Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 2006/Í fárviðri við Grænland

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 30. ágúst 2019 kl. 14:52 eftir Vpj1985 (spjall | framlög) Útgáfa frá 30. ágúst 2019 kl. 14:52 eftir Vpj1985 (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit
MATTHÍAS INGIBERGSSON


Í fárviðri við Grænland Á Keflvíkingi KE 19


Matthías Ingibergsson

Á árinu 1953 var ég háseti á Keflvíkingi KE 19, nýsköpunartogara Keflvíkinga. Skipstjóri var Ásmundur Friðriksson frá Löndum í Vestmannaeyjum. Ég hafði byrjað togarasjómennsku mína hjá honum á Elliðaey VE 10, nýsköpunartogara okkar Vestmannaeyinga, og líkað vel.
Nýsköpunartogararnir voru síðutogarar sem ríkisstjórnin, svokölluð nýsköpunarstjórn, lét smíða í Englandi eftir lok síðari heimsstyrjaldarinnar. Í fyrstu 32 skip, sem voru um 650 til 660 tonn að stærð. Nokkur voru lengd, að ósk eigenda þeirra, og voru stærri í samræmi við það. Síðar bættust 10 við sem voru um 730 tonn. Öll voru þau með eitt þúsund hestafla, olíukyntar, gufuvélar. Þetta voru sterk og góð skip sem fiskaðist mikið á og oft var þeim mikið boðið í vitlausum veðrum bæði við veiðar og á siglingu. Þau dreifðust á ýmsar hafnir landsins og voru í upphafi talin glæsilegustu og kraftmestu fiskiskipin í Norður - Atlantshafi.

HALDIÐ Á KARFAMIÐIN VIÐ VESTUR GRÆNLAND
Hér ætla ég að segja frá karfatúr, á Keflvíkingi, á miðin fyrir vestan Grænland í nóvember 1953.

Við vorum þrjátíu í áhöfn eins og algengt var á þessum skipum, góður mannskapur og var alltaf fullmannað hjá okkur, m.a. góðir strákar héðan úr Eyjum og frá Siglufirði ásamt Suðurnestjamönnunum. Við höfðum farið nokkra túra á þessi mið og fiskað vel, alltaf fullt skip, um 280 til 290 tonn af ísuðum karfa, venjulegast eftir 3 til 4 daga. Enda var karlinn mikill sérfræðingur þegar karfinn var annars vegar. Ýmist var verið á miðunum úti af Julianehaab, Fyilubanka, Nafnlausabanka svokölluðum, úti af Nuuk eða Sukkertoppen. Þeir voru fleiri bankarnir þarna sem oft gáfu góðan afla. Mér er það minnisstætt að á leiðinni vestur heyrðum við í fréttunum þegar Eddu, síldveiðiskipi frá Hafnarfirði, hvolfdi og hún sökk á Grundarfirði 16. nóvember þetta ár. Með henni fórust 9 af 17 manna áhöfn. Aðfararnótt þess 15. skall á suðvestan stórviðri sem stóð í 3 sólarhringa. Það var stormsveipur í þessu fárviðri sem hvolfdi skipinu.

Keflvíkingur GK 197, síðar Keflvíkingur KE 19. Myndin er í eigu Byggðarsafns Reykjanesbæjar

Þegar við nálguðumst Hvarf á Grænlandi, var töluverð bræla en áfram var haldið. Þá lentum við inni í ís. Upplýsingar um ísrek lágu þá ekki á lausu eins og nú. þetta voru litlir stakir jakar sem sáust illa eða ekki í radar. Ásmundur kallaði á aukavakt í brúna þegar við urðum varir við ísinn. Tveir voru settir við glugga sitthvoru megin og sjálfur var hann sem næst í miðri brú, vakthafandi stýrimaður var á radarnum og maður á stýrinu, samtals sjö í brúnni. Skyndilega og án viðvörunar fengu þeir, sem voru stjórnborðsmegin, á sig gusu sem drap á sígarettunum hjá þeim. Við lentum svo nálægt einum jakanum í myrkrinu að frákastið frá skipinu, sem skall á honum, kom þaðan og til baka á brúna með fyrrnefndum afleiðingum. Jakinn var á stærð við hálft skipið og hliðin sem að okkur sneri var íhvolf.

VEIÐARNAR

Áfram var haldið, veðrið batnaði og við losnuðum úr ísnum. Frá Hvarfi var haldið norður með Grænlandi að vestanverðu. Þegar við komum á miðin, var strax mikið og gott fiskirí og veðrið var gott. Togað var stutt hverju sinni, vandinn var að sprengja ekki. Við vorum einskipa þangað til rétt í lokin. Eftir rúma þrjá sólarhringa var allt orðið fullt nema hálfur ísklefinn, um fjögur tonn. Þá um miðnóttina fór Ásmundur í koju og bað stýrimanninn að taka eitt hal í viðbót og setja stefnuna síðan suður fyrir Hvarf. Þá var byrjað að kalda og veðurspáin var slæm, norðan stormur í aðsigi. Við festum fljótt en vel gekk að ná því og lítið var rifið. Kastað var strax aftur en þá ókláraðist trollið og aftur var híft. Þegar við vorum að brasa við það, kom Ásmundur aftur upp og var þá allt tekið inn og sett á ferð undan sjó og vindi sem fór ört vaxandi. Strax var gengið í að sjóbúa, trollið bundið upp, lúgur skálkaðar, dekkuppstillingin tekin upp og farið með hana fram undir hvalbak bakborðsmegin þar sem hún var höfð á stímum og pokabómurnar voru settar í stæði sín frammi á hvalbaknum.

Ásmundur Friðriksson

Ég fór upp í vant stjórnborðsmegin og annar bakborðsmegin til þess að losa þær og tveir voru frammi á hvalbak að taka á móti þeim. Þegar þarna var komið, kom mikill sjór að aftan yfir skipið. Hann tók yfir báða björgunarbátana, yfir keisinn og undir brúarvængina, spilið framan við brú var á kafi og lunningar og dekk fram undir hvalbak. Við, sem vorum uppi í vöntunum, og þeir, sem voru á hvalbaknum, sáum þetta vel. Sem betur fer, voru aðrir af dekkliðinu þar frammi svo ekkert manntjón varð. Fáum mínútum áður voru karlarnir á vaktinni að störfum um allt dekkið. Varla er annað hægt en að ímynda sér að stórslys hefði orðið ef sjórinn hefði komið þá. Eitthvað af plönkunum fór útbyrðis því ekki var búið að súrra þá niður. Það var lán að búið var að loka báðum keishurðunum, aftur í göngum, á stjór og bak. Það var alltaf gert í vondum veðrum. Þá var farið eftir keisnum og niður um kappa sem var á honum. Var það kallað að fara heiðina. Veðrið var orðið snarvitlaust, stormur og stórsjór.

Það leið töluverð stund áður en skipstjóranum tókst að snúa skipinu upp í. Hann sneri því í stjór og það lagðist svakalega á bakborðssíðuna á meðan. Strax var lokið við að sjóbúa, vírar strengdir yfir dekkuppstillinguna, gröndurunum lásað í bobbingaendana og þeir strengdir upp. Það var ekki alls staðar gert en Ásmundur hafði það fyrir fasta reglu á stímum að og frá miðunum og í siglingum. Það var góður siður. Þá átti sjór, sem kom inn á dekk, miklu greiðari leið út um lensiportin.

HEIMSIGLINGIN

Við vorum hissa á, eftir að ósköpin dundu yfir, hvað lítill sjór fór fram í og niður í lúkarana. Það var alls ekki mikið. Við slóuðum upp í í fimm til sex klukkustundir, í aftaka veðri, ásamt 5 eða 6 öðrum togurum sem þarna voru komnir. Við vorum þeir einu sem vorum með fullt skip. Þrátt fyrir það fór allt vel. Þegar snúið var undan og stefnan sett suður fyrir Hvarf, var enn stórviðri. Lensað var á reiðanum einum, einstöku sinni sett á ferð til þess að snúa skipinu undan veðrinu svo því slægi ekki flötu.

Marga undanfarna Sjómannadagsmorgna hafa hjónin í Höfðabóli, Halldóra Filipusdóttir og Árni Johnsen. boðið sjómannadagsráði, mökum þeirra og börnum í morgunverð. Þessi mynd er frá Sjómannadagsmorgninum 2005. F. v.: Guðjón Gunnsteinsson, Valmundur Valmundsson, Björg Baldvinsdóttir, Óttar Gunnlaugsson, Grettir I. Guðmundsson. Nanna Sigurfinnsdóttir, Ágústa Kjartansdóttir, Sara Sjófn Grettisdóttir, Þorbjörg Lind Óttarsdóttir. Halldór S. Haraldsson. Sigurður Sveinsson. Hrönn Harðardóttir. Kolbrún Inga Stefánsdóttir. Anna Halldórsdóttir, Hrafnhildur Stefánsdóttir, Þóra Ólafsdóttir, Sveinn Sigurðsson. Svava Gunnarsdóttir, Gunnar Þór Stefánsson, Helga Símonardóttir með barnabarnið Helgu Lind, Þórhildur Ólafsdóttir, Stefán Birgisson, Halldóra Filipusdóttir og Árni Johnsen

Þegar við vorum komnir suður fyrir Hvarf, fór veðrið mikið að skána og hélst gott alla leiðina heim. Einhverju sinni á leiðinni, þegar ég var við stýrið, klappaði Ásmundur á öxlina á mér og sagði: „Hingað förum við ekki aftur í vetur Matti minn“

Við vorum heppnir með fullt skip af góðum karfa eftir rúma þrjá sólarhringa á veiðum. Ekkert varð að um borð hjá okkur í þessu veðri með skipið drekkhlaðið. Og það var mikið lán að engin var ísingin. Hin skipin gerðu það ekki eins gott og á einu þeirra skemmdust nokkrar plötur í botninum í mestu látunum og varð að taka það í slipp til viðgerðar við heimkomuna.
Þeir eru margir góðir sjómennirnir, skipstjórarnir, sem ég hef verið með.
Ásmund á Löndum tel ég vera með þeim albestu.

>