Unnur Guðjónsdóttir (Sandfelli)

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Karólína Unnur Ragnheiður Guðjónsdóttir frá Sandfelli við Vestmannabraut 36, húsfreyja, leikkona fæddist þar 25. júní 1913 og lést 1. nóvember 1998.
Foreldrar hennar voru Guðjón Jónsson útgerðarmaður, skipstjóri, f. 24. nóvember 1873 í Steinum u. Eyjafjöllum, d. 1. júlí 1941, og kona hans Ingveldur Unadóttir húsfreyja, f. 10. ágúst 1869 á Kvíhólma u. Eyjafjöllum, d. 29. desember 1940.

Börn Ingveldar og Guðjóns:
1. Þuríður Guðjónsdóttir, f. 1. október 1890 á Moldnúpi u. Eyjafjöllum, d. 18. nóvember 1890.
2. Þorvaldur Guðjónsson skipstjóri, f. 10. mars 1893 á Moldnúpi, d. 13. apríl 1959.
3. Hallgrímur Guðjónsson skipstjóri, f. 8. maí 1894, drukknaði 24. ágúst 1925.
4. Guðjón Elías Guðjónsson, f. 7. apríl 1897 á Moldnúpi, d. 19. júlí 1897.
5. Þuríður Guðjónsdóttir húsfreyja, f. 13. maí 1898 á Moldnúpi, d. 17. maí 1891.
6. Guðbjörg Karólína Guðjónsdóttir húsfreyja á Akranesi, f. 26. júlí 1900 í Eyjum, d. 8. apríl 1929.
7. Jónína Guðjónsdóttir húsfreyja, f. 15. febrúar 1903 í Steinum u. Eyjafjöllum, d. 15. apríl 1995.
8. Árný Jónína Guðjónsdóttir húsfreyja, f. 8. september 1905, d. 10. ágúst 1943.
9. Karólína Unnur Ragnheiður Guðjónsdóttir húsfreyja, leikkona, f. 25. júní 1913, d. 1. nóvember 1998.

Unnur var með foreldrum sínum í æsku, á Sandfelli, en farin 1932.
Hún átti gildan þátt í starfi Leikfélagsins í Eyjum árum saman. Fyrsta hlutverk hennar var í ,,Kinnarhvolssystrum“ 1950 og síðasta hlutverkið var í ,,Brimsorfnir klettar“ 1989.
Umsögn Árna Árnasonar símritara í Bliki 1967 um leik Unnar í Kinnarhvolssystrum 1950:
,,En í þetta skipti er heppni L.V. ekki einleikin. Unnur Guðjónsdóttir kemur beint úr eldhúsinu og upp á leiksviðið og skilar hlutverki sínu með slíkum ágætum, að ég efast um að það verði betur gert. Þetta eru kannske stór orð, en þau mega líka vera það. Frá byrjun til enda er leikur hennar allur svo öruggur að maður gleymir því, að hún sé að leika, þetta er að gerast. Luntinn á henni heima á Kinnarhvoli, á fjallinu, þegar hún heit af göngunni, ákallið á bergkonunginn, svipur hennar við margskonar brigði, raulið við rokkinn. Hér er ekki viðvaningsbragurinn. Og þegar hún stígur fram fyrir þröskuldinn eftir 25 ár, nötrandi á beinunum, skjálfandi með ekka og hrollstunur, þá fyllir hún húsið af kuldagusti. Og svo þegar hún að lokum kemur fram undan klettunum? Hvílík uppmáluð hryggðarmynd. Hún drottnar yfir hverju sviði og hrífur mann með sér, hvort sem maður vill eða ekki. Í sem fæstum orðum sagt: Tilkoma hennar á leiksviðið er einstæður viðburður í leiklistarsögu Eyjanna.“
Unnur vann mikið fyrir Alþýðuflokkinn, var bæjarfulltrúi og í ýmsum nefndum á vegum hans.
Þau Jóhannes Björn giftu sig, ættleiddu barn og eignuðust eitt barn saman, en skildu.
Þau Sigfús giftu sig 1943, eignuðust eitt barn. Þau bjuggu á Þingeyri við Skólaveg 37, á Hásteinsvegi 39 og á Ljósalandi við Heiðarveg 35.
Unnur lést 1998 og Sigfús 2001.

I. Maður Unnar, skildu, var Antoníus Jóhannes Björn Björnsson skipsþjónn, f. 23. apríl 1906, d. 30. janúar 1946. Foreldrar hans voru Björn Benediktsson verkamaður, sjómaður, f. 21. ágúst 1882, drukknaði 23. desember 1944, og Helga Halldórsdóttir, f. 23. júní 1878, d. 19. nóvember 1916.
Börn þeirra:
1. Ingi Þorgrímur Pétursson stýrimaður, skipstjóri, f. 20. nóvember 1932, drukknaði 5. janúar 1962 við S.-Ameríku.
2. Jón Ragnar Björnsson sjómaður, starfsmaður í Álverinu í Straumsvík, f. 3. janúar 1940 á Baldursgötu 22 í Reykjavík, d. 20. október 2009.

II. Maður Unnar, (27. nóvember 1943), var Sigfús Sveinsson frá Dalskoti u. V.-Eyjafjöllum, sjómaður, verkamaður, f. þar 22. febrúar 1916, d. 11. júní 2001.
Barn þeirra:
3. Katrín Sigfúsdóttir frá Ljósalandi, húsfreyja, f. 13. október 1944 á Þingeyri, d. 12. febrúar 2001 í Kaupmannahöfn.


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.


´