Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1983/ Gúmmíbjörgunarbátur

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 13. ágúst 2017 kl. 17:48 eftir Mardis94 (spjall | framlög) Útgáfa frá 13. ágúst 2017 kl. 17:48 eftir Mardis94 (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit
Guðjón Ármann Eyjólfsson


Gúmmíbjörgunarbátur


Höggmynd og gosbrunnur til heiðurs sjómönnum í Vestmannaeyjum


Á síðari árum hefur gerð stórra listaverka til fegrunar og menningarlegra umhverfis færst mjög í vöxt hér á landi.
Minnismerki sjómanna hafa risið víða um landið og voru Vestmannaeyingar einna fyrstir til að reisa minnismerki um drukknaða og þá sem hafa farist í slysum, þegar Sjómaðurinn eftir Guðmund frá Miðdal var reistur á lóð Landakirkju árið 1950. Samkeppni var um gerð minnismerkisins og sendi þá m.a. Ásmundur Sveinsson listaverkið Björgun til samkeppninnar, en því var hafnað (og því miður að margra dómi). Nokkru síðar tryggði Erling Ellingsen Reykjavíkurborg rétt á að reisa verkið og þarf því sérstakt leyfi til að reisa það utan Reykjavík.
Síðan hafa nokkur listaverk og minnismerki verið sett upp í Vestmannaeyjum og má hér nefna Öldu aldanna eftir Einar Jónsson, Tröllkerlinguna eftir Ásmund Sveinsson og minnismerkið um komu Þórs og stofnun Björgunarfélags Vestmannaeyja, sem Ólafur Á. Kristjánsson teiknaði og nú síðast minnismerkið um Oddgeir heitinn Kristjánsson tónskáld á Stakkagerðistúninu
Í kirkjugarði Landakirkju eru fögur verk eins og Drengurinn lesandi eftir Magnús Á. Árnason yfir leiði Sigurbjörns Sveinssonar skálds og Engillinn á leiði Theódóru Þ. Jónsdóttur, sem er frægt og þekkt verk eftir fjölda ljósmynda af því í eldgosinu, en Jón Hinriksson kaupfélagsstjóri í Garðinum lét reisa styttuna á leiði dóttur sinnar árið 1928 og útvegaði Jens Eyjólfsson, kaupmaður í Reykjavík verkið frá Þýskalandi. Frétt hefi ég, að nokkrir góðir menn hafi hug á að koma upp enn öðru listaverki eftir Einar Jónsson.
Sumum kann því að virðast að verið sé að bera í bakkafullan lækinn að gera tillögu að enn einu listaverki á almannafæri í Vestmannaeyjum. Ég ætla samt að gera það vegna þess að mér finnst þetta listaverk, sem hér er um að ræða svo snjallt bæði að formi og útfærslu auk þess sem ég tel, sögunnar vegna, að það eigi hvergi frekar heima en í Vestmannaeyjum. Hníga að þessu mörg rök og fékk ég sérstakt leyfi listamannsins Ragnars Kjartanssonar myndhöggvara til að kynna þetta verk fyrst í blaði sjómanna í Vestmannaeyjum.
Í stuttu máli ætla ég að stikla á sögu verksins.
Það var árið 1978, að 30 ára nemendur fiskimannadeildar Stýrimannaskólans í Reykjavík gáfu skólanum líkan af hópi manna í gúmmíbjörgunarbát, fagurt og táknrænt listaverk um baráttu sjómanna við hafið. Prófsveinar útskrifaðir 1948 gáfu þetta verk til minningar um látna félaga og var verkið afhent við skólaslit 1978 og prýðir það nú setustofu Stýrimannaskólans í Reykjavík í anddyri skólans á efri hæð Sjómannaskólans.
Margir þeirra skólabræðra höfðu hlotið hina votu gröf, en þeir voru 36, sem luku prófi vorið 1948. Sá, sem hafði aðalforgöngu um gerð verksins og þessa merkilegu gjöf var Jóhann Einarsson Frímann frá Norðfirði, fæddur þar 13. ágúst 1923. Jóhann andaðist snögglega nokkru áður en gjöf þeirra skólabræðra var afhent, en mikill og góður vinur hans og bekkjarbróðir var Bjarni Steinþór Runólfsson, skipstjóri á Hornafirði, sem fórst ásamt 6 skipverjum með vélskipinu Helga frá Hornafirði, þegar skipinu hvolfdi og sökk síðan á Færeyjabanka hinn 15. september 1961. Tveir skipverjar björguðust í gúmmíbjörgunarbát eftir mikla vosbúð og mannraunir. Allir skipverjar komust á kjöl en í aftaka veðri og stórsjó misstu þeir línuna og blés gúmmmjörgunarbáturinn ekki út fyrr en allir voru horfnir í hafið, nema þeir tveir, sem að lokum tókst að ná í spottann að flöskunni sem blés bátinn út. Komust þeir lífs af við illan leik.
Ég held, að það hafi verið mikil og góð samheldni í þessum bekk, því að tveir fórust þeir saman bekkjarbræðurnir, Sigþór Guðnason skipstjóri á m/s Hugrúnu og Konráð Hjálmarsson stýrimaður, þegar skipið fékk á sig brotsjó í Látraröst, sem mölbraut brúna. Petta gerðist 30. janúar 1962. Brotsjórinn hreif með sér úr brúnni 3 menn, þá vinina og háseta, sem var við stýrið. Sigþór Guðnason var Vestmannaeyingur, sonur Guðna Jóhannssonar skipstjóra og konu hans Jóhönnu Þorsteinsdóttur. Hann var fæddur á Vattarnesi á Austurlandi, en ólst upp í Vestmannaeyjum frá æsku og dvaldi þar öll sín unglingsár.

Það voru óvenjumargir Vestmannaeyingar, sem luku hinu meira fiskimannaprófi frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík árið 1948: Hans Sigurjónsson frá Hjalla, síðar þekktur togaraskipstjóri á Víkingi AK, Ögra og fleiri skipum, Ingólfur Eiríksson Ásbjörnssonar á Emmu, Kristinn Pálsson skipstjóri, núverandi formaður Útvegsbændafélags Vestmannaeyja, Edvin Jóelsson skipstjóri frá Svanhól og Guðjón Sigmundsson frá Hólmgarði. Bjarni Runólfsson skipstjóri á Helga var svili Ragnars Kjartanssonar myndhöggvara og sagði Ragnar mér, að hann hefði unnið verkið fyrir þá skólafélagana í minningu um Bjarna vin sinn og svila.
Árið 1980 gáfu nokkrir Akógesar í Reykjavík félögum í Akóges í Vestmannaeyjum frumgerð verksins í leir. Fannst okkur það ekki eiga heima á betri stað en í Eyjum, þangað sem má rekja upphaf að notkun gúmmíbjörgunarbáta á Íslandi með frumkvæði skipstjóra- og stýrimannafélagsins Verðanda og útgerðarmanna í Vestmannaeyjum í lok stríðsins, árið 1945. Geta nú allir Vestmanneyingar virt fyrir sér verkið þar sem það er í Akógeshúsinu við Hilmisgötu.
Hinn 12. apríl 1952, þegar m/b Veiga VE 292 fórst, björguðust svo íslenskir sjómenn í fyrsta skipti í gúmmíbjörgunarbát.
Þetta er í stuttu máli forsaga listaverksins, sem Ragnar Kjartansson hefur nú útfært í breyttri og stórkostlegri mynd.
Hugmyndin er að öldufaldur beri uppi bátinn, en vatn sem er jafnframt gosbrunnur, þeytist stöðugt og með mismunandi krafti upp með síðum hans, freyði um bátinn og renni niður öldufaldinn í skál, sem væri umhverfis merkið.
Hugsanlega gæti maðurinn sem stendur uppréttur í bátnum haldið á logandi kyndli, sem lýsti upp bátinn og listaverkið að kvöldlagi.
Þeir sem hafa séð hið stórbrotna listaverk Gefjun, sem er skammt frá Löngulínu í Kaupmannahöfn eða minnismerki um hvalveiðimenn í Kristiansand í Noregi geta gert sér í hugarlund hve hér gæti að líta glæsilegt og mikið listaverk, þar sem breytilegur kraftur, fallandi vatnsins gæfi höggmyndinni enn meiri kraft og líf, en hún nú þegar hefur.
Mér finnst hér vera verðugt verkefni fyrir Sjómannadagsráð, sjómannafélögin í Vestmannaeyjum og aðra aðila tengda sjómönnum og sjávarútvegi að koma upp þessu listaverki á næstu árum. Það á óvíða betur heima en í Vestmannaeyjum eða á Hornafirði, sem tengist þessu verki á örlagaríkan hátt, en ég er sannfærður um, að alls staðar mun mikið til þess koma og hvar sem það verður sett upp er það íslenskri sjómannastétt til mikils vegsauka.
Listamanninum sjálfum, Ragnari Kjartanssyni, finnst höggmyndin vera í besta samræmi við landslag og náttúru Vestmannaeyja, þegar aldan kveður sinn rammaslag við þverhnípt bergið — „verkið er eitthvað í takt við Eyjarnar" segir Ragnar „en í stórviðrum og brimi á æskustöðvum mínum undir Jökli lærði ég að meta synfóníu hafsins, þegar jörðin skalf undir átökum þykkrar úthafsöldunnar," bætir hann við.
Ragnar komst í beina snertingu við sjóinn á sínum yngri árum, þegar hann var háseti á Skeljungi í 3 ár og fór þá oft inn til Vestmannaeyja í nær hvernig veðri sem var inn ólgandi Víkina með sælöðri upp í miðjan Heimaklett og háseti var hann í Eyjum á Gammi og Andvara.

Guðjón Ármann Eyjólfsson, skólastjóri