Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1962/ Þegar vélbáturinn Ástríður fórst 1. apríl 1908

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 21. júní 2016 kl. 12:23 eftir Mardis94 (spjall | framlög) Útgáfa frá 21. júní 2016 kl. 12:23 eftir Mardis94 (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit
JÓN SIGURÐSSON:


Þegar vélbáturinn Ástríður fórst 1. apríl 1908


Meðal þeirra báta, sem keyptir voru hingað til Vestmannaeyja árið 1906 voru Frí VE 101 og Ástríður VE 107, og voru sömu eigendur að báðum þeim bátum. Frí var 7 1/2 tonn, kantsettur bátur, smíðaður í Helsingör í Danmörku og hafði 10 hesta Dan-vél, en Ástríður 7,6 tonn með 8 hestafla Dan-vél. Hún var súðbyrðingur.
Eigendurnir voru: Árni Ingimundarson Brekku (gömlu Brekku, húsi sem stóð nyrzt í Brekkulóðinni sem nú er), Anton Bjarnasen kaupmaður, Guðjón Þorvaldsson Garðstöðum, Gísli Lárusson Stakagerði, Kristján Egilsson Búastöðum (síðar á Stað) og N. B. Níelsen, Reykjavík.
Formaður á Fríinu var Guðjón Þorvaldsson en á Ástríði Árni Ingimundarson. Gekk þeim báðum ágætlega á vertíðinni 1907 og áfram urðu þeir með bátana 1908.
Framan af þeirri vertíð gekk Árna Ingimundarsyni sérstaklega vel á Ástríði. Í marzlok var hann hér langaflahæstur allra báta. Samt var nokkurt ósamkomulag meðal skipshafnarinnar á bátnum.
Þeir sem með Árna voru þessa vertíð voru: Sveinbjörn Sigurðsson frá Seljalandi undir Eyjafjöllum (bróðir Hannesar á Brimhól og Sigurðar heitins á Lögbergi), Nikulás Nikulásson frá Geldingalæk á Rangárvöllum, Jóhann Guðmundsson Brekku Vestmannaeyjum og Þorleifur frá Arngeirsstöðum í Fljótshlíð.
Líður nú fram til hins 31. marz. En það var viðburðaríkur dagur fyrir þessa skipshöfn, þótt landlega væri.
Þorleifur tilkynnti Árna formanni sínum, að hann færi ekki á sjó með honum oftar. Ekki líkaði Árna þetta og kvað Þorleifi þá skylt að sjá sér fyrir öðrum manni á skipið. Magnús Tómasson í Steinum undir Eyjafjöllum var formaður á vélbátnuni Elliða þennan vetur. Hjá honum var háseti maður sem Guðni hét Guðmundsson og var frá Strönd í Vestur-Landeyjum.
Verður það nú að ráði hjá þeim formönnunum, Árna og Magnúsi, að þeir hafi mannaskipti, Guðni fari á Ástríði en Þorleifur á Elliða.

Ástríður VE 107.

Guðni var ánægður með skiprúmsskiptin. Hann hafði áður verið með Árna og áttu þeir vel skap saman og er enda líklegt að þeir hafi verið kunnugir frá fyrri tímum, þar eð báðir voru Landeyingar.
En annáll þessa síðasta marz-dags er ekki allur þar með.
Einn af hásetum Árna gengur austur í Austurbúð (síðar Fram) um kvöldið. Það var Jóhann Guðmundsson, sem áður er getið.
Einhverjir, sem staddir voru þar í búðinni samtímis honum héldu því fram, að hann hefði þar stungið á sig magarínssköku og kærðu hann fyrir sýslumanni (líklega hefur kakan þá kostað 30 aura).
Jóhann er þegar tekinn fastur og settur í tukthús, sem þá var útbygging við húsið Borg við Heimagötu.
Formanni hans, Árna Ingimundarsyni, er tilkynnt, hvernig komið er fyrir Jóhanni. Fór Árni þá strax til Guðjóns Þorvaldssonar, því Jóhann var hans maður og segir að hann verði að leggja sér til mann í stað Jóhanns. Guðjón tók því vel og segir að hann geti fengið einn af hásetum sínum og að það verði Sigurður Guðmundsson frá Núpi í Fljótshlíð, og var Árni ánægður með þessi málalok.
Á leiðinni frá Garðstöðum heim til sín að Brekku hitti Árni Pétur Pétursson í Vanangur og taka þeir tal saman.

Árni Ingimundarson formaður, Brekku í Vestmannaeyjum
Sveinbjörn Sigurðsson, Seljalandi undir Eyjafjöllum.
Nikulás Nikulásson, Geldingalæk á Rangárvöllum.

Pétur var skiprúmslaus, sökum þess, að bátur sá sem hann var á þennan vetur, Abraham að nafni, hafði farizt þá fyrir svo sem viku og Pétur bjargazt af honum. Falast Pétur nú eftir skiprúmi hjá Árna með bjóð sitt eins og þá var altítt við slíkar aðstæður. Árni kveður honum það velkomið.
Kallar nú Árni í róður næstu nótt.
Veður er gott um nóttina og fyrripart dags. Allir bátar voru á sjó þennan dag.
Þegar á daginn leið tók að hvessa af suðaustri og ýfðist sjór fljótt. Veður var orðið allrar aðgæzluvert upp úr miðjum degi.
Árni hafði lagt línu sína suður við Helliseyjarhraun þennan dag. Vélbáturinn Vestmannaey VE 104, en formaður á honum var Sigurður Ingimundarson á Skjaldbreið bróðir Árna, var næsti bátur við Ástríði á þessum slóðum.
Fiskur var mjög ör þennan dag, og fengu margir ágætan afla.
Bátarnir voru að tínast að landi fram eftir kvöldi, þar til allir voru komnir nema Ástríður. Hún kom aldrei.
Ýmsum getgátum er að því leitt, með hverjum hætti Ástríður hafi farizt. Sumir töldu, að hún hefði farizt af ofhleðslu, en öðrum þótti líklegra, að hún hefði fengið á sig brotsjó, sem keyrt hefði hana í kaf eða brotið hana. En þær gátur verða aldrei ráðnar.
Árni Ingimundarson átti sér svartstrútóttan hund, sem Blokk hét. Illa kunni hann við missi húsbónda síns.
Dögum saman eftir slys þetta var hundurinn stökkvandi um suður í Stórhöfðs, Brimurð og Litlhöfða.
Illa gekk mönnum að hæna hann að sér, þar til að lokum að Tómasi Guðjónssyni í Sjólyst tókst það.
Blokk var lengi eftir þetta í eigu Tómasar og fylgdi honum að Miðhúsum, er Tómas flutti þangað. Þegar Blokk var orðinn ellimóður var honum loks lógað og hann grafinn i hól í Miðhúsatúni og hóllinn eftir það nefndur Blokkhóll.

*


Árni Ingimundarson var fæddur í Miðey í Landeyjum 6. janúar 1877. Foreldrar hans voru hjónin Þuríður Árnadóttir og Ingimundur Ingimundarson er þar bjuggu. Hann kom til Vestmannaeyja kornungur maður og hóf sjómennsku. Snemma varð hann formaður og fór mikið orð af honum fyrir dugnað og aflasæld, bæði hér í Eyjum og á Austfjörðum.
Árni var ógiftur, en eina dóttur eignaðist hann, sem Ágústa heitir. Ólst hún upp hjá Sigurði föðurbróður sínum á Skjaldbreið, en er nú búsett í Þykkvabæ í Rangárvallasýslu.

*


Magnús Guðmundsson á Vesturhúsum var formaður á vélbátnum Hansínu veturinn sem Ástríður fórst. Þeir Árni og Magnús voru kunningjar. Eftir slysið dreymir Magnús eitt sinn draum þann, sem hér fer á eftir.
Magnúsi finnst að Árni Ingimundarson komi til sín og segi:
Svona fór það.
Við vorum búnir að fá mikinn fisk og báturinn orðinn hlaðinn. Þá sá ég stóran sjó koma. Kalla ég þá til Péturs og bið hann að láta lúguna yfir lestina. En Pétur datt á dekkið með lúguna í fanginu og á meðan reið sjór yfir bátinn, og þá var það búið.
Ég ætla að biðja þig að hirða mig, segir Árni að lokum við Magnús í draumnum.
Næsta dag réri Hansína á sömu slóðir og Ástríður fórst á, það er að Helliseyjarhrauni.
Hansína leggur þar línu sína og liggur yfir sinn venjulega tíma. Svo er farið að draga, og er Magnús formaður sjálfur við rúlluna.
Þegar búið er að draga nokkur bjóð, skrapp Magnús niður í lúkar að fá sér kaffisopa. Í sinn stað við rúlluna setti hann einn af hásetunum, sem var Sæmundur Ingimundarson í Draumbæ.
En þegar Sæmundur er nýtekinn við þessu starfi kemur dauður maður upp á línunni. Bregður þá Sæmundi og hættir drættinum um sinn. Í því krækist úr hinum dauða manni og hann sekkur og sást ekki eftir það.
Það þóttust hásetar á Hansínu hafa séð, að það var Árni Ingimundarson, sem upp kom á línunni.