Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 2001/„Ég trúi því að Guð sé með mér sama hvað á dynur“

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 28. ágúst 2017 kl. 13:29 eftir Vpj1985 (spjall | framlög) Útgáfa frá 28. ágúst 2017 kl. 13:29 eftir Vpj1985 (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit
„Ég trúi því að Guð sé með mér sama hvað á dynur"


Bragi Fannberg

Ég fæddist á Siglufirði á stríðsárunum eða þann 06.07.1944. Pabbi hafði flest styrjaldarárin verið í siglingum til Englands og reynt ýmislegt svo hættur sjómannsins í sinni fullkomnu mynd, voru heimilishagir mínir. Ég minnist þó þess ekki að hafa upplifað ógnirnar heldur aðeins ævintýralegar sögur sem pabbi sagði af sjómennsku sinni.
Ein var um hann á rórvakt er þeir nálguðust Íslandsstrendur. Skipið var seglskip og allgóður byr. Vegna stríðsins var alls staðar ljóslaust og ekkert fjarskiptasamband. Skyndilega sá hann hvíta rönd fyrir stafni. Hann rýndi og hugleiddi hvað þetta gæti verið. Þegar hann áttaði sig á því að hér voru grunnbrotin við ströndina, kúventi hann skipinu. Hann sagði það vera ógleymanlega lífsreynslu þegar sló í bakseglin. Skipið nötraði og brakaði í því með miklum hljóðum enda hætti skriðurinn snarlega. En vegna árvekni bjargaðist bæði skip og áhöfn.
Hann var sá fyrsti sem ég fór til sjós með. Ég var ekki nema 8-10 ára þegar ég fór í trilluróðra með pabba. Hann átti Guðrúnu 3Vz tonn. Síðar eignaðist hann Guðmund, 5 tonn. Við rérum aðallega á fiskimiðin kringum Ólafsfjörð, Látrabjörg, Héðinsfjörð, Hvanndal, Hrólfssker, austur yfir Eyjafjörðinn og að Grímsey. Þetta reyndist mér hinn besti skóli. Ég var aðeins fram að 14 ára aldri í skóla, kom við í Vestmannaeyjum hjá Þorsteini Þ. Víglundssyni en kláraði skylduna í Ólafsfirði.
Það atvikaðist þannig að pabbi réði sig á Erling IV og þa flutti fjölskyldan til Vestmannaeyja yfir vertíðina. Um vorið keypti hann Tanga-Ingólf og með því hófst mín eiginlega sjómennska. Ég réði mig sem háseta um borð og vorum við á ufsanót við Kolbeinsey og Grímsey. Þetta hefur verið 1957. Árið eftir fór ég á annan bát, 150t, sem gerður var út af Hraðfrystihúsi Ólafsfjarðar.
Ekki gaf sú sjómennska alltaf mikið af sér. Ég var hjá þeim til 19 ára aldurs. Síðasta úthaldið vorum við þar 4 unglingar um borð og ekki var hægt að gera upp við okkur nema með 500 krónum sem áttu að skiptast í 4 staði. Við voru sammála í því að hafna greiðslunni og halda annað.
Sennilega var fleiri boðin slík smánargreiðsla vegna þess að ég minnist þeirrar sögu sem gekk um Ólafsfjörð að bræður tveir tóku vertíðarhlut sinn út í fiskimjöli sem þeir sekkjuðu og keyrðu síðan út um sveitir og seldu bændum. Það voru viðskipti sem þeir sættu sig vel við. Trúlega áskotnaðist þeim aðeins meira en okkur. En ég fór til Patreksfjarðar. Við bræðurnir hringdum í útgerðarmann á Sæborgu og föluðumst eftir plássi. Hann réði okkur um leið og sendi fyrirframgreiðslu, tíu þúsund krónur. Þannig komumst við með strandferðarskipinu og áttum töluverðan afgang sem kom sér vel því við vorum að byggja raðhús í Ólafsfirði. Báturinn, sem við rérum á, varð það úthald þriðji aflahæsti bátur yfir landið. Ég skildi fljótt hvernig í því lá. Hann sótti á Lænumar inn af Ólafsvík. Þangað var 8 klst. stím frá Patreksfirði. Sá var háttur á að um leið og búið var að landa fórum við að nýju út á miðin. Á leiðinni út smúluðum við lestina og gengum frá eins og með þurfti. Þó að vetrarhluturinn hafi verið góður (lok febr til 1.maí), eða 62000 kr., sóttist ég ekki eftir áframhaldandi plássi. Mannskapurinn komst einu sinni í land á þessu netaúthaldi. Hörður, bróðir skipstjórans, var með 1100 tonn yfir þetta úthald.
Ég kom til Vestmannaeyja 1964 og réði mig þá á flökunarvélarnar hjá mági mínum, Stefáni Einarssyni. Sú ráðning entist kannski í 2 klst. Þá var ég biiinn að fara niður á bryggju og hitta Svenna á Krissunni (Svein Hjörleifsson) og ráða mig sem háseta. Þá hófst eitt skemmtilegasta tímabil í sjómannasögu minni. Ég var þar með öðlingsmönnum s.s. Garðari Ásbjörnssyni og Jóni Berg. Allir sem þekktu Jón Berg fundu grallaraskapinn í honum og eiga sínar sælu minningar um uppátækin hans.
Sem dæmi þá vorum við á gangi framhjá Kaupangri við Vestmannabraut. Þar sáum við Bjarnhéðin Elíasson í rakarastólnum hjá Einari rakara. Jón Berg bað mig að fara inn og verða vitni að atburðinum. Ég vissi ekki til hvaða bragðs hann ætlaði að taka. Þegar ég var búinn að heilsa köppunum hringdi síminn.
Einar svaraði. Röddin í símanum spurði hvort Bjarnhéðinn væri á stofunni, þetta væri nefnilega Landhelgisgæslan. „Jú hann er hérna í stólnum hjá mér".
„Viltu gera okkur greiða, viltu snoðann um hálft höfuðið svo við getum þekkt hann auðveldlega þegar hann stingur hausnum út um gluggann? Við erum alltaf að taka hann í landhelgi. En ef þú klippir hann eins og við biðjum um þá losnum við undan ómakinu að þurfa að fara um borð".
Einar varð alveg undrandi og bar erindið upp við Bjarnhéðin. Bjarnhéðinn leit á Einar og Iét blótsyrðin fjúka. „Þetta er enginn annar en hann Jón Berg"!!! Þá brast allt í hlátrasköll.
Einna best fór þó um mig hjá Guðmundi Inga á Huginn Ve 55. Þar voru jafnbestar tekjur og örugg stjórnun mála.
Samt var stærsti vendipunktur í mínu lífi hin sterka trúarreynsla sem ég fékk og leiddi til þess að ég gekk til liðs við Betelsöfnuðinn. Mestu sýnilegu breytingarnar voru að ég hætti allri víndrykkju og sömuleiðis reykingum. Ég fann að þessir þættir yrðu að fara út úr lífi mínu. Ég tel það vera bænasvar er ég lagði tóbakið á hilluna. Ég reykti 2 pakka á dag og eftir fjóra daga var öll löngun horfin og ég hef aldrei tekíð smók eftir það þó að mikið hafi verið reykt í kringum mig. Ýmsir aðrir ósiðir fóru úr lífsmunstri mínu. Við tók t.d. ný bókmenntastefna eða lestur Biblíunnar og bænahald. Þannig varð Bók sannleikans alltaf hjá. svæflinum. Auðvitað reyndist það mér ómetanlegur styrkur að kona mín, sem ég kynntist 1973 varð mér samferða í trúmálunum.
Samt hef ég ekki upplifað drauma og vitranir um fiskigengd eða fyrirboða um óhöpp. Þó hef reynt bæði súrt og sætt í slíkum efnum. En ég fullyrði það að ég hef bjargast nokkrum sinnum þannig að ekkert annað heiti er yfir það en kraftaverk. Ég veit ekki önnur dæmi þess að menn hafi farið tvisvar í spil án þess að missa limi eða verða örkumla. Segja má lfka að réttu mennirnir hafi komið að málunum á réttum tíma. Ég lít á það sem Guðs handleiðslu. Ég stunda enn sjóinn og er við góða heilsu. Það hafa engir menn gefið mér heldur Guð einn.
Ég vil ekki skipta á þessari afstöðu minni til Jesú Krists og ýmiss konar hjátrú sem oft vill fylgja sjómennskunni. Við margar trúmálaumræðurnar hef ég verið titlaður öfgamaður en hvernig á að skilgreina öfgar í þessum efnum? Það að geta ekki byrjað úthald nema á ákveðnum dögum eða verða að vera í ákveðnum fötum við upphaf róðra, er það ekki í ætt við öfgar? Ég trúi því að Guð sé með mér sama hvað á dynur því að hann segist vera með okkur alla daga allt til enda veraldarinnar það er gott samfélag.
Bragi Fannberg skipstjóri á Narfa Ve 108


Sölubörn fyrir utan Bása og bíða eftir að selja Sjómannadagsblaðið árið 2000