Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1957/ Hinzta kveðja

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 13. febrúar 2018 kl. 19:53 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 13. febrúar 2018 kl. 19:53 eftir Viglundur (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit
Hinzta kveðja


Jóhann Pétur Sigurðsson var fæddur 12. nóvember 1923 hér í Vestmannaeyjum. Foreldrar hans voru þau hjón Vilborg Jónsdóttir og Sigurður Sigurðsson. Heimili þeirra var að Herjólfsgötu 12 hér í bæ, lengst af. Þar sá Pétur bernsku og æsku sína renna og náði þroska fullvaxins manns. Í hópi 6 alsystkina ólst Pétur upp, 3 voru eldri en hann og 2 bræður yngri. Auk þess átti Pétur 2 hálfsystkini.

Jóhann Pétur Sigurðsson.


Þegar Pétur var að alast upp, fór saman erfitt árferði og fátækt foreldra hans. Fór hann þá á mis við margt það, sem sjálfsagt er að veita börnum nú til dags. Þægindalítið var og þröngt húsnæði og létt pyngja foreldra oft á tíðum. En þau Sigurður og Vilborg voru vön harðri lífsbaráttu. Var því reynsla þeirra lærdómsríkt veganesti fyrir Pétur og systkini hans.
Pétur var ekki orðinn hár í loftinu, er lífsbarátta hans hófst upp á eigin spýtur, ef svo má að orði kveða. Ungur að árum fór hann í sveit og vann fyrir uppihaldi sínu sumarlangt ár eftir ár. Var þetta honum til þroska og svo léttis fyrir foreldrana. Ungur að árum hóf hann sjómennsku, er hann gerði að ævistarfi sínu. Þar lifði hann lengst af upp frá því og þar endaði lífsganga hans, á sjónum, 8. ágúst 1956, tæpra 33 ára gamall.
Pétur var um mörg ár á vélbátum og togurum. Þá fyrst á Helgafelli VE 32, og er nýsköpunartogararnir komu til landsins réðst hann á Bjarnarey VE 11 og var þar um árabil. Pétur sálugi var sérlega áhugasamur sjómaður, lá ekki á liði sínu og hlífði sér aldrei. Var hann því eftirsóttur sjómaður og skipti ekki oft um skiprúm. Stéttvís var hann í sjómannastétt og tók þátt í hátíðahöldum sjómannadagsins í einni eða annarri mynd iðulega.
Pétur var rétt um meðalmaður á hæð, léttur og lipur á velli. Hlédrægur og fáskiptinn að eðlisfari, orðvar og friðsamur. Lagði ekki illt til annarra hvorki í orði eða verki. Tryggur og traustur vinur þeirra, sem hann blandaði geði við.
Pétur giftist aldrei og eignaðist ekki afkomendur. Eftir að faðir hans dó, þá bjó hann með móður sinni um mörg ár í Jómsborg. Nú síðustu árin átti hann heimili hjá Gísla bróður sínum og Sigríði Haraldsdóttur konu hans.
Okkur sem þekktum Pétur, finnst hann hafa horfið alltof snemma af sjónarsviði lífsins. Verkefni hafði hann næg og björt framtíð mannlega séð gat beðið hans. En hér má ekki sköpum renna. Við ætlum eitt, en annar ræður og stjórnar. Fyrir ákvörðunum hans verða allir að beygja sig fyrr eða síðar. Einn í dag, annar á morgun. Sjómannastétt Vestmannaeyja er einum góðum liðsmanni fátækari eftir andlát Péturs. Skipsfélagar hans fyrr og síðar sakna hans og kveðja góðan dreng. Eftirlifandi ástvinum er færð samúð og þeim beðin blessun Drottins.

Deyr fé,
deyja frændr,
deyr sjalfr et sama;
en orðstírr
deyr aldrigi,
hveim es sér góðan getr.
Einar J. Gíslason.


Halldór Ágústsson


F. 26. okt. 1926. D. 9. jan. 1957


Yfir hátíðahöldum sjómannadagsins hin síðustu ár hefur í þessu byggðarlagi ljómað heiðríkja þeirrar hamingju, að engin dauðaslys hafa orðið á Eyjaflotanum. Þetta er meira undrunar- og þakkarefni en við einatt gerum okkur grein fyrir, þegar þess er gætt, hve geigvænleg og miskunnarlaus þau öfl eru, sem vanmáttugir menn eiga við að etja í fangbrögðum við vetrarmyrkur, storma og æðandi úthaf. Í dag hefur birtu brugðið og skuggaský dauðans byrgja sólu, er við rifjum upp harmsöguna, er gerðist hér í upphafi þeirrar vertíðar, sem nú er nýliðin.

Halldór Ágústsson.

7. jan. 1957 drukknaði Halldór Ágústsson af bát sínum Maí í fyrstu veiðiför.
Enn drúpir bærinn okkar, þegar þessa atburðar er minnzt, í söknuði og samúð. Við söknum afburðagóðs drengs og hugsum í djúpri samúð til ungrar ekkju, þriggja smábarna, foreldra, systkina og annarra ástvina Halldórs heitins.
Halldór Ágústsson var maður mikill vexti og mikillar lundar. Hógvær var hann í allri framkomu og hugljúfi hvers manns, sem hann umgekkst. Hann var hagleiksmaður og afkastamikill að hvaða verki, sem hann gekk. Átján ára að aldri hóf Halldór iðnnám við bátasmíði hjá Gunnari M. Jónssyni og lauk því námi með sæmd. Þó var það hafið, sem fyrst og fremst heillaði huga hans alla ævi. Ungur öðlaðist hann formannsréttindi og var m.a. fjögur ár með vélbátinn Freyju, sem hann einnig átti hlut í. Óbrotgjarn minnisvarði um afrek þessa kornunga manns eru húsin tvö, sem hann vann allra manna mest að að reisa hér í bænum okkar. Annað við Landagötu, sem hann byggði með og fyrir foreldra sína, hitt við Faxastíg, þar sem hann hafði búið sínu eigin heimili framtíð. Þangað voru þau hjónin nýflutt, þegar kallið kom svo óvænt og ógnþrungið.
Já, dauðinn er grimmur og miskunnarlaus. Það finnum við bezt, þegar ungir og þrekmiklir menn eru burtu kvaddir frá ótal óleystum verkefnum í þágu ástvina sinna og ættlands. En rík er sú þjóð og sú sjómannastétt, sem á marga svo mæta menn að missa sem Halldór Ágústsson var, og kann að meta og varðveita minningu þeirra. Sú huggun nægir þó ekki okkur vanmáttugum mönnum, sem vitum að fyrr en varir verðum við, hvert einasta eitt, að hníga fyrir ægivaldi dauðans. Þá nægir sú huggun ein að hafa lært að segja með auðmjúku og fagnandi hjarta: „Ég veit, að lausnari minn lifir. Hann mun síðastur ganga fram á foldu.“ Þá eignumst við sannfæringuna um að sólin er ekki horfin, þótt hulin sé hún dimmum sorgarskýjum. Þá getum við tekið undir orð sálmaskáldsins:

Já, grafar ógn skal ei né dauðans skuggar
mér ótta fá, því náðin Krists mig huggar.
að kveðja veröld veldur mér ei hryggð.
Ég hugrór dey, og dómi kvíði ég ekki
því dómarann minn bezta vin ég þekki.
Hans treysti ég tryggð.
Steingrímur Benediktsson.