Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1998/ Þroskuð félagshygð útvegsbænda fyrr á árum var Vestmannaeyingum farsæl

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 9. september 2015 kl. 10:37 eftir Kristinsigurlas (spjall | framlög) Útgáfa frá 9. september 2015 kl. 10:37 eftir Kristinsigurlas (spjall | framlög) (Ný síða: <big>Ingólfur Arnarsson</big><br> <big><big>Þroskuð félagshygð útvegsbænda fyrr á árum var Vestmanneyingum farsæl</big></big><br> Allt fram að lokum þriðja áratuga...)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit

Ingólfur Arnarsson

Þroskuð félagshygð útvegsbænda fyrr á árum var Vestmanneyingum farsæl

Allt fram að lokum þriðja áratugar aldar þeirrar, sem nú er senn á enda runnin, má segja að íslenskir útvegsmenn og sjómenn hafi ekki kunnað að standa saman gegn ofurvaldi kaupmanna er höndluðu með fisk og sölu á ýmsum aðföngum til útgerðarinnar. Einna sýnilegast var þetta hjá útvegsmönnum. Í stétt þeirra voru margir sem reyndu að pota sjálfum sér í þeirri trú að með því gætu þeir náð betri kjörum um sölu fisks og kaup á ýmsu er til útvegsins þurfti. Þeir töldu eins konar haldreipi í því fólgið að treysta á mátt kunningsskaparins, pólitískrar afstöðu og jafnvel greiðasemi höndlarans. Þeim virtist fyrirmunað að finna úrræði er byggðust á samvinnu sem leitt gæti til framfara í málefnum þeirra.
Í áraraðir máttu útvegsmenn og sjómenn í verstöðvum landsins una mati kaupmanna um hve hátt verð þeir fengu fyrir afurðir sínar, án þess að þeir hefðu hugmynd um hvort það var í einhverju samræmi við verðlag afurðanna erlendis. Ringulreiðin á þessu sviði birtist m.a. í því að þeir, sem meira máttu sín, fengu oft betur greitt en þeir sem feta þurftu stig fátæktarinnar og það jafnvel þótt afurðir hinna síðartöldu væru alla jafna betri.

Það sem hér hefur komið fram var sú sýn er blasti við þeim vökumönnum sem í ræðu og rituðu máli hvöttu til aukinnar félagshygðar með það fyrir augum að útvegsmenn og sjómenn legðust á eina sveif í hagsmunamálum sínum. Þeir trúðu því að með breyttum viðhorfum, hvað þetta varðaði, ykist hagsæld, ekki aðeins til handa þeim einum, heldur jafnframt landsmönnum öllum. Einn þessara vökumanna var hinn gagnmerki sagnfræðingur Lúðvík Kristjánsson, en hann ritstýrði tímaritinu Ægi um margra ára skeið við góðan orðstír. Ægir var góður vettvangur fyrir snilling á borð við Lúðvík og sannanlega geymir ritið margan fróðleik frá hans hendi sem hverjum, er lætur sig varða íslenskan sjávarútveg, væri hollt að kynna sér. Ein af hvatningargreinum hans er í þá veru sem hér hefur komið fram og birtist í Ægi 1949. Þar víkur hann að háttum útvegsbænda í Vestmannaeyjum og segir m.a.: „Ein er sú verstöð hér á landi þar sem samvinna útvegsmanna er miklu meiri og traustari en nokkurs staðar annars staðar og má fullyrða að hag útvegsmanna væri yfirleitt betur komið en nú er ef þeir kynnu að meta þroskaða félagshygð að sama skapi og Vestmanneyingar. Ýmsir hafa orðið til að veita þessu samstarfi athygli og færa sér reynslu þess í nyt, en enn er því svo háttað um útvegsmenn í mörgum verstöðum landsins að þeir komast ekki með tærnar þar sem starfsbræður þeirra í Eyjum hafa hælana að þessu leyti."
Ummæli þessi, sem sett eru fram af manni er allra manna best hefur ritað um íslenska sjávarhætti, hljóta að kalla fram í huga lesandans nokkum vilja til að vita í hverju hin þroskaða félagshygð var fólgin sem setti Vestmanneyinga á þann stall er fram kemur í hinum tilvitnuðu orðum. Þetta á ekki bara við um eldra fólk sem man tímana tvenna, heldur miklu fremur yngra fólk er þekkir einungis það umhverfi og starfshætti er sjavarútvegurinn hefur búið við um nokkur síðustu ár og hefur mátt lifa með þeim illvígu deilum sem uppi hafa verið með þjóðinni um útveginn á þessu áraskeiði. Það er því líklegt að ímynd sjávarútvegsins sé allbrengluð í huga ungs fólks í dag og þess vegna ekki úr vegi að líta aðeins til fortíðarinnar og rifja upp helstu atriði um markverða samstöðu og samtök er höfðu heilladrjúg áhrif í framfarasókn Vestmanneyinga.

Skipa- og bátaábyrgðafélag Vestmannaeyja.
Segja má að fyrsti broddurinn í hinni athyglisverðu samhygð Vestmanneyinga hafi verið fólginn í stofnun Skipaábyrgðafélags Vestmannaeyja, en það var stofnað 20. janúar 1862 að frumkvæði Bjarna E. Magnússonar sýslumanns og er talið að hann hafi á eigin spýtur samið fyrstu lög og reglur félagsins. Seinni tíðar menn telja að lög þessi og reglur hafi verið sérlega vel unnið verk og það hafi átt ríkan þátt í því hversu félaginu farnaðist vel allan starfstíma sinn. Þegar félagið var stofnað þekktust ekki slík félög í landinu, nema hvað Ísfirðingar höfðu stofnað ábyrgðarfélag fyrir þilskip árið 1853, en það var liðið undir lok 1862.
Í 45 ár, eða til ársins 1907, voru eingöngu opnir bátar tryggðir hjá félaginu. enda áttu Vestmanneyingar ekki þilskip á því tímabili. Vertíðina 1906 stunduðu tveir vélbátar veiðar sem keyptir höfðu verið til Eyja seinni hluta árs 1905. Bátar þessir voru Knörr. um 14 brl., í eigu Sigurðar Sigurfinnssonar ofl., og Unnur, 7.23 brl., sem Þorsteinn Jónsson í Laufási átti ásamt fleirum. Sigurður og Þorsteinn, ásamt félögum sínum, óskuðu eftir því að fá báta sína tryggða hjá félaginu. Á aðalfundi félagsins 7. janúar 1906 var málið tekið fyrir. Eins og vænta mátti voru skoðanir manna skiptar um hvort taka ætti þessar fleytur í tryggingar og höfðu sumir stór orð uppi. Þeir töldu báta af þessu tagi hinar mestu manndrápsdollur og ekki hægt að gera slíka báta út frá Vestmannaeyjum. Þá vó þungt að virðingarverð bátanna nálgaðist 65% allrar sjóðseignar félagsins. Af 34 aðilum félagsins voru 23 mættir á fundinum og í atkvæðagreiðslu um málið fór svo að 12 samþykktu umsóknina en 11 voru á móti. Þráttfyrir þessa niðurstöðu var ekkert aðhafst um tryggingar á bátum þessum 1906.
Svo illa vildi til að útgerðin á Knörr mislukkaðist, vél bátsins var of kraftlítil. Hins vegar heppnaðist útgerð Unnar mjög vel og voru aflabrögðin svo mikil að annað eins hafði ekki sést í Eyjum. Þetta, fremur öðru, varð til þess að allir vildu eignast vélbát og svo var komið að á vertíðinni 1907 voru 19 vélbátar í tryggingu hjá félaginu. Í framhaldi af þvi var reglum félagsins breytt og því gefið nýtt nafn, Bátaábyrgðafélag Vestmannaeyja. Á þessum tímamótum voru aðeins 7 opnir bátar tryggðir hjá félaginu og var virðingarverð þeirra 4.756 kr„ en vélbátanna 91.846 kr. Árið 1908 voru engir opnir bátar í tryggingu, en vélbátarnir orðnir 34, að virðingarverði 162.287 kr. Á þessum tíma hafði félagið ekki möguleika á endurtryggingum, en þess í stað hvíldi ábyrgðarskylda á hverjum og einum félagsmanni, í hlutfalli við þær ábyrgðir er þeir höfðu keypt hjá félaginu. Í þessu sambandi má segja að það gegni furðu hve félagarnir voru samtaka um að taka svo mikla áhættu.

Á sínum langa starfsferli, sem spannaði um 130 ár, styrkti félagið margvíslega starfsemi er snerti almannaheill í Eyjum. Félagið veitti m.a. Björgunarfélagi Vestmannaeyja fjárframlög til kaupa og reksturs björgunar- og varðskipsins Þórs. Þá styrkti félagið um margra ára skeið ekkjur félagsmanna og jafnframt Styrktarsjóð ekkna og barna þeirra Vestmanneyinga sem drukknuðu eða hröpuðu til bana. Einnig styrkti félagið rnyndarlega alla sundkennslu í Eyjum um margra ára skeið. Þá ber þess að geta að félagið ávaxtaði sjóðseign sína á hverjum tíma með lánum til almennings og stofnana í Eyjum. Þar munaði miklu um margar lánveitingar til hafnargerðarinnar og í því sambandi vil ég benda á að félagið lánaði til kaupa á dýpkunarskipinu Vestmannaey, 17% af kaupverði skipsins, en það var keypt árið 1935 og er enn í notkun. Skip þetta hefur alla tíð reynst betur en bjartsýnustu menn þorðu að vona. Allt frá byrjun hafa valist til starfa á skipinu valinkunnir sómamenn sem af natni og dugnaði hafa nýtt skipið af sérstakri lagni og útsjónarsemi. Svo vill til að ég þekki nokkuð starfsemi þessa og því leyfi ég mér að fullyrða að þá hafa starfsmenn skipsins verið glaðastir í starfi sínu þegar þeim hefur tekist að ryðja burt hindrunum sem heftu umferð skipa um lífæð byggðarlagsins, höfnina. Í mínum huga er dýpkunarskipið Vestmannaey eitt happadrýgsta skip sem í eigu Vestmanneyinga hefur komið.

Útvegsbændafélag Vestmannaeyja
Næsta skref, er útvegsbændur í Eyjum stigu til aukinnar samvinnu um hagsmunamál sín, var stofnun Útvegsbændafélags Vestmannaeyja, en félagið var stofnað 20. október 1920. Um það leyti er félagið hóf göngu sína voru um 70 vélbátar í eigu félagsmanna og var samanlögð stærð bátanna 620 rúmlestir. Eignaraðild var mjög dreifð og af þeim sökum var félagsmannatalan tiltölulega há. Árið 1929 taldi flotinn 97 báta og heildarstærðin 1.498 brl. Þremur árum síðar hafði bátum fækkað nokkuð og voru þeir þá taldir um 74. Um þær mundir átti útgerðin undir högg að sækja og má segja að svo hafi verið nær allan fjórða áratuginn. Það var því engin tilviljun að á þessu tímabili vaknaði sterk umræða innan félagsins sem öll hneig í þá átt að finna leiðir sem mættu verða til framfara og aukinnar hagsældar. Þessar umræður leiddu m.a. til stofnunar Lifrarsamlags Vestmannaeyja, Netagerðarinnar og Olíusamlags Vestmannaeyja. Segja má að fyrirtækin hafi verið börn síns tíma, en svo fór að þau urðu öll að hopa vegna aukinnar einka- og markaðshyggju sem þjóðinni hefur hugnast svo vel hin síðari ár.

Lifrarsamlag Vestmannaeyja
Allt fram undir 1930 má segja að útvegsmönnum og sjómönnum í Eyjum hafi verið birgð sýn um hið mikla verðmæti sem var fólgið í fisklifur. Árin áður höfðu nokkrir aðilar keypt lifur við lágu verði og létu vinna hana í hrjálegum skúrum með lélegum tækjum. Skúrar þessir voru almennt kallaðir „grútarskúrar" og í námunda við þá var óskaplegur óþrifnaður, og oft var það svo að fnykurinn frá skúrum þessum lifði langt fram eftir sumri. Þessar smábræðslur voru að minnsta kosti fimm um skeið og bar ein þeirra hið virðulega nafn París. Árið 1928 var svo komið að heilbrigðisyfirvöldum blöskraði svo sóðaskapurinn að bæjarstjórn samþykkti að starfsemi þessi yrðu flutt vestur í hraunið sunnan Torfmýri. Miklar deilur spunnust um málið og þrátt fyrir samþykkt bæjarstjórnar varð ekkert úr flutningnum og voru bræðslurnar í gangi til vertíðarloka 1932. Á því ári var farið að ræða um það innan Útvegsbændafélagsins að nauðsynlegt væri að sameinast um rekstur þar sem lifrin yrði nýtt á sem hagkvæmastan hátt og vinna hana með fullkomnum tækjum. Þetta varð svo til þess að félagið varð frumkvöðull að Lifrarsamlaginu en það var stofnað 7. desember 1932. Um markmið samlagsins sagði í 1. gr. laga þess:
„Lifrarsamlag Vestmannaeyja er félag með takmarkaðri ábyrgð samlagsmanna, eftir þátttöku þeirra, svo sem síðar segir. Hefur það markmið að vinna að bættri vinnslu lýsis og mjöls úr lifur þeirri sem tekin er til meðferðar á vinnslustöð þess. Hyggst samlagið að koma upp í þessu skyni lifrarbræðslustöð með nýtísku áhöldum. Með samþykkt á samlagsfundi má færa út verksvið þess."
Í 2. gr. sagði svo um það hverjir gætu orðið aðilar að samlaginu: Félagsmenn geta orðið: „Eigendur og útgerðarmenn mótorbáta og trillubáta í Vestmannaeyjum og þeir aðrir innanbæjarmenn sem hafa yfir að ráða lifur til vinnslu hjá samlaginu, minnst 5.000 kg." Allir útvegsmenn í Eyjum gerðust aðilar að samlaginu.

Lifrarsamlagið hóf starfsemi með því að kaupa hús beinamjölsverksmiðjunnar Heklu, en hún var í eigu Th. Thomsens vélsmíðameistara. Í upphafi þurfti að breyta húsakynnum þessum verulega og á næstu árum var aukið mikið við þau. Samlagið nýtti fyrst lifur á vertíðinni 1933 og tók þá á móti 1.159 tonnum. Þessa vertíð voru notuð gömul tæki en fyrir vertíðina 1934 hafði vélsmiðjan Héðinn sett upp nýjar vélar í bræðsluna. Árið 1940 hafði samlagið komið sér upp eigin kaldhreinsunarstöð en sú starfsemi var samlaginu mjög hagstæð.
Á fyrstu árum samlagsins voru nokkrar sveiflur í innlögðu lifrarmagni milli vertíða. Dæmi um það má nefna að 1938 voru brædd 1.711 tonn, en árið eftir vora brædd 1.300 tonn. Á þeim árum var mest unnið úr 60 tonnum á einum degi. Um vertíðina unnu venjulegast 14 menn auk verkstjóra við bræðsluna, en fleiri er kaldhreinsað var samtímis.
Fyrsta starfsár samlagsins var rekstrarkostnaðurinn 30,61% af andvirði lýsisins, en komst þegar best var í 20,69%. Jafnaðarlegast fengust 56% af lýsi úr lifrinni, en mest fengust 62%.

Til margra ára var viðurkennt að lifur úr fiski veiddum á Vestmannaeyjamiðum væri mun vítamínríkari en víða annars staðar við landið. Meðan vítamíninnihald réð nokkru um verðlag lýsis fékkst hærra verð fyrir Vestmannaeyjalýsi en frá öðrum verstöðvum landsins. Þetta var þó ekki eina ástæðan fyrir því að samlagið fékk betra verð fyrir lýsisframleiðslu sína heldur var betri skipan á hagnýtingu hráefnisins en annars staðar.
Allt frá því að Lifrarsamlagið hóf statrfrækslu og þar til um 1960 höfðu sjómenn verulegan hag af lifrarinnleggi bátanna því að í langflestum tilvikum kom andvirði lifrarinnar til skipta, allt þetta tímabil. Um þetta leyti verða nokkur tímamót í rekstrinum þar sem innlegg kom nær eingöngu frá fjórum stórum fiskvinnslufyrirtækjum og 1989 mynduðu þau, ásamt fleirum, hlutafélag um reksturinn. Árið 1980 hóf Lifrarsamlagið rekstur niðursuðuverksmiðju með því aðalmarkmiði að sjóða niður þorsklifur. Ýmsir örðugleikar komu upp í þessum rekstri, m.a. skortur á ferskri lifur og sveiflur á verðlagi framleiðslunnar.
Fyrstu stjórn Lifrarsamlagins skipuðu Jóhann Þ. Jósefsson alþingismaður, Ólafur Auðunsson og Hjálmur Konráðsson. Jóhann gegndi formennsku til dauðadags, en hann lést 1961. Þá gegndi Bjarni Jónsson frá Svalbarði skrifstofustörfum hjá samlaginu þar til hann lést 1962. Í dag er starfsemin rekin af Jóhanni Jónssyni en hann keypti fyrirtækið 1. janúar 1995.

Netagerð Vestmannaeyja
Fyrstu tilraunir Vestmanneyinga til veiða í þorskanet voru gerðar 1908 og 1910, en í bæði skiptin án þess að bera nokkurn árangur. Árið 1913 hóf norskur maður, A. Förland að nafni, tilraun til veiða í net. Hann þekkti vel til þess konar veiða frá heimalandi sínu. Tilraunin gekk vel og svo fór að 1914 og 1915 gerði hann út tvo báta með þorskanetum og gáfu veiðarnar mjög góðan árangur. Eyjamenn reyndu ekki aftur þorskanet fyrr en vertíðina 1916 og upp úr því komst skriður á þennan veiðiskap og gekk svo fram til margra ára með miklum árangri hvað aflamagn snerti.
Fyrstu tvo áratugi, er Vestmanneyingar stunduðu veiðar í þorskanet, keyptu þeir netin að mestu leyti frá Bretlandi og Noregi, en jafnframt létu þeir sjúklinga á Laugarnesi hnýta mikið af netum fyrir sig í nokkur ár. Kaupum á netum frá Bretlandi og Noregi þótti fylgja margs konar óhagræði. Í því sambandi ræddu margir útvegsmenn um að nauðsynlegt væri að Vestmanneyingar settu á laggirnar eigin netagerð. Það var svo í framhaldi af því að málið var tekið upp á fundi í Útvegsbændafélaginu 18. ágúst 1936 og var þar samþykkt að stjórn félagsins tæki að sér undirbúning að stofnun netagerðar og leitaði eftir hlutafé meðal útvegsmanna. Á þessum tíma átti útgerðin í landinu yfirleitt við erfiðleika að etja og var svo einnig í Eyjum. Þrátt fyrir það fór stjórn félagsins á stúfana og leitaði eftir loforðum um fjárframlög hjá útvegsmönnum. Mikill áhugi var fyrir málinu og voru þeir, sem leitað var til, allir af vilja gerðir og þannig fór að loforð fyrir stofnframlögum námu 16.900 kr. og með stuðningi Útvegsbankans fór svo að fyrirtækið var formlega stofnað 29. september 1936.

Fljótlega buðust til kaups tvær netahnýtingarvélar frá Þýskalandi fyrir lágt verð eða 13.000 kr. hvor vél. Svo snöggt gekk að fá þessar vélar til Eyja að netagerð var tekin til starfa 3. nóvember 1936. Netagerðin fékk inni með vélar sínar og starfsemi í svonefndri Austurbúð þar sem áður voru til húsa Kaupfélagið Fram og Brydesverslun. Hús þetta stóð austan Hraðfrystistöðvar Einars Sigurðssonar þar sem nú er FES og fór undir hraun í gosinu 1973. Í upphafi voru eingöngu hnýtt þorskanet úr hampgarni sem netagerðin fékk frá Ítalíu. Unnið var á tveimur vöktum allan sólarhringinn en þrátt fyrir það var ekki hægt að fullnægja þörf eyjamanna á netum með þeim vélakosti sem til staðar var, en séð var um útvegun á því er á vantaði. Af þessum sökum var ákveðið 1938 að kaupa þriðju vélina, en hún var mun stærri en þær er fyrir voru. Þegar hér var komið gat netagerðin fullnægt netaþörf eyjamanna og séð mikið til fyrir þörfum útvegsins annars staðar í landinu fyrir þorskanet. Afkastageta vélanna var sú að í tveimur var hægt að hnýta samtímis 7 net í hvorri, í þeirri þriðju 9 net og í fjórðu vélinni 11 net, en sú vél var keypt 1948 og var kaupverð hennar 100.000 kr. í öllum tilvikum var um 26 möskvanet að ræða.
Á styrjaldarárunum var ógjörningur að fá net erlendis frá og kom þá framleiðslugeta netagerðarinnar sér vel fyrir þorskanetaútgerð allra landsmanna. Meðan styrjöldin stóð var ekki hægt að fá hampgarn frá Ítalíu. Hins vegar fékkst bómullargarn frá Bandaríkjunum og þá fór Netagerðin jafnframt að hnýta bálka í nætur. Þetta var hægt vegna þess að stilla mátti vélarnar á margar möskvastærðir.
Árið 1947 hafði Netagerðin komið sér upp myndarlegu húsi við Heiðarveg þar sem nú er m.a. Náttúrugripasafn. Sem dæmi um framleiðslumagn Netagerðarinnar má nefna að allt fram að því að starfsemin var flutt í hið nýja hús 1947 voru framleidd 90.000 net og bálkar og auk þess 12 milljónir öngultauma, en sú framleiðsla dugði þörfum línuútgerðarinnar í Eyjum á þessum tíma. Eftir að flutt var í nýja húsið var unnið á einni vakt allt árið og í eftirvinnu á veturna. Alls unnu 16 konur auk verkstjóra að framleiðslunni. Svo mikið rými var í vinnusal að hæglega mátti bæta við tveimur netahnýtingarvélum.

Árið 1954 var farið að flytja inn nælonnet og þar sem þau voru mun fisknari en hampnetin voru dagar hampneta taldir. Þeir Netagerðarmenn hugðust mæta þessum breytingum með kaupum á nýjum vélakosti sem hentaði gerð nælonneta. en gengu alls staðar bónleiðir til búðar um fjárhagslega fyrirgreiðslu til þessara hluta. Í kjölfarið spratt upp fjöldi umboðsmanna í landinu sem flutti inn þessa nýju gerð neta. Starfsemi Netagerðarinnar var því sjálfhætt á þessum tímamótum.
Jafnaðarlegast var Netagerðin samkeppnisfær við erlenda framleiðslu og með því að hnýta netin hér sparaðist helmingur gjaldeyris miðað við kaup á netum erlendis frá. Alla starfstíð Netagerðarinnar var einkanlega hirt um að láta útvegsmenn fá net við sem hóflegustu verði, en ekki hugsað til hagnaðar nema hvað tryggt var að skapa örugg þróunarskilyrði hverju sinni. Um 1960 keypti bæjarsjóður hús og vélar Netagerðarinnar með það fyrir augum að hýsa bóka- og byggðasafn, en síðar var horfið frá þeim áformum og í þess stað var húsið nýtt undir slökkvistöð og náttúrugripasafn.
Einhverjum kann að verða spurn hvað hafi orðið af þeim dýrmætu netahnýtingarvélum sem reynst höfðu svo frábærlega sem raun varð á. Ef ég man rétt voru þær brotnar niður af starfsmönnum bæjarins og brotunum ekið vestur á Hamar, sturtað þar í sjó fram og að hluta urðuð í svonefndri Torfmýri.

Fyrstu stjórn netagerðarinnar skipuðu Sigurður Á. Gunnarsson, formaður, Ársæll Sveinsson, Eiríkur Ásbjörnsson, Guðlaugur Brynjólfsson og Jónas Jónsson. Fyrsti framkvæmdastjóri var Gísli Gíslason, síðar stórkaupmaður, en hann gegndi starfinu í eitt ár og við tók Jónas Jónsson sem gegndi því til ársins 1941, en þá tók við því Sigurður Ólason og hafði það á hendi til starfsloka Netagerðarinnar. Fyrsti verkstjórinn var Haraldur Gíslason frá Skálholti og gegndi hann starfinu um 10 ára skeið er hann fluttist úr Eyjum. Við verkstjórninni af Haraldi tók Tómas Sveinsson frá Selkoti og af honum Jón Stefánsson frá Fagurhóli.
Engum vafa er undirorpið að stofnun og starfsemi Netagerðar Vestmannaeyja markaði heilladrjúg spor fyrir Vestmanneyinga og var til mikillar fyrirmyndar og útvegsbændum í Vestmannaeyjum til hins mesta sóma. Með tilliti til þess er hér hefur komið fram má gegna nokkurri furðu hve fátt hefur verið minnst á Netagerð Vestmannaeyja í margháttuðum annálaskrifum á síðari árum.

Olíusamlag Vestmannaeyja
Á fyrstu árum bátaútvegsins keyptu útgerðarmenn brennsluolíu af olíufélögum þeim sem störfuðu í landinu, eða milliliðum, og víða þurfti hver um sig að panta sér þá olíu sém þörf var á, á ákveðnum tímabilum, og var það þá oftast í gegnum einn eða fleiri milliliði. Af þeim sökum var olían mun dýrari og auk þess bjuggu margir útgerðarstaðir við öryggisleysi hvað þetta varðaði. Segja má að þannig hafi þetta gengið til um þrjátíu ára skeið. Með tilliti til þess hve olíunotkunin var stór kostnaðarliður höfðu eigendur vélbátanna verulegar áhyggjur af því hver þróunin hafði orðið á þessu sviði.
Útvegsbændum í Vestmannaeyjum varð fyrstum manna ljóst að við svo búið væri ekki hægt að una og í framhaldi af því var málið tekið til umfjöllunar í Útvegsbændafélaginu fyrri hluta árs 1937. Kjörin var nefnd til að undirbúa stofnun olíusamlags fyrir útvegsmenn í Eyjum og tókst að koma stofnun þess endanlega á 21. júlí þá um sumarið. Í lögum samlagsins sagði m.a.:
„Samlagsmaður getur hver sá orðið sem á bát eða þarf að nota olíu til reksturs. Um leið og einhver er orðinn samlagsmaður fær hann atkvæðisrétt (eitt atkvæði), en viðskiptaatkvæði fær enginn sem kaupir minna en 4 smálestir af hráolíu. Enginn einn samlagsmaður má fara með meira en 5% af atkvæðamagninu."

Nokkuð erfiðlega gekk að koma samlaginu á laggirnar. Stofnagjald var ákveðið 40 kr. á brúttórúmlest, en fæstir höfðu laust fé til að greiða það. Flestir borguðu með ávísunum á væntanlegt lifrarinnlegg. Slík greiðsla hefði ekki komið að gagni nema vegna þess velvilja er Viggó Björnsson bankaútibússtjóri sýndi sem fólst í því að Útvegs¬bankinn keypti þessar ávísanir.
Olíusamlagið hófst strax handa um að afla sér efnis í olíugeymi og tókst það haustið 1937. Í janúar næsta ár var geymirinn kominn upp og var hann reistur í krikanum sunnan Básaskersbryggju og vestan svokallaðrar Tangabryggju. Fyrsti olíufarmurinn var settur í geyminn 24. janúar og nam hann 709 smálestum. Geymirinn var um 1.000 rúmmetrar og tók því um 850 smálestir. Þessi fyrsti olíufarmur var keyptur hjá sænsku fyrirtæki, Valenius að nafni, og flutti það farminn með eigin skipi til Vestmannaeyja.

Ekki voru olíufélögin í landinu hrifin af þessu brölti Vestmanneyinga og reyndu með öllum ráðum að koma í veg fyrir að það bæri árangur, en þeim misheppnaðist það algjörlega. Það kom fljótt í ljós að Olíusamlagið hafði mikla og góða þýðingu fyrir útveginn í Eyjum og þá ekki síður fyrir fjölmarga íbúðareigendur eftir að farið var að hita hús með olíukyndingartækjum. Með þessu skapaðist m.a. öryggi sem fólst í birgðahaldi, og það sem meira var að útgerðin fékk olíuna á mun hagkvæmara verði en áður var, enda voru viðskiptin svo mikil að samlagið komst fljótt á fjárhagslega traustan grundvöll. Hin fyrstu ár var stofntillagið aldrei tekið samtímis en menn gerðust samlagsaðilar smátt og smátt af viðskiptaágóða. Samlagið hafði tvo sjóði, séreignarsjóð og sameignarsjóð, en sá síðarnefndi jafngilti varasjóði í öðrum félögum. Þegar samlagið hafði starfað í 10 ár var séreignarsjóðurinn orðinn 101 þús. kr. og þá var olíustöð þess bókfærð á 61 þús. kr. Þegar Olíufélagið hf. var stofnað árið 1946 gerðist Olíusamlag Vestmannaeyja þar hluthafi með 90 þús. kr. framlagi.
Samlagið seldi ávallt olíuna á sama verði og olíufélögin, en greiddi jafnan uppbót á viðskiptin. Sem dæmi um það greiddi samlagið 12% í uppbót árið 1948 og var helmingur þess greiddur út, en hitt lagt í séreignarsjóð. Þar að auki var samlagsmönnum borguð 5% af öllu stofnsjóðsfénu. Fljótlega lét samlagið leggja olíuleiðslu að Rafstöðinni, Lifrarsamlaginu, Fiskimjölsverksmiðjunni og á Básaskersbryggju. Þá keypti samlagið fyrsta olíutankbíl í Eyjum 1947. Olíusamlag Vestmannaeyja hætti starfsemi 1966 og tók Olíufélagið hf. við rekstri og eignum þess.
Fyrstu stjórn samlagsins skipuðu Ástþór Matthíasson, Kjartan Guðmundsson og Ólafur Auðunsson. Þótt sú framtakssemi Útvegsbændafélagsins, sem fólst í stofnun fyrsta olíusamlagsins á landinu, hafi fyrst og fremst komið útvegi Vestmanneyinga að góðu haldi þá er rétt að geta Olíusamlags Keflavíkur sem sett var á stofn skömmu eftir stofnun olíusamlagsins í Eyjum og var þar byggt á reynslu Vestmanneyinga. Samlögin höfðu nokkra samvinnu um innflutning á olíu fyrstu starfsárin.
Olíusamalgið í Keflavík starfaði lengst allra þeirra olíusamlaga sem upp komu í landinu eða til síðustu áramóta og var þá einn stærsti hluthafinn í Olíufélaginu hf.
Árið 1943 setti Alþingi mjög þýðingarmikil lög um olíugeyma og fleira er snerti olíuverslun landsmanna. Enginn vafi er á því að hið þróttmikla starf olíusamlaganna í Vestmannaeyjum og Keflavfk flýtti mjög fyrir þessari merku lagasetningu.

Lokaorð
Í skrifum þessum hef ég stiklað á stóru varðandi nokkra mikilvæga þætti útvegsstarfseminnar í Vestmannaeyjum sem í mínum huga eru örlagavaldur og skýra hvers vegna Vestmanneyingar hafa átt svo ríkan þátt í þeirri glæstu framþróun sem átt hefur sér stað með þjóðinni á öldinni sem nú er að renna sitt skeið á enda.
Skylt er að geta þess að hin þroskaða félagshygð útvegsbænda í Eyjum fyrr á árum hefði aldrei skilað þeim góða árangri sem raun varð á ef ekki hefði komið til velvilji og trú almennings í Eyjum á að margvísleg framtakssemi útvegsbændanna skapaði almennar framfarir og aukið öryggi.
Mér er fulljóst að í dag búa Vestmanneyinga við gjörbreyttar aðstæður í útvegsháttum sínum sem skapast hafa nokkur síðustu ár og kann svo að vera að teflt sé á tæpasta vaði, en það frekar öðru skapar öryggisleysi í hugum íbúanna. Það er því ekki úr vegi að rifja upp happadrjúga samstöðu er Vestmanneyingar byggðu á fyrr á árum.
Höfundur er fyrrverandi framkvœmdastjóri Útvegsbœndafélags Vestmannaeyja, Útvegsmannafélags Suðurnesja og fulltrúi hjá Fiskifélagi Íslands.

Heimildir:
Tímaritið Ægir.
Bátabyrgðafélag, Jóh. G. Ólufsson.
Lifrarsamlag, Bjarni Jónsson.
Netagerð, Sigurður Olason.
Olíusamalag, Kjartan Guðmundsson