Símon Símonarson (Litlabæ)

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 23. ágúst 2015 kl. 20:12 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 23. ágúst 2015 kl. 20:12 eftir Viglundur (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit

Símon Símonarson vinnumaður i Litlabæ fæddist 1841 í Jórvík í Álftaveri og lést 19. mars 1872 í Litlabæ.
Foreldrar hans voru Símon Jónsson bóndi, en síðar húsmaður í Jórvík, f. 1812 í Hlíð í Skaftártungu, d. 12. október 1906 í Jórvík, og kona hans Guðrún Pálsdóttir húsfreyja, síðast húskona í Jórvík, f. 1805 í Hörglandskoti á Síðu, d. 16. nóvember 1879 í Jórvík.

Símon var með foreldrum sínum í Jórvík til 1860, vinnumaður á Herjólfsstöðum í Álftaveri 1860-1861, hjá foreldrum sínum í Jórvík 1861-1862, húsmaður á Herjólfsstöðum 1862-1863, í Jórvík 1863-1865. Þá fór hann til Krýsuvíkur á Reykjanesi, kom þaðan 1869, var vinnumaður á Leiðvelli í Meðallandi 1869-1871.
Hann fluttist til Eyja úr Ásasókn í Skaftártungu 1871, var þá vinnumaður í Litlabæ og með honum þar var Guðný Einarsdóttir ekkja, vinnukona.
Símon lést í Litlabæ 1872 „úr heimakomu í höfðinu“.

I. Kona hans, (30. ágúst 1862, skildu), var Hallbera Guðmundsdóttir, f. 28. mars 1833, á lífi í Útskálasókn á Reykjanesi 1880.
Börn þeirra:
1. Guðrún Símonardóttir, f. 8. október 1862, d. 18. október 1862.
2. Guðrún Símonardóttir húsfreyja á Seyðisfirði og Akureyri, f. 31. október 1863, d. 12. maí 1949.

II. Barnsmóðir Símonar var Guðný Einarsdóttir, þá ekkja og vinnukona, sambýliskona hans í Litlabæ, f. 21. mars 1828, d. 13. maí 1923.
Barn þeirra var
3. Júlíana Valgerður Símonardóttir húsfreyja á Streiti í Breiðdal, S-Múl., f. 29. júní 1872, d. 16. febrúar 1948.


Heimildir

  • Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
  • Íslendingabók.is.
  • Prestþjónustubækur.
  • Vestur-Skaftfellingar 1703-1966. Björn Magnússon. Leiftur 1970-1973.


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.