Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 2004/ Á Leó II. VE 36

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 31. júlí 2019 kl. 15:02 eftir Vpj1985 (spjall | framlög) Útgáfa frá 31. júlí 2019 kl. 15:02 eftir Vpj1985 (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit
GÍSLI EYJÓLFSSON



Á Leó II. VE 36



Gísli Eyjólfsson

Það var sumarið 1947 og komið fram í júlí. Við Stebbi, frændi minn og vinur í Gerði, höfðum ákveðið að vera saman um sumarið. Við höfðum verið að mála hjá Tryggva mági hans í m/b Jóni Stefánssyni frá miðjum júní en nú var það að verða búið og báturinn, sem var nýr, að verða tilbúinn að hlaupa af stokkunum.
Sumarið áður hafði ég verið háseti á síld, á m/b Skaftfellingi, og róið mína fyrstu vetrarvertíð á m/b Halkion, með Stefáni frænda mínum Guðlaugssyni í Gerði. Sildveiði hafði gengið illa, það sem af var sumri, en viku af júlí kom viðbragð og margir fóru að naga sig í handarbökin yfir að sitja heima.
Einn þeirra, sem heima sat, var Þorvaldur skipstjóri og útgerðarmaður Guðjónsson frá Sandfelli, -Valdi Guðjóns -, eins og hann var jafnan kallaður. Hann hafði lengi átt og stýrt báti sínum m/b Leó VE 294 en nú lá hann á bóli úti á Botni vélarvana því vélin hafði brotnað niður er langt var liðið á vetrarvertíðina 1947.
Fyrstu dagana í júlí kom sænskur bátur m/b Croxby GG 745 til Eyja. Svíarnir höfðu ætlað að veiða í snurvoð hér við land en þurftu að leita hafnar einhverra hluta vegna. Þeir voru sex á, skipstjórinn og eigandinn, Petterson og þrír synir hans, Nils, sem var vélstjóri, Folke og Leif, sem var 16 ára, hinir hétu Einar og Thore.
Ekkert varð þó af snurvoðarveiðum Svíanna því Valdi keypti bátinn og skyldi haldið til síldveiða og þeir verða með. Báturinn var um 63 tonn, byggður í Grimsby 1883, segltogari, eins og skúturnar íslensku höfðu verið, með 130 ha. Skandía-vél.
Í skipshöfn réðust Óskar Ólafsson frá Garðstöðum, stýrimaður, Sigurður Þórðarson 1 .vélstjóri, seinna kenndur við Eyjaberg og Nils 2.vélstjóri. Hásetar voru Petterson, Leif, Tore, við Stebbi, Óskar Vigfússon frá Hálsi og Hálfdán Gústavsson, Stefánssonar frá Ási. Hann var nýlega kominn til landsins, hafði lokast inni í Danmörku í stríðinu. Svíarnir Einar og Folke voru kokkar, sína vikuna hvor.
Nú varð að láta hendur standa fram úr ermum. Málað var yfir GG 745, en í staðinn kom Leó II VE 36 og nafnspjaldið framan af stýrishúsinu, Crosby, Öckerö, var skrúfað af og Petterson tók það til varðveislu. Í lúkarnum voru 10 kojur svo að kappi (niðurganga) var settur í netalest sem var aftan við stýrishúsið og slegið þar upp 6 kojum. Við Stebbi máluðum „káettuna“ og völdum okkur öftustu kojurnar, sína hvoru megin, þó þar væri ekki hátt til lofts. Dýnur voru sóttar, ásamt ýmsu öðru um borð í Leó, sett upp skjólborð og uppstilling á dekkið, að mestu leyti af „gamla Leó,“ ásamt bassaskýli.
Nót og bátar voru heima í Eyjum og var nótin sett á dekkið og haldið af stað til Reykjavíkur 14. júlí. Ég man ekki hve lengi við stoppuðum í höfuðstaðnum en samkvæmt ljósriti úr skráningarbók erum við skráðir 21. júlí!
Í Reykjavík bættist við einn háseti, Bjarni, en hann var ekki viðstaddur skráninguna. Hann hafði verið með Valda einhvern tíma áður en siglt í stríðinu, m.a. á e/s Selfossi. A Flateyri við Önundarfjörð var komið við og teknir tveir menn, Janus Guðmundsson og Snæbjörn Ásgeirsson, síðan var haldið áfram sem leið lá.
Fréttir af síldveiði höfðu daprast mjög og litlar sem engar fréttir af veiði. Við vorum komnir austur fyrir Horn þegar við sáum síld og nú var „handagangur í öskjunni,“ við að ná nótinni um borð í bátana. Við náðum að kasta tvisvar og fá síld í báðum köstum og auk þess hrefnu í öðru kastinu. Hún synti fyrst um í nótinni en stakk sér síðan út, kom aftur inn í nótina en fór svo sinn veg og hafði skilið eftir sig tvö göt.
Með þennan afla var haldið til Djúpuvíkur og landað þar 22. júlí! 498 málum. Næsta löndun var á Dagverðareyri 30. júlí, 513 mál og á sama stað 2. ágúst 524 mál. Eftir þá löndun var leitað á Húnaflóa og norður með Ströndum en ekkert fannst.
Seint að kveldi 6. ágúst voru bátarnir settir aftan í og stefnan tekin austur á bóginn.
Þegar við nálguðumst Skaga, fórum við Tore, vaktfélagi minn, að veita eftirtekt skipi sem virtist nærri Skallarifinu en Óskar stýrimaður hafði sagt mér frá því áður en hann fór fram í lúkar til að raka sig. Við horfðum nú á skipið um stund og það virtist ekki hreyfast og mér sýndist það gæti verið að gefa hljóðmerki, sýndist koma gufa upp aftan við skorsteininn. Ég brá mér því fram í og náði í Óskar og þegar hann sá skipið sagði hann að það mundi strandað. Nú var stefnunni breytt í áttina að skipinu, Valdi ræstur og svo allur mannskapurinn. Þegar komið var að rifinu, voru bátarnir dregnir að skipinu og nótin dregin úr öðrum bátnum yfir í hinn. Við fórum svo nokkrir í bátinn, ásamt Valda, og rérum að skipinu en það var talsverður spölur því skipið var strand á hárifinu. Veðrið var hið blíðasta og er við komum að skipinu lögðum við að stjórnborðssíðunni en þar hékk skipsstigi. Valdi fór upp stigann og við fylgdum nokkrir á eftir og lituðumst um á dekkinu en Valdi fór upp í brú á tal við skipstjóra. Skipið hét Carolia frá Ystad í Svíþjóð. Það virtist nokkuð gamalt og okkur sýndist það frekar fáliðað. Lestarlúgan framan við lyftinguna var opin og voru skipsmenn að moka salti í kar og sturta í sjóinn. Ekki sýndist okkur það ganga vel og árangur ekki mikill. Skipið var með 800 tonn af salti sem áttu að fara til Skagastrandar en hafði áður losað 800 tonn á Raufarhöfn. Skipið hafði strandað á miðvikudeginum en nú var kominn föstudagur og þjóðhátíðin heima í Eyjum senn að hefjast.
Þegar Valdi kom úr brúnni, hafði hann fréttir að færa. Skömmu eftir að skipið strandaði, hafði komið íslenskur bátur og boðist til að taka skipshöfnina en þeir vildu ekki yfirgefa skipið svo hann fór sína leið. Nú hafði skipstjórinn farið þess á leit að Valdi kæmi með sína skipshöfn og tæki að sér að losa skipið og koma því til hafnar og bauð 40 þúsund krónur fyrir sólarhringinn. Við rérum svo yfir í Leó II og nú var sest á ráðstefnu. Þeir eldri og reyndari í áhöfninni gáfu kost á að taka boðinu ef peningunum væri skipt eins og um síldarhlut væri að ræða því annars átti báturinn 1/2, skipstjóri 1/4 og mannskapur 1/4. og bátinn gátum við ekkert notað, hann komst hvergi nærri. Valdi gekk að þessu og nú fóru allir um borð í nótabátinn nema Petterson, Siggi l. vélstjóri, og kokkurinn. Róið var að skipinu og Valdi hefur sjálfsagt gengið frá einhverjum samningum við skipstjórann. Svo var róið aftur að Leó og þeir héldu af stað til Skagastrandar, fjórir, til að útvega vír og sver tóg sem nota skyldi í varpankur. Við, sem vorum um borð í Carolía, tókum til óspilltra málanna við að moka salti og sturta í sjóinn. Það var liðið langt á kvöld og Leó kominn úr Skagastrandarferðinni þegar við fórum um borð til að fá okkur í svanginn því við fengum hvorki vott né þurrt um borð í dallinum. Við lögðum okkur örfáa tíma yfir lágnættið en svo var haldið aftur af stað í saltmoksturinn. Einhverjir fóru í að leggja varpankur aftur af skipinu og svo var mokað og mokað salti og sturtað í sjóinn. Undir kvöld, á flóðinu, var tekið í varpankrið og skrúfan látin vinna aftur á bak og Corolia mjakaðist úr stað og flaut. Þegar komið var á frían sjó, fóru einhverjir með nótabátinn yfir í Leó en Carolia var sett á ferð og haldið til Skagastrandar með Valda og skipstjórann í brúnni og Leó kom í kjölfarið. Ekki minnist ég þess að hásetarnir af skipinu kæmu þar nærri þegar við bundum skipið við bryggju en að því loknu fórum við um borð í okkar skip.
Gengið var frá tryggingum á greiðslum til okkar á 80.000 kr. því verkið taldist hafa tekið tvo sólarhringa. Þetta var ágætis kaup, 1976 kr. í hásetahlut, eða 988 krónur á sólarhring, en það var 4 krónum og 4 aurum meira en ég hafði haft fyrir málningarvinnuna í Jóni Stefánssyni, með orlofi, frá 16/6 - 9/7 en það voru 109 tímar, á kr. 8, 68 á tímann.

Carolía á strandstað

Lítið varð um síldveiði eftir þetta ævintýri því við lönduðum smáslatta 14. ágúst á Dagverðareyri og það urðu lokin. En í Morgunblaðinu 8. ágúst var fyrirsögn fréttar „Mikil veiði við Bjarnarey og á Vopnafirði. Sum skipin réðu ekki við köstin. 12 skip komu til Raufarhafnar, nær öll fullhlaðin, og aflahæsta skipið, sem þangað kom í gær, var Sævar með 1600 mál. Mikill fjöldi skipa á leið austur“, segir í greininni.

Þetta viðbragð hefur líklega staðið stutt, í það minnsta fór það fram hjá okkur. Þann 21. ágúst komum við við á Djúpuvík, á heimleið. Við höfðum komið þar tvisvar, eftir að við lönduðum þar, og haldið ball í Kvennabragganum í annað sinnið. Þarna voru um 100 söltunarstúlkur en lítið fengu þær af síld til söltunar svo þetta var kærkomin tilbreyting í reiðileysinu. Við vorum ágætlega settir til dansleikjahalds, vorum með 5 hljóðfæri um borð, tvær harmónikur, sem við Snæbjörn áttum, en hann var ágætur harmonikkuleikari, tvær fiðlur, sem bræðurnir Nils og Leif áttu og mandólín sem Nils átti og lék listilega á. „Hljómleikasalurinn“ um borð var „Káettan“ og þar voru hljóðfærin geymd. Þar bjuggu, auk okkar Stebba, vélstjórarnir Siggi og Nils, Hálfdán og Bjarni.
Samkomulagið var hið besta og eftir að fór að skyggja á nóttum, vélin stopp og látið reka, allir komnir í koju aðrir en vaktmenn, voru oft haldnar kvöldvökur hjá okkur. Sagðar voru sögur, draugasögur og ýmislegt sem menn höfðu heyrt, reynt eða lesið.
Þarna var sem sagt gott að búa. Þó var „galli á gjöf Njarðar“ Bjarni reykti óhemjulega úr pípu, „svartasta Grunó“ og var mökkurinn stundum svo mikill þegar við Stebbi vöknuðum í kojum okkar aftast í „skútanum“ að við sáum ekki fram í þilið sem skildi að vélarrúmið og „káetuna“. Tóbak sitt geymdi Bjarni í stóru boxi sem hann hafði undir hendinni hvert sem hann fór, meira að segja þegar farið var í bátana.
Einu sinni, er verið var að borða frammi í lúkar, nöppuðum við frá honum boxinu og hengdum það upp í flagglínuna í afturmastrinu. Þegar karl saknaði boxins, æddi hann um allt skip og leitaði marg oft bæði aftur og frammi í. Þegar hann kom úr einni lúkarsferðinni, sá hann boxið hvar það hékk í mastrinu, var fljótur að ná því niður og fékk sér duglega í pípuna.
Frá Djúpuvik var haldið heimleiðis, komið við á Flateyri þar sem Janus og Snæbjörn fóru til síns heima en ekkert var stoppað þar. Þegar við vorum komnir fyrir Bjargtanga, fór að bræla af suð suðaustri. Nótin var á dekkinu og bátarnir á „langslefi“ en svo var það kallað þegar nótabátarnir voru hvor aftan í öðrum. Um nóttina sökk aftari báturinn en hinum tókst að halda á floti með því að tveir menn fóru út í hann tvisvar eða þrisvar til þess að ausa. Okkur tókst að draga þá báða inn til Grundarfjarðar og þar voru þeir settir á land til geymslu og hefur sjálfsagt aldrei verið vitjað því hringnótin var að ryðja sér til rúms og vélar að verða algengar í snurpinótabátum.
Frá Grundarfirði var haldið strax og búið var að ganga frá bátunum en er kom að Öndverðarnesi, var komin hvöss SV átt og þar lágu 4 bátar í vari. Við bættumst í hópinn og létum akkerið falla. Eftir hálfan annan sólarhring hafði veðrið lægt og nú átti að halda ferðinni áfram en þá var komin bilun í vélina. Athugun vélstjóranna leiddi í ljós bilun í fremri mótornum svo hann var tekinn úr sambandi og lagt af stað á hægri ferð og seglin höfð uppi til að létta undir. Segir nú ekki af ferð okkar fyrr en fór að nálgast Þrídranga en þá tók einhver eftir því að flagglínan var horfin úr mastrinu en það var siður að flagga, og oft flautað líka, þegar farið var að heiman á síldina og eins er komið var heim. Við Stebbi undum þessu illa og fórum í Óskar stýrimann og sögðum honum tíðindin og einhvers staðar fann hann línu og við félagar buðumst til að klifra upp í mastrið og þræða hana í. Það reyndist þrautin þyngri því frekar mjó járnstöng var framlenging af mastrinu, c.a. 2 1/2 metri á hæð, efst á henni þverslá fyrir loftnetin og aftur úr stóð aðeins bogin járnspíra 30-40 sm. sem lítil blökk hékk neðan í og var fyrir flagglínuna. Engir vantstigar voru við afturmastrið svo klifra varð upp mastrið og rörið og liggja á þverstönginni, teygja sig að blökkinni og reyna að þræða snúruna þar í, með annarri hendi, með hinni varð að halda sér, því veltingur var og ekki laust við að manni fyndist stöngin svigna. Þetta var ótrúlega erfitt og maður þreyttist fljótt eða missti línuna. Við skiptumst á að fara upp og eftir nokkrar tilraunir tókst að þræða línuna og þá ekki beðið boðanna að flagga og við skiptumst á að gæta línunnar. Við eignuðum Petterson línuhvarfið, hann vildi ekki að flaggað væri íslenska fánanum. Það hafði komið fyrir nokkrum sinnum um sumarið að okkur strákunum fannst hann vera með óþarfa afskiptasemi, t.d. þegar við höfðum bætt aðeins við vélina til að fara fram úr eða halda í við einhvern bát, en vélin var aldrei keyrð fulla ferð þá hafði karl komið og dregið af. Þetta líkaði okkur illa, rifum kjaft og sögðum að honum kæmi þetta ekkert við, hann væri búinn að selja bátinn og ætti ekkert í honum, væri bara háseti eins og við.
Við komum því til Eyja með fána við hún, eins og vera bar, undir kvöld 27. ágúst.
Daginn eftir var nót og annað tilheyrandi síldveiðunum tekið upp úr bátnum og þar með var úthaldinu lokið. Aflinn var 1589 mál af síld og náði ekki tryggingu. Þann 7. sept. fór Leó II VE 36 áleiðis til Svíþjóðar og var sagt að hann ætti að fara í klössun þar úti en hefur ekki sést hér við land síðan. Með honum fór Ragnar Eyjólfsson frá Laugardal og að hans sögn var málað yfir nafn og númer strax og komið var út fyrir íslensku landhelgina og í staðinn kom GG 745 og nafnspjaldið tekið fram og skrúfað fast því nú hét báturinn Croxby frá Öckerö. Við Færeyjar bræddi annar mótorinn úr sér svo grípa varð til seglanna og á þeim kom Croxby (ex Leó II) til heimahafnar í Öckerö 14. september.
En þó Leó II væri farinn úr landi. var sagan ekki öll. Við uppgjör er úthaldið reiknað 45 dagar, tryggingin 61 króna á dag = 2.836,50, orlof 113,46, samtals kr. 2949,96.
Fæðiskostnaður kr. 591.87 + 10,12 (á leiðinni til R.víkur) samtals kr 601,99. Þannig er þetta skráð í minnisbók mína. Það sem er ofreiknað við trygginguna, 91,50, hlýtur að vera fyrir málninguna á „káettunni“ og vinnu við bátinn áður en farið var af stað.

Á ljósriti af skráningaskýrslu stendur efst: „Greitt í Ve. 14/7-20/7,“ og fyrir neðan, „hjer frá 21/7-15/9“ ! (þ.e.í R.vík). Í dálkinn Lögskráningardagur, hefur verið byrjað að skrifa 24. en breytt í 21.! en þann dag erum við að veiða síld austur af Horni. Afskráning er 15. september en þá er Leó II / Croxby kominn til Svíþjóðar.

Leó II. VE 36

Í dálkinn „Verudagar á skipi,“ er skráð 57!
Eftir heimkomuna fóru Óskar stýrimaður og Siggi vélstjóri að athuga með greiðslu björgunarlaunanna. Það varð auðvitað að fá lögfræðing til aðstoðar og ég held að þá hafi Friðþjófur G. Johnsen frá Ásbyrgi verið eini lögfræðingurinn í Eyjum sem ekki var í embætti. Friðþjófur, eða Dídó, eins og hann var alltaf kallaður, varð sem sagt okkar maður heima í Eyjum. Einn daginn fengum við Stebbi boð um að finna þá félaga. Þegar við mættum, var okkur fengið bréf í hendur sem við áttum að fara með til Valda og fá hann til að skrifa undir. Þetta var yfirlýsing um að hann hefði samþykkt skipti björgunarlaunanna, af fúsum og frjálsum vilja en samningar úti í sjó eru ólöglegir og heyra nánast undir uppreisn. Þeir töldu okkur einnig trú um að okkur mundi ganga miklu betur að fá Valda til undirritunarinnar en þeim. Við örkuðum nú af stað. Valdi var ekki heima. Við fórum á nokkra líklega staði og að lokum hittum við hann inni á Landsímastöðinni. Við bárum upp erindið og Valdi las blaðið en vildi ekki skrifa undir, fann að ýmsu í orðalaginu. Við töldum ekkert mál að breyta því en höfðum samt vit á að breyta ekki meiningunni. Nú voru allir sáttir og Valdi skrifaði undir plaggið og það talið gilt. „En ekki var sopið kálið þó í ausuna væri komið.“ Nú varð milliríkjadeila um hvort átt væri við íslenska eða sænska peninga en þar var mikill munur á. Í því þrasi stóðu málafærslumenn í Reykjavík. Úrskurður í því máli var að átt væri við íslenska peninga. Og enn harðnaði á dalnum því nú kom upp úr dúrnum að íslenski báturinn var sænskur og bjargaði sænsku skipi sem var enskt! Það höfðu sem sagt verið einhverjar hrókeringar með Carolia sem ég kann ekki að segja frá.
Einhvern tíma snemma um haustið vaknaði ég einn morgun með lögregluþjón við rúmgaflinn. Þar var kominn Jóhannes pól að sækja mig í réttarhöld.
Hinn 16. október birtist í Tímanum alllöng grein, með fyrirsögninni: „Ólögskráð, erlend skip, við síldveiðar í landhelgi sl. sumar“ og undirfyrirsögn: „Málað yfir nafn og númer, sett á það íslenskt heiti og dreginn upp ísl. fáni.“ í greininni kemur fram að skipaskoðunin í Vestmannaeyjum neitaði að gefa bátnum skoðunarvottorð í samráði við skipaskoðunarstjóra. Báturinn væri 50 ára gamall, að vísu ný uppbyggður, en bannað með lögum að kaupa skip eldra en 12 ára. Þess vegna hefði skipaskoðunin í Eyjum ekki gefið bátnum vottorð en hann siglt til Reykjavíkur með ámáluðu ísl. skrásetningarmerki og íslenskum fána. Taldi ég víst að Þorvaldur hefði fengið plögg bátsins í lag. „Um framhald veit ég ekki, það hlýtur skipaskoðunin í Reykjavík að vita,“ hefur blaðið eftir Matthíasi skipaskoðunarmanni. Skrifstofa skipaskoðunarstjóra upplýsti að báturinn hefði aldrei verið skrásettur hér og yfirleitt ekki komið á íslenska skipaskrá.
Bæjarfógetinn í Ve. upplýsti blaðið í símtali að báturinn muni hafa fengið einhvers konar undanþágu frá „æðri stjórnvöldum.“
Tíminn leið og mánuðirnir urðu að árum og krónan minnkaði stöðugt. Ég hitti stundum Snæbjörn, gamla skipsfélagann, ef við komum inn á Flateyri þegar ég var á b/v Bjarnarey 1948-1950. Hann spurði eðlilega hvað gengi með greiðslu björgunarlaunanna en alltaf var sama svarið: „Ekki komin enn.“ Ég man svo ekki hvenær herlegheitin komu. Ég hafði ekki verið heima en þegar ég kom, sagði Stebbi mér að nú væri greiðslan komin og allir líklega búnir að ná í sitt og hann hefði fengið 1100 krónur. Ég brá undir mig betri fætinum og fór að hitta Dídó en hann hafði þá orðið eitthvað mötustuttur svo ég fékk ekki nema 1000. Meira var ekki til.


Gísli Eyjólfsson frá Bessastöðum.

Hinn 19. júlí 1946 samþykkti bœjarstjórn Vestmannaeyja að kaupa 2 togara af þeim 30 sem ríkistjómin var að láta smíða í Englandi. Fyrri togarinn Elliðaey VE 10 kom hingað til Eyja ný 8. september 1947 og sá seinni Bjarnarey VE II 14. mars 1948. Bœði skipin voru smíðuð í Aberdeen í Skotlandi, en í sitthvorri skipasmíðastöðinni.Áhöfn Bjarnareyjar þegar hún hélt í fyrstu veiðiferðina var eftirfarandi: Guðvarður Vilmundarson skipstjóri, Einar Torfason I. stýrimaður, Hannes Scheving 2. stýrimaður, Kristinn Guðlaugsson I. vélstjóri, Eyjólfur Stefánsson 2. vélstjóri, Elías Gunnlaugsson 3. vélstjóri, Ágúst Stefánsson loftskeytamaður, Valgeir Ólafsson matsveinn, Karl Jóhannsson matsveinn, Jón Guðleifur Ólafsson kyndari, Ottó Magnússon kyndari, Sigurður Stefánsson brœðslumaður. Sófus Hálfdánarson bátsrnaður, Gunnar Halldórsson netamaður, Ragnar Þorvaldsson netamaður, Matthías Þ. Guðmundsson, netamaður, Erlendur Vilmundarson netamaður. Halldór Snorrason netamaður, Bjarnhéðinn Elíasson háseti, Högni Magnússon háseti, Sigurður Gissurarson háseti, Grétar Þorgilsson háseti, Guðjón Ingibergsson háseti. Sigurður Guðmundsson háseti, Gísli Eyjólfsson háseti, Kristján Gunnarsson háseti. Ólafur Gíslason háseti, Karl Guðmundsson háseti, Gunnar Valgeirsson háseti, Gísli J. Egilsson háseti