Skálholt-yngra

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 29. ágúst 2015 kl. 21:56 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 29. ágúst 2015 kl. 21:56 eftir Viglundur (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit
Skálholt við Urðaveg
Skálholt-yngra
Skálholt séð að norðan.

Húsið Skálholt - hið yngra - stóð við Urðaveg 43. Það var stórt steinhús, með stórum kjallara, tveimur hæðum og risi. Listar kringum glugga hússins voru skrautlega steyptir, en hús- og kvistgaflar voru bogadregnir.

Húsið reisti Gísli Magnússon, útgerðarmaður, á árunum 1925-26 og kostaði það í kringum 280.000 kr, en það var himinhá upphæð á þeim tíma. Hann bjó í húsinu ásamt konu sinni Sigríði Einarsdóttur til ársins 1940 en þá missti hann eignina sökum heimskreppunnar miklu 1930-40.

Í seinni heimsstyrjöldinni tók breski herinn húsið herskildi. Það var aðsetur yfirmanna hersins og dvaldi hluti setuliðins í húsinu.

Hof, Skálholt og Verkamannabústaður við Urðaveg.
Skálholt

Eftir að herinn fór úr húsinu 1945 eignaðist Árni Sigfússon, útgerðarmaður og kaupmaður, húsið og bjó þar ásamt konu sinni Ólafíu Árnadóttur og börnum til ársins 1948.

Bæjarsjóður Vestmannaeyja keypti þar á eftir húsið og gerði það að elliheimili bæjarins. Elliheimilið Skálholt var vígt 11. nóvember 1950. Gegndi húsið því hlutverki alveg fram að gosi og fór að lokum undir hraun. Fyrsta forstöðukona var Lilja Finnbogadóttir og síðast var Unnur Pálsdóttir. Komu upp hugmyndir um að byggja elliheimili á Breiðablikslóð eftir gos en úr varð að elliheimilið Hraunbúðir var byggt fyrir gjafir og tekið í notkun í september 1974.

Þegar byrjaði að gjósa voru vistmenn á elliheimilinu, Alfreð Washington Þórðarson, Axel Vigfússon, Benedikt Jörgensson, Bjarghildur Pálsdóttir, Einar Vilhjálmsson, Hjörtur Einarsson, Jóhanna Jónsdóttir, Júlíana I Sigurðardóttir, Sigríður Sigmundsdóttir, Sigurgeir Gunnarsson, Sigurlaug Guðmundsdóttir, Soffía Jónasdóttir, Steinunn Sigmundsdóttir, og Þorfinna Finnsdóttir.


Heimildir

  • Guðjón Ármann Eyjólfsson. Vestmannaeyjar - byggð og eldgos. Reykjavík: Ísafoldaprentsmiðja, 1973.
  • Haraldur Guðnason. „Fyrsti vísir að elliheimili í Vestmannaeyjum.“ Tímamót málefni aldraðra. Vestmannaeyjum: Lionsklúbburinn, 1987.
  • Íbúaskrá Vestmannaeyja 1. desember 1972.