Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1972/ Aflakóngur Vestmannaeyja 1971

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 2. maí 2019 kl. 13:44 eftir Vpj1985 (spjall | framlög) Útgáfa frá 2. maí 2019 kl. 13:44 eftir Vpj1985 (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit
Aflakóngur Vestmannaeyja 1971


Gunnar Jónsson.

HEIDURSTITILINN Aflakóngur hefur sá skipstjóri hlotið, sem hefur skilað mestu skiptaverðmæti til skipshafnar sinnar á liðnu ári. Aflakóngur Vestmannaeyja er verðlaunaður með fagurlega útskorinni flaggstöng; en hver skipverji fær heiðursskjal áritað. Hafa þau hjón, frú Sigríður Sigurðardóttir og Ingólfur Theódórsson, gefið farandgrip þennan sem kunnugt er.
Vegna mismunandi frádráttar í ríkiskassann af aflaverðmæti hefur verið talsverður munur á skipta- og heildaraflaverðmæti eftir því hvort bátar hafa landað hér heima eða erlendis.
Titil þennan hlýtur nú að verðleikum, ágætum, ungur Vestmannaeyingur, Gunnar Jónsson skipstjóri á Ísleifi VE 63.

Gunnar Jónsson er borinn og barnfæddur Vestmannaeyingur, sonur hjónanna Rósu Guðmundsdóttur frá Málmey og Jóns heitins Guðmundssonar frá Goðalandi, sem var mikill aflamaður á sinni tíð og minnst er hér í blaðinu.
Gunnari er því sjómennska í blóð borin í báðar ættir. Gunnar Jónsson er fæddur í Vestmannaeyjum 18. janúar 1940. Hann lauk námi í Gagnfræðaskóla Vestmannaeyja og byrjaði sjómennsku árið 1958, með föður sínum á Ver. Hinu minna vélstjóranámskeiði lauk Gunnar haustið 1957/58; settist í Stýrimannaskólann í Reykjavík og lauk þaðan prófi vorið 1961.
Gunnar hóf formennsku vorið 1963 á Ver og var með bátinn þá um sumarið á humarveiðum. Á haustin var Gunnar þessi ár á síldveiðum með Kristni Pálssyni á Berg. Hann var á gamla Berg, er báturinn fórst út af Snæfellsnesi haustið 1962. Gunnar var stýrimaður á nýjum Bergi vertíðina 1963. Árið 1965 réðist Gunnar til útgerðar Ársæls heitins Sveinssonar og sona hans á Ísleif IV með Guðmari heitnum Tómassyni og Gísla Jónassyni. Ísleifur IV varð það ár með mest aflaverðmæti Vestmannaeyjabáta.
Gunnar varð skipstjóri á Ísleifi IV 1966, og tók við Ísleifi VE 63, er báturinn kom til landsins í nóvember 1967 og hefur verið með bátinn síðan. Hafa þeir nær einvörðungu verið á nótaveiðum, en á netum hluta úr vetrarvertíð. Síðustu þrjú sumur hefur Ísleifur verið að veiðum í Norðursjó og veitt mjög vel. Aflinn hefur verið ísaður í kassa og seldur á mörkuðum í Danmörku og Þýskalandi.

Ísleifur er gott skip byggt í Rosendal í Noregi, báturinn er 243 rúmlestir brúttó, með 650 ha. Stork diesel, og öll siglinga- og fiskleitartæki til síldveiða.

Afli Ísleifs og aflaverðmæti til skipta árið 1971 var sem hér segir:

Gunnar hefur að sjálfsögðu haft einvalalið um borð á undanförnum árum, og hafa sömu yfirmennirnir verið með honum í mörg ár. Jón Berg Halldórsson, sem nú tekur við Ísleifi IV, hefur verið 1. stýrimaður. Verður Sigurður Guðnason 1. stýrimaður. Fyrsti vélstjóri er Kári Birgir Sigurðsson.
Gunnar skipstjóri er rólyndur maður og hlédrægur, — alltaf sömu rólegheitin og æðruleysið, segja skipverjar hans, sem virða hann vel og meta. Engum dylst samt, að þar fer kappsamur aflamaður og sjómaður, sem ekki lætur sinn hlut.
Gunnar Jónsson er kvæntur Selmu Jóhannsdóttur héðan úr bæ; eiga þau tvo drengi.
Við óskum Gunnari Jónssyni skipstjóra, skipshöfn hans, útgerð og fjölskyldu til hamingju með Ingólfsstöngina, sem hann hlýtur nú í fyrsta skipti.



Þeir voru heiðraðir á Sjómannadaginn 1971. Frá Vinstri: Guðjón Valdason fyrrv. skipstjóri, Einar J. Gíslason fyrrv. hafnarstarfsmaður, Guðni Grímasson vélstjóri, Sigþór Sigurðsson sjómaður, Jón Vigfússon vélstjóri, Óli Jónsson sjómaður.
Lóðsinn frá borði. Hann er oft úfnari hjá lóðsinum. Jón Í. Sigurðsson hefur gengt hafnsögustarfi við Vestmannaeyjahöfn í aldarfjórðung, og aukið mjög bróður hafnarinnar, með öruggri leiðsögn sinni. - Jón lóðs varð sextugur 7. nóvember s.l. Í því tilefni senda sjómenn honum beztu árnaðaróskir og kveðjur með þökk fyrir góð störf. Jón Ísak er formaður Björgunarfélags Vestmannaeyja og átti einna drýgstan þátt í því, að aðstoðarskipið Lóðsinn var keypt til Vestmannaeyja.