Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1963/ Þegar slysið varð á mb. Dagmar 7. maí 1907

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 22. júní 2016 kl. 10:43 eftir Mardis94 (spjall | framlög) Útgáfa frá 22. júní 2016 kl. 10:43 eftir Mardis94 (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit
Þegar slysið varð á mb. DAGMAR


7. maí 1907


Jón Sigurðsson. Greinarhöfundur Dagmarsslyssins

Sigurður Árnason ættfræðingur Árnesinga, sem svo nefndi sig, var aðgerðarmaður hjá Sigríði Árnadóttur í Fryðindal, móður Gísla J. Johnsen og þeirra bræðra, veturinn 1907. Eitt kvöld, þegar hann leggur sig til svefns, getur hann með engu móti sofnað. Honum finnst eitthvað vera í kringum sig. Tekur hann þá það ráð að fara á fætur og klæða sig og hugsar með sér, að það sé bezt að ganga austur á Skans.
Þegar hann kemur þangað, heyrir hann mjög fagran söng, að því er honum virtist úti við Klettsnef, og ber ein röddin í þeim söngkór þó af hinum fyrir fegurðar sakir. Kvæðið sem sungið var, er Líti ég um loftið blá. Allt í einu verður hann þess var, að söngurinn þagnar skyndilega í miðri hendingu, og síðustu orðin sem hann nemur voru þessi: Fellur auðmjúk í duftið.
Sigurður skilur ekkert í því hverju þetta sætir. Ekkert skip er sjáanlegt neins staðar nálægt og þetta er um hánótt. Gengur hann nú burt af Skansinum aftur. Þegar hann er kominn á móts við lifrarbræðsluskúr Bryde (þar sem nú er fiskhús Einars Sigurðssonar vestanhallt í Skansinum), sér hann ljós í skúrnum. Hann gengur þangað. Þar er þá gömul kona að bræða lifur.
Sigurður ávarpar konuna og spyr hana, hvort henni leiðist ekki að vera þar ein að verki.
— Ekki hefur nú mikið borið á því fyrr en nú í nótt, svarar konan.
— Hvað kom fyrir þig? spyr Sigurður.
— Ég heyrði söng hér utan frá Klettsnefinu, sem ég hef ekki kunnað við.
— Þá hefur þú heyrt það sama og ég, svarar Sigurður.
Síðan tala þau um þetta nokkra stund, en fengu engan botn í fyrirbærið. Kveður svo Sigurður konuna og fer heim til sín, háttar ofan í rúm, sofnar, og ber nú ekkert til tíðinda.

M/b Dagmar VE 106.

Er nú Sigurður við starf sitt hjá húsfreyjunni í Fryðindal um veturinn. Um vorið, hinn 7. maí, er von á skipi frá Reykjavík, sem átti að koma við í Vestmannaeyjum og halda síðan áfram austur á land.

Magnús Knútur Sigurðsson.

Þennan vetur voru hér margir vermenn, sem hug höfðu á að komast um borð, sumir til að fara alfarnir héðan en flestir þó til að fylgja félögum sínum til skips, eða taka á móti farþegum úr skipinu.
Til afgreiðslu skipsins er m/b Dagmar fengin, og leggur hún nú af stað inn fyrir Eiði full af fólki. Segir ekki af ferðum bátsins, en allt gengur að óskum inn fyrir, og er þar lagt að skipinu. Fóru nú allir, utan skipshöfnin á Dagmar, upp í skipið og var þar höfð dvöl um nokkurra stunda skeið. Síðan er farið að hugsa til heimferðar, og fara þá allir niður í bátinn, sem í land ætluðu, og má telja að þá hafi verið á Dagmar svo margt fólk sem á bátnum tolldi. Er nú sett á fulla ferð til lands.
Allir voru í bezta skapi og upphófst nú söngur á bátnum. Þarna voru margir góðir söngmenn með í för svo sem t. d. Hlíðarendabræður úr Fljótshlíð, Guðmundur og Ísleifur Erlendssynir. Páll Ólafsson frá Hlíðarendakoti (síðar á Sunnuhvoli hér í Eyjum) og fleiri.
Þegar sungið hefur verið um skeið og flestir helztu söngmennirnir hafa tekið sæti á öldustokknum, kemur þar, að þeir velja sér kvæðið, Líti ég um loftin blá, að viðfangsefni. Syngja þeir það lag vel og af tilfinningu sem önnur, allt þar til er sungið hefur verið: Hnígur auðmjúk í duftið..., en þá hættir söngurinn allt í einu, því Ísleifur á Hlíðarenda hefur fallið aftur fyrir sig í sjóinn.
Vélarafli bátsins er þegar í stað beitt aftur á bak, en við það stöðvaðist vélin og fór ekki i gang aftur að svo stöddu.

Ísleifur Erlendsson.

Mikið fát kom á flesta. Báturinn var yfirfullur af fólki og ekkert hægt að gera, enginn björgunarhringur var með í förinni, og sáu bátsverjar Ísleif fljótlega sökkva í djúpið. Margt manna var komið á Skansinn eins og venja var oft við skipakomur. Þar var enn staddur Sigurður Árnason, sem fyrr er frá sagt, og heyrir hann nú enn hinn sama söng endurtekinn, sem um nóttina, þegar hann hafði reikað þangað austur í andvöku sinni, og lauk söngnum með nákvæmlega sama hætti og honum þótti þá gerast.
Ísleifur Erlendsson var fæddur á Hlíðarenda í Fljótshlíð 15. mai 1880. Hann var sonur hjónanna Erlendar Erlendssonar og Margrétar Guðmundsdóttur, og hafði alizt upp í foreldra húsum i stórum systkinahópi. Ungur byrjaði hann sjóróðra á opnum skipum hér frá Vestmannaeyjum. Hann var með afbrigðum góður söngmaður og hrókur alls fagnaðar í öllu skemmtanalífi hvar sem hann kom.
Vélbáturinn Dagmar var smíðaður í Vestmannaeyjum 1906 af Ástgeiri Guðmundsson í Litla-Bæ. Báturinn var úr furu. Hann var 8,82 rúmlestir að stærð og hafði 8 hestafla Hoffman-vél, og gekk hér fyrst á vertíð 1907.
Formaður á Dagmar fyrstu tvær vertíðirnar var Magnús Knútur Sigurðsson frá Seljalandi undir Eyjafjöllum. Síðan tók við stjórn bátsins Guðmundur G. Vestmann, sem síðan hefur verið formaður á Fáskrúðsfirði í fjölda ára. Loks varð norskur maður formaður með Dagmar, Hans Förland. Hann var sá fyrsti, er hóf hér netaveiðar með árangri, en það var raunar eftir að hann var hættur á Dagmar.
Dagmar lenti hér upp í Botninn og lá þar á hliðinni í nokkur ár, en náðist síðar út þaðan og var þá sett upp að Edinborgarbúð. Mun hafa staðið til að þar yrði gert við bátinn, en af því varð ekki og var báturinn að lokum rifinn.
Þetta var fyrsti vélbátur, sem byggður var hér í Eyjum.