Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 2004/ Sveitapiltur fer í útver

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 31. júlí 2019 kl. 15:36 eftir Vpj1985 (spjall | framlög) Útgáfa frá 31. júlí 2019 kl. 15:36 eftir Vpj1985 (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit
EINAR ÞORSTEINSSON



Sveitapiltur fer í útver



Einar Þorsteinsson

Það var nokkru fyrir áramótin 1946-1947 að ég ákvað að fara eitthvert í útver og þá helst á vertíðarbát í einhverri verstöð. Ég var orðinn 19 ára og hafði unnið lengst af með foreldrum mínum og systkinum að bústörfum, en foreldrar mínir voru, Þorsteinn Einarsson og Jóhanna Margrét Sæmundsdóttir, bændur og bjuggu í Mýrdalnum í Holti og síðar í Nykhól í Dyrhólahreppi, eins og sveitarfélagíð hét þá. Hann var frá Holti og hún Stóra Dal. Það hafði lengi kúrt í mér að komast til náms og til að það gæti orðið þurfti ég að komast í góða vinnu og þá var upplagt að prófa sjómennsku á vélbát, sem var alveg ný lífreynsla fyrir mig. Ég hafði aðeins komið á sjó á árskipi frá Maríuhliðinu við Jökulsá en það var óveruleg reynsla af sjómennsku. Úr Mýrdalnum sést víða til Vestmannaeyja og úr hlíðum Péturseyjar sést vel til eyjanna fögru sem blasa við í vestri, en bærinn Nykhóll stendur undir því fjalli. Bræður mínir eldri höfðu farið á vertíðir til Eyja og höfðu unnið við aflann í landi.

Fram eftir síðustu öld hafði ungt fólk úr sveitum Suðurlands ekki síst úr Mýrdal, Eyjafjöllum og Landeyjum sótt mjög vinnu á vertíðum í Vestmannaeyjum og margt stofnað heimili þar. Það barst mikill auður upp til sveitanna frá þessum framsækna og farsæla útgerðarbæ og mikil tengsl menningar og vináttu mynduðust á þessum árum milli lands og eyja. Mörg börn úr Eyjum komu til sumardvalar í sveitunum og kynntust sveitarstörfum. Nú ætlaði ég að fylgja þessari hefð og leita mér fjár og frama í þessum útgerðarbæ sem ég sá í vestri frá heimili mínu og mér fannst sveipaður sérstökum ljóma sögunnar og var rómaður, sem ein helsta náttúruperla Íslands.

Hjónin Guðni Grímsson og Lovísa Sigurðardóttir

Þá var að finna sér stað og skipsrúm. Elín systir mín og mágur minn Þórhallur Friðriksson höfðu búið í Vestmannaeyjum en voru nú flutt í Mýrdalinn um þetta leyti. Þórhallur hafði unníð um tíma hjá Guðna Grímssyni, sem gerði út Maggý VE 111 og bjó á Helgafellsbraut 8. Ég bað nú Þórhall að ráða mig á bát og talaði hann við Guðna á Maggý snemma í janúar 1947 og var ég svo heppinn að fá skipsrúm hjá þessum farsæla formanni og skildi ég koma til Eyja seinni partinn í janúar. Þórhallur lagði ríka áherslu á að ég yrði að standa mig í nýju stöðunni og lofaði ég því og ásetti mér að ekkert skyldi buga mig hvorki sjóveiki né annað. Ég skyldi verða góður sjómaður, en vissi að margt var að læra og vonaði að góðir félagar kenndu mér nýju störfin. Ég fór svo til Vestmannaeyja seint í janúar með gamla Laxfossi, sem gekk frá Reykjavík. Við fengum heldur vont veður og ég gleymi ekki hvað skipið valt og hentist til þegar við fórum fyrir Reykjanesið. Ég var mjög sjóveikur og leyst nú hálf illa á ef ég yrði svona þegar róðrar byrjuðu. en eitt var ákveðið, ég skyldi aldrei gefast upp.
Þegar ég litaðist um á bryggjunni í Eyjum blasti við mér þessi vinalegi fallegi bær umgirtur háum fjöllum. Það var eins og byggðin kúrði þarna en fjöll og hæðir stæðu vörð um bæinn.
Ég kom mér svo á áfangastað að Helgafellsbraut 8, heldur óframfærinn ungur maður, sem var að fara að heiman í fyrsta skipti í atvinnuleit. Á Helgafellsbraut 8 bjuggu þá Guðni Grímsson formaður og útgerðarmaður á Maggý VE 111, ættaður af Stokkseyri og Lovísa Sigurðardóttir ættuð frá Skuld í Vestmannaeyjum. Var Lovísa úr stórum systkinahópi frá þessu húsi og virtist mér sú fjölskylda öll mjög vinsæl og njóta mikillar virðingar í Eyjum. Þau hjón á Helgafellsbraut áttu tvo börn Sigurð, sem var í gagnfræðaskóla og varð síðar formaður í Eyjum og Kristínu, sem var uppkomin stúlka en bjó við fötlun og lést hjá foreldrum sínum meðan þau enn bjuggu á Helgafellsbraut 8. Öllum sem dvöldu á heimilinu þótti vænt um Stínu, eins og hún var oftast kölluð.
Þegar ég kvaddi dyra var mér mjög hlýlega tekið af frú Lovísu en Guðni var ekki heima, en var að undirbúa bátinn sinn til að draga björg í bú sitt og jafnframt íslensku þjóðarinnar. Ég fékk þarna mjög góðar viðtökur eins og allir sem þar komu . Þetta var á þeim tíma þegar útgerðarmenn minni útgerða höfðu vertíðarmennina búandi á heimili sínu. Mig minnir að við höfum búið hjá þeim ágætu hjónum einir átta aðkomumenn. Það var nóg rými þótt húsið væri ekki mjög stórt. Við sem fórum á sjó fengum með okkur nestiskassa á sjóinn. Það var mikið starf hjá frú Lovísu að hafa allan þennan hóp í húsnæði og fæði, en hún hafði eina stúlku að hjálpa sér. Fæðið hjá frúnni var með eindæmum gott og mátti segja að það væri veislumatur alla daga.
Það voru lausir samningar, hjá Sjómannafélaginu, um þetta leiti og dró til verkfalls. Mig minnir að það stæði í þó nokkra daga en leystist 6. febrúar. Þá voru margir orðnir órólegir, allir sem komu að fiskvinnslu, sjósókn og allri afleiddri vinnu. Ég var mjög feginn þegar deilan leystist. Ég var þá ekki kominn til að horfa bara á Heimaklett.

Vélbáturinn Maggý VE 111 var byggður úr eik og furu, um 17 lestir að stærð með nýrri vél. Mér fannst þetta mjög fallegt skip og happasælt. Eins og fyrr segir var

Maggý VE 111

formaðurinn Guðni Grímsson, glæsilegur maður í sjón og þreklega vaxinn. Hann var mjög stilltur maður í framgöngu og ég bar strax mikið traust til hans. Við vorum fimm á línuvertíðinni og þrír menn beittu sem komu svo á sjóinn þegar netavertíðin byrjaði. Vélstjóri var Ögmundur Ólafsson á Litla-Landi, yndislegur maður snar og fjörugur og oft glettinn. Eiginlegir hásetar voru svo auk mín Albert Ólafsson frá Vopnafirði og í byrjun Ólafur Sigurðsson frá Skuld og síðar á vertíðinni kom í hans stað Magnús Jakobsson ættaður úr Mýrdal. Ég og Albert vorum óvaningar og minnist ég hvað Ólafur var laginn og þolinmóður að kenna okkur störfin.

Svo hófst sjómennskan. Fyrstu tvo dagana var rjóma sjóveður og ég var lítið sjóveikur. Mér fannst þetta gaman. Þá var til siðs á línunni að flotinn fékk merki þegar mátti leggja af stað mig minnir að það hafi verið um kl. 1. Það var gert til að hindra að bátar leggðu hver yfir hjá öðrum. Mér er það ógleymanleg sjón að sjá á annað hundrað vertíðarbáta leggja af stað úr höfn eins og þegar sauðfé er sleppt út úr fjárrétt. Þá var líflegt yfir að líta og afskaplega fallegt að sjá þessa miklu siglingu um há nótt.

Svo vildi til atvik í þriðja róðri, sem ég verð að segja frá fyrst ég er að rifja þetta upp. Við höfðum róið á eðlilegum tíma og farið nokkuð austur fyrir Eyjar. Mig minnir ekkert mjög langt frá Bjarnarey. Það var austan leiðinda veður og ég var talsvert sjóveikur en lét það ekkert á mig fá. Við höfðum lagt línuna en við byrjuðum að draga hana upp heldur fyrr en venja var vegna veðurs sem fór versnandi. Við höfðum dregið nokkuð af línunni þegar Guðni formaður skipar fyrir að skera á og setja út bauju. Ólafur Sigurðsson með reynslu sjómannsins gekk frá öllu sem best, meðal annars hafði hann skálkað lúguopið niður í lestina. Síðan var lagt af stað heim til Eyja. Guðni og Ólafur mágur hans voru staddir í stýrishúsi, Ögmundur vélstjóri var niðri að aðgæta vél og ég ásamt Albert vorum farnir niður í lúkar að fá okkur hressingu. Brast þá á skipið straumhnútur með ótrúlegum krafti og þunga og lagðist það á hliðina, en rétti sig við eftir nokkra stund. Það brast og gnauðaði í öllu skipinu og óvönu strákarnir 19 ára báðir í lúkarnum urðu yfir sig undrandi en höfðu víst varla vit á að verða hræddir. Við sátum við lúkarsborðið og ég vissi ekki fyrr en ég lá á bakinu upp við kojurnar og Albert sveif yfir mér á lúkarsborðinu. Svo rétti blessuð happafleytan sig. Miklar skemmdir urðu, allt lauslegt á dekki fór í sjóinn, lagningskarlinn brotnaði og hvarf í hafið og mig minnir að rúður í skýrishúsi hafi brotnað. Talstöðvarbúnaður varð óvirkur og margt fleira skemmdist. Guðni formaður lofaði það mjög að enginn var á dekki þegar ólagið reið yfir, taldi litlar líkur á öðru en þá hefði tekið út, einnig voru það verk Ólafs Sigurðssonar að skálka lestarop svo sjór komst ekki í lest, ef svo hefði verið hefði verið litlar líkur á að Maggý VE 111 hefði rétt sig og enginn til að segja frá leikslokum.

Heimilisfólkið á Helgafellsbraut 8 á vertíðinni 1947. Talið frá vinstri: Kristín Guðnadóttir, Lovísa Sigurðardóttir, Sigurður Guðnason, Guðni Grímsson, Albert Ólafsson, Óskar Auðunsson, Einar Lárusson, Einar Þorsteinsson, Magnús Lárusson, Helgi Þorgeirsson

Heima á Helgafellsbraut 8 gerðist önnur saga þessa nótt. Frú Lovísa Sigurðardóttir lagðist að sjálfsögðu til svefns þegar Guðni maður hennar var farinn á sjóinn. Dreymir hana þá draum sem hún réði svo að Maggý væri í mikilli hættu. Var hún mjög óróleg allt til þess að báturinn kom að landi. Létti þá öllum og kær var fundur þeirra hjóna, enda hjónaband þeirra með eindæmum gott. Þetta atvik hafði mikil áhrif á Guðna Grímsson. Það hefði verið þessum grandvara og tilfinningaríka manni mikil lífsreynsla að týna manni í sjóinn. Mig minnir að öll hans skipsstjórnatíð hafi verið með því láni að slíkt kom aldrei fyrir.
Þetta atvik hafði ekki mikil áhrif á mig m.a. vegna þess að ég gerði mér ekki grein fyrir hvað alvara þessarar stundar var mikil. Ég var alltaf sjóveikur ef þungt var í sjóinn, en ég var fyrirfram ákveðinn að láta það ekki buga mig eða koma niður á störfum mínum. Þessi vertíð var góð til aflabragða og ég man ekki eftir að nein slys yrðu. Það var á þessum tíma hætt að róa á sunnudögum, á línunni, og töldu allir að það hefði verið góð ráðstöfun.
Það var talsvert öðruvísi þegar netavertíð byrjaði, þá var róið seinna og fleiri menn á bátnum. Mér fannst öll þessi störf á sjónum skemmtileg, en sjóveikin var leíðinleg. Ég fann samt að starf bóndans stóð mér nær.
Það var þennan vetur sem Hekla gaus þann 29. mars. Gosið byrjaði að nóttu til. Við vorum þriggja tíma stím fyrir vestan Eyjar. Þetta var stórkostleg og ógleymanleg sjón að sjá eldinn vella uppúr fjallinu og greina gosmökkinn þótt hánótt væri. Við komum svo heim undir Eyjar um kl. 17. Þá var enn ösku- og vikurfall og talsverð aska og vikur í bænum. Það var mikið talað um gosið í talstöðvarnar. Það var mikill óhugur í formönnum og töldu þeir að þessar náttúruhamfarir myndu skemma vertíðina og hún yrði mjög endaslepp. Vertíðarmenn úr Fljótshlíð og Eyjafjöllum voru mjög áhyggjufullir um velferð sinna heimahaga, enda ekki að ástæðulausu. Það er mér minnisstætt að sigla inn í þessa ösku og vikur ofankomu heima við Eyjarnar. Það var með þetta eins og ætíð að öllum éljum styttir upp og öllum plágum linnir.
Mér féll ákaflega vel við allt fólk sem ég kynntist í Vestmannaeyjum, mér fannst það duglegt, gestrisið með eindæmum og afskaplega hjálplegt og vinsamlegt. Mér fannst vorkoman þar afar fögur og ég minnist þess þegar farfuglar, þó einkum lundinn, settu mikinn svip á árstímann. Mér hefur þótt mjög vænt um Eyjarnar síðan að ég var þar, þó það væri bara ein vertíð. Ég hef alltaf glaðst yfir góðum fréttum frá Eyjunum. Mér fannst alveg skelfilegt þegar stóreldgos hófst þar í janúar 1973, og ég sá í fjarlægð ósköpin úr stofuglugganum heima hjá mér í Sólheimahjáleigu í Mýrdal.
Við á Maggý tókum upp netin 9. maí. Þann 10. maí fór ég til Reykjavíkur með gamla Laxfossi og 11. maí fór ég í inntökupróf í Samvinnuskólann í Reykjavík, sem ég stóðst þrátt fyrir lítinn undirbúningslestur síðustu mánuði.
Blessaður formaðurinn minn, Guðni Grímsson, greiddi mér 9.500 kr. í laun fyrir vertíðina auk fæðis og alls uppihalds. Mér fannst það vel goldið og hafði ég aldrei áður haft svo góð laun. Þessi vertíðarlaun voru mér næstum nóg til að kosta skólagöngu mína næstu tvo vetur . Þannig sótti ungt fólk auð til Eyjanna til að mennta sig og auður frá vertíðum í Eyjum barst víðsvegar til margháttaðrar uppbyggingar.
Það var mikið lán unglingi að komast á heimili frú Lovísu og Guðna og mega vera vertíðarmaður hjá þeim. Það get ég seint fullþakkað og óvíða hefur mér liðið betur. Þau voru mikið mannkostafólk og hafði þessi dvöl hjá þeim mikil áhrif á líf mitt og framtíð. Það er ungum manni góður skóli að kynnast sjómennsku. Ég lík svo minningum mínum frá vetrinum 1947, sem mér var viðburðarríkur, með mikilli þökk og virðingu.

Einar Þorsteinsson

Þessar eru trúlega á leið í sólbað og sund undir Löngu, en það var vinsælt á árum áður