Sögur og sagnir úr Vestmannaeyjum/Kreddur

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 8. júní 2012 kl. 19:57 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 8. júní 2012 kl. 19:57 eftir Viglundur (spjall | framlög) (Kreddur færð á Sögur og sagnir úr Vestmannaeyjum/Kreddur)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit


Kreddur.


Vestmannaeyingar höfðu margt, er þeir réðu af ókomna atburði. Einkum var þó ýmislegt, sem dregið var af, hverju fram mundi vinda um veðráttufar.
Sérstaklega var miðað við margt í framferði fugls og fisks. Þannig sagði Hannes Jónsson hafnsögumaður, sem fæddur var um miðja 19. öld, að það hefði þótt vita á ofsaveður, ef grásleppa sást vaða í vatnsborðinu eða hnísa stökkva upp úr sjó, eins og léttir. Það var og talið vita á veðrabrigði, ef fýllinn hjó mikið í sjóinn, er hann sat á honum, eða ef fýllinn og máfurinn flugu lágt.
Það þótti vita á vætutíð, ef lundinn söng mikið, er hann sat á nefjum á kvöldum.
Í logni var talið óbrigðult ráð til þess að fá byr, að leita sér lúsa og kasta veiðinni aftur af skipinu. Einhverju sinni var hákarlajagt á leið til Eyja. Í Eyrarbakkabugtinni fékk hún logn mikið. Þegar skipverjum tók að leiðast legan, fóru þeir upp í skipsbátinn, sem lá yfir skutinn, og leituðu sér lúsa og fleygðu fengnum aftur fyrir skipið. Brá þegar svo við eftir athöfn þessa, að á rann beggja skauta byr, sem hélzt alla leið til Eyja.
Í stórsævi tíðkuðu margir formenn það að hasta á bylgjurnar, er þær risu kringum skipið og gjörðust nærgöngular. Þótti það gott ráð við því, að þær yrði bát og bátverjum að grandi. Þóttust menn hafa langa reynslu fyrir því.
Áður fyrr var hámerarskrápur mikið notaður í skó í Vestmannaeyjum. Var það trú manna, að botninn mundi detta úr þeim, ef farið væri á þeim í kirkju milli pistils og guðspjalls.