Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 2004/ Skipbrotsmannaskýlið Kálfafellsmelum 100 ára

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 14. febrúar 2017 kl. 14:22 eftir Karibjarna2 (spjall | framlög) Útgáfa frá 14. febrúar 2017 kl. 14:22 eftir Karibjarna2 (spjall | framlög) (Ný síða: <center>'''STEFÁN STEFÁNSSON'''</center><br><br> <big><big><big><center>'''Skipbrotsmannaskýlið Kálfafellsmelum 100 ára'''</center></big></big></big><br><br> <big><center>'''Fy...)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit
STEFÁN STEFÁNSSON



Skipbrotsmannaskýlið Kálfafellsmelum 100 ára



Fyrsta skipbrotsmannaskýli á Íslandi



Þann 19. janúar 1903 kl. tíu um kvöldið, strandaði togarinn Friedrich Albert frá Þýskalandi á Skeiðarársandi. Sjórinn gekk látlaust yfir skipið og var útilokað að komast í land fyrr en um nóttina, en þá tók að fjara út og voru allir skipverjarnir tólf komnir í land um morguninn, illa klæddir.
Upp úr miðjum janúar hófst mikill óveðurskafli á þessum slóðum og víðar um landið. Þetta var norðan áhlaup og mun hafa hafist einmitt sama dag og skipið strandaði. Sagt er að þar sem skipið strandaði sé svæðið milli Hvalsíkis og Skeiðarár nánast ófært gangandi mönnum á þessum tíma árs. Þarna er langt til byggða og yfir mörg vond vatnsföll að fara.
Hófst nú mikil þrautaganga hjá þessum illa klæddu mönnum og lauk ekki fyrr en 30. janúar þegar Sigurður Jónsson bóndi á Orrustustöðum á Brunasandi fann þá skammt frá bæ sínum, en bærinn stendur sunnan við Eldhraunið (Brunahraun), sem rann austan við Kirkjubæjarklaustur. Kona Sigurðar var Sólveig Magnúsdóttir frá Orrustustöðum. Voru þeir þá mjög illa til reika, fastir í stígvélum, en sumir höfðu vafið segltuskum um bera fæturna og bundið snæri um. Þrír voru dánir. Á bænum var tekið á móti þeim með opnum örmum og þeim hjúkrað eftir mætti.
Í árbók S.V.F.Í. 1928 segir: „Þessi skipshöfn varð fyrir þeim átakanlegustu hrakningum, sem heyrst hefur að nokkur skipshöfn hafi komist í hér við land.“ Af þeim níu, sem komust til bæja, voru fjórir svo lítt skemmdir, að þeir voru fljótlega ferðafærir og lögðu af stað til Reykjavíkur 5. febrúar. Hina fimm, sem örkumla voru, lét Bjarni Jensson héraðslæknir flytja heim til sín að Breiðabólstað, sem er skammt austan við Kirkjubæjarklaustur. Bjarni fékk nú til liðs við sig Þorgrím Þórðarson lækni á Borgum í Hornafirði til gera aðgerð á mönnunum. Hann fór strax af stað, þegar hann fékk boðin, en var ekki var kominn að Breiðabólstað fyrr en sex dögum seinna vegna ófærðar, en milli þessara staða eru um 200 kílómetrar. Aðstoðarfólk læknanna við þessar miklu aðgerðir voru Sigríður Jónsdóttir, eiginkona Bjarna læknis, en hún sá um sótthreinsun á tækjum og sá um að halda öllu hreinu innandyra. Þeir séra Sveinn Eiríksson í Ásum í Skaftártungu. og séra Magnús Bjarnason á Prestbakka sáu um svæfingar og ásamt Guðlaugi Guðmundssyni sýslumanni, að halda mönnum meðan aðgerð fór fram og Guðrún Jónsdóttir ljósmóðir á Breiðabólstað, sem sá um hjúkrun. Baðstofan á Breiðabólstað var óupphituð og var það ráð tekið að bera inn heitt vatn í fötum og bölum fyrir aðgerðirnar og þótti takast vel, því að héla hefði runnið af rúðum í gluggum. Báðir fætur voru teknir neðan við hné af einum vélstjóranna og af tveimur öðrum starfsfélögum hans voru teknir báðir fætur um hælbein, en seinna varð að taka báða fætur af öðrum þeirra. Af tveimur hásetum var tekinn annar fóturinn um hælbein og auk þess misstu þeir nokkrar tær.
Árið eftir komu þakkir frá keisara Þýskalands. Læknarnir voru sæmdir riddarakrossi hins rauða arnar, en slík heiðursviðurkenning var aðeins fáum mönnum veitt. Sigurður Jónsson bóndi á Orrustustöðum fékk 300 króna peningaverðlaun, en slíkt þótti mikið fé í þá daga. Þá fengu prestarnir tveir svo og Guðrún ljósmóðir viðurkenningu. Voru það gripir með merki keisarans.
Þann 3. maí fóru fjórir af þeim, sem lentu í þessum aðgerðum, til Víkur og komust þaðan sjóveg með strandferðaskipinu „Hólum“ til Reykjavíkur, en einn var ekki ferðafær fyrr en 18. maí og fór þá landveg til Reykjavíkur.
Á þessum tíma var ræðismaður Þjóðverja í Reykjavík, danskættaður maður, Ditlev Thomsen. Hann var fæddur í Keflavík 24. júlí 1867. Hann var mikill athafnamaður og kom víða við. Hann átti og rak verslunina Thomsens Magasín í Reykjavík, sem í voru 20 sérverslanir og um 130 manns munu hafa verið fastir starfsmenn hjá honum, þegar best lét. Hann hafði tal af þessum hrjáðu mönnum og blöskraði aðstöðuleysið austur á söndum, þar sem var svo langt til byggða og illfær vatnsföll. Hann hafði samband við ýmsa menn, sem virtust hafa áhuga á þessu máli, en þegar þeir vissu að þetta kostaði töluverða peninga, þá misstu þeir áhugann.
Ditlev Thomsen var efnaður maður og hann ákvað að reisa skipbrotsmannaskýli á Skeiðarársandi á sinn eigin kostnað.
Strax um vorið 1904 hafði hann samband við dugandi trésmið í Reykjavík, Svein Sveinsson að nafni frá Staðarstað. Tók hann að sér að hafa umsjón með byggingu skipbrotsmannaskýlis á Kálfafellsmelum, sem var í námunda við þann stað, sem togarinn strandaði á Skeiðarársandi.
Ditlev Thomsen greiddi allan kostnað við byggingu þessa skýlis og það sem þurfti til að það gæti orðið að sem bestu notum fyrir þá, sem þangað leituðu. Efnið var sent með strandferðaskipinu „Hólum“ til Víkur. Þar tóku Mýrdælingar við því og fluttu landveg austur að Núpstað í Fljótshverfi, en heimamenn fluttu efnið suður á Kálfafellsmela. Þar er húsinu óhætt fyrir Skeiðarárhlaupum, því að melkollar þessir hafa staðið óhaggaðir í manna minnum. Sveinn sá um smíði skýlisins og fékk hjálp heimamanna við að koma því upp. Gekk verkið fljótt og vel fyrir sig og var því að fullu lokið 5. september 1904.
Húsið er 6 álnir (3,77m) á hvora hlið, skúrmyndað og er vegghæðin að innan 5 álnir (3,14 m) og 4 álnir (2,5 lm). Tvöföld röð af rúmum (kojum) er í húsinu á þremur hliðum, borð er þar og bekkir. Rúmin eru uppbúin með heyi og ullarábreiðum og geta sofið þar 14 menn. Þar eru matvæli fyrir marga menn í langan tíma, auk þess te, sykur, tóbak, eldspýtur, sáraumbúðir, meðul, skæri, nálar, tvinni, tölur, bendlar, spil, blýantur, bók til að skrifa í daglega viðburði. Þar eru tvær steinolíuvélar, olía, pottar, katlar, vatnsfötur, skófla, heflar, sagir, axir, hjólsveif. nafar, sporjárn og saumur (naglar) af flestum tegundum, talsvert af borðvið og ennfremur tjörukvartil til að kveikja við bál, til að gera byggðamönnum viðvart. Ferniseraður segldúksbátur, sem er aðeins 70 pund að þyngd, 2 sleðar, 2 færalínur og áttaviti með meiru. Við þetta ætlar Thomsen að bæta 2 tjöldum, 14 pörum af sokkum og 14 pörum af vettlingum. Þá er ennfremur í húsinu uppdráttur Íslands og leiðarvísir fyrir skipbrotsmenn, hvað þeir eigi að gera og hvernig þeir eigi að haga ferð sinni til byggða, ritað á 5 tungumálum. Loks hefur Thomsen beðið landmælingamennina dönsku, að þeir mældu allan sandinn og gerðu kort, sem sýnir legu hússins og leiðir þær, sem hægt er að komast til byggða og svæði sem liggja að sandinum (Öræfi, Fljótshverfi og Brunasand). Húsið er mjög vel vandað og pappaklætt utan og innan. Það stendur á háum melkolli á miðjum Kálfafellsmelum og ber því hátt. Það sést langar leiðir af sjó og af sandinum. Þá setti hann tvo eftirlitsmenn með húsinu og átti annar að fara nokkrar ferðir á hverjum vetri að vitja um það.
Það hlýtur að hafa verið mikill gleðidagur í huga Thomsens, þegar honum bárust þær fréttir einu og hálfu ári eftir að hann lét reisa skýlið að heil skipshöfn af þýskum togara, sem hafði strandað þarna skammt frá, hafi leitað sér skjóls í því. Þeir voru að fá sér kaffisopa áður en þeir færu að sofa í skýlinu, þegar all harkalega var ýtt við hurðinni og inn komu hraktir og blautir björgunarmenn. Dæmið snérist nú við, það voru leitarmennirnir, sem þáðu hressingu hjá þeim, sem þeir voru að leita að og gleðin var mikil hjá báðum hópunum. Jón N. Jóhannesson, prestur á Sandfelli í Öræfum, fór oft upp í fjallið ofan við bæinn til að athuga ströndina, þegar veður var misjafnt. Hann sá strandaða togarann í flæðarmálinu með litlum og lélegum sjónauka, sem hann átti. Þegar Thomsen komst að þessu þá sendi hann honum stóran og vandaðan sjónauka, sem átti eftir að koma að góðum notum nokkrum árum seinna.
Þetta stórmikla og merka framtak Ditlevs Thomsens, að reisa fyrsta skipbrotsmannaskýlið við strönd landsins og það á þeim stað, sem hún er hvað hættulegust, verður ævarandi minnisvarði um hann, sem ekki má gleymast. Lítið gerðist í þessum málum næstu árin, en árið 1913 er hann frumkvöðull um að láta smíða annað skýli, sem staðsett var á Ingólfshöfða og sá víst um uppsetningu þess að mestu. Þriðja skýlið var svo reist hjá Mávabót við Skaftárós, af útgerðarmönnum í Hull og Grimsby.
Það kemur engum á óvart, sem til þekkja, að þessum þremur fyrstu strandskýlum, sem byggð voru, var valinn staður á svörtu söndunum við suðausturströndina. Á árunum 1898-1982 töpuðust 109 skip á svæðinu frá Sólheimasandi í Mýrdal og austur í Öræfasveit. Einnig er vitað um a.m.k. 6 skip sem hafa farist í nánd við ströndina á þessum slóðum, en ekki er vitað um afdrif skipshafnanna, sem ýmist munu hafa farist eða komist um borð í önnur skip. Í þessum skipstöpum hafa bjargast 1500 manns í land. En vitað er með vissu, að af þeim skipum, sem hér um ræðir hafa 57 menn farist við ströndina eða á söndunum í leit að mannabyggð og eru þeir jarðsettir á ýmsum kirkjustöðum frá Skeiðflatarkirkju í Mýrdal að Sandfellskirkju í Öræfum. Til fróðleiks má benda á að hvergi kemur fram í skjölum um þessa atburði, að skipbrotsmaður hafi látist eftir að hann komst heim til fólksins á bæjunum við ströndina.

12. apríl 1904
Stefán Stefánsson frá Gerði.