939.
2. Magnús Ástgeirsson sjómaður, f. 27. apríl 1887, fórst af mb. Sæborgu VE-124 á Þykkvabæjarfjöru 9. október 1909, ókvæntur.
3. Guðmundur Ástgeirsson sjómaður, f. 22. maí 1889, d. 26. ágúst 1970, kvæntur Jóhönnu Sigríði Jónsdóttur húsfreyju, f. 24. júní 1889, d. 4. apríl 1977.
4. Guðrún Ástgeirsdóttir húsfreyja, fyrri kona Einars Sæmundssonar húsasmíðameistara, síðar á Staðarfelli. Hún var fædd 5. ágúst 1890 og lést 28. nóvember 1915.
5. Ólafur Ástgeirsson bátasmiður, f. 3. ágúst 1892, d. 8. apríl 1966, kvæntur fyrr Kristínu Jónsdóttur húsfreyju, f. 19. apríl 1885 að Varmahlíð u. Eyjafjöllum, d. 17. september 1943.
Síðari kona Ólafs var Guðrún Sigurðardóttir húsfreyja, f. 9. september 1920, d. 19. apríl 1993.
6. Kristinn Ástgeirsson listmálari á Miðhúsum, f. 6. ágúst 1894, d. 31. júlí 1981, kvæntur Jensínu Maríu Matthíasdóttur frá Færeyjum, húsfreyju, f. 16. febrúar 1892 í Kvívík í Færeyjum, d. 28. maí 1947.
7. Valdimar Ástgeirsson málari, leikari, f. 19. september 1898, d. 26. júlí 1978. Kona hans var Þórodda Vigdís Loftsdóttir húsfreyja, f. 12. ágúst 1905, d. 29. júlí 1986.
7. Kristín Ástgeirsdóttir húsfreyja, f. 9. ágúst 1900, d. 19. janúar 1991, var gift Engilbert Guðmunssyni trésmið. Hann fæddist 4. ágúst 1899 og lést á Vífilsstöðum 2. desember 1945.

Kona Valdimars var Þórodda Vigdís Loftsdóttir, f. 12. ágúst 1905, d. 29. júlí 1986.
Börn Valdimars og Þóroddu Vigdísar:
1. Þórunn Sigríður, f. 12. janúar 1926 í Litlabæ, d. 8. júlí 2012.
2. Þórða Eva, f. 20. desember 1927, d. 29. september 1989.
3. Jónína Kristín, f. 5. júlí 1936.
4. Þráinn, f. 3. júní 1946, d. 5. febrúar 1973.


Úr fórum Árna Árnasonar símritara:
Bjargveiðimannatal.

Valdimar var í Álsey ásamt þeim Árna Árnasyni á Grund eldri, Hjálmari Eiríkssyni Vegamótum, Hjálmari Jónssyni frá Dölum og Árna Árnasyni, Grund yngri. Var þetta úteyjarfélag ákaflega gott og skemmtilegt, mikil veiðikeppni milli ungu mannanna, sem virtust vera mjög áþekkir í veiðilistinni. Mikið var sungið og kátína mikil og má fullyrða, að þar var Valdimar hrókurinn í öllum fagnaði. Lék hann hvern mann í eftirhermum, hlutverk úr ýmsum sjónleikjum, svo unun var að sjá og heyra.
Valdimar er lágur vexti og fremur smávaxinn, skolhærður, en ljós í andliti. Hann er liðlega vaxinn, léttur í lund, skemmtinn og frábær leikari og eftirhermukráka, sem öllum kemur í gott skap. Hann er málari að iðn, en hefir stundað mikið fiskveiðar og aðra sjóvinnu.
Við fuglaveiðar vandist hann strax í æsku og var lipur veiðimaður, en er nú hættur veiðum vegna iðnar sinnar. Hann var mikið í Ysta-Kletti, Álsey og Suðurey, eftirsóttur og góður viðlegufélagi, sem vissulega setti sinn svip á hvert úteyjafélag, mótað af gleði hans og kátínu-brellum.

Önnur umfjöllun á Heimaslóð: Valdimar Ástgeirsson.


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.