Sögur og sagnir úr Vestmannaeyjum/Draumur Sigurðar Ólafssonar

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 24. nóvember 2011 kl. 17:56 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 24. nóvember 2011 kl. 17:56 eftir Viglundur (spjall | framlög) (Ný síða: <br> <big><big><center>Draumur Sigurðar Ólafssonar.</center></big></big> <br> Sigurður, sonur [[Ólafur Sigurðsson á Strönd|Ólafs Sigurðssona...)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit


Draumur Sigurðar Ólafssonar.


Sigurður, sonur Ólafs Sigurðssonar á Strönd, dó úr berklum, fulltíða maður. Andaðist hann á Vífilstöðum eftir þriggja mánaða dvöl þar. Nokkru áður en hann fór þangað, dreymdi hann, að hann væri staddur inn í Herjólfsdal, ásamt þeim Jóhanni Guðjónssyni á Kirkjubæ og Þorgeiri Jóelssyni á Fögruvöllum. Þeir voru jafnaldrar. Urðu þeir ásáttir um að fara upp á Dalfjallshrygg, og lögðu samtímis á brekkuna. Þegar Sigurður var kominn í miðja brekkuna, fannst honum eins og hann yrði svifléttur og lyftist á augabragði upp á hrygginn. Þegar hann var kominn þangað, leit hann við, til þess að gæta að félögum sínum. Sá hann þá, að Jóhann var kominn rúmlega í miðja brekku, en Þorgeir var enn við brekkufótinn. Sagði Sigurður föður sínum drauminn, og lét þess jafnframt getið, að hann mundi annaðhvort verða fyrir því, að hann yrði þrjá mánuði á Vífilstöðum eða að hann ætti skammt líf fyrir höndum, og mundi Jóhann lifa sig skammt, en Þorgeir verða langlífur. Skömmu eftir að Sigurður dó, drukknaði Jóhann í heyferð til Landsins. Þorgeir er enn á lífi.
(Sögn Ólafs Sigurðssonar)


Draumur Guðnýjar og Ólafs.


Ólafur Sigurðsson á Strönd missti Guðnýju dóttur sína unga að aldri. Meðan líkið stóð uppi dreymdi Guðnýju í Vatnsdal, sem þá var hjá Ólafi og konu hans, að Guðný litla kæmi til hennar og segði: „Ég skil ekkert í honum pabba að láta mig í blauta vögguna.“ Vaknaði Guðný við drauminn, og þreifaði hún í vögguna, sem stóð við hliðina á rúmi hennar, en hún hafði haft barnið á nóttum meðan það lifði. Greip hún í tómt, eins og vænta mátti. Þennan draum dreymdi hana þrisvar. Sagði hún heimilisfólkinu drauminn. Daginn áður en jarða átti, fór Ólafur upp í kirkjugarð til þess að taka gröfina. Var honum vísað á leg vestarlega í garð¬inum, og var þar dæla. Tók hann gröfina þarna, en hún fylltist af vatni, þegar hún hafði verið grafin. Um kvöldið jós Ólafur hana þurra. Daginn eftir, áður en jarðarförin átti að hefjast, fór hann upp í garð til þess að gæta að gröfinni, og var hún þá enn full af vatni. Þóttist Ólafur nú vita hvað Guðný litla hefði átt við í draumnum. Gjörði hann presti orð um það, að ekki gæti orðið af jarðarförinni. Tók hann síðan gröf annarsstaðar í garðinum, en fyllti hina upp, og var Guðný jörðuð þar. Það var að vetrarlagi að jarðarförin fór fram. Sumarið eftir dreymdi Ólaf einhverju sinni, að Guðný litla kæmi til hans og segði við hann: „Ekkert skil ég í honum N. N., að grafa þarna.“ Um það leyti missti N. N. barn og var það jarðað þar, sem Ólafur tók fyrri gröfina.
(Sögn Ólafs Sigurðssonar)