Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1966/ Minning látinna

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 19. desember 2018 kl. 21:01 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 19. desember 2018 kl. 21:01 eftir Viglundur (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit
Minning látinna


Á Sjómannadegi í Vestmannaeyjum minnast sjómenn þeirra, sem hafa horfið úr röðum þeirra frá síðasta degi, eða annarra, er þeim hafa staðið nær.
Eins og á hverju ári hefur íslenzka þjóðin orðið að sjá á bak fjölda vaskra sjómanna frá síðasta sjómannadegi. Þetta hefur löngum fylgt íslenzkri sjómannastétt í harðri baráttu við hafið, þó að miklar framfarir hafi átt sér stað og slysum hafi fækkað.<br Allra þessara manna minnist alþjóð á sjómannadegi. Þökkuð er handleiðsla hins efsta, að engin meiri háttar sjóslys urðu frá Vestmannaeyjum á liðnu ári.<br< Skipstjóra og áhöfn Lóðsins og Björgunarsveit Vestmannaeyja eru þökkuð örugg handtök, þegar þeir björguðu áhöfn m.b. Eyjaberg VE 130, sem strandaði á Faxaskeri 7. marz s.l. og fórst þar.
Tókst allt vel til við erfiðar aðstæður, dimmviðri, talsverðan sjó og mikinn straum við Faxasker.
Margir hafa horfið úr hópi sjómanna hér í Vestmannaeyjum frá síðasta Sjómannadegi og er þeirra minnzt með þakklæti og söknuði.
Höfnin hér hefur tekið sínar fórnir og hafa 3 ungir menn látið lífið í höfninni frá s.l. sjómannadegi. Voru 2 þeirra piltar héðan úr Vestmannaeyjum, sá þriðji sjómaður úr Hafnarfirði, Kristján Björgvin Ríkharðsson. Allt sjómenn ungir að árum, í blóma lífsins. Slysin hér við höfnina eru orðin ærið mörg, og væri óskandi,að þeim mætti fækka. Fátt er til hjálpar einfara sjómanni, sein hrasar og fellur á milli báts og bryggju og skyldu menn minnast þeirrar hættu, sem þar liggur falin.
Þá hafa margir eldri sjómenn fallið frá, sem settu svip hér á sjósókn á fyrri helmingi aldarinnar.
Svipmesti útgerðarmaður Vestmannaeyja á fyrstu árum vélbátaútgerðar, Gísli J. Johnsen, lézt á liðnu tímabili.
Einn af frumherjum í kjarabaráttu sjómanna, Guðmundur Jóelsson, kvaddi einnig, og fyrir stuttu kvaddi Ólafur Ástgeirsson frá Litlabæ, snillings sjómaður og sá maður, sem smíðað hefur flesta báta, trillur og róðrarbáta, af samtíðarmönnum sínum hér.
Einnig viljum vér hér minnast manna, sem lagt hafa drjúgan skerf til sjómannastéttarinnar með starfi sínu í landi.
Öllum þessum mönnum, sem hér verður minnzt, eru þökkuð vel unnin störf þeirra í þágu byggðarlags okkar, lands og þjóðar.

Örlygur G. Haraldsson.

Án þessara manna værum við öll komin skemur á veg en ella á leið okkar til betra lífs.
Ættingjum, vinum og vandamönnum eru sendar innilegar samúðarkveðjur. Holdið deyr, en andinn lifir.

Örlygur G. Haraldsson
Örlygur G. Haraldsson var fæddur 7. febrúar 1947 og lézt af slysförum 29. júní 1965.
Hann var glaðvær og gáskafullur unglingur, kvaddur brott á vori lífsins. Hugur hans hneigðist að sjónum og stundaði hann sjómennsku fyrst sem háseti, en síðar sem vélstjóri og við þau störf vann hann, er hann andaðist.
Örlygur var óvenju músíkalskur ungur maður og lék hér í hljómsveitum með sjómannsstarfi sínu.

Valdimar Árnason.

Valdimar Árnason
Hann var fæddur á Norðfirði 13. júlí 1885 og andaðist á sjúkrahúsi Vestmannaeyja 5. ágúst 1965.
Valdimar kom hingað fyrst til Eyja árið 1907 og var þá vélamaður á mb. „Vestmannaey“ hjá Sigurði Ingimundarsyni á Skjaldbreið.
Hér stundaði hann svo sjómennsku í rúma hálfa öld, ýmist sem vélstjóri eða formaður og sýndi hann oft í þeim störfum sérstaka sjómennsku- og ráðsnilli. Hér skal nefna, þegar hann var formaður með mb. „Gamm“ og vélin stoppaði rétt austur af syðri hafnargarðinum (Hringskersgarðinum), bræluvindur var af austri og brim, voru þeir á útleið.
Ekki var þarna langur tími til umhugsunar, en fljótt kom kallið frá formanninum: „Látið akkerið falla!“ Var það framkvæmt þegar í stað. Akkeriskeðjan var svo sett föst aftur á bátnum, svo að framendi hans sneri strax inn og með stefnu að höfninni. Þegar þeir höfðu híft upp fokkuna var akkerisfestinni sleppt og siglt inn að bryggju. Fyrstu eða aðra vertíðina, sem Valdimar var vélamaður á „Vestmannaey“ lentu þeir eitt sinn í austan stormi og fengu vélarstopp, svo að þeir náðu hvergi í var og urðu að láta reka. Við þær aðstæður vann Valdimar það þrekvirki, að taka vélina að mestu leyti í ur, finna út og gera við bilunina. Komu þeir á „Vestmannaey“ svo til hafnar næsta morgun með allt í lagi. Þetta vakti þá sérstaka aðdáun og var lengi í minnum haft.
Mörg hin efri ár sín var Valdimar heiðraður á Sjómannadeginum í Vestmannaeyjum sem elzti starfandi vélstjóri Eyjaflotans.
Kunnugur

Gísli J. Johnsen

Gísli J. Johnsen
Heiðursborgari Vestmannaeyja
Þegar minnzt er helztu æviatriða héraðshöfðingjans Gísla J. Johnsen þykir mér við eiga að bregða upp smá mynd af lífinu í Vestmannaeyjum eins og það var, þegar hann var að alast upp hér í Eyjum á síðustu tugum fyrri aldar.
Síðasti danski kaupmaðurinn í Eyjum var J. P. T. Bryde, hinn þriðji í röðinni af þeirri ætt, og var verzlun hans einráð í Vestmannaeyjum í lok 19. aldar. Hann hafði umráð yfir öllu athafnasvæði við höfnina, einu bryggju Eyjanna, öllum þerrireitum, fiskhúsum og uppskipunartækjum og öllu, sem máli skipti til verzlunarreksturs. Bryde notaði sér einokunaraðstöðu sína harkalega og varð það dönsku verzluninni að falli. Gísli J. Johnsen var fæddur í Vestmannaeyjum 10. marz 1881. Foreldrar hans voru Jóhann J. Johnsen og kona hans Sigríður Árnadóttir. Faðir Gísla var af merkum kaupmannaættum frá Suður-Jótlandi, en móðir hans hin mesta greindar- og myndarkona, sterk að allri gerð, ættuð úr Öræfum.
Jóhann faðir Gísla lézt 1893 og stóð þá Sigríður uppi með 5 unga syni sína. Gísli var elztur bræðranna og var þá 12 ára gamall. Faðir Gísla hafði áður rekið smáverzlun og veitingasölu í Frydendal, en árið 1898 setti Gísli sonur hans upp smá verzlun á nafni móður sinnar, því að hann var ekki lögráða og aðeins 17 ára að aldri. Gísli varð fljótt kunnur fyrir stórhug sinn og framtakssemi og blómgaðist veizlun hans vel.
Með samningi frá 30. september 1901 var móður hans leigður helmingur Godthaabslóðarinnar. Gísli var þá enn ómyndugur og þótti það einstakt, að innlendur maður skyldi fá þessa verzlunarlóð leigða. Hafði nú hinn stórhuga ungi maður fengið svigrúm til að koma hugmyndum sínum í framkvæmd. Hann hafði einnig unnið sér traust og voru honum falin ýmis ábyrgðarstörf, svo sem skipaafgreiðsla og póstafgreiðsla og árið 1907 var hann skipaður enskur vicekonsúll, ennfremur sat hann í hreppsnefnd og síðar bæjarstjórn og þótti ekkert að ráði nema hann ætti þar hönd í bagga á þessum árum.
Verzlun Gísla og útgerðarrekstur varpaði fljótlega skugga á hina 60 ára rótgrónu Brydesverzlun og á 10 árum tókst honum að brjóta á bak aftur hina dönsku einokun, sem varað hafði í marga mannsaldra.
Gísli J. Johnsen var hinn fæddi forystumaður síns tíma og stóð ávallt í fararbroddi. Af miklum dugnaði og hagsýni vann hann að öllu, sem til framfara horfði og breiddust áhrif hans út um allt land og urðu ekki einungis Vestmannaeyingum til góðs, heldur alþjóð.
Hann lét smíða og flytja til Eyja fyrsta vélknúna fiskibátinn árið 1904. Árið 1906 hafði Gísli forgöngu um að viti var reistur á Stórhöfða og sá hann um bygginguna. Hann hafði einnig forgöngu um, að fyrsta vélfrystihús landsins — Ísfélag Vestmannaeyja — var reist í Vestmannaeyjum. Hann gerði og fyrstur tilraun með skilvindu til lýsisvinnslu og hlaut heiðursverðlaun fyrir vörugæði á lýsi í Kaupmannahöfn árið 1912. Það sama ár reisti hann fiskimjölsverksiniðju hér í Eyjum, þá fyrstu á Íslandi. Þegar Ísland komst í símasamband við útlönd, óskuðu Vestmannaeyingar eftir að fá símann til Eyja, en var neitað af Landsstjórninni. Hafði þá Gísli ásamt fleirum forgöngu um að stofnað var símafélag hér í Eyjum til að safna fé til að leggja símann hingað. Komst það verk í framkvæmd árið 1911. Ári síðar, þegar í ljós kom að síminn til Eyja bar sig fjárhagslega, tók Landssíminn við rekstri hans.
Árið 1921 voru fyrir forgöngu Gísla reistir fyrstu olíugeymar í Eyjum, þeir fyrstu á ÍsIandi. Árið 1928 lét Gísli byggja einn af sínum stærstu vélbátum, Heimaey, með loftskeytatækjum. Var það fyrsti fiskibátur á Íslandi, sem þau tæki voru sett í.
Hér hefur aðeins verið stiklað á stóru og minnzt á það helzta, sem Gísli kom í framkvæmd meðan hann dvaldi í Vestmannaeyjum. Sjúkrahúsið hér lét hann ásamt konu sinni, frú Ásdísi Gísladóttur frá Hól, reisa með 40 rúmum og öðrum útbúnaði og gaf Vestmannaeyingum nokkru áður en þau hjón vegna illra örlaga urðu að flytja brott héðan úr Eyjum. Hjónaband þeirra var farsælt og eignuðust þau 3 börn. Gísli bar farsæld sjómarmastéttarinnar jafnan fyrir brjósti og sýndi hann það í verki ásamt síðari konu sinni, frú Önnu Ólafsdóttur, er þau árið 1956 gáfu Slysavarnafélagi Íslands björgunarbát með fullkomnum útbúnaði, og skemmtileg tilviljun var það, að fyrsti sjómannaskólinn utan Reykjavíkur, Stýrimannaskólinn í Vestmannaeyjum, skyldi hafa aðsetur í hans gamla íbúðarhúsi, Breiðabliki, sem hann reisti af stórhug og framsýni árið 1908. Lét hann ávallt í ljósi sérstaka ánægju yfir þessu, enda var hann alltaf sannur Vestmannaeyingur og bar hag Eyjanna fyrir brjósti alla tíð.
Hugmyndaríkir athafnamenn vinna ekki eingöngu sér í hag, heldur og umhverfi sínu og samtíðarmönnum.
Gísli var alla tíð mikill reglumaður og hafði fyrirmannlega framkomu. Hann var sæmdur mörgum heiðursmerkjum, innlendum og erlendum, fyrir unnin störf.
Gísli J. Johnsen kom síðast til Vestmannaeyja ásamt konu sinni 16. apríl 1964 og heimsótti þá þann, er þetta ritar. Fórum við saman í bifreið um alla helztu staði hér á Heimaey og þótti honum mikið ánægjulegt að sjá allar þær stórframkvæmdir og uppbyggingu, sem orðið hafði í hans kæra fæðingarbæ.

Guðmundur E. Jóelsson.

Guðmundur E. Jóelsson
Hann var fæddur að Landamótum í Vestmannaeyjum 5. janúar 1907 og andaðist 14. september 1965 eftir langvarandi vanheilsu. Foreldrar hans voru Þórdís Guðmundsdóttir frá Vesturhúsum og Jóel Eyjólfsson frá Kirkjubæ. Kornungur missti hann móður sína og var þá tekinn í fóstur til ömmu sinnar og afa að Vesturhúsum og dvaldi hann hjá þeim þar til afi hans, Guðmundur Þórarinsson, drukknaði við Álsey 13. marz 1916.
Ungur byrjaði Guðmundur að stunda sjóinn með Þorgeiri bróður sínum. Um 1930 keypti hann sér trillubát, sem hann nefndi Báru, og var formaður með hana hér í Vestmannaeyjum í 3 ár. Þá flutti hann ásamt konu sinni og ungum börnum austur á Fáskrúðsfjörð. Þar gerðist hann landnámsmaður, byggði sér bæ og ræktaði tún á Kolfreyjustaðarströnd, stutt frá jörðinni Skálavík. Trillubátinn Báru flutti hann með sér austur og lagði honum á litlum vogi þar við ströndina.
Á fyrsta búskaparári Guðmundar, um miðjan nóvember, brast á mikið ofviðri þar eystra. Veðrið skall á um miðnæturbil og ætlaði Guðmundur þá að bjarga báti sínum með því að reyna að stíma honum inn í Búðakaupstað. Lagði hann einn af stað í þessa hættuför.
Þegar Guðmundur var nýlagður af stað, herti veðrið að mun og stuttu síðar stöðvaðist vélin af sjódrifinu. Guðmundur kom þó vélinni í gang aftur, en alla nóttina var vélin að stoppa af og til af þessum sökum. Eftir 8 klukkustunda hrakning um fjörðinn og þrotlausa baráttu fyrir lífinu, kom hann loks að landi nokkru austar en hann lagði frá því, var það í birtingu um morguninn. Af hreinni tilviljun sást til Bárunnar úr landi og voru menn fyrir í fjörunni í Skálavík að bjarga manni og bát, en þar tókst Guðmundi að lenda eftir þessa svaðilför. — Þessi langa óveðursnótt varð Guðmundi ofraun og bar hann þess aldrei bætur á heilsunni. Eflir 12 ára búsetu á Austurlandi fluttist svo Guðmundur aftur hingað til Eyja og keypti húsið Háagarð. Stundaði Guðmundur sjómennsku meðan heilsan leyfði, fyrstu árin á vetrarvertíðum með Þorgeiri bróður sinum á Lundanum. Annan tíma árs stundaði hann sjóinn á trillubát, sem hann átti og stýrði sjálfur, og hafði hann þá oftast syni sína, Bjarna og Jóel með sér.
Guðmundur var dugnaðarmaður að hverju sem hann gekk og sístarfandi. Hann vildi öllum gott og var grandvar maður og vinfastur.
Eyjólfur Gíslason.

Alexander Gíslason.

Alexander Gíslason
Hann var fæddur að Torfastöðum í Fljótshlíð 18. marz 1899 og andaðist 29. janúar 1966.
Alexander kom hingað fyrst til Eyja árið 1920. Þá vertíð reri hann á mb. Elliða VE 96, sem var 7,33 tonn að stærð, og á þeim báti byrjaði hann formennsku. Alexander stundaði hér sjómennsku yfir 30 ár, þar af um 25 ár sem formaður. Lengst af var hann formaður með „Gissur hvíta“ VE 5, og var það hans happaskip, því að á þeim báti heppnaðist honum að bjarga 5 manna áhöfn af mb. Blika, VE 143, sem sökk vegna leka í austan roki og stórsjó vestur á Selvogsbanka 1. marz 1942, en það var hið mesta mannskaðaveður og fórust auk Blikans 2 aðrir bátar frá Vestmannaeyjum, „Ófeigur I“ og „Þuríður formaður“, báðir með allri áhöfn. en mb. „Ölduna“ rak upp í Grindavik, en mannbjörg varð. Mennirnir náðust allir á sama lagi, með því að stíma sem næst hinum sökkvandi báti, en til þess þurfti í senn útsjón og áræði og enga handvömm. Fyrir þessa björgun var Alexander sæmdur hinni íslenzku fálkaorðu.
Alexander var hörkusjómaður og aflasæll, enda kappsmaður mikill. Þegar hann lét af sjómennsku gerðist hann fiskimatsmaður og reyndist jafn áhugamikill við þau störf og sjósóknina.
Hann var skemmtilegur vinnufélagi, bæði á sjó og landi. Sem formaður var hann sérlega mannsæll og voru sumir hásetar hans með honum lengst af hans formannstíð.
E. G.

Ólafur Ástgeirsson.

Ólafur Ástgeirsson
Ólafur Astgeirsson var fæddur í Litlabæ í Vestmannaeyjum 3. ágúst 1892. Foreldrar hans voru Kristín Magnúsdóttir og Ástgeir Guðmundsson skipasmiður, en þau bjuggu allan sinn búskap í Litlabæ, full 50 ár.
Ólafur ólst upp í fjölmennum systkinahópi. Fljótlega kom í Ijós, að Ólafur myndi hneigjast að smíðum, því að ekki var hann gamall, er hann fór að sækja í smiðjuna til föður síns, sem vann allt að járnsmíði, sem þurfti til hinna mörgu skipa og báta, sem Ástgeir smíðaði. En á þeim árum varð að smíða hér allan saum, rær og fleira, er með þurfti.
Þegar Ólafur var 12 ára gamall tók hafin til að smíða smábyrðinga, sem flestir munu hafa verið 2—3 fet milli stafna, og þóttu þessir bátar sérlega vel smíðaðir af svo ungum dreng. Var lagið á þeim fallegt og líkt vor- og vetrarvertíðarskipunum, sem þá gengu héðan til fiskveiða.
Það efaðist því enginn um, sem sá þessa smíðisgripi Ólafs, að þar væri að alast upp mikill og góður skipasmiður, enda varð sú raunin á.
Um fermingaraldur fór Ólafur að vinna að skipasmíðum með föður sínum. Innan við tvítugt fór hann að smíða sjálfstætt og alltaf vann hann einn við smíðarnar, en þeim hélt hann áfram að dánardægri og er hann lézt, var hann með bát á stokkunum, búinn með hálft annað umfar, en annar stóð nýsmíðaður, málaður og altilbúinn til að sjósetjast. Ólafur vann því meðan dagur var og þó lengur, því að eftir að heilsa hans bilaði vann hann oft mjög lasinn.<br< Því miður hafði hann ekki nákvæma tölu á þeim bátum, sem hann hafði smíðað, en líklegast taldi hann, að þeir myndu nær 400.
Þó að Ólafur afkastaði svo undramiklu starfi við bátasmíðina er hitt ekki síður umtalsvert, að undantekningarlítið voru allir þessir bátar afbragðs góðir sjóbátar og sumir svo, að með ólíkindum var eftir smæð þeirra.
Margur skyldi nú ætla, að bátasmíðar Ólafs hafi verið hans aðal ævistarf, en svo var þó eigi, því að sjómaður var hann nær sex tugi ára. Bátasmíðarnar stundaði hann aðallega í skammdeginu, haustmánuðina, fram að vertíðarbyrjun, oftast við slæmar aðstæður úti undir Skiphellum eða í fiskikróm.
Um fermingaraldur byrjaði Ólafur að róa með föður sínum, sem þá var formaður með sexæringinn Enok. Fékk hann að róa sem hálfdrættingur meðan sílfiskurinn gekk og handfærin voru notuð. Kom þá fljótt í ljós hversu netfiskinn hann var. Þessi fiskisæld á handfærið fylgdi honum alla ævina. Árið 1913 smíðaði Ólafur sér sexæring með færeysku lagi, sem hann lét heita Gæfu. Það var afburða góður sjóbátur. Þennan bát var hann formaður með fram um 1920 og fiskaði alltaf vel: og sumar vertíðirnar oft ótrúlega mikið. Ólafur og Kristinn bróðir hans voru síðustu formenn, sem stýrðu hér áraskipum á vetrarvertíð, Gæfu og Örk, sem var áttróin.
Ólafur smíðaði fyrsta trillubátinn, sem hér var notaður til fiskveiða árið 1927, var það 3ja manna far með 2ja hestafla Pentamótor.
Haustið 1927 smíðaði Ólafur sér trillubát, sem hann nefndi Öðling og var hann formaður með hann vetrarvertíðina 1928 og upp frá því reri hann sem formaður á trillubát hverja vetrarvertíð fram til ársins 1963.
Síðari hluta ævinnar, eða um 20 vertíðir reri Guðmundur bróðir Ólafs með honum og voru þeir tveir á báti og fiskuðu sumar vertíðirnar mjög mikið, allt á handfæri. AIIs reru þeir bræður saman nær 40 vertíðir. Einnig voru þeir mikið saman á sjó og í fjöllum, bræðurnir Valdimar og Ólafur. Valdimar reri með honum nær 20 vetrarvertíðir á árabátum og trillum og 15 sumur lágu þeir við ásamt fleirum til lundaveiða í Yztakletti.
Það var því eðlilegt, að hugtakið „Litlabæjarbræður“ yrði munntamt Vestmannaeyingum.
Ólafur var snillings sjómaður og var hrein unun að sjá hann stýra báti, þegar þurfti að verjast ágjöf og áföllum, því að oft var lítið borð fyrir báru.
Það mun teljast til, að Ólafur hafi verið formaður um hálfa öld.
Ólafur var einn af slyngustu lundaveiðimönnum Eyjanna, og fékk hann 15 ára gamall að fara í Yztaklett til lundaveiða í skjóli Stefáns Gíslasonar í Ási, sem hann dáði æ síðan. Um 30 sumur lá hann við til lundaveiða í Yztakletti og víðar. Einnig var hann ágætur fjallamaður og stundaði mikið fjallaferðir á meðan fugl og egg voru nytjuð sem búsílag.
Af störfum Ólafs má því sjá, að hann var mætur og mikill maður fyrir okkar byggðarlag, sannur og góður Eyjasonur.
Þeir, sem voru samstarfsmenn og félagar Ólafs á sjó og landi, munu sammála um, að vandfundinn væri betri félagi.
Hann var glaðsinna og góðlyndur og hafði ætíð gamanyrði á vör í vinahópi.
Eyjólfur Gíslason.

Oddgeir Krisjánsson.

Oddgeir Kristjánsson
Oddgeir Kristjánsson tónskáld var borinn og barnfæddur Vestmannaeyingur, fæddur 16. nóvember 1911.
Hann unni öllu fögru og vann fæðingarbæ sínum alla ævi. Hann varð bráðkvaddur í starfi að morgni 18. febrúar s.l.
Þó að Oddgeir Kristjánsson hafi ekki verið sjómaður og sjaldan á sjó komið, þá mat hann mikils vel unnin störf, hvort sem var á sjó eða landi, eins og einn bezti vinur hans skrifaði um hann látinn. Eitt er víst, að list Oddgeirs hreif sjómenn.
Einn gamlan sjómann heyrði ég segja, að Oddgeir hefði verið „tónskáld sjómannað“ með hinum Ijúfu og léttu lögum sínum við sjómannakvæði. Þetta var vel sagt — og mjög svo rétt, þegar betur er að gáð.
Er ég heyrði lát Oddgeirs Kristjánssonar komu mér í hug þessar ljóðlínur úr gömlu erfiljóði: Er hann dáinn? Eyjan spyr með tárum“. Held ég, að það hafi verið orð að sönnu, svo almennt var hans saknað hér í bæ.
Eins og við alla meiri háttar mannfagnaði hér í Vestmannaeyjum s.l. 25—30 ár, mun Oddgeir Kristjánsson hafa skemmt hér á hverjum Sjómannadegi með Lúðrasveit Vestmannaeyja.
Sjómenn í Vestmannaeyjum vilja með línum þessum þakka Oddgeiri og hljómsveit hans störf þeirra í þágu Sjómannadagsins, en áreiðanlega hafa engir aðrir skemmt á Sjómannadegi í Vestmannaeyjum frá upphafi.
Oddgeir Kristjánsson var einstakur maður, harmdauði öllum. Hann var maður, sem sárt var að sjá á bak svo fljótt. Var verulegur ávinningur og uppbyggjandi hverjum manni að kynnast honum, og mun hans lengi minnzt og saknað.

Bragi Svavarsson.

Bragi Svavarsson
Bragi Svavarsson var fæddur í Vestmannaeyjum 27. september 1944 og lézt af slysförum 4. febrúar 1966. Hann var prúður og dagfarsgóður ungur maður, vinur vina sinna. Strax á barnsaldri hneigðist hann að sjómennsku og var hann s.l. vertíð ráðinn í gott skiprúm. Glaður og vongóður skyldi hann leggja á sjóinn, þegar kallið kom.

Kristinn Sigurðsson.

Kristinn Sigurðsson
frá Löndum
Kristinn Sigurðsson á Löndum var fæddur í Vestmannaeyjum 21. apríl 1890. Hann var Eyjamaður í báðar ættir, og fórst afi hans í Útilegunni miklu árið 1869.
Kristinn á Löndum var einn þeirra manna, sem settu svip á athafnasvæðið á sinni tíð. Vann hann alla tíð við sjóinn og tók á móti afla sjómannsins og fléttaði þar þátt í órofa heild okkar allra. Var Kristinn beitumaður í fjölmargar vertíðir og stundaði sjó á yngri árum.
Fiskimatsmaður var hann um fjölda ára.
Kristinn var sporléttur maður, snar og kappsfullur að hverju sem hann gekk, fuglaveiðimaður var hann ágætur og stundaði veiðar í Yztakletti í mörg sumur.
Hann var bókhneigður og víðlesinn. Þegar hann lézt var hann elzti félagi í Bókasafni Vestmannaeyja og hafði verið félagi þar samfleytt síðan 1906 og ávallt fengið lánað mikið af góðum bókum á safninu.
Kristinn andaðist hinn 4. marz s.l. eftir nokkra vanheilsu síðari ára. Honum fylgir þakklæti fyrir vel unnin störf.

Ágúst Þorgrímur Guðmundsson.

Ágúst Þorgrímur Guðmundsson
Ágúst Þorgrímur var fæddur 16. ágúst 1892 að Háamúla í Fljótshlíð. Hann fór ungur í verið og aðeins 14 ára gamall er hann sendur til sjóróðra suður í Garð. Upp frá því var sjómannsstarfið hans aðalstarf.
Þorgrímur reri margar vertíðir í Þorlákshöfn og ungur að árum fer hann á vertíð til Vestmannaeyja.
Vorið 1922 flutti hann búferlum til Vestmannaeyja og dvaldist hann hér æ síðan og stundaði sjóinn meðan hann hafði heilsu til. Var hann ætíð kenndur við Húsadal hér í Eyjum, en þar bjó hann alla tíð með stóra fjölskyldu. Þorgrímur var eftirsóttur sjómaður, ósérhlífinn og góður félagi og þótti rúm hans ætíð vel skipað.
Þorgrímur komst stundum í hann krappann eins og oft vill verða í starfi sjómanns, og komu þá fram góðir eðliskostir hans, rólyndi og snarræði.
Við afgreiðslu á e.s. Síríusi á Víkinni 26. janúar 1923 sökk uppskipunarbátur og fórst þá einn maður, Gústaf Pálsson frá Breiðholti. Þorgrímur var einn mannanna í bátnum sem bjargaðist.
Þorgrímur var einn þeirra, sem aðsótti Eldey í hinni frægu för 1939. Hann var maður vel látinn, og andaðist 6. febrúar s.l. eftir að hafa skilað góðu dagsverki.