Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1977/B.v. Klakkur VE 103

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 22. júní 2017 kl. 11:15 eftir Mardis94 (spjall | framlög) Útgáfa frá 22. júní 2017 kl. 11:15 eftir Mardis94 (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit

B.v. Klakkur VE 103

Frá vinstri: Helgi Ágústsson, 1. stýrimaður og Guðmundur K. Jónsson, skipstjóri.
Loks eru það máttarstólparnir. — Frá v.: Einar Sigurjónsson, Guðmundur Karlsson og Stefán Runólfsson.

Hinn 29. mars s. l. sigldi nýr skuttogari í eigu Vestmannaeyinga í fyrsta sinn inn í Vestmannaeyjahöfn, — Klakkur VE 103.
B. v. Klakkur er eign hlutafélagsins Klakks. Stærstu hluthafar eru Fiskiðjan h. f., Ísfélag Vestmannaeyja h. f. og Vinnslustöðin h. f. Hann er tveggja þilfara og útbúinn bæði fyrir botnvörpu- og flotvörpuveiðar.
Aðalmál eru: Mesta lengd: 51,4 m; breidd: 10,76 m og dýpt að efra þilfari: 6,96 m. Skipið mældist 488 rúmlestir brúttó.

Aðalvél er 2200 hk, tegund: Cegielski Sulzer dieselvél, tengd niðurfærslugír, sem drífur skiptiskrúfu, tvo rafala fyrir togvindu og rafal fyrir almenna notkun. Ganghraði í reynsluferð var um 15 sjóm. og togkraftur 25 tonn. Hjálparvél er Caterpillar 330 hk. tengd rafli til almennra nota og jafnstraumsrafli til að drífa togvindur. Rafstraumur er riðstraumur, þriggja fasa, 380 volt, 50 rið og 2x220 volt. 50 rið. Togvindur eru tvær, ein fyrir hvorn vír og eru þær rafdrifnar. Aðrar vindur eru ýmist drifnar með rafmagni eða vökva. Netavinda fyrir flottroll er vökvaknúin. Rafdrifin akkerisvinda er á framþilfari.
Aftan þilfarshúss er rafdrifin vinda með 6 tromlum, tvær eru fyrir grandaravír, tvær eru til að draga bobbinga inn og tvær eru fyrir víra, sem draga inn pokann (gilsvindur). Auk þess er vökvadrifin vinda fyrir kapal fyrir flotvörpumæli, 2 vökvadrifnar vindur til losunar úr vörpupoka og til að draga vörpuna út. Lóðrétt skutrennuhlið er knúið með vökva.

Fiskilúga er vökvaknúin og undir henni er fiskmóttaka. Framan við hana er aðstaða til blóðgunar og 4 blóðgunarker. Þar framan við er svo aðgerðin. Slor fer beint útbyrðis, en lifur fer í þar til gerðan geymi í lest. Lifrinni er svo landað með þrýstilofti.
Aðgerður fiskur fer eftir færiböndum í þvottavél og þaðan í lest. Þá er einnig svokallað karfaband til að færa óslægðan karfa beint í lestina.
Lestin er kæld í 0° C og einangruð með plastfroðu og klædd innan með stálplötum. Hún er útbúin fyrir kassafisk og stærð hennar er 460 rúmmetrar. Yfir lest á efra þilfari er ísvél og undir henni ísgeymsla. í lest er dreifikerfi fyrir ísinn.

Aftast í skipinu milli aðalþilfars og efra þilfars, báðum megin fiskmót-töku, eru netageymslur með lúgum á efra þilfari.
Íbúðir eru fyrir 16 manna áhöfn, 10 tveggja manna klefar og 6 eins manns klefar. Klefar yfirmanna eru í yfirbyggingu á efra þilfari, en undirmanna neðar á aðalþilfari. Snyrti- og þvottaaðstaða er góð.
Milli vinnusals og íbúða er snyrtiklefi og stakkageymsla. Íbúðir eru hitaðar með rafmagnsöfnum og loftræstar með blæstri.

Rúmgóðar matvælageymslur eru með kælirúmi og frysti, og eldhús er búið öllum nýtísku tækjum. Í skipinu er öll fullkomnustu siglingar- og fiskileitartæki: Tvær ratsjár, sjálfvirk miðunarstöð, LORAN C með skrifara, veðurkortariti, rafvegmælir, gíróáttaviti með sjálfstýringu, 2 fisk. Þá eru tvær talstöðvar, önnur fyrir neyðartilfelli. Í skipinu er kall- og talkerfi, sjónvarp með myndsegulbandi. auk neyðarsíma, útvarpstækja og hátalarakerfis fyrir útvarp.

Skipstjóri er Guðmundur K. Jónsson, 1. vélstjóri er Jón Sigurðsson og 1. stýrimaður Helgi Ágústsson. Útgerðarstjóri Klakks er Sigurður Ólafsson, en framkvæmdastjóri er aftur á móti Arnar Sigurmundsson. Stjórn skipa þeir: Einar Sigurjónsson, forstjóri; Stefán Runólfsson, forstjóri og Guðmundur Karlsson, forstjóri, sem er stjórnarformaður.
Heyrst hefur, að stjórn Klakks h. f. hafi í hyggju að fjölga botnvörpuskipum innan skammt.

B/V KLAKKUR VE 103