Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 2006/Minning látinna

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 23. mars 2017 kl. 11:02 eftir Karibjarna2 (spjall | framlög) Útgáfa frá 23. mars 2017 kl. 11:02 eftir Karibjarna2 (spjall | framlög) (<br>)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit
MINNING LÁTINNA



Ívar Magnússon
F. 3. október 1923 - D. 13. nóvember 2005
Látinn er elskulegur bróðir og mágur, Ívar Magnússon. Hann var fæddur í Hvammi í Vestmannaeyjum 3. október 1923 og lést í Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 13. nóvember 2005. Foreldrar hans voru Gíslína Jónsdóttir f. 16. nóvember 1888, d. 22. mars 1984 ogMagnús Th. Þórðarson, kaupmaður, f. 24. desember 1876, d. 1. apríl 1955. Alsystkini Ívars eru: Halldóra, Sigríður, Gísli Guðjón, Óskar, Guðrún Lilja, Magnús, Klara, Þórður og Guðmundur. Systkini samfeðra eru: Þórarinn Sigurður Thorlacius, Magnús Sigurður Hlíðdal, Anna Sigrid, Hafsteinn, Axel og Ólafur Þorbjörn Maríus.
Ívar ólst upp á Skansinum í Vestmannaeyjum. Heimaklettur var næsti nágranni og innsiglingin við bæjardyrnar. Í austri blöstu við Elliðaey og Bjarnarey, í vestri Klifið og Eiðið. Á fallegu sumarkvöldi glóði himinninn yfír Eiðinu þegar sólin settist. Ívar var stóri bróðir í hópi 10 alsystkina sem upp komust. Hálfsystkinin voru 6 og höfðu þau meiri og minni viðveru á heimilinu. Þó rýmið væri ekki mikið, var alltaf nóg hjartarúm og fullsetinn bekkurinn. Fjaran og sjórinn heillaði unga drengi og varð leiksvæði þeirra. Þá var ekki talað um agavandamál. Pabbi flautaði í flautu þegar koma átti í háttinn eða ef farið var glannalega. Ungur fór Ívar til sjós, 2 sumur austur á Bakkafjörð, og réri þar á trillu á handfærum. Síðan á varðskipið Ægi og hér í Eyjum á Baldur með Haraldi Hannessyni. Þá lá leiðin í útgerð þegar hann keypti vélbátinn Mýrdæling með bróður sínum Axel og mági Sigurði Gissurarsyni og gerðu þeir hann út í nokkur ár. Eftir það var hann á togaranum Bjarnarey. Eftir sjómennskuárin varð hann verkstjóri í Hraðfrystistöð Vestmannaeyja hjá Einari Sigurðssyni. Árið 1950 varð örlagaríkt í lífi Ívars. Þann 7. janúar deyr Óskar, bróðir okkar, þegar Helgi fórst við Faxasker og þeir bræður, Ívar og Magnús, taka berklabakteríuna og eru lengi á Sjúkrahúsi Vestmannaeyja. Þar kynntust þeir konuefnunum sínum sem þar störfuðu. Ívar Ursúlu og Magnús Birnu svo að tvöfalt brúðkaup var haldið 7. október 1951 á afmælisdegi Birnu.
Úrsúla Knoop hjúkrunarkona hafði komið frá stríðshrjáðu Þýskalandi í atvinnuleit. Hún var einkadóttir Maríu og Friðriks Knoop kennara. Ívar og Úrsúla eignuðust 4 börn, Friðrik Örn, Guðjón Tyrfing, Magneu Maríu og Óskar. Eftir nokkur ár hér í Eyjum flytur fjölskyldan til Keflavíkur þar sem Ívar varð verkstjóri hjá Hraðfrystistöð Keflavíkur og seinna hjá Áhaldahúsinu þar í bæ. María, móðir Úrsúlu, flutti til þeirra eftir lát eiginmanns síns og var eins og ein af fjölskyldunni, fyrst í Keflavík og síðar í Garðinum eftir að þau fluttust þangað.
Ívar bjó fjölskyldunni sælureit á Laugarvatni. Fyrst í innréttaðri rútu og seinna í glæsilegum sumarbústað, þar dvöldu þau oft. Ívar og Ursúla voru dugleg að ferðast bæði innan - og utanlands, oft til Þýskalands fyrir og eftir sameiningu að hitta frændfólk Úrsúlu í Austur - Þýskalandi, einnig oft til Kanaríeyja eftir starfslok þeirra. Mikill harmur var kveðinn að fjölskyldunni þegar ungur sonarsonur þeirra, Ívar Guðjónsson, lést sviplega í september 2003. Við hjónin og dætur okkar þökkum Ívari samfylgdina og vottum Ursúlu og fjölskyldunni allri dýpstu samúð.

Þórður Magnússon og Hrönn Hannesdóttir

Jón Árni Jónsson
F. 29. febrúar 1948 - D. 3. janúar 2006
Jón Árni Jónsson var fæddur á Eyrarbakka 29. febrúar 1948. Foreldrar hans voru Jón Valgeir Ólafsson, fæddur á Bakka í Ölfusi 22. janúar 1915, dáinn 3. desember 2003, sjómaður og síðar verkstjóri og Guðrún Bjarnfinnsdóttir, fædd í Björgvin á Eyrarbakka 1. mai 1923, dáin 29. janúar 1989, húsmóðir og verkakona. Jón Árni var fjórði í röðinni af níu systkinum. Ungur, 14 ára, byrjaði hann til sjós á Eyrarbakka, var síðan á ýmsum bátum og skipum, m. a. Arnfirðingi í Grindavík, 1965 til 1969 og eitt sumar á flutningaskipinu Síldinni. Til Vestmannaeyja kom hann í ársbyrjun 1970 og átti hér heima til hinstu stundar.
Hér byrjaði hann á Björgu VE 5 hjá undirrituðum og síðan fórum við saman á Árna í Görðum VE 73 nýjan 1971 og vorum þar þangað til hann var seldur 1983. Hann var stundum háseti og líka kokkur, frábær að hvoru sem hann gekk. Eftir árin á Árna í Görðum var Jón Árni á eftirtöldum Eyjabátum: Sjöfn, Ófeigi, Styrmi, Skúla fógeta, Frigg, Sigurfara og Kristbjörgu fram yfir 1990. Eftir öll árin á sjónum fór Jón Árni að vinna í Vinnslustöð Vestmannaeyja þar til að hann varð þar fyrir vinnuslysi sem gerði hann nánast óvinnufæran. Reyndi þó að beita smávegis þegar trillurnar reru á haustin.
Jón Árni, frændi minn, var mjög góður skipsfélagi. Alltaf tilbúinn þegar kallað var, indæll, traustur, rólegur og yfirvegaður á hverju sem gekk. Árið 1998 keypti hann húsið að Brekastíg 36 og bjó þar til dauðadags. Síðustu árin voru honum erfið vegna heilsuleysis og hann lést á Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja eftir stutta legu þar 3. janúar s.l.
Bestu kveðjur ágæti frændi og vinur.

Guðfinnur Þorgeirsson

Kristján Gíslason
F. 30. nóvember 1930 - D. 21. júní 2005
Kristján fæddist á Bjargi í Norðfirði 30. nóvember 1930. Hann varð bráðkvaddur á heimili sínu á Seyðisfirði 21. júní 2005. Foreldrar hans voru Gísli Kristjánsson frá Sandhúsi í Mjóafirði og Fanný Ingvarsdóttir frá Ekru í Norðfirði. Önnur börn þeirra og systkini Kristjáns eru: Margrét, lngvar, María, Ásdís og Tryggvi. Kristján ólst upp við mikil umsvif föður síns í útgerð í Norðfirði og tók ungur þátt í öllu sem að sjónum laut. Árið 1945 fluttist fjölskyldan búferlum til Akureyrar og þar hélt Gísli áfram útgerð og sá um uppbyggingu Slippstöðvarinnar. Áhugi Kristjáns á sjómennsku dvínaði ekki og að afloknu gagnfræðaprófi í Gagnfræðaskóla Akureyrar stefndi hugurinn á sjóinn og sjómennsku sína hóf hann á Sæfinni EA 9 sem gerður var út á síldveiðar af föður hans. Þá var hann um tíma á Auði EA, en skipstjóri var Baldvin Sigurbjörnsson síðar tengdafaðir hans.
Síðutogararnir voru mikil skip og heilluðu unga menn. Kristján var um árbil á togurum frá Akureyri, lengst með Sæmundi Auðunssyni á Kaldbaki EA. Árið 1951 lauk hann hinu meira stýrimannaprófi frá Sjómannaskólanum í Reykjavík og varð síðar stýrimaður á togaranum Elliða frá Siglufirði.
Þegar hér var komið, hafði Kristján fest ráð sitt. Hinn 3. september 1949 gekk hann að eiga Erlu Baldvinsdóttur frá Akureyri. Þau Kristján og Erla eignuðust 6 börn sem eru þessi: Gísli fæddur 1948, Baldvin Kristján fæddur 1953, Páll fæddur 1955, Snjólaug fædd 1956, Finnur fæddur 1960 og óskírt stúlkubarn fætt 1962.
Árið 1957 tók Kristján við skipstjórn á togaranum Norðlendingi sem áður var Bjarnarey VE. Í janúar 1959 var hann með Norðlending við veiðar á Nýfundnalandsmiðum og lenti í aftakaveðri sem mörgum varð minnisstætt þegar togarinn Júlí frá Hafnarfirði fórst með 30 manna áhöfn. Taldi Kristján það vera það tvísýnasta sem hann hefði lent í, mikil veðurhæð, frost og mikil ísing fylgdi. Haft hefur verið eftir Sigurði Kristjánssyni, sem var stýrimaður á Norðlendingi, að skipt hafi sköpum áræði og útsjónarsemi Kristjáns að svo giftusamlega tókst að snúa skipinu undan veðri og sigla suður í hlýrri sjó.
Árið 1960 keypti Kristján 10 lesta bát sem var byggður á Sauðárkróki og gaf honum nafnið Sæfinnur. Gerði Kristján út frá Sauðárkróki á línu og handfæri. Árið 1963 söðlaði fjölskyldan um og fluttist til Vestmannaeyja. Í Eyjum varð Kristján stýrimaður á Sindra hjá Grétari í Vegg eina vetrarvertíð og sumarúthald á trolli. Síðan tók hann við skipstjórn á Sindra og var farsæll. Best létu honum togveiðar. Eftir Sindra tók hann Mars hjá sama fyrirtæki, Fiskiðjunni, þar sem Ágúst Matthíasson var í forsvari. Bar Kristján Gústa Matt alltaf gott orð. Mars var góður vertíðarbátur en allt má bæta og var ráðist í miklar breytingar á bátnum. Voru þær framkvæmdar í Eyjum og tókust vel og talaði Kristján alltaf um Marsinn sem gott skip. Á árunum sem Kristján var með hann keypti hann, í félagi við Friðrik Friðriksson, Gylfa af Fiskiðjunni og var Friðrik með hann á togveiðum. Seinna keyptu þeir annan bát, Mjölni, og gerðu út á togveiðar. Þegar Kristján hætti á Marsinum, tók hann við skipstjórn á bátum hjá Einari Sigurðssyni og var lengst með Álsey, fram undir eldgos.
Í eldgosinu 1973 fluttust Erla og Kristján upp á fastalandið og var Kristján við ýmis störf í landi lengst hjá SÍF og sá um fermingu á saltfiski. Á þessum tíma slitu þau Erla og Kristján samvistum en áttu gott samband alla tíð.
Sjómennskan átti allan hug Kristjáns og að því kom að ekki var lengur setið í landi. Keypti hann trilluhorn sem hann gerði út á Lofotenlínu í frístundum sínum jafnhliða störfunum hjá SÍF. Ekki dugði það honum til lengdar, hætti þar og keypti sér stærri bát. Ekki hugnaðist honum að gera út frá Reykjavík og fluttist til Seyðisfjarðar. Þar átti hann gott ár við sjósókn og fannst allar heilladísir sér hliðhollar. En sjómenn þekkja vel að skjótt skipast veður í lofti. Heilsa hans brast og síðustu 15 ár lífs síns átti hann við mikið heilsuleysi að stríða uns yfir lauk.
Genginn er góður drengur og vinamargur.
Kveðja

Gísli Kristjánsson

Bjarni Bjarnason
F.14. desember 1922 - D. 30. nóvember 2005
Bjarni Gísli Bjarnason var fæddur á Siglufirði 22. desember 1922. Foreldrar hans voru Bjarni Gíslason sem fórst áður en Bjarni fæddist, 12. mai 1922 þegar vélbáturinn Samson fórst í hákarlalegu og Margrét Guðfinna Bjarnadóttir sem dó 30. janúar 1968. Þrjá bræður átti Bjarni, þá Sören Karl sem lifir og býr á Sauðárkróki en hinir voru Bjarni Daníel Friðbjörn og hálfbróðirinn Jón.
Bjarni bjó með Sigríði K. Bjarnadóttur sem dó 11. febrúar 1978. Saman ólu þau upp Halldór Ragnarsson sem var fæddur á Siglufirði 2. október 1938. Þeir Bjarni og Halldór héldu saman heimili eftir lát Sigríðar.
Bjarni var ótrúlegur harðjaxl, sjómaður og verkamaður sem alla tíð vann eins og líkaminn þoldi. Hann þekkti ekki annað en að taka á í lífinu. Bjarni tengdist okkur feðgunum frá Löndum vináttu - og tryggðarböndum sem byggðust á þeirri virðingu sem við berum fyrir dugnaðarforkum og listamönnum til allra verka eins og Bjarni var. Pabbi og Bjarni kynntust fyrst þegar þeir voru saman hásetar á togaranum Elliða frá Siglufirði þar sem afi minn, Ásmundur Friðriksson, var skipstjóri. Bjarni var skörinni hærra settur en pabbi, hann var hausari. Saltað var um borð og vinnan var svakaleg. Þessi smávaxni maður þótti mikill hausari sem beitti hausingarsveðjunni af list. Tvö nett hnífsbrögð inn með kinninni og hann reif hausinn af svo hnakkastykkið fylgdi með. Það hafði enginn við karlinum hvort heldur það var eftir fyrsta halið í túrnum eða það síðasta í skítabrælu á 35. degi og skipið orðið fullt upp í lúgur af flöttum saltfiski.
Hann var líka á Ingvari Guðjónssyni, Hafliða o. fl. skipum frá Siglufirði. Bjarni var listamaður til allra verka og umgengni. Það er líka list að vera góður sjómaður og afburða flatningsmaður. Hann var ekki listamaður eins og þeir sem sækja kaffihúsin og bulla út í eitt um einskis verða hluti og sötra bjór. Bjarni gerði minna af því að tala, hann gat verið glettinn og hláturmildur en lét sér oftast nægja að láta verkin tala og þegar hann fékk sér í glas þá var það ekki samkvæmt einhverjum Dagsbrúnartöxtum frekar en vinnan.
Þau Sigga og Bjarni fluttust til Vestmannaeyja í ársbyrjun 1964. Hann réði sig í skiprúm hjá pabba á Öðlingi Ve 202 og á þeim árum voru oft sagðar hetjusögur af honum í eldhúsinu á Grænuhlíð 18. Hann réri seinna á Elliðaey hjá Gísla Sigmars, Baldri hjá Hanna í Fagurlyst o.fl. Bjarni var fíngerður maður, hafði ekki þetta jaxlaútlit sem hann sannarlega var. Stakk aðeins við þegar hann gekk, hokinn og leit niður fyrir sig, gjóaði þó augunum annað slagið á samferðamenn sem honum komu ekkert við. Síðustu starfsár Bjarna var hann hjá mér í aðgerð og hrognavinnslu. Hann hafði því starfað með okkur, þremur kynslóðum frá Löndum. Í aðgerðinni átti enginn möguleika í karlinn, hann sjötugur og strákarnir úr Stýrimannaskólanum trúðu ekki eigin augum, slíkur var krafturinn og vinnugleðin. Kafftímarnir og pásurnar voru stuttar hjá okkar manni, drakk kaffibolla, reykti eina sígarettu, kveikti í annarri, stóð upp og sagði: „Ási hvur djöfullinn er þetta, á að sitja hér í allan dag?“ Þá gat hann fengið eitraða sendingu frá samstarfsfólkinu sem var búið að fá nóg. Slíkum athugasemdum var alltaf svarað eins: „Éttan sjálfur,“ hurð kaffistofunnar skellt, hnífurinn stálaður, blóð- og slorslettur þeyttust út á gólf og upp í loft þegar hnífnum var brugðið aftur í gotraufína, skorið frá og innyflin lágu laus þegar hann renndi þeim nett í slorrennuna, auðvelt, hann var listamaður karlinn. Þá var Bjarni dixelmaður eins og þeir gerast bestir, sló til hrognatunnumar, eitt högg og gjörðin flaug af, dixlinum skellt út við tunnustafinn og lokið laust. Hann hataði sænska hrognakaupmenn. Þegar þeir tóku hrognin og höfðu þrýst tunnurnar, stundum kvartað yfir vigtinni, fengu þeir kaldar kveðjur. Þá leit hann til mín, gretti sig og sagði gjarnan: „Ási eigum við ekki að festa nokkrar hrognabrækur utan á gjarðirnar fyrir helvítin?“ Hann þekkti það frá síldarárunum á Siglufirði að ágirndin var þeim í blóð borin.
Með Bjarna eru þeir að heyra sögunni til, orginalarnir, sem hófu starfsævina um fermingu við slíkar aðstæður að í dag væru menn lokaðir inni fyrir minni sakir en að bjóða tölvukynslóðinni upp á slíkt. Ég vil þakka honum samstarfið og tryggðina við okkur feðga alla tíð. Það var lærdómsríkt að vinna með slíkum manni sem gerði ekki meiri kröfur til lífsins og lífsgæðanna. Bjarni Bjarnason hefur barið nestið eftir langan vinnudag og þeir sem hann vann fyrir uppskáru trúlega meira en hann. Ég má til með að láta eina góða sögu fylgja. Bjarni var að drekka, í landlegu, með vini sínum sem átti veiðarfærakró á Siglufirði. Siggu var farið að leiðast drykkjan og fór í króna að finna Bjarna. Hún kom nokkrum sinnum en vel var fylgst með og Bjarni faldi sig þegar til hennar sást. Þeir félagarnir gerðust nú þreyttir á þessu og ákváðu að hóta henni með haglabyssu sem vinurinn átti. Aftur kom Sigga og Bjarni faldi sig á bak við beitustampa þegar hún birtist. Eftir smá þras við vininn tekur hann upp haglabyssuna og hótar henni ef hún láti þá félagana ekki í friði. Þegar hávaðinn var hvað mestur, lyfti hann byssunni og hleypir af upp í gegnum þakið til viðvörunar og hræðir Siggu út. Þá sprettur Bjarni á fætur og kallar: „Lá hún?“

Ásmundur Friðriksson.

Sigurjón Ólafsson
F. 25. janúar 1918 - D. 14. ágúst 2005
Sigurjón Ólafsson (Siggi í Bæ) var fæddur í Litlabæ , sonur Ólafs Ástgeirssonar, bátasmiðs og sjómanns, f. 3. ágúst 1892, d. 8. apríl 1966 og Kristínar Jónsdóttur, sem átti ættir að rekja undir Fjöllin og til Skaftártungu, f. 19. apríl 1885, d. 17. september 1943.
Systkini Sigga voru, Magnea Sigurlaug, f. 19. nóvember 1911, d. 20. mars 1980, Ástgeir Kristinn (Ási í Bæ) f. 24. febrúar 1914, d. 1. mai 1985 og Sigrún f. 23. júlí 1924, d. 21. mars 1948. Seinni kona Ólafs var Guðrún Sigurðardóttir f. 9. september 1920, d. 19. apríl 1993. Sonur þeirra er Kristinn R. Ólafsson (í Madrid) f. 11. september 1952.
Tíu ára gamall fer Siggi í sveit til ættingja móður sinnar að Holti á Síðu og var þar nærfellt í fjögur ár. Hann var fermdur frá Prestbakkakirkju á Síðu og hafði þá lokið einnar viku skólanámi í sveitinni en drjúgu heimanámi.
Hjónin í Holti hétu Björn Runólfsson, hreppstjóri og Marín Þórarinsdóttir. Jón Björnsson rithöfundur var sonur þeirra. Annar sonur þeirra hét Runólfur og var prentari og leit Siggi á hann eins og bróður sinn. Siggi sagði mér að í Holti hafi hann átt sín bestu æskuár. Fólkið var einstaklega gott við hann og honum hefði aldrei verið skipað að gera hlutina heldur beðinn um að gera þetta eða hitt. Það var til þess að hann fór til snúninga með gleði og ánægju. Má segja að í Holti hafi Siggi lært áhrifaríka aðferð til að stjórna mannskap síðar á ævinni. Þegar hann kemur heim byrjar hann að róa á trillum. Sautján ára gamall tekur hann við stjórn Hlýra VE 305 3,48 brl. trillu. Þessa trillu smíðaði faðir hans, Ólafur Ástgeirsson, en hann var afkastamikill og smíðaði hátt í fjögur hundruð báta á sinni löngu starfsævi. Fyrsti vélbáturinn, sem Siggi var formaður á, hét Ófeigur VE 324, 21 brl, Síðan er hann með eftirtalda báta:
Herjólf VE 276, 22 brl, Sleipni VE 280, 11 brl. sem hann átti hlut í frá árinu 1946 þar til hann var seldur til Djúpavogs í ágúst 1949, Ágústu VE 350, 65 brl, Gottu VE 108, 35 brl, Gylfa VE 201, 47 brl, Öðling VE 202, 52 brl, sem hann tók við nýjum árið 1957. Síðan kaupir hann bát með Guðna Runólfssyni frá Steini, og skírir hann Hrímni VE 30. Þessi bátur var Ófeigur, sem Siggi hafði verið með og var lengdur 1948 og var 28 brl. Siggi selur þennan bát 1961. Tekur við formennsku á Sævaldi SU 2, 53 brl. sem Alfreð og Kristján Gústafssynir, mágar hans, gerðu út frá Hornafirði. Árið 1966 kaupir hann Hvíting Ve 21, 7 brl. og er með hann næstu 19 árin. Árið 1985 selur hann Óla Tótu, syni sínum, Hvíting. Óli hafði róið með föður sínum í mörg ár og þekkti því bátinn vel. Hvítingur fórst á Landsuðurshrauninu 2. september 1987 í óvæntu austan óveðri og með honum félagarnir, Guðfinnur Þorsteinsson og Óli. Hann Óli var gæddur svo mikilli réttlætiskennd að við æskufélagar hans töldum víst að breyting yrði á kerfinu þegar hann hitti Alvaldið. Sama ár og hann selur Óla Hvíting, kaupir hann trilluna Byr VE 150 3,28 brl. Á Byr rær hann í 16 ár, til ársins 2001 og lýkur sjómennsku sinni sem staðið hafði í 69 ár, þá 83 ára. Ástæða þess að hann hætti, sagði hann vera að hann væri orðinn hálfþreyttur í fótunum.
Í mars 1941 giftist Siggi, Þórunni Gústafsdóttur, sem var ættuð frá Djúpavogi, fædd 4. desember 1914, dáin 2. mai 1995 (kölluð Tóta). Hún var flink saumakona og lét sig ekki muna um að sauma herraföt á karlana sína.
Hjónaband þeirra var farsælt og varð þeim þriggja barna auðið; Óli fæddur 7. ágúst 1940, lést 2. september 1987, Mary, veitingakona, fædd 26. júní 1946 og Sigrún, húsmóðir, fædd, 21. ágúst 1949.
Tóta var einstaklega glaðlynd og hjartahlý kona og var henni eðlislægt að vera sannfærð um að vinir barna hennar væru alltaf svangir og nutu margir góðs af því. Ekki hefur undirritaður smakkað betri kleinur en við eldhúsborðið á Sólnesi. Siggi í Bæ var lengst af sjómennskutíð sinni skipstjóri og var mjög farsæll í starfi, fiskaði alltaf vel, án streðs og fór vel með. Hann var maður hæglátur og lét lítið yfir sér en tilbúinn að ræða landsins gagn og nauðsynjar við vini sína sem ekki komu að tómum kofanum þegar hann var annars vegar. Stundum færði hann rök fyrir málstað sínum í vísuformi enda átti hann auðvelt með að yrkja eins og bróðir hans Ási í Bæ. Hann hafði eindregnar skoðanir á umgengni okkar um veiðislóðir í kringum landið og var ekki ánægður með þróun mála. Eins og fyrr sagði, hafði Siggi verið á trillum með föður sínum og frændum áður en hann tók við formennsku á stærri bátum og lærði það sem læra þarf um siglingu um sollinn sæ enda öruggur og gætinn stjórnandi alla tíð.
Það var því vel við hæfi að hann bauðst til að fara út að Faxaskeri að kveldi 7. janúar 1950, á Gottu VE 108, sem var 35 tonna bátur, í SA 15 vindstigum, og halda þar sjó með fullum ljósum þeim tveim mönnum til stuðnings og uppörvunar sem komust upp á Faxaskerið, eftir að Helgi VE 333 hafði strandað þar og brotnað í spón. Í bókinni Þrautgóðir á raunastund er þessi lýsing: „Um nóttina bárust þær fréttir að hætt væri að heyrast í vélbátnum Gottu. Stöðugt var reynt að kalla bátinn upp en ekkert svar fékkst. Talið var hugsanlegt að loftnet hans hefði slitnað niður í fárviðrinu en um tíma var óttast að eitthvað hefði komið fyrir. Um hádegi bárust þó fréttir um að allt væri í lagi um borð í bátnum og höfðu tilgáturnar um að loftnetin hefðu slitnað